Góðan og blessaðan daginn! Gleðileg jól og gleðilegt ár...þakka liðið!
Ég verð nú að segja það að ég hef verið hálf dauð þessi jól af þreytu og veikindum. Mest verið heima að púsla á meðan annaðhvort ég eða Hörður Gunnar var lasinn eða þá REYNT að lesa bækur sem ég fékk í jólagjöf. Því miður þá er ég ekki alveg tilbúin að fara að lesa í jólafríinu þar sem síðasta prófið var 21.des og ég er ekki ennþá búin að jafna mig. Plús það að ég vann nokkrar næturvaktir í jólafríinu mínu. Ég er semsagt ennþá þreytt og búin að snúa sólarhringnum við!
En hvernig væri að taka smá stuttan annál? Jú..getum byrjað á því að segja að þetta sé held ég barasta lélegasta blogg ár mitt frá upphafi því ég hef bloggað lítið sem ekkert á árinu 2007! Það er svosem nóg annað að gera og get ég alveg skýlt mig á bak við mikla vinnu og mikið nám.
Árið í hnotskurn:
Janúar var viðburðarlítill.
Í febrúar var Hörður Gunnar valinn bestur í flokki polla á frjálsíþróttahátíð UMSB og þar fékk hann fyrsta bikarinn sinn. Fór líka í æðislegt matarboð til Tobbu minnar með mínum yndislegu bekkjarsystrum og þar var étið, drukkið og sungið fram á rauða nótt! Við Gunnar áttum líka tveggja ára afmæli og eins árs trúlofunarafmæli 11.febrúar.
Mars...ég skráði mig í kúrsana lokaverkefni og útskrift 2008. Það var góð en skrítin tilfinning. Við Gunnar leituðum og leituðum að íbúð en ekkert var í boði.
Apríl...skóli, skóli, skóli...grunnur, grunnur, grunnur...reyna að klára grunninn!!!
Maí kom og ég og Gunnar sprungum af gleði því þá fengum við Skúlagötu 19 á leigu! Loksins eftir að hafa verið baggi á heimili blessaðra foreldra minna sem vildu allt fyrir mig gera en þetta var öllum fyrir bestu og öllum líður vel í dag :) Ég sem var að reyna að lesa fyrir vorprófin gat lítið stillt mig um að stelast til að pakka niður og flytja. Eftir próf og flutninga fórum við Gunnar svo á sjálfan kosningadaginn suður á Selfoss og í mat hjá Sigrúnu og Magga með bekkjarsystrum og mökum og það var æði! Fyrsta lambið okkar kom líka 2. maí og enn stalst ég frá próflestri til fara og skoða það. Ég byrjaði síðan að vinna á bráðamóttökunni á Hringbraut 16. maí og oh boy hvað það var strembið, lærdómsríkt og skemmtilegt! Síðan fórum við Særún norður í lok maí um hvítasunnuhelgina, heimsóttum Sonju og Pavle á Dalvík og hittum Guðveigu, Fúsa og nýfædda Ásdísi Lind :)
Í júní vorum við með heimaling í kjallaranum vegna þess að hann var vannærður og mamman vildi hann ekki. Hann lifði því miður ekki lengi og dó fljótlega eftir að við gerðum tilraun til að fara með hann aftur til mömmu sinnar. Annars þá vann ég og vann og vann...
Í júlí skruppum við litla familían til Köpen og áttum þar góðar stundir í Tívolí, Bakken og Den Zoologiske Have svo eitthvað sé nefnt. Við fórum líka í brúðkaup 070707 hjá Guðna Rafn og Freyju og var það alveg yndislegur dagur.
Ágúst. Þá komu nýjir fjölskyldumeðlimir á Skúlagötuna, Perla og Elvis...sem síðar breyttist í Demantur og Elvis þegar við sáum pung á Perlu. Fór líka til Dalvíkur á fiskidaginn mikla og það var algjört æði og Sonja og Pavle sýndu það og sönnuðu enn einu sinni hversu góðir gestgjafar þau eru!
September. Ég keypti mér nýja tölvu fyrir síðasta skólaárið þar sem að ég lagði ekki í það að sú gamla myndi hrynja með lokaverkefnið mitt í farteskinu.
Í október fór ég með Worm Is Green til Prag (Tékkland) og Bydgoszcz (Pólland) og var það alveg einstaklega vel heppnuð tónleikaferð :o) Ég ætlaði nú að skrifa betri ferðasögu um ferðina en myndirnar mínar eiga líka eftir að koma inn þar sem þær eru allar í tölvunni hans Árna ennþá.
Svo átti ég 29 ára afmæli og Hörður Gunnar 8 ára afmæli.
Í nóvember fórum við bekkjarsystur ásamt mökum í bústaðarferð í Grímsnes og átum gúmmilaði mat, lágum í heitum pottum, sungum mikið og rifumst við unglinga. Það var gaman. Síðast en ekki síst þá varð kallinn 30 ára og hélt upp á afmælið í sólarhringspartýi (rúmlega) á Skúlagötunni og vakti það mikla lukku. Ég ætla að slá það út á þrítugsafmælinu mínu í október 2008!
Desember kom og þá hófst erfiðasti próflestur sem um getur í minni skóla sögu! Ég hef aldrei verið jafn neikvæð og ílla fyrirkölluð fyrir próf! Ég vona að ég hafi náð þeim...
Guðbjörg ömmusystir mín kvaddi okkur á þessu ári rétt fyrir jól... blessuð sé minning hennar.
Jólin komu. Áramótin komu. Og ég sit hér með hor í nefi og hugsa til vorannarinnar með kvíða...
Góðar stundir gott fólk!