föstudagur, maí 23, 2008

Ég er algjörlega búin...eða næstum því...

Ég er búin með lokaverkefnið, búin að skila því prentuðu og innbundnu á skrifstofu hjúkrunarfræðideildar og búin að fá einkunn. Ég á þá bara útskriftina eftir sem er 14. júní. Þeir sem vilja koma og samgleðjast mér á útskriftardaginn eru guðsvelkomnir!

Núna er orkuleysið svo mikið að ég er bara komin með hálfgerða flensu. Er búin að liggja uppí rúmi með hor í nefi og hóstandi og hnerrandi. Ekki frá því að ég sé með kannski 2 til 3 kommur í hita. En ég verð vonandi skárri á morgun, því þá fer ég á SÍÐUSTU vaktina mína á Vogi. Kvöldvakt á Eurovision kvöldinu mikla..æj æj...eða hvað...
Síðan byrja ég að vinna á fullu á Dvalarheimilinu á mánudaginn, sem er fínt...ég þoli ekki að hafa ekkert að gera. Sérstaklega þegar það er búið að vera nóg að gera hjá manni undanfarna daga og vikur, þá er hræðilegt að vera allt í einu heima hjá sér með EKKERT verkefni í höndunum! Ég byrja samt rólega á Dvaló og verð svo bara að vinna eins mikið og ég get og heilsa leyfir. Ég verð nefnilega komin á 30. viku meðgöngu í næstu viku sem þýðir að það eru aðeins 10 vikur eftir! Ansi stutt...

Jæja..heimatilbúin pizza í ofninum, best að farað borða...

þriðjudagur, maí 20, 2008

Ég dó ekki úr stressi á rannsóknardaginn...en var nærri því!
Það gekk bara mjög vel að kynna verkefnið mitt (eftir að hafa nagað ALLAR neglur af mér í biðinni). Þetta var barasta mjög skemmtilegur og áhugaverður dagur sem við útskriftarnemar í hjúkrunarfræðinni megum vera stoltar af! :o)
Ég upplifði bara eitt mesta spennufall ævi minnar og var því með snert af andláti dagana eftir...

Í dag bíð ég eftir síðustu kommentum Páls svo ég geti farið að senda ritgerðina mína í prentun. Langar einhverjum í eintak? Nei ég bara spyr því maður er sko aldeilis búin að svitna vel yfir þessu blessaða verkefni...

Bumbubúinn hefur það annars mjög gott svo best sem ég veit. Ég er í dag gengin akkúrat 29 vikur og krílið inní mér hefur enn nóg pláss til að hringsóla - en þó er farið að þrengja svolítið að. Í gærkvöldi lá ég uppí rúmi með stetoscopið/hlustunarpípuna mína og heyrði í hjartslættinum á fullu. Hann var í ca 160 slögum á mínutu og hægði á sér og hraðaði sér aftur, sem er gott. Barnið á fullu að gera öndunaræfingar og teygjur...
Smá info fyrir þá sem vita ekki hvað er að gerast á þessum tíma...


Vika 29

Nú getur verið erfitt að finna þægilega stellingu til að sofa í. Yfirleitt er ekki mælt með því að barnshafandi konur liggi á bakinu vegna þess að þyngdin frá barninu í leginu getur þrýst á stóru bláæðina sem liggur meðfram hryggnum. Þetta getur valdið vanlíðan og þá jafnframt lélegra blóðflæði um fylgjuna. Ef þig langar að liggja á bakinu getur þú sett kodda undir hægri mjöðmina því þannig léttir á þrýstingnum. Notaðu kodda til stuðnings til að koma þér vel fyrir svo þú getir hvílst.

Barnið hefur nú bætt á sig og er að verða bústnara. Öndunaræfingarnar eru ennþá reglulegri og stöðugri með minni hvíldum inn á milli. Barnið vegur nú um 1.15 kíló og lengd frá höfði að rófubeini er um 26 sm.


Hörður Gunnar tók þessa mæðulegu mynd af mér

fimmtudagur, maí 15, 2008

Ég held ég sé að fara yfirum...stressið heltekur mig...ég anda hratt í brúnan bréfpoka...
Rannsóknardagurinn er á morgun. Ef einhver hefur áhuga á því að koma og horfa á mig fá kvíðakast í ræðupúltinu að kynna lokaverkefnið mitt þá er dagskráin hér.

Guð hjálpi mér!

þriðjudagur, maí 13, 2008

Vááá....var að fá mjög svo skrítinn tölvupóst á my-space-inu...

"hæhæ

heyrðu.. ég var að fá nýja sendingu af geðveikum (samt löglegum!) orku og fitubrennslu töflum sem virka veel.. t. d. var ein vinkona mín að taka hydroxicut og jújú það virkaði ágætlega, en svo fór hún að taka polythermex og fór að hreyfa sig aðeins meira, og léttist um 6 kilo á mánuði!! það er reyndar of stuttur timi til að léttast svona mikið en þetta sýnir allavegana að þetta virkar ;D ég hef prófað allskonar töflur, bæði löglegar og ólöglegar, og þessar virka laaang best !
eru líka snilld ef þú ert í íþróttum og villt fá orkuboozt fyrir æfingar eða leiki! ;D smá um þær:

API PolythermeX - Eitt allra magnaðasta fitubrennsluefnið, það virkar alveg ótrúlega vel þegar ætlunin er að tálga af sér aukakílóin. PolythermeX eykur hitastig líkamans og örvar þannig grunnbrennslu hans. það er að segja þú brennir fitu allan daginn. Ekki bara á meðan þú æfir. Efnið dregur einnig úr matarlyst ásamt því að koma í veg fyrir að líkaminn nái að breyta kolvetnum í fitu. Virkar bæði með og án æfinga.

50 töflur á 3500 og 100 á 6000 =)

let me know;)"


...ef það er ekki verið að bjóða mér uppá anorexiu á silfurfati þá veit ég ekki hvað!

fimmtudagur, maí 08, 2008

Á maður að hlæja eða á maður að gráta?

Þetta er búinn að vera skrítinn dagur. Ég byrjaði daginn á því að fara í mæðraskoðun. Allt gekk vel og ljósunni leist voða vel á mig og ástand mitt. Því næst fór ég suður til að hitta Pál því að viti menn, ég fékk tölvupóst frá honum í gærkvöldi þar sem hann sagðist vera búinn að fara yfir verkefnið...Fljótur var hann, veit það á gott eða vont?
Allavega, ég var komin uppí Eirberg og var orðin ansi stressuð fyrir fundinn. Ákvað að kíkja á Uglu svæðið rétt áður en ég fór upp til hans til að gá hvort að síðasta einkunin væri komin. Viti menn...þarna var hún...síðasta einkunnin, í bráða- og gjörgæsluhjúkrun...ég fékk 9,5!!!!!!!!!!! Ég MÁ monta mig! Skemmtilegasta fagið - besta einkunnin mín á mínum HÍ ferli :o)
Svo kom áfallið ...Páll leiðrétti og leiðrétti og leiðrétti...krass og þvers og kruss...ég þarf að laga og laga og laga og endurskrifa sumt! ARG! Ég bjóst svosem við þessum leiðréttingum en hann leiðrétti akkúrat það sem ég hélt hann myndi gera. Sem þýðir, ég veit að ég get gert betur. Maður er bara orðinn svolítið þreyttur og latur og vill bara klára þetta sem fyrst...

miðvikudagur, maí 07, 2008

Í gær skilaði ég lokaverkefninu í heild sinni til Páls leiðbeinanda. Í dag veit ég ekkert hvað ég á að gera af mér! Það verður svosem nóg að gera aftur þegar ég fæ verkefnið tilbaka, með tillögur að leiðréttingum og svona... En gvuð hvað maður er orðinn vanur því að þurfa að vera á spani allann daginn. Ég ætti nú bara að reyna að róa mig niður og njóta friðarins því ég finn að ég er orðin ansi klunnaleg í hreyfingum og þreytan farin að ná mér fyrr á daginn. Ég er í dag semsagt komin 27 vikur og 1 dag á leið og kúlan stækkar og stækkar. Mörgum finnst kúlan nett og lítil, en mér finnst hún alveg nógu stór og hún á bara eftir að stækka!

laugardagur, maí 03, 2008

Þá veit maður það. Þungu fargi af manni létt. Ég náði barnahjúkruninni....
Einu skrefi nær útskrift :)