mánudagur, nóvember 28, 2005

Ég skilaði ritgerðinni minni í dag um sykursýkissár og maðkameðferð.
Ég skila öllum verknámsverkefnum mínum á morgun.
Próflestur fyrir félagsfræðina getur semsé byrjað. Ég keypti mér minnismiða til að hripa nöfn og kenningar á.
Þetta er allt að rúlla...

föstudagur, nóvember 25, 2005

Meira bílavesen...
Ég kom að flötu dekki í gærkvöldi þegar ég kom af síðustu verknámsvaktinni minni. Bömmer hugsaði ég, en þetta kom mér ekki á óvart. Alltaf sama dekkið.
Ég fór niðrá verkstæði áðan og lét úrskurða það látið og fékk nýtt.
Ég vona að bíllinn þurfi ekki meiri aðhlynningu í bili. Komin með nýjan bremsuborða og nýja framrúðu...

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Ég fann pakka af þessu í gær...Þetta er VIÐBJÓÐSLEGA gott!
Jæja, þetta gengur allt saman hægt og rólega, eða eiginlega bara mjög hratt!
Ég er semsé að leggja síðustu hönd á ritgerðina mína, þarf að skila henni á föstudaginn. Síðasti verknámsdagurinn er á morgun, kvöldvakt á lyfjadeild. Svo er það bara að klára verkefnin og skila þeim í síðasta lagi þriðjudag. Ég mun líklegast liggja yfir því alla helgina.
Svo spiluðum við í gær með Sign í Bíóhöllinni. Það var öðruvísi en gekk bara miklu betur en ég átti von á. Svo var okkur boðið í "Mömmukaffi" til Brimrúnar á eftir þar sem okkur var boðið heitt súkkulaði og kökur, bara sönn jólastemming :)
Í kvöld er það svo NASA.
WORM IS GREEN & AMPOP með útgáfutónleika.
Allir að mæta!!!
ble..

föstudagur, nóvember 18, 2005

Er að hlusta á allskyns músík. Svo kemur lagið Innocent When You Dream með Tom Waits af plötunni Franks Wild Years. Þá mundi ég allt í einu eftir því hve Árni Teitur ELSKAÐI þetta lag þegar við vorum á hróarskeldu...
Ahh...það var fyndið :)
Check dis out!
FRÍTT, í boði Worm Is Green, Electron John Mp3 Single.
Gjöriði svo vel :)

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Það er svo margt framundan...
*Hljómsveitaræfingar!
*Tvennir tónleikar hjá Worm Is Green
-Bíóhöllinni, Akranesi með SIGN, þriðjudaginn 22. nóv.
-NASA, Reykjavík með Ampop, miðvikudaginn 23. nóv.
*Verknám fram til 25.nóv.
*Klára ritgerð fyrir 25. nóv.
*Klára fullt af öðrum verkefnum tengt verknáminu!
*Vera góð mamma og hjálpa drengnum við sitt skólanám.
*Vera góð kona og halda uppá afmæli bóndans á laugardaginn.
*FARA MEÐ BÍLINN Í EXTREME MAKEOVER!!!
*Tvö RISA próf í desember.
*Tvennir aðrir tónleikar í desember.
*Passa uppá geðheilsuna...
Djöfull langar mig að henda bílnum mínum á ruslahaugana núna!
Þegar ég ætlaði að fara með H.G. í skólan í morgun, þá var vinstra afturhjólið pikk fast og snerist ekki neitt. Bíllinn semsagt komst ekkert áfram og ég beið því eftir mömmu sem var að koma af næturvakt til að geta skutlað drengnum. Síðan þurfti ég náttla að fara suður í próf þannig ég varð líka að fá bílinn þeirra lánaðan þangað.
Ég get ekki verið bíllaus. Þarf að fara útá skaga í fyrramálið. Get ekki ímyndað mér hvað sé að þessu dekki! Það bara bifast ekki!
Alveg er ég sjóðandi, rasandi reið yfir þessu og það liggur við að ég labbi uppá bílasölu og fjárfesti í glænýjum bíl beint úr kassanum sem að amar ekkert að!!!

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Ég sæki í hvíld
með rúgbrauð og síld...
Verði ykkur að góðu!
Dúd hvað ég átti skemmtilega vakt í gær :)
Ég var semsagt á heilli kvöldvakt og var eini neminn, sem þýðir, fleiri námstækifæri. Allavega, ég fékk að blanda fullt af sýklalyfjum, sprauta helling, setja upp fullt af nýjum vökvum í vökvadælur, setti upp þvaglegg og margt fleira. Ég stóð mig eins og hetja þó ég segi sjálf frá. Var líka með þessa fínu hjúkku til að leiðbeina mér. Maður er strax komin með miklu meira öryggi í starfinu. Þetta er bara spurning um reynslu, reyna að gera allt eins oft og hægt er svo að maður sé orðinn pottþéttur. Kom mest á óvart hvað það gekk vel að setja upp þvaglegginn. Gekk eins og í sögu. JEssör.
En núna verður allt hjúkrunarverknám að leggjast til hliðar í dag því ég er að fara í próf í félagsfræði á morgun. Nú er það bara læra, læra, læra eins og mögulegt er. En ég vona að ég nái þessu þar sem ég hef ekki getað mætt í félagsfræði tíma í langan tíma :(
Wish me luck!

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Eftir blót, bölv, naglanag og hárreitingar ákvað ég að standa upp og taka mér pásu frá verkefnum og ritgerð. Ég fór inní eldhús, hitað mér te, sauð egg og fékk mér síðan rúgbrauð með síld. Mmmm hvað allt þetta er gott! Svo ég tala nú ekki um orkuna sem maður fær úr svona snarli. Svo fór ég inná bað, hreinsaði andlitið og setti á mig hreinsimaska. Ég er öll að steypast út í áhyggjubólum og svo er ég komin með kvef dauðans. Já, svona leggst álagið á mig. Guði sé lof að frunsan sé ekki sprottin upp! (7,9,13)
En núna líður mér semsé aðeins betur og er sest niður við lærdómin aftur.
Ready, steady, go!

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Ég mætti hress í morgun uppá A-deild til að takast á við verknámið. Það var vel tekið á móti mér, plús það að Ragnheiður og Lína voru þarna líka í verknámi(fyrrv. fjarnemabekkjarsystur). Hressandi að sjá þær stöllur. Ég var mest að læra á deildina, hef aldrei komið þarna áður og svona skoða hitt og þetta. Síðan fékk ég að blanda sýklalyf, taka lífsmörk og svona smotterí. Ég fylgdist með skráningu, sat læknafund og fékk ókeypis hádegismat. Fínn dagur og hlakkar til að mæta aftur á föstudaginn.
Versta er að ég lendi í því að þurfað fórna félagsfræðitímunum mínum á næstunni. Það er líka alveg farið að koma að öðru stöðuprófinu (sem gildir 15%) í fél. Sé ekki fram á það að ég geti lært mikið undir það þar sem ég verð að vinna uppá lyfjadeild, plús það að reynað klára verkefnin og ritgerðina mína. Púff...mikið að gera og ég er ekki einu sinni í fullu námi á öðru ári! Thank God að ég sé búin með lífeðlisfræðina!!!
Svo lét ég LOKSINS verða að því í dag að panta mér tíma í sjónmælingu. Okey ég farin farin að sjá illa uppá töflu í skólanum, en hey! Ég stóð mig að því í dag að ég var sífellt að píra augun til að sjá betur á pappíra og skýrslur og fleira. Ég er farin að halda að ég þurfi vinnugleraugu. Ætli það sé eitthvað karma í sambandi við hjúkkur og að vera með gleraugu á nefinu og stutt hár???

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Á morgun Sonja, á morgun....

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Ég var að koma af leiksýningunni "Kalli á þakinu". Fór með mömmu, Herði Gunnari og frænkum og frændum. Það var heilmikið stuð, mikill barnahlátur, hopp og gleði og grátur. Alltaf gaman að fara á barnaleiksýningar.
Þar sem að mamma og Eygló þekkja svo vel hann Dösta eða Þröst Guðbjarts leikara, þá fengum við að fara baksviðs á eftir og tala við leikarana. Litlu pésarnir heilsuðu uppá Kalla/Sveppa. Síðan fengum við að fara og skoða sviðið. Vá hvað þeim fannst það mikið sport þeim Herði og Snorra. Þeir fengu að fara inn í skápinn og inn um gluggana eins og Kalli gerði.
Það var labbað út með stórt bros á vörum og síðan var steinsofnað á leiðinni heim :)

föstudagur, nóvember 04, 2005

Bissí skvissí dagur. En mér tókst þó loksins að troða vetrardekkjunum á í dag. Þeir eru svo elskulegir þessir feðgar þarna á dekkjarverkstæðinu í Borgarnesi :)
En ég er annars að spá í að kíkja á þetta í kvöld, þó ég eigi að verað gera ritgerð...


Tónlistarfélag Borgarfjarðar á Hótel Hamri
kl 21 á Hótel Hamri
Færeyska djass- og þjóðlagasveitin Yggdrasill leikur á vegum Tónlistarfélags Borgarfjarðar. Söngkona er Eivör Pálsdóttir. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Þóra Jenný kennari hringdi í mig áðan og tilkynnti mér það að ég mun vera á lyflækningadeild, en ekki handlækningadeild í verknámi á SHA í næstu viku. Hmm..já, það er líka bara ágætt held ég.
Svo er líka frænkan hans Gunnars að vinna þarna og kennir mér kannski góð vinnubrögð. Spurning um að reyna svo að koma sér í mjúkinn hjá liðinu á deildinni og sækja jafnvel um sumarstarf þarna ef mér líkar vel pleisið...
Ég er allavega í miklum pælingum í sambandi við næsta sumar.

En ég ætti að vera að huxa um allt annað núna. Var reyndar að prenta út fullt af tímaritsgreinum fyrir ritgerðina mína. Nú er bara að lesa yfir og velja úr.
Later...
Djöfull þoli ég ekki Símann þessa dagana eða réttara sagt síðustu mánuði! Ég er búin að vera í endalausu böggi með reikningana mína síðan ég flutti frá Sóleyjargötunni og sagði upp ADSL internetáskriftinni.
Ég fæ enn rukkanir um ADSL áskriftina! Og það sem meira er, ég er búin að hringja og láta leiðrétta og kvarta alveg milljón sinnum útaf þessu og það virðist vera MJÖG erfitt að láta laga þetta eða borga mér aftur þá peninga sem þeir skulda mér.
Ég er alveg viss um að síminn hnuplar fullt af peningum með þessum hætti úr saklausu fólki sem skilur ekki símareikninginn sinn. Þetta er alveg til þess að gefast upp á. Ég er andvarpa bara og huxa "æji ég bara borga þetta drasl og hætti að væla", þó ég sé að borga jafnvel 2000 kalli meira á mánuði en ég ætti að vera að gera.
En nei, ég lem í borðið og átti einmitt hálftíma samtal við saklausan símadreng hjá Símanum áðan. Hann klóraði sér bara í hausnum (heyrði það í gegnum símann) og vissi ekkert hvernig hann ætti að redda þessu.
"Það leiðréttist á næsta reikningi, þá færðu frádregið af reikningnum það sem við skuldum þér..." Yeah right, hef heyrt þessa sögu áður!
Ég býst við því og engu öðru en að ég þurfi aftur að hringja og leiðrétta símareikninginn í næsta mánuði. Pirrandi!

En það borgar sig víst að vera með læti. Í sumar þá var ég alveg á haus í sambandi við að redda laununum mínum. Ég var að fá allt of lítið útborgað. Ég þurfti að standa í þvílíkum símhringingum, samtölum, bréfaskriftum og svo framvegis, til að fá hærri laun. Ég var meirað segja hætt að vinna, það var komin september þegar ég sendi síðasta bréfið og var alveg við það að gefast upp. "Æji, ég nenni þessu ekki lengur. Ég þigg bara þessi laun og vinn aldrei aftur þarna..."
En það borgar sig að vera bitch. Í gær fékk ég launaseðil með ágætis upphæð frá sumarvinnustaðnum. Það var peningur sem ég átti að fá í sumar. Ég átti semsé að fá hærri laun...

Ég segi bara eitt, ég mun berjast! *Lamið harkalega í borðið*

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Hálka, rok og brjálæði. Enginn tími til að blogga.
Ég er búin að gera heiðarlegar tilraunir til að setja vetrardekkin undir. Alltaf brjálað að gera á dekkjarverkstæðunum og ég hef ekki tíma til að láta bílinn minn standa allan daginn fyrir utan verkstæðið í þeirri von um að þeir "ná að taka hann í dag"...
Ég á að verað gera ritgerðina mína á fullu. Það er bara alltaf svo fokkings erfitt að byrja. Ég er komin með þónokkrar tímaritsgreinar, en veit ekki hvaða greinar ég á að velja.
Svo þarf ég að fara í bólusetningar í vikunni og svo byrjar verknámið í næstu viku!
Allt að gerast og enginn tími.
Svo ég tali nú ekki um hvað er stutt í prófin ... og líka til jóla!

Farin að fá mér te og kex...