fimmtudagur, desember 30, 2004

Jæja. Hér hafiði það...

Áramóta-annáll Guðríðar árið 2004.

Ég byrjaði árið bókstaflega á því að djamma á Búðarkletti (síðustu áramót) með Sonju og Gvendi og nokkrum öðrum unglingum í Borgarnesi.
Fór svo aftur í skólann á Akureyri og massaði næstu önnina með stæl í hjúkrunarfræðinni, tók hjúkrunarfræði II, líffærafræði II, fósturfræði, lífefnafræði, lífeðlisfræði og tölfræði. Náði öllu með glanz..
Upplifði snjóþungann vetur á Akureyri. Festi bílinn þó nokkrum sinnum á bílaplaninu fyrir utan stúdentagarðinn minn.
Keypti mér digital myndavél og tók myndir af öllum andskotanum.
Gerði vonlausa karlaleit á Akureyri.
Brjálaðir Bifrestingar komu í heimsókn norður og Háværar Hjúkkur fóru í vísindaferð suður; mikið fyllerí.
Straujaði þjóðveginn Akureyri-Reykjavík þó nokkrum sinnum með bílnum mínum.
Tróð upp á árshátíð háskólans með glans og hæfileikakeppni háskólans með óglans...
Búin að fara mikið í hvíta sloppa og hvítar buxur og vinna við ýmsa aðhlynningu. Fór í fyrsta verknámið mitt í hjúkrun á bæklunardeild FSA og það var gaman! Sérstaklega á skurðstofunni.
Fór í tvær fermingarveislur.
Flutti í foreldrahús eftir vorönnina á Akureyri, alein. Bjó semsé í Borgarnesi í þrjá mánuði.
Vann á Dvaló í Borgarnesi um sumarið.
Sendi Hörð Gunnar á sitt fyrsta fótboltanámskeið.
Sonja og Peter komu í heimsókn frá Englandi og Sóley kom í heimsókn frá Færeyjum.
Fór tvisvar til Danmerkur um sumarið. Fyrst á hróarskeldu þar sem ég gékk dauðagönguna með vinum mínum í drullu, þrumum og eldingum og stærstu rigningardropum sem ég hef orðið vitni að.
Svo fór ég aftur til Danmerkur, en þá í fyrstu tónleikaferð Worm Is Green erlendis. Spiluðum á Public Service Festival og tókst vel.
Spiluðum mikið á árinu og diskurinn okkar, Automagic, var gefinn út í júní í USA hjá Arena Rock Recordings!
Söng líka einhvern djazz með pabba á árinu.
Fann íbúð á Akranesi til að vera í næsta vetur. Færði mig yfir í fjarnámið þar. Gerði meðal annars dauðaleit að þvottavél og ísskáp með frystihólfi. Flutti aftur, alein!
Hörður Gunnar byrjaði í 4. leikskólanum sínum, Teigasel á Akranesi.
Fór til Bandaríkjanna, tvisvar!
Fórum fyrst í byrjun september, Worm Is Green, í West-Coast Tour með Ovian í tvær vikur. Flugum til New York og svo til Seattle. Keyrðum svo niður til Portland, Oakland, San Fransisco og Los Angeles. Wicked!
Þann 28. september eignuðust Helga og Helgi hann Huga Baldvin.
Fórum aftur í 4-5 vikur í byrjun nóvember í US-Canada Tour með Solex, OnAirLibrary og Ovian. Fórum hreinlega hringinn í kringum Bandaríkin. Even more wicked!! Það er nú margra blaðsíðna ritgerð að segja frá Bandaríkjaferðalögunum þannig ég fer ekkert nánar útí það.
Missti semsé af fjarnáminu og fór því ekkert í skólann á haustönninni.
Sótti um vinnu til áramóta á Dvalarheimilinu Höfða og var svo lánsöm að geta stokkið beint inn í afleysingar í 6 vikur, eða til áramóta.
Átti góðar stundir með vinum og fjölskyldu á árinu.
Skar hjartað úr mér með skeið nokkrum sinnum á árinu (ástarsorg).
En að öllu leyti, BRILLIANT ÁR!
Ég þakka fyrir mig og óska öllum gleðilegs árs og þakka allt það liðna.
Ég bíð spennt eftir árinu 2005 :)
Hehehehe..
Ég er búin að vera að brasa við soldið hérna á netinu og fann þá þetta aftur. Ég var búin að gleyma hvað þetta var fyndið.
Hehehehe...
En á meðan við höfum það gott á okkar áramótum, þá er sjálfsagt að leggja smá pening í annað en snakk og flugelda líka. Það eru ekki allir sem hafa það jafn gott og við. Ég er því þakklát fyrir það sem ég hef. Ég reyni að leggja fram eitthvað, þó það væri ekki nema hringja einu sinni í þetta númer...

Þeir sem þekkja Akranes þekkja Skagaver. Stór, mannlaus og skrítin verslun. Það fara ósköp fáir þangað að versla. Flest allir eru fastakúnnar hjá Einari Ó. eða þá versla ódýrt í Nettó. Ég ætlaði t.d. áðan að farað versla snakk og osta í Nettó en var fljót að snúa við. Það var hrúga af bílum fyrir utan og engin leið að komast inn. Þá tók ég rúnt framhjá Skagaver. Þar voru 4-5 bílar fyrir utan. Splendid! Ég fór þangað inn og þar var ekki mikið af fólki eins og venjulega en þó eitthvað aðeins meira. Þarna voru hin og þessi tilboð á snakki, gosi og saltstöngum svo eitthvað sé nefnt. Ekki sem verst. Þarna gerði ég nebblilega góð kaup á áramótasnakki, á góðu verði, í friði og ró og engu stressi, í gamla góða Skagaverinu. Húrra fyrir því!

miðvikudagur, desember 29, 2004

Mikið er lagið Five Years gott (með David Bowie). Það minnir mig óneitanlega mikið á þjóðvegi Bandaríkjanna þar sem Brede setti það oft í botn á ipodinum sínum.
En það er líka annað lag sem heitir 5 Years og það er með henni Björk af plötunni Homogenic. Ekki líkt og lagið hans Davids, en mjög flott líka. Hef oft spilað það þegar ég er í fýlu út í stráka sem geta ekki ákveðið sig!!
En nú er ég farin að vinna...ble...
Vitiði hvað ég er spennt. Ég er líklegast ein af fáum sem hlakkar svona obboslega til að fara í skólann eftir áramót. Ég veit að flestir vilja ennþá vera í jólafríinu og hvíla sig meira og borða meira gotterí. En ég er komin á fullt. Leita að bókum fyrir önnina, prenta út stundaskrána, kynna mér kúrsana og margt fleira. Ég er orðin svo spennt að ég get varla beðið :)
Fyrsti kennsludagur er 10. janúar. Snilld! Og vitiði hver kennir fyrsta tímann!? Nei, þið vitið það náttla ekkert og þekkið hann ekkert, nema þið séuð hjúkkunemar í HA. Það er enginn annar en Ingvar Teitsson sem byrjar kennsluna næstu önn með tvo tíma í Lyfjafræði! Veeeiii...Hann er langskemmtilegastur, þó hann sé stundum þvílíkt spes og erfiður. En já....mig hlakkar til. Nú svo fer ég líka norður á önninni og hitti stelpurnar í bekknum aftur! :)
Víííí....

En núna þarf ég að farað drífa mig uppá skaga því ég bauðst til að skipta vakt. Ég tek kvöldvakt í kvöld sem þýðir það að ég slepp við að taka kvöldvakt 3. janúar, sem átti jafnframt að vera síðasta vaktin mín. Næs.
En ég er farin uppá bókasafn fyrst að hitta stöllur mínar þar. Ég þarf líka að skila bókinni sem ég var að lesa um jólin, "Raddir að handan" eftir Marion Dampier-Jeans. Hún er mjög virtur miðill um allan heim. Maður les svona bækur náttla með vara, en það er margt í þessari bók sem útskýrir ýmislegt, t.d. í sambandi við stóra jarðskjálfta eins og gerðist um jólin og atvik eins hryðjuverkin 11. september. Svo talar hún líka um andatrú frá hinum og þessum löndum. Hún talar sérstaklega um það að Ísland sé mjög andríkt land með alla sína álfa og tröll :)

Jæja, ble í bili.

mánudagur, desember 27, 2004

Slef...
Ég rotaðist uppí sófa áðan eins og "TBK" (móðurfjölskylda mín skilur þetta tungumál).
Það er fiskidagur í dag eftir kjötát síðustu daga. Ég fékk soðna ýsu í hádeginu í dag. Svo fékk ég mér rúgbrauð með síld áðan. Núna ætla ég að fá mér ristað brauð með reyktum silung og tesopa. Nammm.
Vó. Ég er svo soðin af þreytu að ég bullaði svo mikinn bulltexta hérna áðan. Ég strokaði hann út. Hann var of persónulegur og mikill áróður í gangi. Veit ekki. Það eru fréttatímarnir sérstaklega sem gera mig stundum reiða.
En ég læt þetta kjurrt og segi bara hmmm...
Jólin eru búin að vera góð. Það er gott að eiga þessar friðar-hvíldar-daga. Ég þakka fyrir það hvað ég hef það gott miðað við marga aðra. Ég tók nokkrar myndir að sjálfsögðu. Og ég var líka svo heppin að sjá glitskýið á jóladag! Vá hvað það var flott! Ég reyndi að taka myndir af því, en það sést ekki nógu vel á myndunum hvað það var flott.
Vonandi á fólk eftir að sjá svona ský einhverntíman, þeir sem ekki sáu það á jóladag. Ég get svarið það. Þetta var í raun eins og tákn frá Guði!
En jámm...það er alltaf að verða að meiri og meiri veruleika þetta áramótapartý á Sóleyjargötunni. Allir voða spenntir fyrir því. Segjum það þá bara, partý hjá mér!!

föstudagur, desember 24, 2004

Gleðileg jól kæri bloggheimur!

miðvikudagur, desember 22, 2004

Damn!!!
Þreyta.is
Ég skal segja...var búin að skrifa hérna ansi þreytta færslu og ég eyddi henni óvart.
Önnur tilraun:
Ég er að baka smákökur. En þær eru á góðri leið með að verða eins og skrímslið sem Særún bakaði um daginn. Ég veit alveg afhverju. Ég er ekki léleg að baka. Ég er góð að baka. Ég er bara dauðþreytt eftir langan dag. Búin að þrífa allt húsið hjá mömmu og pabba hátt og lágt, keyra fram og tilbaka nokkrum sinnum borgarnes_akranes, og svo þetta...baka kökur...
Þetta er bara merki um það að ég eigi að farað leggja mig áður en allt fer til fjandans. Ég er líka að farað vinna á morgun klukkan átta. Djís..
Bestað farað kíkja á kökuskrímslið mitt.

þriðjudagur, desember 21, 2004

Hvað segiði vinir mínir? Er einhver stemming fyrir því að mæta í partý heim til mín á skagann um áramótin?
Jólaundirbúningur, á síðasta snúningi, eða hvað??
Ég svaf út í morgun. Mikið var það nú gott. Vaknaði laus við allan pirring og þreytu, en samt enn með smá kvef. Ég skellti mér því í gott heitt bað og brunaði svo suður á Saloon Laugarvegur 5 í klippingu og litun til Guðveigar frænku. Núna er ég orðin falleg fyrir jólin með aðeins styttra hár og aðeins meiri blondína. Síðan skellti ég mér í smá göngutúr upp Laugaveginn með Særúnu og keypti allar jólagjafirnar einn, tveir og þrír! Búin að því! Ég fíla það að labba Laugarveginn frekar að fara inn í Kringlu eða Smáralind. Það er bara kleppur að fara þangað inn. Á Laugarveginum þarf maður ekki að fara í neinar biðraðir og það er hægt að kaupa allt þar. Plús það að það er alltaf stemming að labba Laugarveginn, eða lúgarvúgur eins og Greg sagði eitt sinn.
Þegar ég kom heim áðan uppgötvaði ég það að ég var eiginlega ekkert búin að borða í dag. Þess vegna eldaði ég mér góðan kjúklingarétt í tilefni þessa góða dags. Svo á ég bara eftir að föndra síðustu jólakortin í kvöld og þá er ég eiginlega búin með allt mitt. Þá er bara að bruna uppí Borgarnes og hjálpa mömmu og pabba með þetta síðasta. Þrífa húsið, skreyta og búa til jólaísinn. Gott mál. Svo þarf ég að vinna á Þorláksmessu, fyrst á Höfða frá átta til fjögur og svo bruna beint uppí Borgarnes og hjálpa mömmu á snyrtistofunni. Svo eru barasta bara komin jól. Hananú!
Gaman gaman...
Ég endurtek; þreyta,kvef og pirringur!
En ég á frí á morgun...hjúkkit.

sunnudagur, desember 19, 2004

Helgin: Þreyta-pirringur-þreyta-hálsbólga/lugnabólga-þreyta-endajaxlaverkir....

En það var æði að sjá Brúðarbandið á föstudaginn :)

föstudagur, desember 17, 2004

Mikið er alltaf gaman að fara í gegnum gamlar myndir. Særún á alltaf gott myndasafn.
Þessi mynd er t.d. í miklu uppáhaldi hjá mér...hehehe!
Elsku Sigga frænka mín á afmæli í dag! Í tilefni þess er ég búin að hlaupa upp og niður stigann frammi (hreyfa mig) vaska upp, laga til og henda drasli sem ég þarf ekki að nota! Hún skilur þetta...
Innilegar hamingjuóskir með daginn S.is

Ohh! Ég er svo mikið hræ núna! Ég er komin með rífandi hálsbólgu og þegar ég tala um rífandi, þá meina ég rífandi. Það er nefnilega eins og hálsinn á mér sé að rifna þegar ég hósta. Sviði og sársauki og ég get ekki gert annað en að fá mér heitt te með hunang.
Ég get náttla skriðið aftur uppí rúm með trefil um hálsin og hlýjað mér...pæling.
Tja...hef náttla ekkert að gera núna, nema jólakortin. En ég verð að vera hress í kvöld. Brúðarbandsafmælið mar!!

fimmtudagur, desember 16, 2004

Jólaseríuæði.
Nú bý ég í íbúð sem er með frekar marga glugga. En ég á nokkrar litlar jólaseríur þannig að ég er með sex litlar seríur í sex gluggum. Ég skil semsagt tvo glugga auða eftir, einn inná baði og hinn frammi á stigapalli. Fyrir neðan mig eru tvær íbúðir og svo er bílskúrinn þeirra hérna fyrir utan. Það eru ein til tvær seríur í hverjum einasta glugga hjá þeim hérna niðri, plús það að það eru seríur í öllum gluggum í bílskúrnum (3 stórir gluggar). Svo eru svona allskonar snúruvafningar og læti meðfram þakinu á bílskúrnum, grindverkinu og á svölunum. Plús stór marglituð sería í einum runnanum úti í garði. Það er semsé mjög vel upplýst húsið sem ég bý í með marglituðum seríum.
Já, semsagt, þau eru líka búin að setja seríur í gluggana í stigaganginum. Svo kom konan á hæðinni fyrir neðan mig og spurði mig alvarlega hvort þau mættu nokkuð setja eina seríu í gluggan á stigapallinum mínum?! Ég sagði bara jájá...
Það hlýtur að hafa pirrað þau eitthvað að sjá þessa tvo seríulausa glugga á minni hæð. Þau geta sett þessa seríu á stigapallinn minn, það er bara krúttlegt (bara allt í drasli á stigapallinum). En þau geta nú ekki farið að setja seríu í gluggan inná baði. Ég ætla ekki að deyja úr raflosti í baðinu eitt kvöldið...

Það er nú meira þetta seríuæði í fólki!
Og hvað er í kvöld?Jú, mikið rétt. Scrubs! Víííí....
Úff. Ég var að koma úr barnaafmæli þar sem var mikið af kökum og kaffi og nammi og gosi og jú neim it! Núna er ég komin með magapínu og langar bara að liggja uppí sófa í allt kvöld. Sem betur fer á ég frídag á morgun. Ég verð líka að vera hress fyrir Brúðarbandsafmælið! Allir að mæta!!
Hörður Gunnar er komin með jóla"klippinguna"

Mikið rosalega er kalt úti! Rosalegt! Það voru þrír galopnir gluggar í nótt og því var íbúðin eins og frystikista þegar ég vaknaði í morgun! Ískalt. Fór inná bað, þar sem eru flísar á gólfi og þær voru rooosalega kaldar! Og fötin sem ég var búin að taka til fyrir daginn, þau voru ísköld! Eldhúsið var hryllilega kalt! Galopinn gluggi þar. Það er ennþá kalt þar núna, tveim tímum eftir að ég lokaði glugganum! Fór sko út í morgun með H.G. í 5 ára ungbarnaskoðun. Það var svoooo kalt á leiðinni að ég hélt að beinagrindin í mér myndi stirðna á staðnum þegar ég tók skref út í kuldann! Svo var mikill vindur og maður fékk þetta ískalda loft allstaðar inn um allar smugur. Þó ég haf sett trefilinn nokkra góða vafninga utan um hálsinn, húfuna niður á herðar, vettlinga yfir jakkann, girt bolinn undir lopapeysunni oní buxurnar, þá kemst alltaf kuldi inn að skinni!
Úff...þetta var erfiður morgun!

miðvikudagur, desember 15, 2004

Mikið rosalega var ég falleg þetta kvöld.
Aahh...
Ég get svarið það. Ég fékk magapínu á því að horfa á 5 mín af Bachelorette!
Ég gæti ælt!!
Oj bara...
Klár stelpa. Já, já...
Ég hef allt of mikið að gera þessa dagana. Þá er ég kannski ekki að meina einhver skylduverk. Heldur fullt af allskonar hobbýum sem ég er búin að raða í kringum mig, því ég er ekki í neinum skóla eða prófalestri þessa önn. Ég er til dæmis búin að setja jólakortin í einhverja frystingu, nenni bara einfaldlega ekki að föndra meir þessa dagana. Eins sitja skóteikningarnar mínar líka á biðlista. Það nýjasta þessa dagana er að læra á tvö forrit sem Árni Teitur lét mig fá.
Fyrst er það forrit til að semja einhverja múzík. Hann Árni sagði að það væri nú kominn tími til að ég reyndi að minnsta kosti að prófa að semja eitthvað sjálf. Ég hef aldrei prófað það. Ég ætti nú að hafa erft einhver "composing" gen frá honum pabba mínum þar sem hann hefur verið að semja múzík síðan hann var unglingur.
Hitt forritið er eitthvað videoklippiforrit. Þá hafði ég hugsað mér að taka allar myndirnar úr Bandaríkjaferðalögunum og raða saman, setja múzík saman við og búa til litla stutt mynd.
Svo tekur náttla hellings tíma að læra á þessi tvö forrit. En ég er ansi dugleg að fikta mig áfram í svona dóti. Þarf bara að vera þolinmóð...
Svo á ég eftir að skreyta piparkökuhúsið og baka eina sort.
Svo ætla ég að lesa tvær eða þrjár bækur.
Nóg að gera.
Hvar á að byrja?
Ég er allavega þreytt núna. Byrja á að leggja mig aðeins á meðan H.G. horfir á barnatímann...
Attention!
Attention!
Hverjir koma með mér??

mánudagur, desember 13, 2004

Það munaði mjóu að ég hefði hreinlega sofnað í baðinu áðan. Ástæðan er sú að fyrir utan að hafa verið pínu þreytt eftir þeyting dagsins, þá lánaði Árni Teitur mér snilldar diska. Ég var einmitt að hlusta á einn sem heitir "Putting The Morr Back In Morrissey" sem er tvöfaldur safndiskur frá Morr-múzík! Algjör snilld sá diskur...
Hmm..held ég eigi smá bland í poka einhverstaðar hér til að mjóna mér á. Horfa svo kannski bara á smá video. Hvernig væri það?
Ég er búin að grenja og pissa á mig, vegna þess að ég er búin að hlæja svo mikið að jólaskrautinu í Borgarnesi! Ég tók nettan rúnt í gegnum helstu göturnar (þær eru nú ekki svo margar) og sá ljótari og ljótari skreytingu með hverju húsi!
Kannski ekki alveg, en það eru allaveg 5 hús, mjöööög ílla skreytt. Ég hvet alla sem eru ekki Borgnesingar að taka rúnt í gegnum Borgarnes og reyna að finna þessi fimm hús og koma svo með uppástungu, hvaða hús fái verðlaun fyrir ljótasta og hallærislegasta skrautið!
En Skagamenn eru ekkert heilagir heldur. Ég er líka búin að sjá helling af ljótu jólaskrauti hérna. Ég á bara eftir að taka alminnilegan rúnt á skaganum til að athuga þetta betur. Ég þyrfti svo að muna eftir myndavélinni minni og reyna að taka myndir af þessu ljótasta, bæði úr Borgarnesi og Akranesi, fyrir þá sem ekki komast í þennan rúnt og skoða!
Ég er samt alveg viss um að þetta sé ekki bara einungis á þessum tveim smábæjum. Held nú síður. Ég er nú búin að vera rúnt fram og tilbaka til Reykjavíkur og búin að sjá helling af viðbjóðslegum skreytingum.

Fór semsagt suður í dag og heimsótti Árna. Við tókum svolítið upp og hann lét mig fá eitthvað undur í tölvuna mína svo ég geti sjálf dundað mér við það í frítíma mínum að semja einhverja tónlist. Ég ætla að reyna að fara aftur suður á morgun (ef veður lofar) og taka meira upp og jafnvel skjótast í jólapakkaleiðangur í Kringluna.
Geir ætlar allavega að taka strákinn á morgun og vera með hann næstu nótt, þannig ég þarf ekkert að drífa mig heim. Bara mæta á morgunvaktina á miðvikudaginn :)
Það besta við Living Daylights er að hún er rómantísk. Hann heldur sig við eina konu og virðist vera mjög ástfanginn af henni. Fæ stundum ógeð á þessum glaumgosa-stælum og klobba-klobbason látum í Bond.
Svo er náttla A-ha með stórkostlegt lag í þessari mynd :)

sunnudagur, desember 12, 2004

Það voru bakaðar piparkökur í gær. Ég sat bogin og vandvirk yfir þeim allan daginn og skreytti og skreytti með öllum regnbogans litum. Ég bjó líka til piparkökuhús. Ég náði samt ekki að klára það því ég var orðin ansi þreytt eftir málarahangsið allan daginn. Náði þó að líma það saman og á því bara eftir að skreyta það með glassúr og glimmeri.
Ég horfði síðan á "Night at the Roxbury" og "Bridget Jones" eftir erfiðið. Það þýddi það að ég fór að sofa með bros á vör. Góðar myndir. Hafði aldrei séð Bridget Jones og ég skil nú hvað allar vinkonur mínar voru að tuða yfir mér hverju ég væri að missa af.
En allavega, þá klikkar Will Farrel heldur aldrei :) Verð að nálgast best of efnið hans heima hjá Árna!
Ég fór svo suður með möm og pab og bro og HÖ, skiljiði? Við tókum rúnt í gegnum Kringluna. Keypti ekki nema einn hlut. Annars var ég bara að skoða og átta mig á því hverjum ég ætla að gefa hvað. Það er annars kleppur að fara og reyna að versla á þessum tíma. Ég ætla frekar að fara suður núna í vikunni því ég á frí þangað til næsta miðvikudag. Þá ætla ég að fara helst fyrir hádegi og stússast í jólagjafaveseni. Ein og í friði..muhahaha!
Við heimsóttum líka Guðbjörgu ömmusystir í þessari ferð. Það þurfti nú ansi lítið til að gleðja hana. Bara rétt að stinga hausnum inn. Skrítið samt hvernig það er að hitta sína eigin ættingja (með Alzheimer) þegar maður er búin að vinna svo mikið með svona sjúku fólki. En hún er svooo hress alltaf þegar maður hittir hana. Það sést allavega ekki á henni að henni líði illa. Ó nei, heldur brosar hringinn og syngur þegar hún sér mann. Sætt :)
Síðan lá leiðin á þennan stað. Jómfrúin tók vel á móti okkur. Svo vel, að okkur leið öllum eins og við værum komin aftur "heim" til Danmerkur. Fengum okkur ekta danskan jólamat og tókum það með ró. Síðan keyrði ég hingað uppá Skaga og Jóhann tók svo við og keyrði restina uppí Borgó, á meðan mamma og pabbi sváfu bæði, södd og sæl, bæði gapandi af þreytu, aftur í.
Núna er bara gott tjill í gangi. Kannski maður taki smá föndur í kvöld. Nenni því nú samt varla. Ég veit bara að ég ætla að horfa á Timothy Dalton í kvöld...grrr! Hann var og er alltaf flottasti Bondinn. Ég bara kolféll fyrir augunum :)

laugardagur, desember 11, 2004

Ja hérna jamm og jæja!
Lenti í aldeilis óvæntu kvöldi í gær. Ég sem ætlaði bara að klára mína kvöldvakt klukkan tólf og fara svo uppí Boringnes og gista þar. En haldiði ekki bara að hún Hrund vinkona hafi hringt í mig og tilkynnt mér það að hún væri stödd á Skaganum! Það var ekki spurning, við urðum að hittast á kaffi Mörk! Og svei mér þá, það var æðislega gaman að hitta hana. Sérstaklega þar sem ég hef ekki hitt hana Hrund alminnilega í langan tíma. Það var semsé alveg kominn tími á þetta reunion! Það var blaðrað langt fram á nótt um heima og geima og við fórum sáttar heim að loknu kvöldi :)
Nú er ég hinsvegar komin uppí Boringnes og er að bíða eftir mömmu því við ætluðum að baka alveg heilan helling í dag. Jebb...svo förum við suður að búðavesenast á morgun og skellum okkur svo í smörrebröð hjá jómfrúnni eftir daginn.
"Så er det pigetur i byen!"

föstudagur, desember 10, 2004

Það eru bara jólakortin fram að næstu kvöldvakt. Ömurlegt annars að vera á kvöldvakt á föstudagskvöldi þegar maður á helgarfrí! Ég huxa að ég fari uppí Borgarnesi eftir kvöldvaktina því ég ætla að baka smákökur á morgun. Mamma er með miklu betri ofn en ég. Ofninn minn titrar og blikkar augunum þegar hann er í gangi!? Svo þarf líka pabbi að sækja drenginn í leikskólann í dag og fara með hann uppí Borgarnes. Ég þarf nú að vera hjá drengnum mínum eitthvað. Annað hvort er ég að vinna eða alltof upptekin við eitthvað annað. Nútímafólk í dag hefur alltof lítinn tíma til að vera með börnunum sínum. Maður þarf víst að reyna að gera eitthvað til að geta lifað af og borgað reikninga og keypt mat. Það kostar tíma. Frítímí verður því lítill...
Röfl.

Annars er góður dagur í dag. Hann Villi á afmæli. Til hamingju með það Villi minn.
Þú ert flottasti og bestasti bassaleikari í heimi.

Ég ætla að gefa þér flengingu í afmælisgjöf!

fimmtudagur, desember 09, 2004

Ég held að ég sé búin að taka endanlega ákvörðun um næsta vetur hjá mér.
Ég og mamma erum búnar að skeggræða mikið hér í dag og í gær og svosem alla aðra daga. Það er gott að hafa mömmu og pabba að, þau hjálpa mér ÓENDANLEGA mikið og ég get aldrei þakkað þeim nógu vel fyrir það.
En málið myndi þá vera þannig að Hörður Gunnar mun fara í Grunnskóla Borgarness næsta vetur. Ég mun færa mig yfir í HÍ, hvernig sem ég fæ það nú metið inn, en þá verður bara keyrt á milli og Guð má vita það að ég er vön að keyra allan andsk....
Ég mun þá kannski reyna að leigja mér lítið herbergi eða litla íbúð til að geta dvalið í og lært í friði í miðri viku. Annars mun ég bara eiga heima hjá mömmu og pabba, spara pening, því það er FOKdýrt að leigja í Rvík!
Ekki vil ég farað flytja mig og H.G. suður og láta hann fara í skóla í Reykjavík. Hann á enga vini þar (hann á vini í Borgarnesi og Akranesi), plús að að honum leiðist að vera í Reykjavík, sérstaklega þar sem við búum bara tvö ein og ekkert gerist í kringum okkur. Það er basl að vera tvö ein.
Tja...það er nú kannski ekki alltaf leiðinlegt hjá okkur. En ef hann verður í Borgarnesi næsta vetur, þá er fullt af fólki í kringum okkur til að hjálpa okkur í sambandi við pössun og margt fleira. Ég get því miður ekki reytt mig á suma... það er alveg gagnslaust, þó svo ég búi meira að segja í sama bæ og næstum því í næsta húsi við suma, þá geta sumir ekki hjálpað til!
Jæja...best að farað drífa mig útá Skaga aftur því það er kvöldvakt í kvöld. Og ég er búin að redda pössun fyrir Hörð Gunnar eftir langan kvíða og stress. Það er nebblilega jólaskemmtun í leikskólanum hans á morgun og ekki vil ég láta hann missa af því. Guði sé lof fyrir henni Hörpu Harðar! :)

Hver veit...kannski fæ ég bara mann í jólagjöf frá jólasveininum til að vera hjá okkur Herði Gunnari?! Ég er búin að senda óskalista til hans...

miðvikudagur, desember 08, 2004

Myndirnar eru allar að koma aftur í ljós.
Hægt og rólega...
Ég er búin að setja beina linka inn á hvert albúm.
Ég er sniðug stelpa!
Það á eftir að koma meira og meira...
Ég skellti mér óvænt suður til Reykjavíkur í morgun með mömmu og pabba. Þau þurftu eitthvað að vesenast í IKEA og Rúmfatalagerinn og mamma þurfti aðeins að kíkja til tannsa. Fórum fyrst til tannsa þar sem þurfti bara að taka eina mynd af tönnunum. Ég átti mjög í vandræðum með að hemja hlátur minn þar sem mamma gretti fram tennurnar sínar framan í einhvern útlenskan dreng sem skildi ekkert í myndavélinni. Hann tók fleiri og fleiri myndir og alltaf voru þær úr fókus (sennilega að því að mamma fór alltaf að hlæja eftir hverja grettu).
Nú jæja, svo skelltum við okkur í heimsókn til Inga Vilhjálms og skoðuðum margt á heildsölunni hans. Ég fékk mér þar ýmislegt dót eins og hárklemmu, armband, sokka, reykelsi, eyeliner og mitt langþráða svarta ponsjo! Alltaf gott að kíkja til Inga. Svo býður hann manni líka alltaf uppá te eða kaffi og hrökkbrauð með osti.
Næsta stopp var svo Rúmfatalagerinn, þar sem allt er í drasli og leiðinleg tónlist í hátölurunum. Ég skellti mér á enn eina jólaseríuna í glugga og svo fann ég nokkrar "skógjafir" handa Herði Gunnari. Svo er ALLTAF leiðinlegt starfsfólk í Rúmfatal. Stúlkan á kassanum sem afgreiddi mig var greinilega að DREPAST úr leiðindum þar sem hún hallaði sér að kassanum eða borðinu til skiptis með annarri hendinni til að styðja við höfuðið og ranghvolfa augunum. Síðan var mamma að reyna að spyrja hana að einhverju og það tók nokkrar sekúndur fyrir hana að tengjast jörðinni til að geta svarað. Og hún svaraði náttla að hún vissi ekki neitt... Svo spurði hún hvort ég vildi poka á meðan ég var að baslast við eitthvað í töskunni minni heillengi og ég játaði pokanum. Hún henti pokanum á borðið og hallaði sér svo aftur í stólnum með krosslagðar hendur og horfði á mig baksla með töskuna (ég var að flýta mér því það var mikil röð á eftir mér), í staðin fyrir að setja þetta örfáa sem ég keypti í pokann fyrir mig! Það endaði náttla með því að ég VARÐ bara að spyrja hana:
"Leiðist þér svona mikið í vinnunni vænan?" Og hún svaraði:
"Ehhh...nei, ég er bara svo þreytt.." Þá sagði ég henni að hún þyrfti nú að fá sinn átta tíma svefn á nóttunni til að geta lifað daginn af, þakkaði svo fyrir mig og kvaddi.
Svo fórum við beint í IKEA og röltuðum þar góðan hring með stoppi í mötuneytinu. Einhverntíman verður maður að sættast við svíana og þess vegna fékk ég mér sænskar kjötbollur í hádegismat og glas af Egils appelsíni, sem ég svo svelgdist alveg hrillilega á í miðjum matnum og hóstaði og varð eldrauð í frama og allir horfðu á mig. En það var nú samt gaman í IKEA, alltaf gaman þar reyndar. Ég keypti mér tvo kolla þar sem ég á svo lítið af stólum. Það er alltaf vandamál að fá gesti í heimsókn vegna stóla-leysis. Það er líka hægt að nota kollana sem lítið hornborð undir blóm eða hátalara því þeir eru mjög klassískir í útliti og ferkantaðir. Svo keypti ég líka eina jólastjörnu. Ég ætla nefnilega að þurrka af, ryksuga og skúra hjá mér í dag og stilla svo jólastjörnunni pent uppá borð eftir hreingerninguna.
Klukkan tifar.
Hreinleiki og skítur fer ekki saman.
Ég er farin að þrífa!
Jæja. Þá er ég búin að laga soldið til hjá mér og komin með nýja myndasíðu. Ekkert kjaftæði lengur.
Ég er semsé búin að vera að dunda mér við það á þessum vaktafrísdegi að setja inn eitthvað af myndum. Ég tók að sjálfsögðu fyrst myndirnar frá US ferðalögunum okkar.
Þetta tekur náttla langan súran tíma, en það jákvæða við þetta er að ég skoða allar myndirnar aftur og rifja upp í leiðinni, hvað það var nú helv.. skemmtilegt í þessum ferðalögum okkar! :)
Erum við Bibbi ekki sæt hérna. Ég átti einmitt afmæli þennan dag í Seattle.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Hahahaha!!
Ja hérna. Ég get ekki sagt að ég sitji aðgerðarlaus núna eða hringsnúist um á gólfinu með þráhyggju. Ó nei. Það er nóg að gera. Þó að ég hafi tekið mér pásu frá jólakortunum, þá er ég á fleygiferð.
Ég er nefnilega að byrja á því að hlaða öllum myndunum mínum (sem ég blessunarlega geymdi á öðru skjali hérna í tölvunni) sem eru dottnar út því xphotoalbum síðan er dottin út. Jebb... allt horfið. Glatað!
En ég fann nýja myndaalbúmsíðu, sem er flottari og fljótari og er því að dúttla mér við þetta á næstunni.
Stöndum saman Ragnheiður!!

mánudagur, desember 06, 2004

Ég þoli ekki þegar eitthvað er á fleygi ferð í hausnum á manni. Semsé, maður er stanslaust að hugsa um einhvern eða eitthvað og getur ekki annað. Ég er búin að væbblast um í hálfgerðu eirðarleysi og hugsa og hugsa. Svo reyni ég að setjast niður og föndra jólakortin áfram. En þá er ég að hugsa svo mikið að það kemur enginn andi yfir mig til að föndra þessi kort og ég stend því aftur upp og fer að hringsnúast um á gólfinu.
Iss...ljótt að vera svona. Heitir þetta ekki þráhyggja???
Ég held ég fá mér toblerone og ískalda mjólk í glas og reyni að setjast niður og horfa á CSI á eftir!
Ungverjaland 2005!!!
"Ég heiti Sherlock Holmes. Kalliði mig bara Sherlock..."

Já, það er búið að vera mikið að gera og nú er ég komin í þriggja daga frí. Næs.
Ég fékk semsé breytt vaktinni minni þarna á laugardaginn sem gerði það að verkum að ég komst suður í afmælið hennar Sessu. Hinsvegar þurfti ég allt í einu að bæta inn í reikninginn nokkrum ferðum uppí Borgarnes með strákinn í pössunn þar sem Geir gat ekki verið með hann. Þannig það var ekki mikið um það að "leggja sig aðeins" fyrir helgina. Ég vann kvöldvakt á föstudeginum og svo morgunvakt á laugardeginum. Brunaði svo hratt uppí Borgarnes eftir það með strákinn í pössunn og fór svo aftur heim á skagann og fór í fljótasta bað í heimi. Mér tókst þó að gera mig sæta á mettíma og fór svo til Reykjavíkur og beint til Sonju.
Afmælið var síðan æði. Það var haldið á Kambsveginum, heima hjá foreldrum Sessu og mikið af skemmtilegu fólki. Eftir mikið pinnamatarát og bolludrykkju, þá ákváðum við Sonja, Særún og Jóhanna að skella okkur DOWNTOWN (en þó ekki með Mrs. Miller).
Þar fórum við á Kaffibarinn og fórum svo bara ekkert annað, heldur héldum okkur þar þangað til lokun! Það var mergjað stuð og dansað og sungið og baðað sig í nokkrum lítrum af bjór og öðru áfengi sem skvettist yfir mann á þröngu dansgólfinu með reglulegu millibili.
Kvöldið endaði svo óvænt þar sem Otto góðkunningi og tveir aðrir mættu heim til Sonju í smá spjall, gítarglamur og söng. Klukkan var síðan orðin ALLTOF margt þegar við fórum að sofa! Þannig að það var lítill svefn fyrir næstu vakt sem var klukkan fjögur í gær. En svo þurfti ég nefnilega að keyra uppí Borgarnes eftir kvöldvaktina (kl tólf!) og gista þar, því ég þurfti svo að vakna klukkan sjö í morgun og keyra með Hörð Gunnar í leikskólann...ehh... *geisp*
En ég gat svo skriðið uppí rúm og steinsofnaði aftur og svaf alveg til tólf. Nú er ég síðan að endurnæra mig með rúgbrauði og síld og góðum tesopa. Síðan er mál að halda áfram með jólakortin, en þau þurfa bráðum að fara í póstinn!

Í öllum þessum hamagangi, þá náttla gleymdi ég myndavélinni minni. En hún Særún snillingur er náttla líka með myndavél og gleymdi henni ekki á laugardagskvöldið!
Myndir eru því hér.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Ég gat skipt kvöldvaktinni minni á laugardaginn næstkomandi yfir í morgunvakt!
Sem þýðir það, að ég mun líklegast geta glatt hana Sessu með nærveru minni í afmælinu hennar á laugardagskvöldið. Ég býst við því að Geir hafi drenginn hjá sér. Hann er jú heima hjá sér um helgina. Tilvalið!

Víííí...Scrubs í kvöld!
:o)

miðvikudagur, desember 01, 2004

Gvöð minn almáttugur. Ég tók fyrir andlitið, hló inní mér og skammaðist mín líka fyrir hann Kristján Jóhannsson í Kastljósinu áðan!
Það er oft stuð að horfa á Kastljósið :)

Ég er að spá í að klippa mig stutt fyrir jólin...hvað segiði um það?
Mohahaha..það er svo gaman að búa til jólakort!
Ég er búin að vera á fullu í föndrinu í dag. Ég er nú samt ekki að föndra nein hefðbundin jólakort. Þau eru alveg eftir mínu eigin höfði og stundum ekkert jólaleg...bara fyndin. Hlakkar til að senda þau. En þetta er samt þvílík vinna! Kannski næ ég ekki að klára þetta fyrir jól!!
Það er annars búið að bjóða mér í þrítugsafmæli til Reykjavíkur næsta laugardag. Mig dauðlangar að mæta, en það er ekki víst að ég geti það. Fyrst og fremst er ég að vinna kvöldvakt á laugardaginn og þekki fáa sem geta skipt við mig. Svo vantar mig náttla alltaf pössun...
Annars verð ég bara að senda henni Sessu frænku afmæliskveðju ef ég kemst ekki :(
Hér erum við Sessa verðandi afmælisbarn í velkomupartýinu mínu heima hjá Sonju.
Sætar, ekki satt??