miðvikudagur, mars 30, 2005

Jöss! Ég kláraði eitt stykki verkefni í dag. Á bara eftir að fínpússa það og svo senda :o)
Það er gott að vera heima með te í bolla og hlusta á klassíska músík. Kemur manni í lærdómsstuð. Nú get ég horft á ANTM með hreina samvisku í kvöld.
Og já, finally, bráðavaktin er í kvöld!

Hvað segiðið annars gott?

þriðjudagur, mars 29, 2005sniðugt...

mánudagur, mars 28, 2005

Jájá.
Komin heim aftur eftir páskafríið og byrjuð að þvo þvott og undirbúa vinnu- og skólaviku sem er framundan. Ég gerði margt í fríinu.
Ég fór í fermingarveisluna hennar Mörthu.
Ég sat við langborðið á páskadag heima hjá mömmu og pabba þar sem allir komu í mat.
Hörður Gunnar tók hjálpardekkin af hjólinu sínu og náði að læra sjálfur að hjóla eftir fimm mínutur.
Ég fór í sveitina til Gunnars og gaf í fjósinu og hesthúsinu og mokaði skít og sat í traktor og upplifði sveitarómantík.
Ég fór nokkrum sinnum í sund og lá þar í vorhitanum og horfði á pólverjana spóka sig um í skrítnum sundskýlum.
Ég hitti nokkra gamla góða vini.
Já, þetta voru góðir páskar :o)

föstudagur, mars 25, 2005

Alltaf gaman að finna gamlar myndir.
Ég var að taka til hérna hjá mömmu og pabba til að gera allt glimrandi fínt fyrir páskana. Þá fann ég "nýjar" myndir sem voru að koma úr framköllun um daginn. Þetta eru nokkrar myndir frá jólunum og áramótunum. Mamma og pabbi taka myndir og framkalla einu sinni á ári. Taka myndirnar um jólin og áramótin, síðan framkalla þau í mars eða apríl. Gaman af því og hér eru þær.
Erum við ekki sætar Særún?

miðvikudagur, mars 23, 2005

Nýja klippingin vakti mikla lukku á dvaló í morgun. Öllum fannst þetta geðveikt flott. Og Villi minn, hún Ása frænka þín brosti út að eyrum og æpti eins og smástelpa þegar hún sá mig. Hún er svo stolt af þér og þú ert svo flinkur og allt það! :o)

Hvað annað betra að gera þegar maður er kominn með svona "rokk" klippingu en að setja rokk á fóninn og taka til fyrir páskana, því ég er komin í páskafrííí...jibbíííí!!!

þriðjudagur, mars 22, 2005

...after

Before...

mánudagur, mars 21, 2005

Ég er að fara í klippingu til Villa á morgun klukkan sex! Ég er að deyja úr spenningi. Hann nær samt kannski ekki að lita hárið því þetta er eiginlega kennslustund í náminu hans og ég bara módel, en það má alltaf koma seinna í litun...ójájá.
Ég þarf allavega að losna við þetta síða hár sem fyrst. I'm going mad!
Uppáhaldið mitt þessa dagana og undanfarnar síðustu vikur er:

Neil Young - After The Gold Rush


Neil Young - Harvest


og síðast en ekki síst

Led Zeppelin!

I'm okey, I'm alive...
Sumum finnst rosa gaman að senda mér hitt og þetta, hvort sem það eru mms skilaboð eða dularfull bréf með drasli í. Ég komst að því fljótt hver væri að leika "Láka". En ég vildi ekki segja neitt þar sem mér þótti þetta dularfulla bréf sem ég fékk sent á föstudaginn mjög fyndið...sérstaklega þegar ég komst að hinu sanna :o)
Það var nú eins og mig grunaði strax hún Sonja mín sem bjó til þetta bréf og sendi mér þegar henni leiddist eitt kvöldið. Hún gat nú ekki þagað lengi yfir þessu, játað fyrir mér eftir smá tíma að hún hefði sent bréfið. Það kom heldur enginn annar til greina sem myndi gera svona! Þetta bréf var nú meinlaust frá upphafi þannig að ég var aldrei í neinni hættu.
But aníveis, I'm okey og ég er bara búin að hlæja að þessu! :o)

föstudagur, mars 18, 2005

Eftir vel heppnaðan vinnudag á Höfða í morgun, þá verlaunaði ég mig með því að bjóða mér í kjúkling þar í hádeginu. Þá þarf maður ekki að elda neitt í kvöld...bara narta í eitthvað létt.
En þegar ég kom heim áðan, að springa úr seddu og alveg að sofna, þá brá mér heldur betur. Það beið mín undarlegt blátt umslag, prýtt með þrem gylltum stjörnulímmiðum. Umslaginu hafði greinilega verið lokað, opnað upp á nýtt og límt svo aftur saman brussulega. Það var kámugt og skrítið.
Ennþá skrítnari var þó innihaldið. Ég dró upp þrjár hvítar fjaðrir, teygju, bréfaklemmu, hefti, tappa-miða af vínflösku, útlenska krónu og krumpaðan, langan, götóttan miða þar sem á stóðu stafirnir A, F og T. Síðan var það bréfið sjálft eða réttara sagt bréfin, því ég var með upprunalegu útgáfuna og ljósritað eintak líka.
Á þessu bréfi sem var í miklum "hótunarstíl", úrklipptir stafir úr blaði límdir á, stóð:
2 daga R
TáR Blóð Í SV
alfaraleið ekki
Hótel
Á stæltari
klám kirkja
auðvitað auðvitað auðvitað
... svo var einhver úrklippt auglýsing frá jóa fel þarna á miðju blaðinu
Bakaríið hjá Jóa Fel.
Okkur vantar hresst og duglegt starfsfólk í fullt starf í afgreiðslu...osfrv


Mjög skrítið. Ég botna ekkert í þessu bréfi. Einhver er alveg að deyja úr hlátri núna, af illsku eða skrítnum húmor. Veit ekki hvað þetta bréf á að þýða og dettur ekkert í hug hver var svona hæfileikaríkur og lagði mikla vinnu í þetta og sendi mér þetta. Væri gaman að fá að vita það...anyone?
Ég bíð spennt eftir svari, eða næsta bréfi.

fimmtudagur, mars 17, 2005

Okey. Ég nenni kannski ekki að kveikja á hellum, en ég nenni greinilega að kveikja á ofninum eða setja blenderinn í samband. Ég er allavega alltaf að gera einhver pestó eða framandi sósur. Og í kvöld já, þá tók ég mig til og bjó til nan brauð.
Ég er stórfurðuleg...
Ég er alveg hætt að nennað kveikja á hellum hér í húsi. Ég nenni ekki að elda!
Langar að panta pizzu í kvöld...en á ekki pening :(
Þegar það kemur svona mikið rok þá kemur líka í ljós að blessað fólkið í bænum hefur ekki fest nógu vel niður ruslatunnurnar sínar.
Það er allt morandi í fljúgandi rusli hérna fyrir utan!
Jæja, unglingavinnan ætti þá að hafa nóg að gera í sumar...

Vonandi er í lagi með Hörð Gunnar. Hann er einhverstaðar úti að leika sér í rokinu.
Ég fauk t.d. á ljósastaur þegar ég var lítil og var úti að leika mér í rokinu. Það var vont.
Nohh! Sonja bara búin að snoða sig! Stutthærð alda að ganga yfir. Ég að fara í stutthærða klippingu á þriðjudag. Særún, þú verður að klippa þig líka stutt til að vera með!!

miðvikudagur, mars 16, 2005

Maður hefði kannski ekki átt að taka að sér þessa afleysina-vinnu á Dvaló? Ég er alltaf svo drulluþreytt á daginn að ég kem engu í verk! Eða svona...sumu þó.
Þetta er samt hress og skemmtilegur dagur. Ég t.d. elska það að það skuli vera orðið svona bjart. Það er ekki lengur dimmt á morgnana þegar maður fer í skólann eða vinnuna. Það er vor í lofti (þó það sé smá frost), fuglasöngur og allir jákvæðir.
Það komu leikskólakrakkar uppá dvaló í dag og sungu fyrir gamla fólkið. Mikið hafði það nú gaman af því. Í lokin tóku þau sig líka til og sungu með krökkunum. Ég finn það líka þegar ég hef mætt með Hörð Gunnar með mér á dvaló, þá hrúgast hópurinn af gömlu fólki í kringum hann. Hann hefur líka bara gaman af því að vera miðpunktur athyglinnar :)
Allir glaðir að sjá mig í vinnunni. Voða gott að fá svona hlýjar viðtökur aftur. Sagði að ég myndi vinna uppá Höfða í sumar ef Silla vilji hafa mig. Auðvitað vill hún það...
ANTM í kvöld. Gaman. Ég ætla að búa til heitan búðing í tilefni þess.
Hress dagur...setjum þá hressa mynd í lokin í tilefni þessa hressa dags.
Ég bjó til avókadó-pestó í "tilraunaeldhúsinu" mínu í hádeginu. Helv.. gott oná ristað brauð..mmmm

þriðjudagur, mars 15, 2005

Einu sinni var ég svona, 2-3 ár síðan. Asnaleg. Er með svipað hár í dag. Alltaf sleikt aftur í tagl því það er alltaf fyrir mér. En ekki mikið lengur. Við Villi plönuðum hitting. Eftir nákvæmlega viku munu síðu, ljósu lokkarnir fá að fjúka...
Bíðið spennt!
Yo! Snoop Dogg verður á hróa. Það mun verða merkileg upplifun :o)
Slef!
Þegar ég var búin að vinna í dag kl 12 þá þurfti ég að bruna upp í Borgarnes og mæta í tannlæknatíma númer 4357...eða bara tannlæknatíma númer 4, á eftir að mæta einu sinni enn! Það þurfti að deyfa hressilega neðri góminn minn, hægra meginn, þar sem það þurfti að gera við þrjár litlar smáholur í röð. Allt í lagi með það, nema ég er fötluð í kjaftinum eftir þetta. Ég get ekki talað þar sem hálf tungan er deyfð og varirnar alveg hægra megin og ég slefa niðrá höku alveg ósjálfrátt. En þetta líður víst hjá, einhverntíman um kaffileytið...

Krakkar, muniði bara að bursta alltaf vel tennurnar eftir mat, nota tannþráð og munnskol!

Hummjá..annars var þetta mjög fyndinn vinnudagur í morgun..hehehemm..jájá :o)

mánudagur, mars 14, 2005

Getur einhver sagt mér hver tilgangurinn sé með séð og heyrt stúlkunni?
Þreyta.is

Ég fór óvænt á ball á laugardagskvöldið á Hótel Borgarnesi. Það var Góugleði og mikið stuð og mikið af fólki, ungt og gamalt. Skrítnast fannst mér þó að sjá stelpu sem var í flokknum mínum þegar ég var flokkstjóri í unglingavinnunni, vera að vinna á barnum. Ég átti frekar erfitt með að panta G & T hjá henni. En annars var ég lang flottust í leðurbuxunum mínum og með myndarlegann mann uppá arminn. Gaman af því.
Nú svo fór ég suður að byrja á verkefninu í gær. Það var nú bara ekki svo hræðilegt, heldur pínu skemmtilegt. Verkefnið okkar verður sko langflottast :)
En ég þurfti svo að keyra uppí Borgarnes aftur þar sem drengurinn var þar í pössun. Síðan lagðist ég hálf lasin uppí sófa og horfði á bleika pardusinn. Leist ekkert á það að þurfað farað vinna um morguninn. En ég semsé brunaði svo í morgun uppá skaga með drenginn í leikskólann og svo dreif ég mig sjálfa uppí vinnu. Viti menn, það var ekki svo hræðilegt. Það var bara gaman að fá að byrja að vinna aftur. En þegar ég kom svo heim í hádeginu, þá sveif á mig þessi lasleiki aftur og ég varð að leggjast upp í rúm.
Ég er slöpp, aumingi með hor og nenni ekki að hreyfa mig þessa stundina. En samt í góðu skapi :o)

föstudagur, mars 11, 2005

Vitiði hvað er gott að fá sér í kaffitímanum?
Rúgbrauð með smjör og osti, og svo sluddu af kóriander-salthnetupestó oná ostinn, og drekka 50-50 gulrótar og appelsínusafa með.
Namm!!!
Hviss búmm bang! Ég er búin með skattskýrsluna mína.
Stundum finnst mér gaman að fara í skrifstofuleik og gera skattskýrsluna. Ég hita gott kaffi, set smákökur á disk og létta músík á fóninn. Síðan set ég upp gleraugun og fer að rýna í pappírana í körfunni og slá inn tölur. Et voila, je suis fini!
Einn skemmtilegast leikurinn minn þegar ég var krakki var skrifstofuleikurinn. Þá bjó ég til tékkhefti og stimplaði mikið og heftaði mikið og skrifaði mikið bull á pappír og notaði gömlu hvítu ritvélina hans pabba villt og galið. Það var nú gaman...
Í dag ætla ég að skella mér í Borgarnesið. Mamma er ein heima og vantar félagsskap. Við ætlum að elda góðan mat, mexíkó-kjúklingabringur, baka köku og horfa á Idol, hvað annað!? Nú svo þarf ég að leggjast yfir námsbækur um helgina. Var að átta mig á því að það fer að styttast í verkefnaskil í Heilbrigðisfræðslunni. Svo kannski að maður versli sér eitt stykki sundbol í dag svo ég geti nú farið í laugina í Borgarnesi (besta laug í heimi). Það er alltof langt síðan ég fór í sund síðast. Eins og mér finnst nú gaman að synda og þetta er eina hreyfingin sem ég er ekki með fóbíu út af, þá ætti ég nú að synda meira!
Á sunnudaginn þarf ég að fara suður til Reykjavíkur og vinna verkefni í HBF. Stuð..böhh..er ekki að nenna þessu fagi!
Á mánudaginn, dadaraddadaaa..þá byrja ég aftur að vinna í afleysingum upp á Höfða! Sem betur fer. Ég er að krypplast á að vera heima allan daginn! Fínn vinnutími líka. Frá 8 til 12 að hádegi. Bara virka daga og frí um páska :o) Svo eru þær svo hrifnar af mér þarna uppá Höfða greinilega, því ég byrja náttla aftur í einhverjum tímum í apríl. En Sibba (sem ræður) hún ætlar þá bara að fá einhverja aðra til að taka vaktirnar mínar þá daga sem ég þarf að mæta í skólann. Næs...
Vona bara að námslánin skerðist ekki djöfullega eftir alla þessa auka/afleysinga vinnu!

Úff..er alveg að snappa! Fékk mér kannski aðeins of mikið sterkt espresso!
Það er allt í einu svo brjálað að gera hjá mér!

fimmtudagur, mars 10, 2005

Það rættist heldur betur úr leiðindunum í gær. Ég kvartaði hér undan því að það væri ekkert merkilegt að gerast í kringum mig.
Svo kom hún Sonja óvænt í heimsókn og ég eldaði ítalskan mat ofaní hana. Síðan löbbuðum við út í sjoppu, keyptum nammi og gos, horfðum á ANTM og nokkra gamla fóstbærðarþætti. Geir Guð kom líka í heimsókn. Hann las Tinnabók fyrir H.G. á meðan við Sonja kláruðum ANTM. Mjög fyndið. Það var eins og Geir og H.G. höfðu þekkst í 100ár. Síðan kúrði Sonja uppí hjá mér í nótt undir hreinum rúmfötum og viðruðum sængum. Við sváfum vært eftir að hafa rætt um tilgang lífsins í góðan tíma.
Já, þetta var gott gærkvöld :o)
Í dag er líka búið að vera gaman og nóg að gera. Ekki get ég kvartað yfir aðgerðarleysinu núna, sem betur fer. Ég klepra ef ég hef ekkert að gera!
Ég gróf upp gamla góða plötu áðan og setti á fóninn. Það er platan Roxy Music, The Atlantic Years, 73' til 80'. Mögnuð plata! Góð upphitun fyrir verkefni kvöldsins. En ég var valin til að vera dómari í undankeppni FVA í söngvakeppni framhaldsskólanna í kvöld klukkan átta í Bíhóhöllinni. Spennandi verkefni og heiður að fá að taka þátt í þessu. Ég hef verið dómari áður í söngvakeppnum. Mér finnst það gaman. Mér finnst gaman að dæma. Ég ætti kannski bara að farað læra dómarann??
Jamm og jæja....hlakkar til kvöldsins.

miðvikudagur, mars 09, 2005

Mér leiðist alveg hryllilega þessa dagana! Get ekkert gert nema verið heima og lesa. Það á ekki við mig. Mig langar að vera í aksjón. Mig langar að vera með stelpunum í verknáminu. Búfokkinghú!!!
Þar sem ég hef frekar lítið að blogga um þessa dagana, þá set ég bara inn skemmtilegar myndir í staðinn.
Þessi er t.d. mjög sæt

þriðjudagur, mars 08, 2005

Ég bara VARÐ að stela þessari mynd af blogginu hans Geirs! Mér finnst hún æði :o)Enda fékk hann líka nýlagað kaffi hjá mér áðan...

mánudagur, mars 07, 2005

Það er allt morandi í fuglum hérna úti. Uppá húsþökum, ljósastaurum, grindverkum og víðar. Þetta er aðallega Starrinn og svo nokkrir Krummar.
Ég þori ekki út. Þetta lítur út eins og Hitchcock mynd!
Foo Fighters verða á Hróa!
Vei, vei, vei!
:o)

sunnudagur, mars 06, 2005

Það var líka gaman í gær. Var samt orðin soldið lasin í gær og missti næstum alveg röddina. Þannig að það var frekar lítið partystuð á mér. En djöfull hló ég samt mikið í gær!
Bjarni er held ég barasta fyndnasti maður í heimi.

Særún er líka búin að setja inn fleiri myndir af föstudagskvöldinu. Það var gaman. En hvað með þennan svip alltaf á mér...ég skil ekki hvað ég var að spá...

laugardagur, mars 05, 2005

Það var gaman í gær.
Bachelorette kvöld marz mánaðar var haldið með pomp og prakt!
Myndir hér, þær segja allt sem segja þarf...

fimmtudagur, mars 03, 2005

Þegar lagið Patience með Guns n Roses kom áðan í spilaranum mínum, þá fékk ég tár í augun. Ég keypti þennan disk, GnR Lies, á einhverri white trash bensínstöð í einhverju fylki í Bandaríkjunum. Það minnti mig mikið á það þegar við Villi grétum og bitum í húfana okkar og hlustuðum á þetta lag á repeat, on the road in America. Þetta var óður til þeirra sem við söknuðum svo mikið heima á fróni.
Snuff og snökt og ekkasog...
Annars hefur hugur minn verið hjá henni Sonju í dag...
Áfram Sonja!!!

Svo verður sko Bacheloréttað annað kvöld :)
Ohhh! Svei mér þá. Ég held ég sé komin með Alzheimer light!
Ég er öll í ruglinu og er að rugla saman mánuðum, dagssetningum, tímum hjá tannlæknum og fleira.
Og ég er skítblönk!

Já, já, hlæjiði bara...
*snökt*

miðvikudagur, mars 02, 2005

DURAN DURAN verður á Hróa!!!!!
Æði! Jæja, hverjir ætla með mér???
Cumin vs. Season All

Ég veit ekki hversu oft ég er búin að fara inn í allar búðir hérna á Akranesi til þess að finna Cumin kryddið! Mjög oft allavega. Það eina sem er alltaf til er Season All.
Einnig hef ég gert dauðaleit að Tamari sósu. Ekki til neinsstaðar...

Svo segir mamma mér að þetta sé til í gamla góða Kaupfélaginu í Borgarnesi! Ég þangað!
(Þetta heitir víst Samkaup í dag...)
Þó maður eiginist allt í einu pening, þá grætur maður því þeir fara svo fljótt í alls kyns fokkings skuldir!
Tökum bílinn sem dæmi:
Ég fór áðan með bílinn í endurskoðun sem kostaði heilar 5200kr. Sem betur fer þá slapp ég við að borga sektina fyrir löggulímmiðann. Hann er uppá heilar 10þús kr. Svo á ég eftir að fá reikninginn frá verkstæðinu, það er mjög líklega 5-10þús, ef ekki meira! Svo þarf ég að farað kaupa bensín á bílinn og fara með hann í smur fljótlega...úff! Svo ég tala nú ekki um rispuna á hægri hlið bílsins. Það er helv.. mojjj að láta laga það og er viðgerð uppá tugir þúsunda! Það er basl að eiga bíl og því miður þá get ég ekki lifað án þess að eiga bíl!
Jæja..nóg nöldur um það. Bíllinn minn er allavega komin með "gullmiða", næsta skoðun er ekki fyrr en í júní 2006. Gaman af því :)

þriðjudagur, mars 01, 2005

Mig langar soldið mikið að fara og sjá þetta...
Húrra!
Mér tókst að leiðrétta mikinn miskilning í dag!
Þess vegna fæ ég fullt af pening í dag...og mikið af þeim :o)
Villi, dragðu fram skærin, mig langar í klippingu!
Bachelorettur, dragið fram vínið og matinn, mig langar að skemmta mér um helgina!
Bifreiðaverkstæði, sendu mér reikninginn, ég get borgað hann!
Tannsi, gefðu mér tíma, ég get mætt allavega 4x í þessum mánuði!
Slembið...