þriðjudagur, janúar 30, 2007

Bloggið er hálf-dautt... enda nóg að gera hjá manni!
Ég byrjaði í fyrsta verknáminu mínu í morgun. Fyrsta verknámi af þrem á þessari önn. Það er verknám í hjúkrunarstjórnun og ég þykist semsé stjórna á A5 uppi í Fossvogi, sem er bæklunar- og háls, nef og eyrna-deild. Sem betur fer hef ég verið í verknámi þarna áður, þannig að ég þekki aðeins til þarna. En þetta hljómar samt spennandi, þó maður sé pínu stressaður. Maður er nú reyndar alltaf pínu stressaður þegar maður er að byrja í verknámi.
Ég verð semsé í þessu næstu tvær vikurnar og svo fæ ég viku frí. Þá byrja ég í næsta verknámi sem er í geðhjúkrun. Það er eitt mesta áhugasvið mitt í hjúkrun, þannig mig hlakkar mjög mikið til að fara í það verknám. Ég mun vera í því í 3 vikur.
Síðast fer ég svo í verknám í öldrunarhjúkrun. Þá mun ég vera í heimsóknum á Eir, Landakoti, í kirkju og félagsstörfum aldraðra. Ég mun vinna með hópum og einstaklingum, auk þess sem ég þarf að velja mér eitthvað áhugavert efni tengt öldrun og flytja fyrirlestur fyrir gamla fólkið. Það verður bara gaman :o)
En já...ég er þreytt og langar að lúlla mér pínu pons áður en ég horfi á handboltann.
Og að lokum...
....áfram Ísland!!

mánudagur, janúar 22, 2007Horft á handbolta...
Til hamingju Ísland...

sunnudagur, janúar 21, 2007

Ég elska þessa drengi


Annars er allt gott að frétta hér. Rólegheitahelgi að renna sitt skeið. Við tókum hressan útivistardag í gær. Fórum öll í kuldagalla og út í frostið með sleðann og hundana með okkur (þó ekki sleðahunda). Við fórum vestur og mokuðum skít í hesthúsinu. Gáfum skepnunum hey og vatn. Hörður Gunnar valdi sér eina kind og skírði hana Litlurós, í höfuðið á kisunni minni. Við fórum síðan uppí hesthúsahverfi og kíktum í kaffi til Benna og Siggu í kaffihúsaturninum þeirra. Svo var Jóhann bróðir að bjóða vinum heim í afmælisboð þannig að við litla fjölskyldan fórum suður og glöddum lítinn dreng með því að kíkja á MacDí og fórum svo í bíó að sjá gamanmyndina Night at the Museum. Hún var bara þó nokkuð góð, gott að hlæja.
Í dag ætlaði ég að vera rooosa dugleg að lesa og læra af því að það varð ekkert úr því í gær. Ég er ekki ennþá byrjuð. Mér finnst meira gaman að sörfa netið og leika mér með i-podinn minn. En núna get ég kannski byrjað. Búin að leika mér nóg. Segjum þetta gott í bili!

Tjuss!!

mánudagur, janúar 15, 2007

Ég var að enda við að setja inn nokkrar myndir frá jólum og áramótum. Maður er alltaf jafn óduglegur að taka myndir þá... En hér eru þær!
Jæja gott fólk. Er ekki kominn tími til að blogga? Ég verð að viðurkenna það að maður er farin að slaka ansi vel á í þessu bloggi. Það er bara alltaf svo mikið að gera hjá manni, margt og skemmtilegt og áhugavert...
Ég er t.d. byrjuð í skólanum aftur. Það er ekki mikill skóli svosem, en mikið verknám og verkefnavinna í kjölfarið. Ég er í þrem stórum kúrsum; Hjúkrunarstjórnun, Öldrunarhjúkrun og síðast en ekki síst, Geðhjúkrun- og geðheilbrigði. Þannig að það er voða gaman í skólanum núna. Svo finnur maður líka sífellt meira fyrir því hvað það er lítið eftir af þessu blessaða hjúkrunarfræðinámi. Og já, já, það er SLEGIST um okkur á vinnumarkaðinum skal ég segja ykkur. Gott mál það. En það sem er ekki svo gott mál, það eru launin. Þau eru hreinlega til skammar. En ég er heppin þar sem ég vinn á góðum vinnustað á góðum launum með skólanum. Ég er að hugsa um að vinna þar í sumar. Landspítalinn borgar því miður MIKLU minna. Hinsvegar var ég búin að fá vinnu á Bráðamóttökunni á Hringbraut og með því að vinna þar myndi ég öðlast heilmikla reynslu. Jebb... ég er í algjörri krísu. Veit ekkert hvernig ég á að hafa þetta sumar! Vonandi leysi ég það á næstu dögum...

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Ég er enn í hálfgerðu losti yfir þættinum sem ég sá í gærkvöldi um Chernobyl slysið og afleiðingar þess á "framtíðar" börnin...
Þeir sem misstu af þessum þætti ættu að reyna að nálgast hann einhvernvegin, eða þá skoða þessa og þessa síðu.
Ég veit ekki. Ég varð hálf máttlaus eftir að hafa horft á þetta. Ég ætla að reyna að gera eitthvað til að hjálpa þessum börnum í framtíðinni. Nota mína menntun í það...

föstudagur, janúar 05, 2007

JÆJA í hundraðasta sinn!!

Í stuttu máli, þá var árið 2006 vægast sagt viðburðarríkt og hafði í för með sér
miklar breytingar...

Ég klessti Peugotinn, en keypti nýjan/gamlan bíl í kjölfarið, seldi hann svo og keypti mér annan nýrri.

Tengdapabbi minn féll frá mjög svo óvænt og var það mikil sorg og er hans sárt
saknað í dag. Blessuð sé minning hans.

Ég spilaði með Worm Is Green í Kastljósinu, á Grand Rokk, í Tallin, Eistlandi og í
Þjóðleikhúskjallaranum á Airwaves, svo eitthvað sé nefnt. WIG breyttist líka þannig að við erum ekki lengur fimmmenningar, heldur fjórmenningar...

Við Gunnar trúlofuðum okkur þann 11. feb. og ákváðum í leiðinni að gifta okkur á
afmælisdag tengdapabba, þann 20. júní, þegar sá dagur myndi lenda á föstudegi eða
laugardegi.

Ég fór í skemmtileg og lærdómsrík verknám.

Það kom viðtal við mig í Nýju Lífi í apríl.

Við Gunnar pöntuðum okkur SG íbúðarhús frá Selfossi.

Ég sá ýmsa tónlistarmenn á árinu, Roni Size, CocoRosie, Morrissey, Nick Cave og
Sykurmolana.

Ég vann á E-deild SHA í sumar og það gekk vel.

Ég eignaðist minn fyrsta hund með Gunnari, hann Bimbó.

Ég keyrði mikið traktora útí sveit.

Ég fór á Landsmót hestamanna og skemmti mér konunglega!

Ég söng hér og þar, t.d. með Balla frænda, með Gospelkór og í brúðkaupum og jarðaförum.

Ég fór í margar hestaferðir og braut því niður hesta-hræðsluna.

Ég skráði mig í Amnesty til að reynað bæta réttlæti heimsins.

Ég skráði mig á þolfiminámskeið og fór að hreyfa mig!

Amma varð 90 ára 11.september og það var haldið uppá það með pompi og prakt!

Ég sagði STOPP við umferðarbrjálæðinu.

Ég fór í réttir, sem ég hef ekki gert síðan ég var krakki.

Ég byrjaði í nýrri vinnu með skólanum, næturvaktir aðra hvora helgi.

Ég varð veðurteppt á Kjalarnesinu í einum að þessum brjálæðisveðurdögum í sirka 2-3
tíma, á afmælisdeginum hans Gunnars.

Ég fór í fallegt brúðkaup Sonju og Pavle.

Ég gerðist Unicef styrktarforeldri og hvet aðra til að gera slíkt hið sama ef þið
eruð ekki nú þegar búin að því...

Ég fékk fyrstu einkunnina í hús 27. des. Hún lofaði góðu, hvorki meira né minna en 9
:o)


Góðar stundir gott fólk!

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Ég held að það sé alveg kominn tími á það að ég óski öllum gleðilegs árs og takk fyrir það gamla og allt það...
Ég var að vinna í mínum árlega annál í gær, en bloggerinn var bara með einhverja stæla þannig að ég gat ekki pöplishað neitt! Vonandi kemur 2006 annállinn fljótlega...

Annars þá er ég á næturvakt. Ég blogga bara á næturvöktum nú orðið. Verð að bæta það á árinu. Ég er bara svo annasöm kona you know...
Jæja...halda áfram að vinna. Ble í bili.