þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Ohh..hvað mér líður vel. Og ef þið þekkið mig vel þá hljótið þið að vita afhverju.
Jú, mikið rétt. Ég fékk mér rosalega gott að borða í kvöld, það er allt hreint og fínt hjá mér, hreint á rúminu, jólaseríur í öllum gluggum, kertaljós líka, ég nýkomin úr ilmandi góðu baði og ég veit að ég á gullost og hindberjasósu og ritzkex...
...þannig líður mér best :)
Í kvöld er það kjúklingur með kóríander, lime og avocado...nammmmm!
Húrra fyrir borvélinni hans pabba, því loksins, loksins er sófaborðið mitt komið á sinn stað! Og ég skal segja ykkur, það var bara heilmikið basl að koma þessu saman! Ég er vön og góð í því að setja saman ýmislega hluti frá IKEA og fleirum og alltaf gengið vel og ég hef gert það ein og óstudd. En aldrei, aldrei hef ég orðið eins reið út í einn hlut! Ég bölvaði svoleiðis borðinu í sand og ösku og breyttist í hina verstu norn eða grýlu á meðan ég var að setja þetta saman. Eins gott að Hörður Gunnar var ekki heima... eða bara að nokkur skuli hafa heyrt í mér.
En þetta tókst og borðið lítur svo vel út í stofunni minni. It really ties the room together, with the rug of course...
Ég er svo búin að fara í gegnum allskyns drasl hérna heima og henda og henda. Svo henti ég upp nýjum seríum, 3 í viðbót, svo nú er ég með 6 seríur tótal heima hjá mér. Jólastemming. En mér finnst þetta allt í lagi þar sem ég verð ekki með neitt jólatré eða jólagardínur heima hjá mér. Ég á ekkert annað jólaskraut. Ég sæki það bara heim til mömmu og pabba, en ég mun jú eyða jólunum mínum þar með Herði Gunnari.
Ég komst yfir fullt af gömlum blöðum og tímaritum í gegnum þessa drasl hreinsun. Margar myndir af hinum og þessu. Nokkur blöð af Orðlaus þar sem er mikið af myndum af myndarlegum strákum...
Ég er alltaf jafn skotin í Frosta í Mínus.

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Þynnka!
Já, ég var að vinna kvöldvakt í gær og bjóst ekki við neinu sprelli eftir það. En vaktin var róleg og góð og ég komst í kaffihúsaskap. Þess vegna hringdi ég í Árna Teit og hann kom uppá skaga til að fara á kaffi Mörk með mér eftir vaktina.
Árni, ég elska þig!
Á kaffi mörk hitti ég skemmtilegt fólk og þar má nefna helst hann Óla minn sem ég hafði ekki hitt í langan tíma. Það var svoooo gaman að sjá hann og tala við hann og syngja með honum og öskra með honum og hlæja með honum og og...allt!
Óli, ég elska þig!
Síðan bauð ég Árna og einhverjum guttum heim eftir lokun (þar sem ég bý rétthjá) og þar blöðruðum við lengi lengi um allt milli himins og jarðar, en þó mest um hitamál eins og forsetakosningar Bandaríkjanna, barnaníðinga og nútíma fréttir. Jamm...rjúkandi umræður! En skemmtilegt kvöld.
Vaknaði svo alveg hrikalega þunn (hef ekki upplifað svona þynnku í langan tíma) og skellti mér því í gott bað til að fríska upp á mig og fór svo uppí Borgarnes. Ég er svo búin að verað hjálpa mömmu að hengja upp jólaseríur í allan dag.
Trallalalalaaa..
Ég er komin í gott jólaskap :)

föstudagur, nóvember 26, 2004

Tónleikarnir í gær voru algjör snilld! Fólk fjölmennti og klappaði okkur upp með hrópum og látum. Við fórum síðan ánægð í kaffi til Brimrúnar ofurmömmu (mömmu hans Villa) þar sem hún beið með rjómatertur og heitt súkkulaði handa okkur. Svo fórum við seint að sofa og ég vaknaði svo frekar þreytt kl 7 í morgun og fór að vinna og það var nóg að gera í vinnunni.
Núna er ég þreytt og pirruð og er að láta nokkrar manneskjur á þessu landi fara mikið í mínar fínustu taugar þessa dagana! Þoli það ekki.
Mig langar út að skemmta mér...

En ég vil þakka öllum sem komu á tónleikana fyrir góðar undirtektir.
Vonandi getum við endurtekið þennan leik fljótt aftur :)

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Haldiði að ég hafi ekki látið plata mig í það að vinna á laugardagskvöldið? Iss..
Ég bara get ekki sagt nei.
En ætlar annars ekki fólk að mæta í kvöld?

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Ég minni fólk á það að ég er alltaf að setja fleiri og fleiri myndir inn á nýja myndalinkinn, gamlar myndir. Ég er búin að skemmta mér konunglega yfir þessu.
Ahh...það er alltaf svo gaman hjá mér!
Annars er ég búin að bæta fleiru en borvélinni á óskalistann fyrir jólin.
Nýji diskurinn með Nancy Sinatra þar sem hún kemur fram með hinum bestu tónlistarmönnum. Langar svooo mikið í...
Finnst engum þessi tvö plötucover vera soldið lík?


þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Ohh...mig vantar borvél!!
Hvað á maður að gera við alla þessa frídaga milli vakta víst maður er ekki í neinum prófum núna? Ekkert að gera? Jú, nóg að gera, en samt tími til að gera það sem ég hef ekki gert í langan tíma. Það er; baka jólakökur og búa til jólakort.
Jebb...ég er komin í jólaskap, enda styttist í fyrsta sunnudag í aðventu. Ég er búin að setja upp tvær seríur, eina í herberginu mínu og eina hjá Herði Gunnari. Svo er ég búin að finna uppskriftina að uppáhalds jólasmákökunum og líka einu jólasmákakan sem ég borða. Lakkrískurlmaregnstoppar! Nammi namm. Svo ætla ég jafnvel að hjálpa mömmu og búa til Tobleroneísinn þessi jól þar sem ég mun eiga slatta af eggjarauðum eftir þessa maregnstoppa. Síðan fór ég uppá Bókasafn til Evu og fékk að gramsa í gömlum tímaritum og fann nokkur tímarit frá '80 tímabilinu sem ég mátti hirða. Ég held ég hafi aldrei skemmt mér eins vel og þegar ég föndraði jólakortin ein jólin með þessi tímarit. Þannig að vinir mínir góðir, þig megið búast við skemmtilegum jólakortum í ár :)
Svo er ég looooksins komin með sófaborðið mitt! Fór óvænt til Reykjavíkur í dag og hitti Árna Teit. Við ræddum málin og ætlum líka að hittast á morgun og taka eitthvað upp. Ég skellti mér líka í Skífuna og gat ekki staðist tveir fyrir tvöþúsund diskana og keypti mér fjóra diska! Enda hef ég ekki keypt geisladisk í háa herrans tíð sem er náttla bara hneyksli. Ég keypti mér bara gamla diska. Nirvana, tvo R.E.M. diska og svo einn gamlan jóladisk með þeim Guðrúnu Á. Símonar og Guðmundi Jónssyni. Gæti ekki verið betri jólastemming í því, hehehehe!
Svo skellti ég mér uppí Borgarnes í kvöld, enn eina ferðina og skellti upp nokkrum auglýsingum um tónleikana okkar á fimmtudaginn. Ég vona að það mæti eitthvað af fólki því að það er alveg heilmikið annað um að vera á þessu sama kvöldi. En hjá honum pabba mínum komst ég yfir 5 gamla diska með Niel Young og einn með Joni Mitchell sem ég er nú búin að verað hlusta á í allt kvöld og er í góðum fílíng vegna þess.
Þau Young og Mitchell klikka ekki...

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Má ég kynna; roskilde festival 2001. Besta hróarskeldan sem ég hef farið á!
Jæja. Haldiði að ég hafi ekki skellt einum enn kaflanum í gamla myndalbúmið. Kannski ekki svo gamalt, en þó einhver ár.
Það eru myndir frá Kántrýhátíð 2001 sem var alveg mjög hressandi verslunarmannahelgi. En maður var hinsvegar komin með alveg nóg og næstum ógeð af kántrý á mánudeginum þegar maður var að fara heim...

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Er stödd hérna heima hjá mömmu og pabba og er að fara að borða slátur!! Jibbííí...
Hvítur jafningur og rófur með. Nammi namm..
En á meðan ég hef verið að bíða hérna, tók ég mig til og fór að skanna gamlar myndir inn. Ég er nú búin að búa til myndaalbúm fyrir gamlar myndir. Fyrsti kaflinn í því albúmi eru myndir frá skemmtilegustu útileigu sem ég hef nokkurn tíman farið í. Þar voru með mér Sonja (Best í heimi!), Drífa, Árni og Pétur.
Svo á eftir að koma fleira gamalt og gott. Þarf bara að velja nokkrar myndir úr þessum albúmum því þetta er náttla alveg heill hellingur af myndum.
Athugið!
Ahh...
Það er ekkert eins gott og að fá sér gott te og svo hrökkbrauð með osti og tómutum og gúrku, eftir erilsama kvöldvakt á dvalarheimilinu.
Vantar bara einhvern til að nudda fæturnar mínar núna.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Já, svo á hún Marta smarta afmæli í dag og ég óska henni til hamingju með það.
Hún er líka dugleg stelpa að læra hjúkrunarfræði.
Ég vona að hún komist áfram í gegnum clausus, því ef ég skipti yfir í HÍ næsta vetur, þá verðum við í sama bekk :)
Ég er búin að vera skrifstofukona dauðans í dag með hárið sett upp í hnút og gleraugun framarlega á nefinu og pikka í tölvu og skrifa niður punkta og ýmislegt fleira í blokkina við hliðin á mér. Já, ég er að redda svo mörgum málum sem ég er búin að vera að reyna að redda síðan ég kom heim frá Bandaríkjunum og núna einhvernvegin tókst það allt. T.d. með bankavesenið mitt. Mikið óskaplega er ég fegin að vera í sparisjóð mýrasýslu þar sem allir þekkja alla og vilja allt fyrir mann gera og redda hlutunum fyrir mann á auðveldan hátt. Svo á ég líka frænku hjá LÍN sem auðvelt er að hringja í og láta redda málunum fyrir mann. Jebb. Allt lítur vel út núna, eins og ég segi alltaf (að hætti ömmu minnar frá Færeyjum sem er alltaf jákvæð og bjartsýn):
"Þetta reddast allt saman! Engar áhyggjur."
Svo er ég núna að fara á fyrstu kvöldvaktina mína í kvöld. Líst bara vel á þessa vinnu uppá Höfða. Það er nú samt greinilegt að því meiri reynslu sem maður hefur í svona störfum, því auðveldara er að koma ný inn í störfin. ÉG meina, maður þekkir þetta og veit hvað maður á að gera. Þetta er í raun eins og að ganga alltaf inn í gömlu góðu vinnunna sína sem maður var einu sinni í.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag (sem gekk mjög vel í...) þá beið mín skemmtilegt e-mail. Það var áframsent frá honum Árna Teit. En það var upphaflega frá honum Ponchi stóraðdáenda okkar sem við hittum í Austin. Margir hneyksluðust á því hvað hann skrifaði á message borðið okkar á WIG síðunni. En hann er bara hress pési sem hefur gaman af lífinu! Þetta er myndin

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Mikið á ég yndislega vini :)
Ég fór suður í gær til að hitta Sonju, Særúnu og Jóhönnu. Þær Sonja og Særún voru búnar að undirbúa einhverja voða Welcome heimkomu og ætluðu að elda fyrir mig góðan mat. Ég fór fyrst og sótti Jóhönnu á meðan Sonja og Særún voru að brasa eitthvað í búðarrápi. Síðan fórum við heim til Sonju, já, heim til hennar í nýju íbúðina hennar á Laugaveginum. Þar var tekið á móti manni með freyðivíni og húrra hrópum.
Eftir langt spjall þar og ameríska takta, þá skelltum við okkur yfir götuna og fórum heim til Særúnar til að elda matinn þar sem hún er með svo gott eldhús með gaseldavél og læti. Og hún Sonja töfrakokkur, töfraði fram:
Nautacarpaccio með piparrótarsósu í forrétt.
Tunfisk-steik með koríander í aðalrétt.
Ananasbitar í myntumarineringu í eftirrétt.
NAMM!!
Plús það að hún dró fram kattar-eyru og kattar-ólar handa okkur öllum þar sem þema kvöldsins var kisulóra eða eitthvað svoleiðis.
Ég elska þig Sonja!
Svo var náttla hvítt og rautt með matnum líka. Svo eftir að hafa snætt þar þennan dýrindismat og dansað pínu við Hemma Gunn, þá fórum við yfir til Sonju aftur og tókum blenderinn með okkur til að gera einhverjar voða jarðaberja margarítur.
Síðan kom fleira fólk til að gleðja okkur þegar leið á kvöldið og við gleymdum okkur þarna lengi í góðum félagsskap. Síðan kíktum við aðeins út á smá pöbbarölt og enduðum þetta fína djamm sirka sjö um morguninn eins og gott Reykjavíkurdjamm gerist best!
Í morgun var ég svo vakin með ilmandi kaffi og bakkelsi. Svo var haldinn smá fundur og atkvæðagreiðsla hvað yrði gert í dag. Það endaði með því að við fórum og lékum keilu í Öskjuhlíðinni. Tveir leikir og ég og Sonja stóðum uppi sem sigurvegarar. Særún þarf aðeins að æfa sig betur fyrir næsta leik...
Síðan var tekin nett ferð í IKEA og svo ákvað ég að fara aftur uppá skaga um sex leytið þar sem þessi dagur flaug áfram því það var svo gaman. Ég lenti svo í heilmiklum hveitipoka á leiðinni heim þar sem það var farið að snjóa alveg heilan helling. Hér er svo allt hvítt og fallegt fyrir utan og þá er mál að taka notalegt heitt bað í kvöld. Síðan er bara vinna á morgun...
Jebb...þetta var semsé algjör snilld í gær og í dag.
Stelpur, ég er ykkur innilega þakklát! Takk fyrir mig!!
Og hérna eru myndir frá kvöldinu.

...og svo eru líka myndir frá Særúnu!

föstudagur, nóvember 12, 2004

Ó nei...
Allt er komið á fullt. Ég byrjaði að vinna í dag og það var æði. Ég meina, það er gott að geta komist aftur í það sem maður var að vinna að og líka hressileg áminning á það sem ég er að læra. Allt fólkið þarna er líka rosalega vingjarnlegt og tekur vel á móti mér. Mig langaði þó mest að fara aftur í skólan og hitta bekkinn minn og fara að glíma við prófin með Oddnýju og Jóhönnu fyrir norðan. En það gerist ekki núna. Ég verð bara að bíða og sjá hvort ég fái að taka þessa þrjá kúrsa í fjarnáminu næstu önn. Svo er bara að velja á milli HA og HÍ...
Ég fékk að fara upp á sjúkrahús í dag. Það var gaman að því leytinu að ég fór aðeins inná slysastofu og inná röntgen og skoðaði mig um. Þá langði mig rosaleg mikið að fara að prófa allt og langaði þá helst norður í verknámsstofuna í Háskólanum á Akureyri og fara að æfa mig að sprauta og ýmislegt fleira á dúkkunum með dótinu þar og þá með stelpunum í bekknum. I miss them so much...
Kvöldið í kvöld verður tekið rólega með góðum, léttum mat (þar sem ég fékk þennan fína mat í hádeginu uppá Höfða), góðri músík, kannski gott video, kertaljós og heitt bað.
Svo er ég búin að ákveða að skella mér suður til Reykjavíkur á morgun og hitta elskurnar mínar þar sem ég sakna svooooo mikið! Hlakkar til, hlakkar til! Ég veit að það bíður mín góður matur og gott vín, og síðast en ekki síst, góður félagsskapur!! :o)

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Ég gæti gefið út heila bók um það hversu oft hefur verið skorið úr mér hjartað með skeið, svo það blæðir! En því oftar sem það gerist, því minna blæðir. Ég verð þurrari og kaldari, sterkari og tortryggnari með árunum. Ég treysti engum sem ætlar að farað byggja upp einhverja rósrauða höll í huga mínum, með riddaranum á hvíta hestinum. Ég trúi ekki á neitt slíkt. Ég trúi heldur ekki á það að hinn eini sanni rétti sé til. Allt vegna þess að hjarta mitt hefur verið skemmt og kramið svo oft á minni stuttri lífsleið. Ég er orðin svo vön þessu og þvi verða viðbrögð mín verri með árunum. Ekki meiri sorg, heldur meiri reiði. Það er ekki gott að fylla manneksjur upp af reiði. Það endar bara með ósköpum...
Enginn skal komast upp með það aftur að fylla mig af lygum og fölskum vonum.
Enginn skal fá að kreista tár úr augum mínum aftur.
Enginn skal aftur fá að skera úr mér hjartað með skeið, þangað til það blæðir...
Allir karlmenn sem við mig tala eða daðra, skulu virkilega passa sig!

Takk fyrir.
Ég er að farað vinna á Dvalarheimilinu Höfða á morgun. Ég hringdi í morgun og talaði við hjúkrunarforstjóra og spurðist fyrir um eitthvað starf þar sem ég er í erfiðum aðstæðum þessa dagana þangað til eftir áramót. Hún sagði mér þá frá því að það var akkúrat að losna eitt 70% starf í dag vegna veikinda. Það myndi líklegast vera í svona sex vikur. Akkúrat það sem ég þarf!! Amazing. En núna þarf ég að skipuleggja þessar sex vikur vel því ég er bæði að vinna morgun og kvöldvaktir og svo líka aðra hvora helgi... Geir VERÐUR að hjálpa mér hérna! Ég verð í fríi um jólin sem betur fer, en verð reyndar að vinna á gamlársdag, en bara kvöldvakt þannig að ég næ að fagna áramótunum sjálfum í faðmi fjölskyldunnar. Annars hef ég unnið næstum öll síðastliðin áramót þannig að það skiptir mig svosem ekki miklu máli.
Jebb..lúsaralaun sem ég mun fá, en ég fékk þó vinnu fram að áramótum og það er hið besta mál :)
Vanilluskyr, bananar og jarðaber í blender er samasem nammigott.
Lenti þó í sömu vandræðum með jarðaberin og Særún. Særún, við skiljum hvora aðra núna.
Jæja, ég er farin að gera soldið. Meira um það seinna...
Pabbi minn, Gunnar Ringsted, tónlistarkennari eða jazzari með meiru, á afmæli í dag!
Til hamingju með það pabbi minn :)

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Rosalega er eitthvað mikið að gera hjá mér þó ég sé ekkert að gera. Í fyrsta lagi þá beið náttla eftir mér búnkinn af pósti þegar ég kom heim og ég var í allt gærkvöld að taka það upp og á eftir að fara betur í gegnum það. Síðan var náttla ekkert til að éta hérna og ég þurfti að fara í rosa NETTO-leiðangur og kaupa inn næstum allt. En vitiði, ég keypti EKKERT óhollt. Ég keypti mikið af grænmeti og ávöxtum, skyr og mjólk, síld og rúgbrauð...svo eitthvað sé nefnt. Ekki eina gosflösku eða einn nammipoka. Enda er ég líka að spara og reyna að færa mig líka yfir í hollustuna eftir allar þessar skyndibitastöðvar í Bandaríkjunum. Síðan beið mín líka hellingsþvottur hérna heima sem ég var búin að gleyma. Ekkert úldið þó, sem betur fer...
Ég keypti nýjasta tímarit Vikunnar, sem ég geri ekki oft, en bara vegna þess að hún Sigga frænka, ofurhetja, kemur þar fram. Ég er stolt af henni og fleira fólk ætti að taka hana sér til fyrirmyndar. Tékkið bara á því...
Nú verða sko eldaðar kínarúllur með vel sterkri karrysósu og hrísgrjónum, því ég er komin með ansi hressilegt kvef. Það má ekki gerst. Sérstaklega af því að ég held að við ætlum að spila jafnvel þarnæstu helgi og þá verð ég að hafa röddina!
Það hlaut þó að koma að því. Evan var einmitt að tala um það síðasta daginn úti hvað það var merkilegt að enginn skuli hafa orðið veikur í þessu ferðalagi. Ætli við séum ekki öll frekar slöpp núna eftirá.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Ég fékk nett áfall áðan þar sem ég komst ekki inná þráðlausa netið mitt hérna heima. Eftir miklar spekúleringar og læti, eftir að hafa rifið upp kassann með öllum þráðlausa-nets-uppsetningar-upplýsingunum og reynt að gera þetta allt uppá nýtt, reynt að rifja upp einhver password sem ég hafði ekki hugmynd um og miklar hárreitingar, þá tókst þetta nú í lokin.
Það er gott að vera komin heim í þráðlausu höllina mína :)
Eftirréttur kvöldsins; Royal súkkulaðibúðingur!
Gæti ekki verið betra :)
Svo ætla ég bara að skella mér út á Akranesið í kvöld. Mamma og pabbi stungu af áðan, þannig það er ekkert gaman að hanga hér. Nenni hvort sem er ekki að keyra í fyrramálið...
Ég þoli það ekki þegar það er ekki hægt að spila geisladiska í tölvum. Núna er ég búin að sitja í allan dag í tölvunni heima hjá mömmu og pabba og vinna við ýmis mál, og bölva því í leiðinni allan tíman að ég geti ekki hlustað á nýja Nick Cave diskinn minn sem ég keypti í fríhöfninni.
Ég er líka súr yfir því að hafa ekki getað farið í neinar búðir í þessu ferðalagi, þó sérstaklega músíkbúðir, þar sem ég var búin að búa mig undir það að kaupa heilan langan lista af geisladiskum sem mig langar í...
Well, next time perhaps!
Á morgun fer ég svo með Hörð Gunnar í leikskólann og kemst þá loksins HEIM TIL MÍN og knúsa þá rúmið mitt fyrst og fremst. Svo verður tekið gott flipp á græjunum með nýja Nick Cave...hlakkar til!
Matseðill kvöldsins; Soðin ýsa með nýjum kartöflum. Namm!

Hvað á maður að gera fram að jólum? Ætti ég að reynað sækja um vinnu einhverstaðar. Þá gæti reyndar skapast sú hætta að ég þyrfti að vinna á hátíðsdögunum, sérstaklega ef ég reyni að sækja vinnu á dvalarheimili eða sjúkrahúsi. En það er nú eins gott að þurfa að venjast því að vinna á helgidögum, víst ég er að skella mér í þessa stétt.
Ég er búin að sækja um þrjá kúrsa fyrir næstu önn í hjúkrunarfræðinni sem ég ætti að geta tekið í fjarnáminu útá skaga. Hinsvegar næsta vetur er ég svo búin að missa af mínum bekk fyrir norðan og verð því annaðhvort að flytja norður og fara í næsta bekk fyrir neðan, eða flytja suður og færa mig yfir í HÍ. Ég er ekki komin að endanlegri niðurstöðu, enda heilmikið basl að flytja og ég vil ekki gera það nema ég sé viss um að ég muni búa þar í einhvern tíma, ekki bara eitt ár. En svo er önnur löngun að kítla mig, og það er að flytja út til Bandaríkjanna í nám þar....Ohh...það er svo margt að spekúlerast í kollinum á mér. Sérstaklega núna þegar ég stend á miklum kúvendingarpúnkti í lífi mínu. Plús það að ég veit ekki hvenær næstu tónleikaferðalög verða...það þýðir að ég þurfi þá kannski aftur að taka mér hlé frá skóla. Skóli getur reyndar alltaf beðið, en það er frekar leiðinlegt að þurfa að teygja námið og lengi. Það er líka frekar óhentugt í hjúkrunarfræðinni að taka bara einn og einn kúrs á hverri önn. Það er kannski spurning um að farað velja sér eitthvað annað nám?!
Ohh..rugl í haus!

mánudagur, nóvember 08, 2004

Haha! Þarna gabbaði ég ykkur aldeilis. Nei annars, þetta var bara enn eitt ruglið í mér. Ég sagði að við myndum koma heim þriðjudagsmorgun en við komum heim í dag, mánudagsmorgun. Greyið aðstandendur okkar heima sem lesa bloggið mitt urðu frekar stressuð og hringdu nánast allir í gær til að athuga hvort við værum ekki örugglega að koma heim í dag, en ekki á morgun, því við lásum á blogginu hennar dúddu.... Ég skal segja ykkur. Dagar, staður og stund, er allt í rugli hjá mér og því ekki að treysta dagsetningum mínum þessa dagana.
Annars er gott að vera komin heim. Flugið gekk vel og það var gott að koma heim í gamla góða Borgarnesið og hitta mömmu og pabba og Jóa bro, og síðast en ekki síst, litla snjúbbinn minn hann Hörð Gunnar! Kom mér á óvart hvað hann er rosalega breyttur, það er reyndar líka búið að klippa hann alveg stutthærðan og ég er ekki alveg sátt við það. En það var gott að fá hann aftur og knúsa hann og kúra hjá honum í morgun. Við horfðum á nokkrar teiknimyndir þangað til að ég gat bara alls ekki meir og dó af þreytu hérna uppí rúmi. Ég vaknaði svo áðan og skellti mér í sturtu og öllum fötunum í þvott. Var alveg komin á síðustu nærklæðin og allt það, þannig að ég sit núna í jogging buxum frá mömmu og í stórum bol. Sæt stelpa...með bauga undir augum og þrútin rauð augu. Arhhh...það tekur tíma að venjast tímamismuninum. En mamma er búin að lofa góðri Clarins stund á snyrtistofunni þegar ég verð komin aftur á rétt tímaról og búin að jafna mig aðeins. Mmmm..það er ekkert eins gott og andlitsbað á Snyrtistofu Jennýar Lind ;)
Matur í kvöld verður lasagna frá í gær, sem er ekki slæmt því mamma býr til besta lasagna í heimi. Hún var nú reyndar búin að lofa því að sjóða slátur og rófur og gera hvítan jafning fyrir mig. En það má alveg bíða einn dag. Annars hlakkar mig rosalega til að fá þennan gamla góða íslenska mat í mallan. Það verður sko tekið á því í fæðuvalinu núna framvegis. NO EGG N BACON N HASHBROWNS!!!

sunnudagur, nóvember 07, 2004

Var að koma af sviðinu hérna í Philadelphiu. Við erum búin með þennan ARRCO tour, bara Solex á eftir að spila. Það verður gott að komast heim á morgun, eða reyndar þriðjudagsmorgun, því við fljúgum annað kvöld og verðum komin heim snemma á þriðjudagsmorgun. Jább...svo er bara næsti túr líklegast næsta sumar. Árni lofar...og þegar Árni lofar einhverju, þá stendur hann við það!
Næsta blogg verður bara líklegast tekið á Íslandi. Sjáumst þá ;)

p.s. síðustu myndirnar eru hér...og þær eru frá philadelphiu!
Hehehehe!!! Við förum heim á morgun!!!

Er stödd í Philadelphiu (nei ég var ekki þar í gær, heldur Baltimore!) og sit hér við elsku fartölvuna mína á staðnum North Star, þar sem við munum spila okkar síðasta gigg, þessa ARRCO-tour's með Solex og Ovian. Allir æstir og glaðir. Við áttum góðan dag í dag í afslöppun og leik. Við vorum ekki nema rúman klukkutíma að keyra frá Baltimore til Philadelphiu þannig að við gátum farið að leika okkur. Við eyddum eiginlega öllum deginum í keilu og vá hvað ég varð góð með hverjum leik, en vann þó ekki, en var alls ekki síðust! Ég veit hvað verður gert þegar við komum aftur heim til Íslands, það verður spilað pool og keila. Við erum orðin svo vön því að við verðum að halda því við í Öskjuhlíðinni heima. Við ætlum bara að halda alla fundi, æfingar og fleiri mætingar í keiluhöllinni heima!
Ætlað panta mér mat.
Later beibs...

laugardagur, nóvember 06, 2004

Ég sit hérna við hliðin á sviðinu og Solex eru að spila. Það er fín stemming í salnum og fólkið er ánægt. Við erum ánægðust með það þegar fólkið sem kemur hingað til að sjá Solex uppgötvar okkur og er alveg yfir sig hrifið og kaupir af okkur diska og biður um eiginhandaráritanir! Jebb...erum búin að rita á marga diska og eigum aðeins einn bol eftir til sölu. Kannski seljum við hann í kvöld eða á morgun, who knows. Það var nú planið að selja alla bolina á þessum túr.
En ég, Dúdda þreytta, fór AFTUR með vitlaus orð uppá sviði og mér leið hræðilega! Ég sagði að það væri gott að vera í Philadelfíu, nema við erum í Baltimore! Ég gerði þetta aftur og mig langaði helst til að sökkva ofaní gólfið. En fólkið hló bara og fannst þetta fyndið og það kom líka og talaði við mig eftir giggið og fannst þetta bara skemmtilegt. Veit ekki...mér leið hræðilega, en þetta greip víst áhorfendur, og ekki á neikvæðan hátt. Hehehe...ég er algjör klaufi. Nú veit ég hvernig rokkstjörnum líður sem túra frá borg til borg í langan tíma. Það er séns að gleyma því hvar maður er, really!! Þetta er allt eins! Keyrsla, spila, sofa, dag eftir dag! Bar eftir bar.
Jæja, þýðir ekki að velta sig meira uppúr þessu. Þetta er búið og gert og var víst ekki svo hræðilegt.
Á morgun er það svo Philadelfía (ekki Baltimore!, muna það!) og þá síðasta giggið okkar. Vá...bara eitt gigg eftir...
I Feel Loooooovvee... með Donnu Summer, á leiðinni til Baltimore. Við erum búin að keyra framhjá Washington og sáum hvítahúsið og delan sem stendur út í loftið rétt hjá. Tókum myndir að sjálfsögðu.
Giggið í gær var skrýtið, en fín stemming. Góðvinur okkar Ryan kom og sá okkur spila. En hann er Bandarískur trúbador sem hefur komið til Íslands og spilað á Grand Rokk eins og við og Titty Twisters. Við meira að segja vorum í partýi með honum einhverntíman heima en höfðum ekki hugmynd um að hann byggi þarna í North Carolina. Skemmtileg tilviljun, en hann ætlar svo að reyna að koma til Íslands og vera þar um áramótin með vini sínum. Þá verður bara haldið annað partý og hvernig væri að halda Titty Twisters ball!? Kominn tími til...
Baltimore giggið í kvöld, eða réttara sagt á eftir, byrjar mjög snemma. Ovian byrjar að spila klukkan korter í sjö og svo við á eftir og Solex. Málið er að það var víst búið að tvíbóka þetta kvöld og því eru aðrar hljómsveitir að spila líka. En tónleikahaldarinn vildi ekki sleppa neinu bandinu þannig að hann tróð þessu öllu saman í eina langa þétta dagskrá í kvöld. Fínt mar, þá hættum við snemma og getum tekið gott chill. Jafnvel skellt okkur í bíó og sjá einhverja ameríska kvikmynd. Hver veit?!
Það er spenningur í loftinu. Við erum að nálgast heimalandið með hverjum degi. Ekki nema tveir dagar eftir hérna í USA. Amm...

föstudagur, nóvember 05, 2004

Þetta hérna er frá gigginu okkar á Rothko's í New York. Hef ekki skoðað þetta vel...kannski þið gerið það bara fyrir mig.
Og svo eru auðvitað fleiri myndir frá Denton-Dallas-Austin og Orlando-Atlanta-Knoxville...
Við vorum að koma af indverskum matstað hérna við hliðiná klúbbnum. Ég held að það hafi ekki verið hlegið jafn mikið í langan tíma. Fyrst af öllu má nefna það að Villi og Steini hittu einhvern blindfullan indverskan gaur hérna baksviðs eftir að við vorum búin að hlaða græjunum inn. Hann bablaði eitthvað óskiljanlegt við þá og klöngraðist síðan eitthvað áfram. Þeir sögðu bara já já og löbbuðu áfram.
Síðan fórum við á þennan indverska stað og var ekki fulli indverjinn þjónn þarna. Plús annar, sem virtist gera allt þarna inni því hinn var bara á einhverju einka fylleríi.
Edrú þjónninn var mjög snöggur í snúningum og talaði snögglega. Það var líka blússandi sterk svitafýla af honum og svo sagði hann excuse me í hvert skipti sem hann teygði sig inn á borðið til okkar. Nema hann sagði það mjög snögglega og óskýrt, plús með indverskum hreim (skúz!), því oftar sem hann sagði þetta, því erfiðara var að hemja hláturinn. Allavega, síðan kom fulli þjóninn og sagði eitthvað við okkur og benti á matseðilinn og við bara brostum og skildum ekki neitt. Allt í lagi, hann ropaði yfir mig, sem enginn heyrði nema ég og Árni og skildi eftir sig megna áfengisfýlu eftir það. En hann rambaði í burtu og lét svo edrú þjónin sjá um restina af þjónustunni það sem eftir var. Fulli þjónninn settist síðan fyrir aftan okkur og Bjarni sem sá beint framan í hann, sagði að hann hefði bara verið að stara á okkur allan tíma. Síðan færði hann sig allt í einu út í hornið á veitingastaðnum, raðaði upp fjórum stólum og lagði sig í horninum! Mjög fyndið. Líka í miðjum matnum, sáum við Árni hann rísa upp allt í einu og leggjast svo aftur niður. Nema þegar hann lagðist niður aftur þá bompaði hann hausnum í vegginn. Mjög fyndið. Bjarni náði síðan að taka góða mynd af honum á leiðinni út með símanum sínum. Ég reyndi það líka en veit ekki alveg hvernig hún kemur út...
Fínn matur, samt ekki besti indverski matur sem ég hef fengið, en góð skemmtun með matnum af hálfu þjónustufólksins!
Hvar var ég síðast? Í Atlanta, Georgia já, á kosninganótt þar sem herra Bubu eða mr. Poo eða bara apabjáninn, vann kosningarnar í USA. Við skiljum ekkert í þessu. Allt fólkið sem við höfum talað við eða verið nálægt þennan mánuð, það var allt saman Kerry-fólk. Hvað getur maður gert svosem? Tja, t.d. verið bjartsýnn yfir því að hann getur ekki boðið sig fram í þriðja skiptið. En Guð má vita hvað gerist á þessum næstu fjórum árum hans. Aumingja liberal fólkið, það á örugglega eftir að þurfa að þola boð og bönn öfgamannsins Bush! Nóg um það...
Ég er stödd on the road in North Carolina og við erum að fara að spila í Carborro í kvöld á stað sem heitir Local 506. Í gær spiluðum við í Knoxville, Tennessee. Það var frekar fámennt og skrítið fólk þarna, en þó, það komu einhverjir miklir aðdáendur okkar (WIG) spes til að sjá okkur (og hreinlega fóru þegar við vorum búin að spila sem er frekar leiðinlegt fyrir Solex). En já, ágætiskvöld þar.
Svo eru bara tvö gigg eftir. Baltimore og Philadelphia....og svo heim :)
Það er skrítið, við erum búin að ferðast heilan hring um Bandaríkin í heilan mánuð. Búin að keyra rúmlega 16000 km allan þennan mánuð þegar þetta er búið. Auðvitað langar okkur öllum heim, en það verður skrítið að kveðja þetta ferðalag. Við eigum öll eftir að sakna þess, þó þetta sé hryllilega erfitt á tímum. Við sjáum bara svo margt og heyrum margt, skrítið, hallærislegt, skemmtilegt og merkilegt. Það er allt til í USA. Við til dæmis hittum mjög skemmtilega konu í dag. Við stoppuðum og fengum okkur morgunmat í einhverju Pankake house einhverstaðar á þjóðveginum, rétt hjá Dollywood (sem er einka skemmtigarður Dolly Parton). Fengum þar góðan mat og fórum södd og sæl til að borga dömunni á kassanum. Ég og Bjarni vorum síðast þarna til að borga og stúlkan á kassanum fór að hnýsast um það hvaðan við værum. Við sögðumst vera frá Íslandi. Hún spyr hvort við værum bara að heimsækja þetta svæði eða hvort við værum búin að fara útum allt landið. Við sögðumst vera búin að ferðast næstum hringinn því við værum á tónleikaferðalagi. Þá kom allt í einu voða óttasvipur á hana og hún sagði okkur að við ættum sko sannarlega að passa okkur á New York og Californiu! Ég spyr nú rólega afhverju við ættum að gera það. Þá sagði hún okkur frá því með æsingi að eitt sinn hafi rússneskur ballethópur farið til New York og verið einhverstaðar rétt hjá þar sem heimilislausafólkið býr(?!). Og það var ein rússnesk ballerína sem fór að vandra um göturnar þar og heimilslaus maður hreinlega át hana!! Ég og Bjarni vissum ekki alveg hvernig við ættum að bregðast við þessu og ég sagði því rólega að við værum nú í níu manna hóp og því myndum við passa okkur vel. En við værum nú líka búin að fara til N.Y. og það var nú bara allt í lagi. Þá sagði hún okkur það að við ættum svo sannarlega að passa okkur að vera svona í hóp, halda hópinn, eins og fuglarnir gera, svo þeir verða ekki étnir!!!
Galin gella, en þetta er fólkið sem kýs Bush í suðurríkjunum og veit lítið í sinn haus, nema rétt það sem hann Bush er búin að heilaþvo fólkið með, rétt eins og Gunnar í krossinum eða eitthvað!
Jæja...best að hætta þessu. Fólk er bara virkilega sárt yfir þessum kosningum og ekki skrítið að sumir verða reiðir. Meira að segja Guð er reiður og lætur eldfjöll gjósa og læti.
En þetta var allavega skemmtileg og fyndin saga af afgreiðslustúlkunni í pönnukökuhúsinu sem er lífshrædd í New York.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Ho! Er stodd a internet-cafe i Atlanta, Georgia a sjalfan kosninga daginn og thad var verid ad lysa yfir thvi rett i thessu a Bush vaeri buinn ad vinna Georgiu fylki! Vid reynum bara ad halda kjafti herna...enda buin ad keyra i gegnum morg thessi Bush fylki thar sem mesta obesity og redneck folkid byr. Tha er madur ekki ad tala mikid upphatt...
Anyways, klubburinn sem vid erum ad farad spila a er herna vid hlidina. Hann heitir The Drunken Unicorn og er, tja, svosem alltilae. Vid erum bara threytt og nennum varla ad spila. Thad er lika hlussu mikil rigning uti. Dropar a staerd vid fotbolta, en hitinn a regndropunum a vid gott bad. Frekar thaegilegt. Ekki thessi rigning sem kemur ur ollum attum heima a Islandi! Og ja, thad er bara eldgos og laeti heima. Madur ma ekki skreppa fra adeins!

Okkur hlakkar mjog mikid til ad koma heim. Bara fimm dagar.
Og Sonja min, vid afthokkum thad ad thu pantir bord fyrir okkur a Ruby eda American Style. Eg held ad vid forum ekki ut ad borda meira a thessu ari allavega!

Ble i bili...gotta go play and sing!

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Giggið hérna gekk mjög vel. Staðareigendur eru að fíla okkur í tætlur! Við fengum æðislega meðhöndlun hérna baksviðs og erum voða ánægð.
Á morgun förum við til Atlanta, Georgia.
Until next time....ta ta.
Dúdda.
Ójá, fleiri myndir :)
Hey'all!
Ég er stödd núna í Orlando á klúbbnum Back Booth, í hægindastól baksviðs, með nachos og salsa á borði við hliðiná mér og stíflaðasta klósett sem ég hef nokkurn tíman séð í næsta herbergi! En við fílum þennan stað og höldum að það verði gott gigg í kvöld.
Við áttum semsé góða stund heima hjá Troy og Travis í Austin, borðuðum yfir okkur og fórum snemma, mjög þreytt að sofa. Síðan vöknuðum við snemma daginn eftir, öll bitin eftir moskító flugur og kóngulær, og keyrðum allan daginn. Gistum einhverstaðar in the deep south á leiðinni til Florida. En það var fínt, keyrðum smá í viðbót í dag og vorum komin hingað um 7 leytið. Það er rosalegur hiti hérna sunnan megin í USA og það verður líklegast skrítið að fara aftur til Íslands, í kuldann. Ég hef ekki tekið mikið af myndum undanfarið, enda verið batteríslaus, keypt gölluð batterí eða bara gleymt myndavélinni minni. Enda eru menn líka orðnir þreyttir á þessum flössum allsstaðar. En ég er samt með einhverjar myndir hérna til viðbótar sem ég ætla að setja inn.
Jæja...læt þessi örfáu orð duga í bili og fara núna og panta mér pítu.