miðvikudagur, mars 31, 2004

Hörður Gunnar var slappur í dag og því varð ég að hringja uppá bæklunardeild og tilkynna það að ég yrði heima í dag. Hann er nú hressari núna, en hann var með hita og mjög slappur í morgun.
Annars er lítið að frétta. Það gerist jú lítið hjá manni þegar maður er lasinn. Ég er reyndar búin að fá leikskólapláss fyrir H.G. í leikskólanum Teigasel á Akranesi. Það er frábært, sérstaklega þar sem Anton Elí, frændi H.G. og jafnaldri er á þeim leikskóla!
Þeir eiga líklegast eftir að vera rosalegir saman næsta vetur!
Bráðum fer H.G. með Jóhanni og Norðurleiðinni til Borgarness, eða næstu helgi. Jóhann verður búinn í skólanum næsta föstudag og er því komin í frí á undan mér. Þá fara þeir félagar og frændur með rútunni en ég kem seinna, því ég þarf að klára klíníska námið mitt á bæklunardeildinni. Svo fer ég í páskafrí 8. apríl.
Annað mál, það verða líklegast tónleikar með Worm Is Green á Kapital 10. apríl næstkomandi.
Fylgist með...

þriðjudagur, mars 30, 2004

Magnað!
Ég var að koma heim af fyrstu alminnilegu morgunvaktinni minni í klíníska náminu. Ég er búin að sjá margt og gera mikið en toppurinn var þó sá að ég fékk að fylgjast með einni aðgerð á skurðstofunni. Það var svokölluð fremri krossbands plastic aðgerð.
Það var skorið í miðja sinina sem kemur yfir hnéskelina og niður á sköflunginn, lítið stykki til að þræða sem nýtt krossband í hnéið. Það var borað og hamrað og skorið og sogað og allt ógeðslega gaman að fylgjast með. Áhugi minn í að sérhæfa mig í svæfingahjúkrunarfræði eykst meir og meir, sérstaklega eftir daginn í dag. Ég fékk líka soldið kikk af því að fara í græna skurðstofubúninginn!
En núna er hlýtt og gott veður úti og ég ætla að skreppa í sund með Hörð Gunnar þegar ég sæki hann á eftir. Annað en í morgun, það var frost og snjór útum allt og brjáluð hálka!
Góður og skemmtilegur dagur :o)

sunnudagur, mars 28, 2004

Nokkrar myndir frá gærkvöldinu komnar inn á myndasíðuna mína.
Það var æðisleg tískusýningin frá Frúnni í Hamborg, uppáhaldsbúðinni minni hérna á Akureyri. Mér dauðlangaði í flest alla kjólana, þennan prinsessukjól, þennan dópótta og kleópetrukjóllinn svo eitthvað sé nefnt.
Þegar ég eignast peninga....
Kúúúl maður!

Annars...

Ég fór á djamm í gær. Það var nú frekar stutt þar sem ég sat og drakk mjög lengi áfengi sem mér var boðið. Tvöfaldir drykkir ættu að vera bannaðir á börum! Enívei, þá fór ég heim snemma þegar ég komst að því að mér var orðið ansi íllt í maganum og var völt á fæti þegar ég stóð upp frá borðinu og fann hvernig áfengið var á leiðinni upp aftur.
En við Berglind höfum ekki legið í þynnku í allan dag, þvert á móti. Það hefur verið æðislegt veður og því notuðum við tækifærið og fórum í sund og H.G. með okkur. Við lágum í sólinni og nutum lífsins og horfðum á fólkið og sundfötin.
Stjarna sundlaugarinnar var karlmaður, líklegast rússi eða eitthvað því hann leit þannig út, með stóra svarta hormottu. Hann var ekki í sundskýlu, heldur ljótum, hvítum, slitnum, götóttum og úthverfum tippagatanærbuxum!!! Við Berglind vorum að deyja úr hlátri og viðbjóð á sama tíma. Síðan var hann alltaf að labba útum allt og skríða í barnalauginni og leit út fyrir að vera hinn mesti perri eða barnaníðingur. Við fengum þó mestan hrollin þegar hann skreið yfir fæturnar okkar á bak við okkur og smeigði sér framhjá okkur!!!uhhhhhh.....ógeð! Síðan var hann að beygja sig fyrir framan okkur og stinga sér í laugina. Þá blasti við okkur rassinn í gegnsæju nærbuxunum og gat á nærbuxunum akkúrat þar sem rassgatið er! GARG!
En þetta var nú bara fyndið líka og við hlógum að þessu. Sundferðin var æðisleg þrátt fyrir þetta og það var líka glampandi sól allan tímann! :o)
Eftir sundið fengum við okkur franskar og hamborgara/samloku og nú liggjum við í leti uppí sófa. Það er bara næs. Svo fer ég að vinna á morgun uppá spítala...víhí!

laugardagur, mars 27, 2004

Í gær snjóaði einsog mófó en núna er sól og blíða úti....fatta þetta ekki!
Ég skrapp niður til Bjarkar í gærkvöldi þar sem hún bauð mér uppá bjór og þeir Hörður Gunnar og Magnús léku sér á meðan. Björk er semsagt nágranni minn og góð vinkona sem býr hér í Útsteini. Við skemmtum okkur vel og vorum komnar á pínu trúnó rétt áður en ég fór heim. Ég vaknaði meira að segja fyrir hádegi í dag og var sprellihress. Fékk mér morgundrykkinn minn eins og vanalega, 50% gulrótarsafi og 50% appelsínusafi plús klaki. Síðan datt mér ótrúlegt í hug. Ég fór að hreyfa mig!
Ég tók nokkrar jóga sólarhyllingar og nokkrar magaæfingar. Ég stefni á það að vera með flottan maga, en það er aðeins farið að bætast á mig spik, sem er náttla allt í lagi svosem, mér veitir ekkert af því, en allar forvarnir eru af hinu góða. Mér finnst helst leiðinlegt að ég kemst ekki í einar uppáhalds gallabuxurnar mínar!
Núna sit ég hér ein, búin að fá mér ristaða beyglur með gúmmilaði og heitan tesopa. Hörður Gunnar fór út að leika sér með Magnúsi þannig að ég get farið að lesa eitthvað í námsbókum mínum. Svo ætla ég út í kvöld með Berglindi og hlakkar bara soldið til....
En já... lærdómur skal það vera núna!

föstudagur, mars 26, 2004

Þetta er eins og versta flösuský þarna úti!!! Það snjóar eins og það sé verið að sigta hveiti!

Annars er góð helgarstemming framundan. Jóhann bróðir er hérna hjá mér núna og við erum að hita okkur pizzu og franskar. Svo er ég búin að plata hann til að passa fyrir mig annað kvöld svo við Berglind getum farið á Flamingo-kvöld á Kaffi Akureyri.
Ég vona bara að það snjói ekki of mikið þannig að ég komist ekki út úr húsi!

Svo vorum við Jóhann að ræða páskafrís málin. Hann verður komin í páskafrí eftir viku en ég verð að vinna til og með 7. april. Þannig að, hann ætlar að taka norðurleiðina í Borgarnesið og taka Hörð Gunnar með sér! Þá fer ég ein suður þegar ég verð loksins komin í frí. Ég gæti þá kanski skroppið út að kvöldi til í fyrsta skipti síðan ég flutti norður án þess að þurfa að finna pössun?!
Maaan, það er byrjað að snjóa og kólna aftur! Þvílíkar sviptingar í veðri í einni viku! Það verður því ekki farið í sund í dag heldur bara frekar heit og góð sturta í kvöld og dekur við líkamann, gera sig fína fyrir páskafríið.
Já, síðasti kennsludagur fyrir páska var í dag og það var mjög "þreyttur" tími. Það var geðlæknir sem var að tala um svefn, svefnvenjur og allskyns heilastarfsemi í sambandi við það. Hann var mjög hægur, talaði mjög lágt og var með hálf lokuð augu og leit út fyrir að hafa fengið lítinn svefn í nótt!?! Síðan voru allir frekar þreyttir og geispandi og enginn nennti að fylgjast með, líklegast kominn einhver galsi í liðið því að verknám og páskafrí nálgast. En það var nú samt gaman í dag.... alltaf gaman í skólanum.
Ég fæ mér hinsvegar kaffi núna og ætla að lesa smá meira í lífeðlisfræðinni. Ég var farin að dotta yfir bókinni og vaknaði við það að síminn hringdi. Kafffffeehh....
Híhíhí...ég er rjóð í kinnum af sólinni eftir tvær sólarsundlaugarferðir! Það er gaman í sundi og gaman að fá sólina :o)
Hinsvegar var handklæðinu mínu stolið í gær þannig að ég gat sem betur fer notað handklæðið hans Harðar Gunnars til að þurrka mér. En ég á nóg af handkllæðum og svona er nú bara lífið. Það var víst líka stolið handklæði í dag þegar ég var þarna. Það var allavega einhver stelpa að kvarta yfir því að handklæðið væri horfið. Hver stelur handklæðum??!!!
Aumingja sumt fólk...

Rétt eftir að við höfum neytt fæðu með mikillri fitu fer bilesalt secretion í gang, eða þegar fitumagn hækkar í duodenum. Bilesölt hjálpa til við að leysa upp fitu. Þá kemur bile salts upphaflega fra lifrinni en fer svo í gegnum common hepatic bileduct og geymist í miklu magni í gallbladder. Annars fer bilesaltið inní duodenum í gegnum spchinter of Oddi frá bile duct. Síðan diffutera flest öll bilesöltin aftur inn í hepatic portal vein þar sem þau flytjast aftur inn í lifrina. og fara sömu leið aftur. Bilesöltin eru kanski að fara mörgum sinnum hringinn á dag...
Jamm... þetta mundi ég

Síðasti tími fyrir páskafrí á morgun, frá 10:00 til 11:40 í lífeðlisfræði!

fimmtudagur, mars 25, 2004

Worm Is Green síðan er bara rosalega fín. Fullt af tóndæmum og lögum sem aldrei hafa verið flutt opinberlega áður. Myndir og reviews...dís...mar bara frægur?!
Allavega er ég glöð því netið er komið í lag hér heima. Ég fór og kvartaði í dag og það lagðist næstum samstundis. Note to myself: Muna að kvarta fyrr þegar þetta gerist aftur!
Það er gott veður, sól og hlýtt úti. Held ég fari barasta í sund aftur með H.G. þegar hann er búin í leikskólanum. Ég verð að vinna inni í allt sumar, þannig að það er eins gott að nýta sólardagana og þá sérstaklega fara í sund. Ég elska að liggja í sundi þegar það er sumar!
Jamm...þvottur kallar...

Sjalllalalalalllaaaaa.....
HALLÓ!
Já ég er lifandi, en netið hefur verið dautt heima hjá mér í nokkra daga. Þannig að nú er ég uppí skóla, búin að kvarta yfir þessu og vonast til að netið verður komið í lag í dag.
Nýjustu fréttir eru hinsvegar þær að Worm Is Green vefsíðan er komin í gang og tékkið því endilega á því!
Svo er ég glöð því síðasti skiladagur fyrir ritgerðina er í dag, en ég er löngu búin að skila henni, með bros á vör :o)
Ég fór í sund með Herði Gunnari í gær í hlýja góða veðrinu. Það hefur nefnilega verið frost undanfarna daga og ekki gaman. Um leið og sólin kom gróf ég upp svarta bíkíníið mitt og lét fara vel um mig í pottum sundlaugar Akureyrar. H.G. var að sjálfsögðu mjög glaður og lék sér með einhverjum krökkum þarna. Hann er annars orðinn svo klár að ég læt hann bara hlaupa um sundlaugina meðan ég horfi á hann frá heita pottinum og slaka á.
Jamm....svo fer að styttast í það að ég fari í verknámið og svo páskafrí!!!
Ég fer að vinna á bæklunardeild á mánudaginn næsta og hlakkar bara mjög mikið til. Síðan verður brunað strax uppí Borgó eftir síðasta vinnudag þar sem ég þarf að ná fermingarveislu þann 8. apríl.
Svo verð ég líklegast með annann fótinn í Reykjavík um páskana vegna upptöku á nýju plötunni. En þeir sem vilja hitta mig endilega hafið samband.
Jæja. Tíminn líður, hreinleiki og skítur fara ekki saman. Best að drífa sig heim og fá sér að borða.
Svo er það bara lestur í lífeðlisfræði framundan....

þriðjudagur, mars 23, 2004

Ég kveikti næstum í áðan! Ég var að rista mér brauð og beyglu, nema hvað að beyglan er alltaf soldið breið þannig að hún festist oft í ristavélinni. Núna var hún pikkföst og hélt bara áfram að ristast á fullu á meðan ég hamaðist á takkanum og reyndi að hrista beylguna úr með því að hvolfa ristininni og öskra. Það endaði með því að ég kippti henni úr sambandi og svo duttu sneiðarnar út. Ég setti viftuna á fullt við eldavélina og hljóp og opnaði alla glugga. Eldvarnarkerfið fer nefnilega í gang hérna við minnsta reyk! Þá hringir bjallan í endalausan tíma og allir verða pirraðir. En mér tókst að lofta vel þannig að ekkert fór í gang. En brauðsneiðin og beyglan voru svartar og fóru beint í ruslið. Eftir þetta þori ég ekki að rista nema eina sneið og standa hjá og fylgjast með að ekkert fari úrskeiðis. Ég er líka svo hrikalega eldhrædd og þar eru til margar sögur af eldhræðslunni minni.... kanski koma þær einn daginn, hver veit.

Annars er smá bömmer í gangi. Ég svaf yfir mig í morgun þar sem ég var að klára ritgerðina mína í gærkvöldi til tæplega þrjú um nóttina. Ég er þó búin með ritgerðina, á bara eftir að prenta hana út og skila í hólf. Síðasti skiladagur er 25. mars, þannig að ég er í ágætum málum. Hinsvegar missti ég af tölfræðitíma og fósturfræði. En það er nú í lagi þar sem ég var búin að kíkja í báðar bækur fyrir þessa tíma. Ekki alvarlegur missir. En ég sé samt fram á það að ég verði að kíkja soldið í bækur í páskafríinu. Ég fékk sjokk þegar ég sá hvað er stutt í próf. En mér hlakkar til að vissu leyti, því það er að koma sumar. Ég elska sumarið. Ahhh...

mánudagur, mars 22, 2004

Þessi passar vel upp á mömmu sína...
Hér eru fleiri myndir af hæfileikakeppninni á síðunni hans Laurents, sem b.t.w. hjálpaði mér mikið með tölvuna í gær, kærar þakkir Lorenzo!
Jónas átti þetta svo sannarlega skilið að vinna!


Annars er lítið að frétta. Farið að styttast í verknám og svo páskafrí og svo eru meira að segja komin drög að próftöflu. Ég sé fram á það að ég komist ekki á neina skemmtilega tónleika sem verða haldnir hér á Íslandi af heimsfrægum mönnum, þar sem ég er blönk og verð líklegast buissy í prófum eða eitthvað annað! :(
Vona bara að við fáum að spila á Roskilde í sumar....
Fúlt...msn liggur niðri hjá mér. Kanski gott bara þar sem ég er að reynað klára ritgerðina. En þetta er orðinn mikill vani að hafa þetta í gangi um leið og maður er eitthvað að brasa í tölvunni.
Jamm....fæ mér bara núðlur og glurótar-appelsínu-safa.

sunnudagur, mars 21, 2004

Gaman, gaman, gaman!
Ég var að koma frá FSA þar sem við fórum í heimsókn í blóðbankann og spjölluðum við meintækna þar. Við fengum fyrst og fremst að stinga hvora aðra. Ég leyfði Oddnýju að taka blóð úr mér og ég fékk að stinga hana Kristjönu. Rooosalega gaman! Svo vorum við að mæla hitt og þetta í blóðinu, hemoglobin, rauð og hvít blóðkorn, kólesteról og glúkósa svo eitthvað sé nefnt. Rosa gaman og skemmtilegir meinatæknar. Fengum að skoða rannsóknarstofuna og tækin og fengum líka gott kaffi og snúða og smákökur.
Skemmtilegur sunnudagur. Og nú verð ég að fara í ritgerðarvinnu!
Ble í bili...

laugardagur, mars 20, 2004


Það eru komnar myndir af gærkvöldinu. Var mikið að spá í að sleppa mörgum þeirra þar sem ég er svo ljót á flest öllum myndunum, en w.t.f....who cares anyway!
Þynnka er leiðinleg og ógeðsleg. En kosturinn við hana er sá að maður fær ógeð af öllu sem er óhreint eða illa lyktandi þannig að maður fær svona "taka til" þörf. Þess vegna byrjaði ég á því að skrúbba mig fyrst hátt og lágt, svo er ég að brasa í eldhúsinu núna um leið og ég fæ mér ristað brauð og svo ætla ég að ryksuga. Svo mun ég eiga notalegt kvöld, í hreinni íbúð og horfa á góðar myndir í sjónvarpinu og éta pizzu.
Já...
En ég vann ekki í gær. Ég sem var búin að basla við að sauma hallærislega kántrýskyrtu, með það í huga að syngja Stand By Your Man í karókíkeppninni. En það lag var ekki til þannig að ég valdi lagið Rosegarden sem var á listanum, ekki verra lag. Eeeenn...ég meikaði ekki textann og kunni ekki lagið nógu vel þannig að ég varð að hætta við það. Ég fór semsagt í smá panik og þurfti að skoða fleiri lög. Á endanum valdi ég Summertime, sem ég hef sungið oft og kunni textann þannig að ég þurfti ekki að glápa á skjáinn allan tímann. Ég söng það ágætlega, allir voða ánægðir og mikið klapp, en ég vann ekki.
Ég lenti ekki í fyrsta sæti, ekki öðru né þriðja. Ég hló bara og fór á barinn og fékk mér gin og tónik og tjúttaði frameftir.
Ég varð reyndar mjöög þreytt um miðnætti þar sem ég var búin að vera á fullu síðan átta um morgunin. Þegar ég kom heim rúmlega þrjú var ég hálf andvana af þreytu og lagðist uppí, með hausverk og tvær íbúfen. Ég rotaðist!
En núna er ég fersk og tilbúin að taka til og fara svo í ritgerðina mína.
Ble, kle, fleh... í bili!

fimmtudagur, mars 18, 2004

Það snjóar úti...brrrrr

Hehe...Ég á lítinn rokkara.
Hörður Gunnar bað um að fá að hlusta á Kraftwerk og Sonic Youth.
Hér sést í bakið á mér í doppótta kjólnum á árshátíðinni. Náðist engin betri mynd af kjólnum held ég.
Sexy bak eða hvað???
Meiningin með þessum texta þarna niðri er reyndar sú að það er söng- og hæfileikakeppni háskólans á morgun. Eins og áður hefur hún Thelma vinkona mín platað mig útí það að taka þátt í þessu. En ég var semsagt búin að velja þetta lag, ætlaði að dressa mig upp í einhvern hrikalegan kántrýbúning og þykjast vera kántrýkona sem elskar manninn sinn þrátt fyrir allt. Nema Thelma hringdi í mig áðan og tilkynnti mér það að það yrði engin hljómsveit (frekar en fyrr um daginn) þannig að það verður bara Karókí!!!! Maaan...ég er nú reyndar þjálfuð í Karókí síðan síðustu áramótum með henni Sonju á efri hæðinni á Gunnlaugsgötu 10. En allavega, þá þarf ég að fara og kíkja á hvaða lög eru í boði. Kanski syng ég bara kattarlagið eða fer með klámvísur svo ég þurfi ekki að syngja í karókí. Mér dettur eitthvað í hug.
Verst að ég er að reyna að bögglast við verkefni í hjúkrun sem gildir 10% og svo ritgerð sem gildir 30% sem ég þarf að skila sem fyrst! Svona er félagslífið hættulegt eins og ég er alltaf að reyna að tuða í bróður mínum.
Jæja...beint í verkefnið!!!

miðvikudagur, mars 17, 2004

Stand By Your Man

Sometimes it´s hard to be a woman
Givin all your love to just one man
You´ll have bad times
And you´ll have good times
Doing things that you don´t understand

But if you love him, you´ll forgive him
Even though he´s hard to understand
And if you love him
Ohh, be proud of him
Cause, after all he´s just a man

Stand by your man
Give him two arms to claim to
And something warm to come to
When nights are cold and lonely

Stand by your man
And show the world you love him
You´ve given all the love you can
Stand by, your man
Ég er orðlaus og uppgefin.
Held ég fari með bænirnar mínar í kvöld.
Fæ mér bara harðfisk og mjólk og stari útí loftið...
Ég er að fara og sjá hina umdeildu mynd, The Passion of The Christ á morgun! Hann Laurent, dýrlingur og öðlingur, ætlar að vera svo góður að gefa mér annann boðsmiðann sinn því ég er svo kristilega vel upp alin. Í staðin bauð ég honum að koma og horfa á uppáhalds myndina mína; Afsakið við flýjum eða La Grande Vadrouille, með uppáhalds leikaranum mínum, Louis de Funès.

Ég verð meðal presta og mikilla manna á lokaðri forsýningu.
Viel spännend...hlakkar mikið til....

þriðjudagur, mars 16, 2004

Ég var að enda við að senda frá mér útfylltu skattframtali. Ég fíla það að þetta sé hægt að gera á netinu. En þetta er samt leiðinlegt. Eini kosturinn er sá að maður tekur svolítið til í pappírunum sínum. En vá hvað ég vona að ég fái einhvern pening endurgreiddan. Ég fór næstum að grenja þegar ég skoðaði launamiðan frá því að ég vann á Borgarspítalanum. Ég vann eins og mófó og fékk lítið sem ekkert borgað fyrir það! Öll þessi yfirvinna sem var hreint út sagt slítandi, gaf ekki mikið, nema auðvitað reynslu í umönnunarstörfum fyrir verðandi hjúkku.
Always look on the bright sides of life!
Já....þakka fyrir það sem ég hef fengið í gegnum tíðina. Ég er þó allavega ekki "kofakona" í Afriku.

B.t.w.... það er orðið hvítt úti!
Það er væg snjókoma úti. Ekkert samt orðið hvítt úti, því þetta er svo blautt eins og rigning. En það er tveggja stiga hiti og ég varð fúl að þurfað fara í jakka og trefil aftur. Ég var nefnilega svo létt klædd í gær í sólinni á leiðinni norður. Bara bolur og sólgleraugu og sumarmúsík í botni (Beach Boys).
En veturinn er víst ekki alveg búinn að segja sitt síðasta. Við eigum páskahretið eftir.
Ég reyni bara að brosa út um gluggann og hita mér gott te og rista beyglu og smyr á hana rjómaost.
Já, ég er sælkeri, enda rassinn farinn að bæta á sig aðeins....
Ég er á leiðinni í fósturfræðitíma. Sem minnir mig á viðbjóðin sem ég var að sjá og heyra um um daginn.
Konur í Afriku, minnir að það hafi verið í Eþíópíu en ég veit að þetta viðgengst víðar, giftast mjög ungar. Þær eru gefnar mönnum sínum um 8 til 10 ára (fjölskyldu mannsins) og fara því ósköp fljótt frá foreldrum sínum. Ekki nóg með það, heldur eru þær svo giftar þegar þær eru komnar á kynþroskaaldurinn og barnaðar um leið og tækifæri gefst.
Þær verða semsagt óléttar um ca 12, 13 ára aldur og eru ALLS EKKI tilbúnar í það, eða líkaminn þeirra.
Svo kemur að því að þegar þær eru að fá hríðir þá standa þær yfir í jafnvel 6 sólarhringa (án deyfingar) og þær leita sér ekki neinnar læknishjálpar því þær vita ekki af læknishjálpinni eða vita í raun ekki alveg hvað er að gerast.
Síðan deyr barnið inní þeim og dettur út úr þeim á endanum þegar það fer að minnka og hrörna inní þeim.
Eftir það, eiga þessar aumingja stúlkur ekki neitt líf!
Því að...eftir fæðingu, er stórt gat í klofinu. Ekki þvagrás, ekki leggöng, ekki endaþarmur, bara stórt gat. Og þær lenda í því að missa þvag og saur í gegnum þetta gat og því er slóðin alltaf á eftir þeim og lyktin mikil. Það endar með því að eiginmaðurinn stúlkunnar skilur við hana og fær sér nýja konu því hin að það er svo mikil ólykt af hinni. Hún fer þá aftur til fjölskyldu sinnar sem tekur vel á móti henni. En ólyktin er alltaf til staðar. Það endar þá með því að það er byggður lítill kofi einhversstaðar í fjarlægð frá öllum, sem hún getur þá búið í og enginn verður þá var við lyktina.
Þessar konur þurfa því oft að dvelja í þessum kofum það sem eftir er ævinnar því þær geta ekki umgengst neina útaf lyktinni og slóðinni sem fylgir þeim. Þær vita ekki að hægt sé að laga þetta og eru þvi bara bitrar í kofanum sínum, það er að segja ef þær fyrirfara sér ekki.
Ég sá þetta í Opruh þætti og þar var hún að ræða við kvensjúkdómalæknir, sem hefur helgað sér það í 50 ár að vera í Afriku og leyta uppi þessar "kofakonur". Hún leitar semsagt að þessum konum, ræðir við þær, býðst til að laga gatið og gerir það frítt. Konurnar gráta af gleði við það að einhver kemur og talar við þær, hvað þá, að fá að heyra það að hægt sé að laga þetta! Þær eignast allt annað og nýtt líf!

Þegar ég verð gömul og reynd hjúkka, þá ætla ég að fara til Afriku og hjálpa eins mikið til og ég get.
Eða allavega....þetta er sorglegt og maður fær svo mikla löngun til að gera eitthvað..hjálpa til!

Bless...ég er farin í fósturfræði!

mánudagur, mars 15, 2004

Hún Sonja skrifaði annars mjög góðan pistil um hana ömmu okkar; Jóhönnu Lind Pálsson!
Þegar ég vaknaði í dag kítluðu sólargeislar á mér nefið. Ég fór út og var heillengi hjá henni ömmu og tók nokkrar myndir. Vorið er komið og allt það og sumarið alveg að koma. Hörður Gunnar var hoppandi útum allt í garðinum eins og kýrnar þegar þeim er hleypt út í fyrsta sinn eftir veturinn. Síðan ók ég í sólargeislanum norður, nema það var þoka á Blönduósi, en allstaðar annarsstaðar sólarglampi.Mér er bara farið að hlakka mikið til í sumar. Þá flyt ég uppí Borgarnesið og mun búa þar hjá mömmu og pabba og spara pening. Ég ætla að vinna á Dvalarheimilinu og senda Hörð Gunnar á fótboltanámskeið og leyfa honum bara að leika sér í sumar. Enginn leikskóli, kanski gæsluvöllurinn af og til.
Svo flyt ég út á Akranes og fer í fjarnámið þar í hjúkrun með skvísum vesturlands. Þá er ég komin aðeins nær menningunni, þar sem hlutirnir gerast og fólkið er. Fólkið; fjölskyldan, vinirnir og kunningjarnir.
Jámm....mér líður bara vel og líst vel á Borgarnes í sumar!

sunnudagur, mars 14, 2004

Hressandi helgi!Ég er ennþá í Borgarnesi, ætla að gefa mömmu og pabba smá tíma af mér þar sem ég var í Reykjavík allan tíman. Fer bara norður á morgun, enda dauðþreytt eftir svona óvænt, skemmtilegt djamm í gær.
Ég eyddi öllum föstudeginum í upptökur. Á laugardeginum var reynt að taka upp, en Árni var hálf meðvitundarlaus allan dagin fram að miðnætti og því var lítið sem ekkert gert. Við Gvendur kíktum út og drógum Jóhönnu frænku með. Ég var keyrandi og bara róleg á því.
Allt í einu þegar ég var stödd á Kaffbarnum kom upp sú hugmynd að djamma óvænt. Ég var mjög plein í gallabuxunum mínum, ljótum hvítum bol og ómáluð. En wtf! ég komst allt í einu í stuð og keypti mér Gin & Tónik.
Gin & Tónik er hressandi, því þegar ég mætti á 22, hitti ég Leibba meistara og dansaði eins og tryllingur við hann allt kvöldið. Ég var svo hress að ég tók leikþætti og allskonar atriði. Við hlógum mjög mikið og það var ógeðslega gaman hjá okkur.
Ég elska svona óvænt djömm.
Fórum líka í eftirpartý þar sem stuðið hélt áfram.
Ég fór að sofa klukkan átta í morgun og treysti mér því heldur ekki að keyra norður núna...ehem..
Mamma er að grilla nautalundir og ég ætla að leggjast í gott heitt bað og dekra við mig eitthvað.
Já, það er gaman að vera til og eiga góða vini!

föstudagur, mars 12, 2004

Ég var að skoða myndir hérna hjá möm & pab síðan á jólunum. Þar er ein góð mynd sem ég varð að skanna inn og sýna ykkur. Hörður Gunnar fékk strigaskó í jólagjöf sem pössuðu á mig!!! Veit ekki alveg hvað sumir voru að spá...en jæja. Þessir skór bíða bara í hillu inní bílskúr eftir að þeirra tími kemur!
:o)
Hvað er þetta með mig og föstudagsmoggan!? Ég fer að heimta ókeypis áskrift að mogganum því það er alltaf verið að vitna í bloggið mitt þar, which is nice... #%)=$!!**??
En það er nú allt í lagi. Ég er nú haldin smá athyglisþörf.
Hver er það samt sem að sér um þetta? Hlýtur að vera einhver sem er skotin i mér eða eitthvað.
Ég trúi því ekki að ég sé góður penni. Get ekki einu sinni samið texta við lög í hljómsveitinni minni!!
Reyndar skrifaði ég einhvern tíman bréf til blaðsins í moggan þegar enn eitt kennaraverkfallið dundi yfir í framhaldsskólunum. Þá varð ég alveg brjáluð og vaknaði eina nóttina og skrifaði langa grein um það. Ég fór síðan morgunin eftir til hennar Jónu vinkonu minnar og vinnufélaga í denn, til að láta hana fara yfir greinina mína vegna þess að mér finnst ég vera svo óþroskaður penni. En hún er íslenskufræðingur, gangandi orðabók. Hún vildi hinsvegar lítið sem ekkert breyta greininni minni útaf "stílnum" mínum sem væri svo skemmtilegur og öðruvísi.
Ég fatta ekki. Ég er greinilega eitthvað hikstandi í íslenskunni síðan ég bjó úti í Danmörku. Ég var lengi að ná upp íslensku eftir að ég flutti aftur á klakann. Talað lengi um krummur í rúminu mínu og svoleiðis. (Krummur=krummer=mylsnur, það voru semsé brauðmylsnur í rúminu mínu).
Talandi um krummur þá er krummi svífandin hérna fyrir utan gluggan. Það er mikið af krummum á ferðinni á þessum tíma. Þeir eru allavega fjölmargir á Akureyri. Svífandi hér og þar og gargandi.
Þegar ég lít út um gluggan hérna heima hjá mömmu og pabba, horfi ég beint í garðinn og á grænmetiskassana. Þar eru leifar frá því síðasta sumar. Þrír grænkálsstönglar standa stífir og sterkir ennþá uppi, sem er hreinlega sönnun fyrir því hvað þetta er hollt grænmeti...og gott! Brokkolístönglarnir voru líka svona lengi. Mamma er nýbúin að taka þá í burtu.
Jæja...blaður blaður. Ætla að erindast hérna í Borgarnesinu kæra og drífa mig svo suður í upptökur.
Until next time...chiao!

fimmtudagur, mars 11, 2004

Úff...
Það er erfitt að vera tilfinningarík kona.
Sérstaklega þegar maður verður tilfinningaríkari við hvert áfallið á fætur öðru.
Ég hef gengið í gegnum mörg áföll.
Mér finnst það leiðinlegt og ósanngjarnt.
En ég hinsvegar get ekki annað en verið þakklát fyrir allt það góða sem ég hef.
Amen.
"Köld" plata.... en mér var líkt við hana BETH!
Tékkit!
Guði sé lof fyrir geislaspilara í bílum, því á mínum löngu ferðalögum hlusta ég mikið á músík á leiðinni. Núna var ég mikið að hlusta á hana Björk. Homogenic mest. Þar er lag sem heitir five years og það heltók mig! Textinn er magnaður og er eins og persónuleg skilaboð mín til flest allra karlmanna sem ég hef kynnst...

5 YEARS
you think you're denying me of something
well, i've got plenty
you're the one who's missing out
but you won't notice
'til after five years
if you'll live that long
you'll wake up
all love-less

i dare you
to take me on
i dare you
to show me your palms
i'm so bored of cowards
who say what they want
then they can't handle

you can't handle love
baby, it's obvious

i dare you
to take me on
i dare you
to show me your palms
what's so scary?
not a threat in sight
you just can't handle
you can't handle love
Í þau fjölmörgu skipti sem ég hef verið á flakkinu norður, suður og ég veit ekki hvað, þá pakka ég alltaf of mikið í tösku! Ég get aldrei ákveðið hvaða fatnað ég ætla að vera í, samt kalla ég mig ekki pempíu því ég er kanski að reynað velja á milli tveggja gallabuxna sem líta nákvæmlega eins út!!! (ég er bara týpísk vog sem getur ekki ákveðið sig...) Svo á ég svo marga þægilega, flotta, góða boli, þannig að ég tek hrúguna með mér. Svo auðvitað hrúgu af hreinum sokkum og nærfötum. Svo fer ég að spá, ætli ég fari eitthvað út að skemmta mér?! Þá þarf ég að spekúlera líka í því. Ég fer í hermannabútsunum mínum en svo langar mig að taka með mér háu hælana, sem ég VEIT að ég fer örugglega ekki í því ég verð svo hrikalega slæm í fótum og baki ef ég er í háum hælum!
Ah...dæsidæs.
Held ég reyni að skera þetta aðeins niður...
Það er flott þegar Anita Lane syngur "Sexual Healing" með Bad Seeds gæjunum. Dirty Pearl er líka flottur diskur.
"Stories of Your Dreams" er líka eitt af uppáhalds lögunum mínum á þeim diski.
Jamm...

miðvikudagur, mars 10, 2004

Eftir hressandi góða, heita sturtu og allskyns ilmolíur, þá er nú gott að fá sér góðan tesopa og tekex með osti og tómat.
Ég var dugleg stelpa í dag og fór aldrei þessu vant uppí skóla til að læra með allt mitt hafurtask. Það gekk bara jafnvel og hérna heima, þess vegna finnst mér betra að vera heima. Maður getur alltaf gengið að ísskápnum og étið eins og maður vill fyrir framan tölvuna, sett jafnvel smá músík á, prumpað eins og vitleysingur og talað við sjálfan sig.
Ég er allavega ánægðust með það að ég er byrjuð á þessari ritgerð sem allir eru búnir að bölva. Ég ákvað bara að gera þetta ekki oft erfitt þar sem er fyrst og fremst verið að fiska eftir góðri heimildaskrá í þessari ritgerð. Ég skrifa því um konuna og meðgönguna, fyrir, meðan og á eftir meðgöngu. Reynslu hef ég í þessum málum plús það að við erum í fósturfræði á þessari önn og svo hef ég líka gert ritgerð um svipað efni áður. Þannig að ég er komin á skrið með þessa ritgerð sem á að vera 10 blaðsíður, búin með ca tvær.
Á morgun þarf ég ekki að mæta í skólan fyrr en 14:00! Það er meirað segja ekki neinn einingaáfangatími, heldur er þetta tími sem heitir hópefli og á að þjappa okkur hjúkkum á fyrsta ári meira saman. Eftir það er stefnan tekin beint í Borgarnesið. Svo ætla ég að fara suður og taka upp músík og heilsa uppá alla sem á mig kalla...rímar!
Jájá...jæja, þýðir ekki að sitja hér nakin, best að klæða sig í föt og hella uppá tesopann!
Go'dag!
Ég fór ekki í skólan í dag, heldur uppá sjúkrahús í kynningu. Við fórum fyrst í smá fyrirlestur um FSA og starfsemi þess og svoleiðis. Svo tókum við rúnt um deildir sjúkrahússins sem eru barasta mjög áhugaverðar. Ég er búin að fá að vita að ég verð á bæklunardeild FSA í verknáminu mínu mánaðarmótin mars-apríl. Sem er spennandi, þar koma slysaafleiðingar og alls kyns neglingar í liði og leggi. Ég er samt alveg orðin húkkt á einu og það er skurðstofan. Ef ég fer ekki út í ljósmóðurnám, þá ætla ég í diploma nám í svæfingar-skurðstofu-hjúkrun. Við fengum að rölta uppá gjörgæsluna og ég fékk sting þegar ég sá grænu búningana og inn á skurðstofuna! Þarna langar mér að vera!
Hinsvegar fæ ég líka alltaf sting þegar ég labba inná fæðingarstofurnar. Ætli ég verði ekki bara bæði...
Núna er ég nýbúin að kaupa vinagjöf. Það er vinaleikur í gangi þessa vikuna þar sem fjarnemarnir eru í heimsókn. Ég keypti sæta gjöf...segi ekki meir.
Vegna þess að fjarnemar eru núna hérna er mjög götótt stundaskrá og ég á lítið sem ekkert að fara í skólann. Þess vegna er ég mikið að spekúlera í suðurferð á fimmtudaginn til sunnudags. Þá gæti ég hugsanlega reynt að taka eitthvað upp með Árna þar sem við stefnum á að gefa út næstu plötu Worm Is Green í vor! En þetta er pæling, svo kem ég náttla um páskana. En ég er að deyja mér langar svo suður og veðrið er gott og allir í góðu skapi....Já. Kemur í ljós!
Ég er farin í ritgerðarsmíð!

p.s. ég var bara nokkuð sæt í sjónvarpinu í gær, er þaggi???
:o)

þriðjudagur, mars 09, 2004

Já það var gaman á árshátíðinni. Ég sló í gegn með því að syngja La vie en Rose og kjóllinn vakti mikla athygli. Ég elska líka þennan kjól. Nú eru myndirnar komnar inn því að ég er í heimatölvunni, það er komið líf í netið aftur hér.
Húrra fyrir gagnasmiðjunni í háskólanum!Við vorum hressar!
Sælt veri fólkið!
Ég er ekki dauð, ég náði mér ekki í kall eða neitt svoleiðis (þó svo að slóðin hafi verið á eftir mérj, hafði bara ekki áhuga á þeim) á árshátíðinni og myndirnar frá því koma eins fljótt og hægt er. Netið heima hjá mér er bara búið að vera dautt síðan á laugardag og þess vegna hefur ekkert gerst í bloggheimi minum í langan tíma.
Það eru myndir einhverjar myndir af árshátíðinni á pedromyndir.is var Thelma að segja mér rétt áðan en ég hef ekki skoðað það enn.
Núna þarf ég að flýta mér þannig að það verður ekki mikið sagt núna. Muniði bara að horfa á sjónvarpið í kvöld.

Ójá, Sjómaður Dauðans!!! þurfti að vera akkúrat í sjallanum þetta kvöld! WHY!!!! En hann lét mig í friði eftir smá ræðuhöld frá mér....

föstudagur, mars 05, 2004

Spliff spliffidí splúnk slúnk!! sagði eitt sinn maður að nafni Vilberg, kallaður Villi, klippari á Tony & Guy og bassaleikari Worm Is Green. En ég segi bara allt slembið og er hress og kát á þessum föstudegi.
Ég fór í hjúkrunarfræðitíma í morgun og var að læra heilmikið um svefn og hvíld. Ég er svo ánægð þessa dagana því ég er alltaf að læra eitthvað rooosalega skemmtilegt að ég sekk og gleymi mér oní bókunum. T.d. eins og í lífeðlisfræðinni. Ekki datt mér í hug að hún gæti verið svona skemmtileg!
Mamma kemur í dag og Martha smarta frænka ætlar að koma með henni sem ferðafélagi. Hún Martha og Hörður Gunnar eru líka bestu vinir, enda hefur Martha passað hann mikið síðan hann fæddist. Það verður eflaust gleðistund þegar hún og stubburinn hittast í dag. Mamma ætlar líka að koma með hálfa snyrtistofuna sína með sér, nei djók, hún ætlar að koma með eitthvað til að gera mig sæta fyrir árshátíðina á morgun. Flottan augnskugga eða eitthvað slíkt. Svo kanski nennir hún að lita augnhárin, þá væri gaman, því ég er eins og albínói ef ég set ekki á mig maskara!
Jæja. Ég ætla að fá mér slembna ristaða brauðsneið með slembnum reyktum laxi.
Meira síðar..
Slembið?!

fimmtudagur, mars 04, 2004

Er ég á rangri hillu??

Your future occupation by meteoric
Your name
Your future occupationVet
Yearly income$848,723
Hours per week you work57
EducationUp to 4 years of college
Created with quill18's MemeGen 3.0!
Ég er með orðið "slembi" á heilanum. Ég var að koma úr tölfræði tíma þar sem var mikið rætt um slembistærð og slembitölur og slembimeðaltal og slembifyrirbæri.... Allt mjög slembið. Núna huxa ég allt sem slembi og nota orðið slembi í daglegu slembitali.

Ég á vondan, illan slembiostaskera. Hann meiðir slembiostinn minn. Osturinn er niðurbrotinn eftir ostaskerann. Ég þarf að senda slembiskeran til skólastjórans til að láta slemba hann. Hinsvegar þarf osturinn á slembihjálp að halda. Ég ætla að halda áfram að kaupa ost í slembisneiðum ef enginn gefur mér nýjan, beittann slembisostaskera!

Slembið?!

miðvikudagur, mars 03, 2004

Nú er komið að því. Seinni þátturinn um Iceland Airwaves verður á þriðjudagskvöldið klukkan ellefu. Þar verður sýnt frá ýmsum tónleikum og viðtölum og þar á meðal erum við í Worm Is Green.
Man samt hvað mér leið ílla eftir þetta viðtal. Mér fannst ég hafa verið bjánaleg og sagt bara eitthvað asnalegt. Ég var ómáluð og með rautt kalt nef. Vonandi verður þetta ekki of horrible.
Ég var að ræða við píanóleikarann sem verður á árshátíðinni. Hann varð bara hræddur þegar hann heyrði hvaða djasslög ég hefði áhuga á að syngja, þannig að það verður enginn djass söngur. Þá er það bara gamla góða La vie en rose lagið hennar Edith Piaf sem verður fyrir valinu. Hann kannast við það og málið er að ef hann getur ekki spilað það, þá get ég alveg sungið það án undirleiks. Ég hef sungið þetta lag síðan ég var í grunnskóla, kann það mjög vel og þarf því ekkert að stressa mig. Ég fer líka í verklega lífeðlisfræðitíma í sjúkrahúsinu á laugardeginum frá átta um morguninn til fjögur um daginn! Þannig að það er stuttur tími til að leggja sig og gera sig fína (og æfa lagið) áður en maður mætir klukkan átta á árshátíðina!
Jamm...
Ég er sveitt og mér er heitt. Eftir að hafa tekið sameingarþrif síðan átta í morgun þar sem var svoooo drullugt. Ég þurfti að skipta hundrað sinnum um vatn og fara fimmtíu sinnum yfir sama blettinn alltaf, það var svo drullugt. Síðan er einhver lýður hérna í blokkinni sem skilar aldrei ryksugunni, moppunni og tuskunum niður í þvottahús eftir notkun heima hjá sér, þannig að það vantaði eiginlega allt niðri! Ég bjargaði mér með gamla laginu. Fann gamaldags kúst og gamaldagstusku og skrúbbaði og beit í tunguna í leiðinni alveg eins og mamma. Þurfti nokkrum sinnum að fara niður á fjórar og skrúbba!
Núna er ég lúin og illt í bakinu og glansandi af svita. Best að fara í góða sturtu og fá sér svo eitthvað gott í hádegismat!

þriðjudagur, mars 02, 2004

Ég er alveg að fíla Tori Amos í tætlur. Þessi cover laga diskur, Strange Little Girls sem ég keypti á markaðnum er alveg súper! Rosalega hrifin af lagavalinu hennar. Ótrúlega kúl hvernig hún tekur Im Not In Love, svo er líka mjög flott hjá henni Enjoy The Silence. Einna hrifnust er ég af '97 Bonnie & Clyde laginu. Maður fær alveg hroll við að hlusta á það og fylgjast með textanum. Brrrr...
Já. Ég ætla að vera góð við sjálfa mig því ég er búin að vera svo dugleg undanfarið og er glöð og ætla því að fá mér camembert og góðan tesopa. Auðvitað narta líka í marengsgumsið með berjunum..mmmm!

Solla frænka á líka afmæli í dag. Húrra! Til hamingju!
Ég játa mig sigraða! Ég er búin að hamast á sófanum með biotexi og einhverju þýsku snjásen pjásen efni sem á að fjarlæga túss og ekkert gerist! Kanski ég ætti að reyna einu sinni enn. Annars verð ég að farað kaupa efni eða áklæði á sófann til að hylja þessa tússbletti....
Bruce Willis draumur Björns Bjarnasonar;
Auka við sérsveit lögreglunnar.
Gaman að sjá að það eru ekki allir hættir að kommenta, það er það sem heldur manni í bloggstuði, þegar fólk fylgist með.
En allavega, þá er full orka í gangi ennþá. Ég er nýkomin heim eftir enn einn langan daginn. Var meðal annars í fjórum fósturfræðitímum sem er svoooo gaman. Við vorum að tala um hina ýmsu fæðingargalla og afbrigðilegheit í litningum og svo framvegis. Ég ætla deffinetlí að verða ljósmóðir einn daginn!!!
Síðan var svo gott veður þegar ég var búin í skólanum að ég skellti mér á bílaþvottastöð og þreif bílinn minn! Hann var SKÍTUGUR! Núna er hann eins og nýr, nema það sést bara betur rispan á honum sem ég verð að farað láta laga... þegar ég eignast pening. En svo tók ég til í ruslakompunni og skemmti mér bara ágætlega við það. Ætli ég taki ekki góða hreingerningu á sameigninni á morgun þar sem ég verð í fríi frá skóla.
Í kvöld verður svo bara létt að elda matur; hamborgari og svo sjóða kanski maisstöngul...mmmm..brætt smjör og salt...mmm...
Jebb, ekki búin að ákveða hvað ég geri við orku kvöldsins. Kanski dett ég niður dauð eftir kvöldmat? Eða ég fer og þríf sófann betur því hann er allur í svörtum túss eftir óþekkan strák!
Já, já.
Svo var ég að komast að því að ég verð að syngja eitt lag og verð með pianóundirleikara á árshátíðinni. Verð að munað hringja í hann uppá að geta æft eitthvað lag. Ætli ég taki ekki bara jazz svingara eða eitthvað hressandi. Ég fæ allavega frítt á árshátíðina fyrir að koma svona fram..víííí!!!!
Berglind ætlar að vera deitið mitt. Já, öfundið þið hana ekki!?

mánudagur, mars 01, 2004

Haldiði að ég hafi ekki gert alhreingerningu mínus skúringu (svona næstum því) áður en ég fór í sturtuna! Ég fylltist allt í einu viðbjóði yfir draslinu hérna og rauk og náði í ryksuguna þegar ég sá mylsnurnar á gólfinu þar sem Hörður Gunnar borðar reglulega matinn sinn. Eftir að ég hef tekið ryksuguna fram, þá sný ég ekki við. Ég ryksugaði allt nema svefnherbergið þar sem H.G. liggur sofandi. Ég pússaði gler og gluggakistur og allskonar annað sem hægt er að þurrka af ryk. Ég veit alveg afhverju ég varð svona pirruð eitthvað og úríll í skapinu þegar ég kom heim í dag, það var óhreint!
Mér líður illa þegar það er skítugt og þess vegna tek ég hreingerningu og hreinsa um leið sálina, svona gott Feng Shui.
Allavega líður mér miklu betur núna.
Marengsbotninn lítur vel út :o)

Og hvað á þetta að þýða! Eru allir hættir að kommenta hérna?
Dúdda þreytta, eða það hélt hún, stóð upp áðan og gerði ljúffengar ommilettur með allskonar gumsi í. Síðan skellti hún eggjum og sykri í hrærivel og er semsé að baka marengsbotn í ofninum.
Ég veit ekki hvað kom yfir mig. Ég lagði mig allavega eftir síðustu bloggfærslu í svona tuttugu mínutur en náði samt ekki að sofna. Ég hef greinilega náð góðri hvíld og safnað orku á ný! Orka já...
Ég var í svo miklum hamagangi í eldhúsinu að ég svitnaði einsog mófó og ætla því að skella mér í sturtu núna. Svo dettur mér örugglega eitthvað meira sniðugt í hug í kvöld....
Það sem ég finn stundum uppá. Nú þarf ég bara að kaupa ber og rjóma og kanski vanilludropa.
GEISP!
Ég er örmagna...búin að vera á fullu síðan hálf átta í morgun. Ég innbyrti mikinn lærdóm í lífefnafræði, líffærafræði og lífeðlisfræði í skólanum. Svo uppgötvaði ég það með skelfingu að það er fyrsti mars í dag! Ekkert hræðilegur dagur, meira að segja Guðveig frænka á afmæli í dag og til hamingju með það! En það er kominn mars mánuður og ég á að skila af mér ritgerð 25. mars og ég er ekki byrjuð! Svo veit ég eeeekkert hvað ég á að skrifa um, en það er val því þetta er bara ritgerð þar sem verið er að þjálfa okkur í þessu svokallaða A.P.A. kerfi, heimildaöflun og skráning og bla bla bla....
Ég ætla bara að reynað finna mér eitthvað einfalt efni, kanski eitthvað sem ég hef gert ritgerð um áður.

Annars sá ég mjög fyndið áðan. Það var kona að versla í Bónus með háralit í hárinu, þá meina ég, á meðan hún var að bíða eftir að liturinn væri tilbúinn, þá skellti hún sér barasta í Bónus að versla! Hún var með sítt hár og búin að vefja það uppí stóra klemmu. Liturinn náði vel niður á ennið og ég huxaði bara... okey, sumir eru ekki feimnir eða eitthvað! Held hún hafi líka verið með lit á augnbrúnunum en veit samt ekki því ég sé soldið ílla. Þá er hún bara með groddalega litaðar augnbrúnir.

Löt, geisp, nenni ekki neinu, það er drasl útum allt og ég nenni ekki að elda kvöldmat....fæ mér bara gulrót og djúsglas eða eitthvað. Kanski af því að ég var að læra til rúmlega tvö í nótt?

Ohhhh já!! Svo er ég með sameignina þessa vikuna! Þarf að skúra og þrífa skítinn eftir aðra! Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég hata að búa í blokk!