fimmtudagur, desember 30, 2004

Jæja. Hér hafiði það...

Áramóta-annáll Guðríðar árið 2004.

Ég byrjaði árið bókstaflega á því að djamma á Búðarkletti (síðustu áramót) með Sonju og Gvendi og nokkrum öðrum unglingum í Borgarnesi.
Fór svo aftur í skólann á Akureyri og massaði næstu önnina með stæl í hjúkrunarfræðinni, tók hjúkrunarfræði II, líffærafræði II, fósturfræði, lífefnafræði, lífeðlisfræði og tölfræði. Náði öllu með glanz..
Upplifði snjóþungann vetur á Akureyri. Festi bílinn þó nokkrum sinnum á bílaplaninu fyrir utan stúdentagarðinn minn.
Keypti mér digital myndavél og tók myndir af öllum andskotanum.
Gerði vonlausa karlaleit á Akureyri.
Brjálaðir Bifrestingar komu í heimsókn norður og Háværar Hjúkkur fóru í vísindaferð suður; mikið fyllerí.
Straujaði þjóðveginn Akureyri-Reykjavík þó nokkrum sinnum með bílnum mínum.
Tróð upp á árshátíð háskólans með glans og hæfileikakeppni háskólans með óglans...
Búin að fara mikið í hvíta sloppa og hvítar buxur og vinna við ýmsa aðhlynningu. Fór í fyrsta verknámið mitt í hjúkrun á bæklunardeild FSA og það var gaman! Sérstaklega á skurðstofunni.
Fór í tvær fermingarveislur.
Flutti í foreldrahús eftir vorönnina á Akureyri, alein. Bjó semsé í Borgarnesi í þrjá mánuði.
Vann á Dvaló í Borgarnesi um sumarið.
Sendi Hörð Gunnar á sitt fyrsta fótboltanámskeið.
Sonja og Peter komu í heimsókn frá Englandi og Sóley kom í heimsókn frá Færeyjum.
Fór tvisvar til Danmerkur um sumarið. Fyrst á hróarskeldu þar sem ég gékk dauðagönguna með vinum mínum í drullu, þrumum og eldingum og stærstu rigningardropum sem ég hef orðið vitni að.
Svo fór ég aftur til Danmerkur, en þá í fyrstu tónleikaferð Worm Is Green erlendis. Spiluðum á Public Service Festival og tókst vel.
Spiluðum mikið á árinu og diskurinn okkar, Automagic, var gefinn út í júní í USA hjá Arena Rock Recordings!
Söng líka einhvern djazz með pabba á árinu.
Fann íbúð á Akranesi til að vera í næsta vetur. Færði mig yfir í fjarnámið þar. Gerði meðal annars dauðaleit að þvottavél og ísskáp með frystihólfi. Flutti aftur, alein!
Hörður Gunnar byrjaði í 4. leikskólanum sínum, Teigasel á Akranesi.
Fór til Bandaríkjanna, tvisvar!
Fórum fyrst í byrjun september, Worm Is Green, í West-Coast Tour með Ovian í tvær vikur. Flugum til New York og svo til Seattle. Keyrðum svo niður til Portland, Oakland, San Fransisco og Los Angeles. Wicked!
Þann 28. september eignuðust Helga og Helgi hann Huga Baldvin.
Fórum aftur í 4-5 vikur í byrjun nóvember í US-Canada Tour með Solex, OnAirLibrary og Ovian. Fórum hreinlega hringinn í kringum Bandaríkin. Even more wicked!! Það er nú margra blaðsíðna ritgerð að segja frá Bandaríkjaferðalögunum þannig ég fer ekkert nánar útí það.
Missti semsé af fjarnáminu og fór því ekkert í skólann á haustönninni.
Sótti um vinnu til áramóta á Dvalarheimilinu Höfða og var svo lánsöm að geta stokkið beint inn í afleysingar í 6 vikur, eða til áramóta.
Átti góðar stundir með vinum og fjölskyldu á árinu.
Skar hjartað úr mér með skeið nokkrum sinnum á árinu (ástarsorg).
En að öllu leyti, BRILLIANT ÁR!
Ég þakka fyrir mig og óska öllum gleðilegs árs og þakka allt það liðna.
Ég bíð spennt eftir árinu 2005 :)
Hehehehe..
Ég er búin að vera að brasa við soldið hérna á netinu og fann þá þetta aftur. Ég var búin að gleyma hvað þetta var fyndið.
Hehehehe...
En á meðan við höfum það gott á okkar áramótum, þá er sjálfsagt að leggja smá pening í annað en snakk og flugelda líka. Það eru ekki allir sem hafa það jafn gott og við. Ég er því þakklát fyrir það sem ég hef. Ég reyni að leggja fram eitthvað, þó það væri ekki nema hringja einu sinni í þetta númer...

Þeir sem þekkja Akranes þekkja Skagaver. Stór, mannlaus og skrítin verslun. Það fara ósköp fáir þangað að versla. Flest allir eru fastakúnnar hjá Einari Ó. eða þá versla ódýrt í Nettó. Ég ætlaði t.d. áðan að farað versla snakk og osta í Nettó en var fljót að snúa við. Það var hrúga af bílum fyrir utan og engin leið að komast inn. Þá tók ég rúnt framhjá Skagaver. Þar voru 4-5 bílar fyrir utan. Splendid! Ég fór þangað inn og þar var ekki mikið af fólki eins og venjulega en þó eitthvað aðeins meira. Þarna voru hin og þessi tilboð á snakki, gosi og saltstöngum svo eitthvað sé nefnt. Ekki sem verst. Þarna gerði ég nebblilega góð kaup á áramótasnakki, á góðu verði, í friði og ró og engu stressi, í gamla góða Skagaverinu. Húrra fyrir því!

miðvikudagur, desember 29, 2004

Mikið er lagið Five Years gott (með David Bowie). Það minnir mig óneitanlega mikið á þjóðvegi Bandaríkjanna þar sem Brede setti það oft í botn á ipodinum sínum.
En það er líka annað lag sem heitir 5 Years og það er með henni Björk af plötunni Homogenic. Ekki líkt og lagið hans Davids, en mjög flott líka. Hef oft spilað það þegar ég er í fýlu út í stráka sem geta ekki ákveðið sig!!
En nú er ég farin að vinna...ble...
Vitiði hvað ég er spennt. Ég er líklegast ein af fáum sem hlakkar svona obboslega til að fara í skólann eftir áramót. Ég veit að flestir vilja ennþá vera í jólafríinu og hvíla sig meira og borða meira gotterí. En ég er komin á fullt. Leita að bókum fyrir önnina, prenta út stundaskrána, kynna mér kúrsana og margt fleira. Ég er orðin svo spennt að ég get varla beðið :)
Fyrsti kennsludagur er 10. janúar. Snilld! Og vitiði hver kennir fyrsta tímann!? Nei, þið vitið það náttla ekkert og þekkið hann ekkert, nema þið séuð hjúkkunemar í HA. Það er enginn annar en Ingvar Teitsson sem byrjar kennsluna næstu önn með tvo tíma í Lyfjafræði! Veeeiii...Hann er langskemmtilegastur, þó hann sé stundum þvílíkt spes og erfiður. En já....mig hlakkar til. Nú svo fer ég líka norður á önninni og hitti stelpurnar í bekknum aftur! :)
Víííí....

En núna þarf ég að farað drífa mig uppá skaga því ég bauðst til að skipta vakt. Ég tek kvöldvakt í kvöld sem þýðir það að ég slepp við að taka kvöldvakt 3. janúar, sem átti jafnframt að vera síðasta vaktin mín. Næs.
En ég er farin uppá bókasafn fyrst að hitta stöllur mínar þar. Ég þarf líka að skila bókinni sem ég var að lesa um jólin, "Raddir að handan" eftir Marion Dampier-Jeans. Hún er mjög virtur miðill um allan heim. Maður les svona bækur náttla með vara, en það er margt í þessari bók sem útskýrir ýmislegt, t.d. í sambandi við stóra jarðskjálfta eins og gerðist um jólin og atvik eins hryðjuverkin 11. september. Svo talar hún líka um andatrú frá hinum og þessum löndum. Hún talar sérstaklega um það að Ísland sé mjög andríkt land með alla sína álfa og tröll :)

Jæja, ble í bili.

mánudagur, desember 27, 2004

Slef...
Ég rotaðist uppí sófa áðan eins og "TBK" (móðurfjölskylda mín skilur þetta tungumál).
Það er fiskidagur í dag eftir kjötát síðustu daga. Ég fékk soðna ýsu í hádeginu í dag. Svo fékk ég mér rúgbrauð með síld áðan. Núna ætla ég að fá mér ristað brauð með reyktum silung og tesopa. Nammm.
Vó. Ég er svo soðin af þreytu að ég bullaði svo mikinn bulltexta hérna áðan. Ég strokaði hann út. Hann var of persónulegur og mikill áróður í gangi. Veit ekki. Það eru fréttatímarnir sérstaklega sem gera mig stundum reiða.
En ég læt þetta kjurrt og segi bara hmmm...
Jólin eru búin að vera góð. Það er gott að eiga þessar friðar-hvíldar-daga. Ég þakka fyrir það hvað ég hef það gott miðað við marga aðra. Ég tók nokkrar myndir að sjálfsögðu. Og ég var líka svo heppin að sjá glitskýið á jóladag! Vá hvað það var flott! Ég reyndi að taka myndir af því, en það sést ekki nógu vel á myndunum hvað það var flott.
Vonandi á fólk eftir að sjá svona ský einhverntíman, þeir sem ekki sáu það á jóladag. Ég get svarið það. Þetta var í raun eins og tákn frá Guði!
En jámm...það er alltaf að verða að meiri og meiri veruleika þetta áramótapartý á Sóleyjargötunni. Allir voða spenntir fyrir því. Segjum það þá bara, partý hjá mér!!

föstudagur, desember 24, 2004

Gleðileg jól kæri bloggheimur!

miðvikudagur, desember 22, 2004

Damn!!!
Þreyta.is
Ég skal segja...var búin að skrifa hérna ansi þreytta færslu og ég eyddi henni óvart.
Önnur tilraun:
Ég er að baka smákökur. En þær eru á góðri leið með að verða eins og skrímslið sem Særún bakaði um daginn. Ég veit alveg afhverju. Ég er ekki léleg að baka. Ég er góð að baka. Ég er bara dauðþreytt eftir langan dag. Búin að þrífa allt húsið hjá mömmu og pabba hátt og lágt, keyra fram og tilbaka nokkrum sinnum borgarnes_akranes, og svo þetta...baka kökur...
Þetta er bara merki um það að ég eigi að farað leggja mig áður en allt fer til fjandans. Ég er líka að farað vinna á morgun klukkan átta. Djís..
Bestað farað kíkja á kökuskrímslið mitt.

þriðjudagur, desember 21, 2004

Hvað segiði vinir mínir? Er einhver stemming fyrir því að mæta í partý heim til mín á skagann um áramótin?
Jólaundirbúningur, á síðasta snúningi, eða hvað??
Ég svaf út í morgun. Mikið var það nú gott. Vaknaði laus við allan pirring og þreytu, en samt enn með smá kvef. Ég skellti mér því í gott heitt bað og brunaði svo suður á Saloon Laugarvegur 5 í klippingu og litun til Guðveigar frænku. Núna er ég orðin falleg fyrir jólin með aðeins styttra hár og aðeins meiri blondína. Síðan skellti ég mér í smá göngutúr upp Laugaveginn með Særúnu og keypti allar jólagjafirnar einn, tveir og þrír! Búin að því! Ég fíla það að labba Laugarveginn frekar að fara inn í Kringlu eða Smáralind. Það er bara kleppur að fara þangað inn. Á Laugarveginum þarf maður ekki að fara í neinar biðraðir og það er hægt að kaupa allt þar. Plús það að það er alltaf stemming að labba Laugarveginn, eða lúgarvúgur eins og Greg sagði eitt sinn.
Þegar ég kom heim áðan uppgötvaði ég það að ég var eiginlega ekkert búin að borða í dag. Þess vegna eldaði ég mér góðan kjúklingarétt í tilefni þessa góða dags. Svo á ég bara eftir að föndra síðustu jólakortin í kvöld og þá er ég eiginlega búin með allt mitt. Þá er bara að bruna uppí Borgarnes og hjálpa mömmu og pabba með þetta síðasta. Þrífa húsið, skreyta og búa til jólaísinn. Gott mál. Svo þarf ég að vinna á Þorláksmessu, fyrst á Höfða frá átta til fjögur og svo bruna beint uppí Borgarnes og hjálpa mömmu á snyrtistofunni. Svo eru barasta bara komin jól. Hananú!
Gaman gaman...
Ég endurtek; þreyta,kvef og pirringur!
En ég á frí á morgun...hjúkkit.

sunnudagur, desember 19, 2004

Helgin: Þreyta-pirringur-þreyta-hálsbólga/lugnabólga-þreyta-endajaxlaverkir....

En það var æði að sjá Brúðarbandið á föstudaginn :)

föstudagur, desember 17, 2004

Mikið er alltaf gaman að fara í gegnum gamlar myndir. Særún á alltaf gott myndasafn.
Þessi mynd er t.d. í miklu uppáhaldi hjá mér...hehehe!
Elsku Sigga frænka mín á afmæli í dag! Í tilefni þess er ég búin að hlaupa upp og niður stigann frammi (hreyfa mig) vaska upp, laga til og henda drasli sem ég þarf ekki að nota! Hún skilur þetta...
Innilegar hamingjuóskir með daginn S.is

Ohh! Ég er svo mikið hræ núna! Ég er komin með rífandi hálsbólgu og þegar ég tala um rífandi, þá meina ég rífandi. Það er nefnilega eins og hálsinn á mér sé að rifna þegar ég hósta. Sviði og sársauki og ég get ekki gert annað en að fá mér heitt te með hunang.
Ég get náttla skriðið aftur uppí rúm með trefil um hálsin og hlýjað mér...pæling.
Tja...hef náttla ekkert að gera núna, nema jólakortin. En ég verð að vera hress í kvöld. Brúðarbandsafmælið mar!!

fimmtudagur, desember 16, 2004

Jólaseríuæði.
Nú bý ég í íbúð sem er með frekar marga glugga. En ég á nokkrar litlar jólaseríur þannig að ég er með sex litlar seríur í sex gluggum. Ég skil semsagt tvo glugga auða eftir, einn inná baði og hinn frammi á stigapalli. Fyrir neðan mig eru tvær íbúðir og svo er bílskúrinn þeirra hérna fyrir utan. Það eru ein til tvær seríur í hverjum einasta glugga hjá þeim hérna niðri, plús það að það eru seríur í öllum gluggum í bílskúrnum (3 stórir gluggar). Svo eru svona allskonar snúruvafningar og læti meðfram þakinu á bílskúrnum, grindverkinu og á svölunum. Plús stór marglituð sería í einum runnanum úti í garði. Það er semsé mjög vel upplýst húsið sem ég bý í með marglituðum seríum.
Já, semsagt, þau eru líka búin að setja seríur í gluggana í stigaganginum. Svo kom konan á hæðinni fyrir neðan mig og spurði mig alvarlega hvort þau mættu nokkuð setja eina seríu í gluggan á stigapallinum mínum?! Ég sagði bara jájá...
Það hlýtur að hafa pirrað þau eitthvað að sjá þessa tvo seríulausa glugga á minni hæð. Þau geta sett þessa seríu á stigapallinn minn, það er bara krúttlegt (bara allt í drasli á stigapallinum). En þau geta nú ekki farið að setja seríu í gluggan inná baði. Ég ætla ekki að deyja úr raflosti í baðinu eitt kvöldið...

Það er nú meira þetta seríuæði í fólki!
Og hvað er í kvöld?Jú, mikið rétt. Scrubs! Víííí....
Úff. Ég var að koma úr barnaafmæli þar sem var mikið af kökum og kaffi og nammi og gosi og jú neim it! Núna er ég komin með magapínu og langar bara að liggja uppí sófa í allt kvöld. Sem betur fer á ég frídag á morgun. Ég verð líka að vera hress fyrir Brúðarbandsafmælið! Allir að mæta!!
Hörður Gunnar er komin með jóla"klippinguna"

Mikið rosalega er kalt úti! Rosalegt! Það voru þrír galopnir gluggar í nótt og því var íbúðin eins og frystikista þegar ég vaknaði í morgun! Ískalt. Fór inná bað, þar sem eru flísar á gólfi og þær voru rooosalega kaldar! Og fötin sem ég var búin að taka til fyrir daginn, þau voru ísköld! Eldhúsið var hryllilega kalt! Galopinn gluggi þar. Það er ennþá kalt þar núna, tveim tímum eftir að ég lokaði glugganum! Fór sko út í morgun með H.G. í 5 ára ungbarnaskoðun. Það var svoooo kalt á leiðinni að ég hélt að beinagrindin í mér myndi stirðna á staðnum þegar ég tók skref út í kuldann! Svo var mikill vindur og maður fékk þetta ískalda loft allstaðar inn um allar smugur. Þó ég haf sett trefilinn nokkra góða vafninga utan um hálsinn, húfuna niður á herðar, vettlinga yfir jakkann, girt bolinn undir lopapeysunni oní buxurnar, þá kemst alltaf kuldi inn að skinni!
Úff...þetta var erfiður morgun!

miðvikudagur, desember 15, 2004

Mikið rosalega var ég falleg þetta kvöld.
Aahh...
Ég get svarið það. Ég fékk magapínu á því að horfa á 5 mín af Bachelorette!
Ég gæti ælt!!
Oj bara...
Klár stelpa. Já, já...
Ég hef allt of mikið að gera þessa dagana. Þá er ég kannski ekki að meina einhver skylduverk. Heldur fullt af allskonar hobbýum sem ég er búin að raða í kringum mig, því ég er ekki í neinum skóla eða prófalestri þessa önn. Ég er til dæmis búin að setja jólakortin í einhverja frystingu, nenni bara einfaldlega ekki að föndra meir þessa dagana. Eins sitja skóteikningarnar mínar líka á biðlista. Það nýjasta þessa dagana er að læra á tvö forrit sem Árni Teitur lét mig fá.
Fyrst er það forrit til að semja einhverja múzík. Hann Árni sagði að það væri nú kominn tími til að ég reyndi að minnsta kosti að prófa að semja eitthvað sjálf. Ég hef aldrei prófað það. Ég ætti nú að hafa erft einhver "composing" gen frá honum pabba mínum þar sem hann hefur verið að semja múzík síðan hann var unglingur.
Hitt forritið er eitthvað videoklippiforrit. Þá hafði ég hugsað mér að taka allar myndirnar úr Bandaríkjaferðalögunum og raða saman, setja múzík saman við og búa til litla stutt mynd.
Svo tekur náttla hellings tíma að læra á þessi tvö forrit. En ég er ansi dugleg að fikta mig áfram í svona dóti. Þarf bara að vera þolinmóð...
Svo á ég eftir að skreyta piparkökuhúsið og baka eina sort.
Svo ætla ég að lesa tvær eða þrjár bækur.
Nóg að gera.
Hvar á að byrja?
Ég er allavega þreytt núna. Byrja á að leggja mig aðeins á meðan H.G. horfir á barnatímann...
Attention!
Attention!
Hverjir koma með mér??

mánudagur, desember 13, 2004

Það munaði mjóu að ég hefði hreinlega sofnað í baðinu áðan. Ástæðan er sú að fyrir utan að hafa verið pínu þreytt eftir þeyting dagsins, þá lánaði Árni Teitur mér snilldar diska. Ég var einmitt að hlusta á einn sem heitir "Putting The Morr Back In Morrissey" sem er tvöfaldur safndiskur frá Morr-múzík! Algjör snilld sá diskur...
Hmm..held ég eigi smá bland í poka einhverstaðar hér til að mjóna mér á. Horfa svo kannski bara á smá video. Hvernig væri það?
Ég er búin að grenja og pissa á mig, vegna þess að ég er búin að hlæja svo mikið að jólaskrautinu í Borgarnesi! Ég tók nettan rúnt í gegnum helstu göturnar (þær eru nú ekki svo margar) og sá ljótari og ljótari skreytingu með hverju húsi!
Kannski ekki alveg, en það eru allaveg 5 hús, mjöööög ílla skreytt. Ég hvet alla sem eru ekki Borgnesingar að taka rúnt í gegnum Borgarnes og reyna að finna þessi fimm hús og koma svo með uppástungu, hvaða hús fái verðlaun fyrir ljótasta og hallærislegasta skrautið!
En Skagamenn eru ekkert heilagir heldur. Ég er líka búin að sjá helling af ljótu jólaskrauti hérna. Ég á bara eftir að taka alminnilegan rúnt á skaganum til að athuga þetta betur. Ég þyrfti svo að muna eftir myndavélinni minni og reyna að taka myndir af þessu ljótasta, bæði úr Borgarnesi og Akranesi, fyrir þá sem ekki komast í þennan rúnt og skoða!
Ég er samt alveg viss um að þetta sé ekki bara einungis á þessum tveim smábæjum. Held nú síður. Ég er nú búin að vera rúnt fram og tilbaka til Reykjavíkur og búin að sjá helling af viðbjóðslegum skreytingum.

Fór semsagt suður í dag og heimsótti Árna. Við tókum svolítið upp og hann lét mig fá eitthvað undur í tölvuna mína svo ég geti sjálf dundað mér við það í frítíma mínum að semja einhverja tónlist. Ég ætla að reyna að fara aftur suður á morgun (ef veður lofar) og taka meira upp og jafnvel skjótast í jólapakkaleiðangur í Kringluna.
Geir ætlar allavega að taka strákinn á morgun og vera með hann næstu nótt, þannig ég þarf ekkert að drífa mig heim. Bara mæta á morgunvaktina á miðvikudaginn :)
Það besta við Living Daylights er að hún er rómantísk. Hann heldur sig við eina konu og virðist vera mjög ástfanginn af henni. Fæ stundum ógeð á þessum glaumgosa-stælum og klobba-klobbason látum í Bond.
Svo er náttla A-ha með stórkostlegt lag í þessari mynd :)

sunnudagur, desember 12, 2004

Það voru bakaðar piparkökur í gær. Ég sat bogin og vandvirk yfir þeim allan daginn og skreytti og skreytti með öllum regnbogans litum. Ég bjó líka til piparkökuhús. Ég náði samt ekki að klára það því ég var orðin ansi þreytt eftir málarahangsið allan daginn. Náði þó að líma það saman og á því bara eftir að skreyta það með glassúr og glimmeri.
Ég horfði síðan á "Night at the Roxbury" og "Bridget Jones" eftir erfiðið. Það þýddi það að ég fór að sofa með bros á vör. Góðar myndir. Hafði aldrei séð Bridget Jones og ég skil nú hvað allar vinkonur mínar voru að tuða yfir mér hverju ég væri að missa af.
En allavega, þá klikkar Will Farrel heldur aldrei :) Verð að nálgast best of efnið hans heima hjá Árna!
Ég fór svo suður með möm og pab og bro og HÖ, skiljiði? Við tókum rúnt í gegnum Kringluna. Keypti ekki nema einn hlut. Annars var ég bara að skoða og átta mig á því hverjum ég ætla að gefa hvað. Það er annars kleppur að fara og reyna að versla á þessum tíma. Ég ætla frekar að fara suður núna í vikunni því ég á frí þangað til næsta miðvikudag. Þá ætla ég að fara helst fyrir hádegi og stússast í jólagjafaveseni. Ein og í friði..muhahaha!
Við heimsóttum líka Guðbjörgu ömmusystir í þessari ferð. Það þurfti nú ansi lítið til að gleðja hana. Bara rétt að stinga hausnum inn. Skrítið samt hvernig það er að hitta sína eigin ættingja (með Alzheimer) þegar maður er búin að vinna svo mikið með svona sjúku fólki. En hún er svooo hress alltaf þegar maður hittir hana. Það sést allavega ekki á henni að henni líði illa. Ó nei, heldur brosar hringinn og syngur þegar hún sér mann. Sætt :)
Síðan lá leiðin á þennan stað. Jómfrúin tók vel á móti okkur. Svo vel, að okkur leið öllum eins og við værum komin aftur "heim" til Danmerkur. Fengum okkur ekta danskan jólamat og tókum það með ró. Síðan keyrði ég hingað uppá Skaga og Jóhann tók svo við og keyrði restina uppí Borgó, á meðan mamma og pabbi sváfu bæði, södd og sæl, bæði gapandi af þreytu, aftur í.
Núna er bara gott tjill í gangi. Kannski maður taki smá föndur í kvöld. Nenni því nú samt varla. Ég veit bara að ég ætla að horfa á Timothy Dalton í kvöld...grrr! Hann var og er alltaf flottasti Bondinn. Ég bara kolféll fyrir augunum :)

laugardagur, desember 11, 2004

Ja hérna jamm og jæja!
Lenti í aldeilis óvæntu kvöldi í gær. Ég sem ætlaði bara að klára mína kvöldvakt klukkan tólf og fara svo uppí Boringnes og gista þar. En haldiði ekki bara að hún Hrund vinkona hafi hringt í mig og tilkynnt mér það að hún væri stödd á Skaganum! Það var ekki spurning, við urðum að hittast á kaffi Mörk! Og svei mér þá, það var æðislega gaman að hitta hana. Sérstaklega þar sem ég hef ekki hitt hana Hrund alminnilega í langan tíma. Það var semsé alveg kominn tími á þetta reunion! Það var blaðrað langt fram á nótt um heima og geima og við fórum sáttar heim að loknu kvöldi :)
Nú er ég hinsvegar komin uppí Boringnes og er að bíða eftir mömmu því við ætluðum að baka alveg heilan helling í dag. Jebb...svo förum við suður að búðavesenast á morgun og skellum okkur svo í smörrebröð hjá jómfrúnni eftir daginn.
"Så er det pigetur i byen!"

föstudagur, desember 10, 2004

Það eru bara jólakortin fram að næstu kvöldvakt. Ömurlegt annars að vera á kvöldvakt á föstudagskvöldi þegar maður á helgarfrí! Ég huxa að ég fari uppí Borgarnesi eftir kvöldvaktina því ég ætla að baka smákökur á morgun. Mamma er með miklu betri ofn en ég. Ofninn minn titrar og blikkar augunum þegar hann er í gangi!? Svo þarf líka pabbi að sækja drenginn í leikskólann í dag og fara með hann uppí Borgarnes. Ég þarf nú að vera hjá drengnum mínum eitthvað. Annað hvort er ég að vinna eða alltof upptekin við eitthvað annað. Nútímafólk í dag hefur alltof lítinn tíma til að vera með börnunum sínum. Maður þarf víst að reyna að gera eitthvað til að geta lifað af og borgað reikninga og keypt mat. Það kostar tíma. Frítímí verður því lítill...
Röfl.

Annars er góður dagur í dag. Hann Villi á afmæli. Til hamingju með það Villi minn.
Þú ert flottasti og bestasti bassaleikari í heimi.

Ég ætla að gefa þér flengingu í afmælisgjöf!

fimmtudagur, desember 09, 2004

Ég held að ég sé búin að taka endanlega ákvörðun um næsta vetur hjá mér.
Ég og mamma erum búnar að skeggræða mikið hér í dag og í gær og svosem alla aðra daga. Það er gott að hafa mömmu og pabba að, þau hjálpa mér ÓENDANLEGA mikið og ég get aldrei þakkað þeim nógu vel fyrir það.
En málið myndi þá vera þannig að Hörður Gunnar mun fara í Grunnskóla Borgarness næsta vetur. Ég mun færa mig yfir í HÍ, hvernig sem ég fæ það nú metið inn, en þá verður bara keyrt á milli og Guð má vita það að ég er vön að keyra allan andsk....
Ég mun þá kannski reyna að leigja mér lítið herbergi eða litla íbúð til að geta dvalið í og lært í friði í miðri viku. Annars mun ég bara eiga heima hjá mömmu og pabba, spara pening, því það er FOKdýrt að leigja í Rvík!
Ekki vil ég farað flytja mig og H.G. suður og láta hann fara í skóla í Reykjavík. Hann á enga vini þar (hann á vini í Borgarnesi og Akranesi), plús að að honum leiðist að vera í Reykjavík, sérstaklega þar sem við búum bara tvö ein og ekkert gerist í kringum okkur. Það er basl að vera tvö ein.
Tja...það er nú kannski ekki alltaf leiðinlegt hjá okkur. En ef hann verður í Borgarnesi næsta vetur, þá er fullt af fólki í kringum okkur til að hjálpa okkur í sambandi við pössun og margt fleira. Ég get því miður ekki reytt mig á suma... það er alveg gagnslaust, þó svo ég búi meira að segja í sama bæ og næstum því í næsta húsi við suma, þá geta sumir ekki hjálpað til!
Jæja...best að farað drífa mig útá Skaga aftur því það er kvöldvakt í kvöld. Og ég er búin að redda pössun fyrir Hörð Gunnar eftir langan kvíða og stress. Það er nebblilega jólaskemmtun í leikskólanum hans á morgun og ekki vil ég láta hann missa af því. Guði sé lof fyrir henni Hörpu Harðar! :)

Hver veit...kannski fæ ég bara mann í jólagjöf frá jólasveininum til að vera hjá okkur Herði Gunnari?! Ég er búin að senda óskalista til hans...

miðvikudagur, desember 08, 2004

Myndirnar eru allar að koma aftur í ljós.
Hægt og rólega...
Ég er búin að setja beina linka inn á hvert albúm.
Ég er sniðug stelpa!
Það á eftir að koma meira og meira...
Ég skellti mér óvænt suður til Reykjavíkur í morgun með mömmu og pabba. Þau þurftu eitthvað að vesenast í IKEA og Rúmfatalagerinn og mamma þurfti aðeins að kíkja til tannsa. Fórum fyrst til tannsa þar sem þurfti bara að taka eina mynd af tönnunum. Ég átti mjög í vandræðum með að hemja hlátur minn þar sem mamma gretti fram tennurnar sínar framan í einhvern útlenskan dreng sem skildi ekkert í myndavélinni. Hann tók fleiri og fleiri myndir og alltaf voru þær úr fókus (sennilega að því að mamma fór alltaf að hlæja eftir hverja grettu).
Nú jæja, svo skelltum við okkur í heimsókn til Inga Vilhjálms og skoðuðum margt á heildsölunni hans. Ég fékk mér þar ýmislegt dót eins og hárklemmu, armband, sokka, reykelsi, eyeliner og mitt langþráða svarta ponsjo! Alltaf gott að kíkja til Inga. Svo býður hann manni líka alltaf uppá te eða kaffi og hrökkbrauð með osti.
Næsta stopp var svo Rúmfatalagerinn, þar sem allt er í drasli og leiðinleg tónlist í hátölurunum. Ég skellti mér á enn eina jólaseríuna í glugga og svo fann ég nokkrar "skógjafir" handa Herði Gunnari. Svo er ALLTAF leiðinlegt starfsfólk í Rúmfatal. Stúlkan á kassanum sem afgreiddi mig var greinilega að DREPAST úr leiðindum þar sem hún hallaði sér að kassanum eða borðinu til skiptis með annarri hendinni til að styðja við höfuðið og ranghvolfa augunum. Síðan var mamma að reyna að spyrja hana að einhverju og það tók nokkrar sekúndur fyrir hana að tengjast jörðinni til að geta svarað. Og hún svaraði náttla að hún vissi ekki neitt... Svo spurði hún hvort ég vildi poka á meðan ég var að baslast við eitthvað í töskunni minni heillengi og ég játaði pokanum. Hún henti pokanum á borðið og hallaði sér svo aftur í stólnum með krosslagðar hendur og horfði á mig baksla með töskuna (ég var að flýta mér því það var mikil röð á eftir mér), í staðin fyrir að setja þetta örfáa sem ég keypti í pokann fyrir mig! Það endaði náttla með því að ég VARÐ bara að spyrja hana:
"Leiðist þér svona mikið í vinnunni vænan?" Og hún svaraði:
"Ehhh...nei, ég er bara svo þreytt.." Þá sagði ég henni að hún þyrfti nú að fá sinn átta tíma svefn á nóttunni til að geta lifað daginn af, þakkaði svo fyrir mig og kvaddi.
Svo fórum við beint í IKEA og röltuðum þar góðan hring með stoppi í mötuneytinu. Einhverntíman verður maður að sættast við svíana og þess vegna fékk ég mér sænskar kjötbollur í hádegismat og glas af Egils appelsíni, sem ég svo svelgdist alveg hrillilega á í miðjum matnum og hóstaði og varð eldrauð í frama og allir horfðu á mig. En það var nú samt gaman í IKEA, alltaf gaman þar reyndar. Ég keypti mér tvo kolla þar sem ég á svo lítið af stólum. Það er alltaf vandamál að fá gesti í heimsókn vegna stóla-leysis. Það er líka hægt að nota kollana sem lítið hornborð undir blóm eða hátalara því þeir eru mjög klassískir í útliti og ferkantaðir. Svo keypti ég líka eina jólastjörnu. Ég ætla nefnilega að þurrka af, ryksuga og skúra hjá mér í dag og stilla svo jólastjörnunni pent uppá borð eftir hreingerninguna.
Klukkan tifar.
Hreinleiki og skítur fer ekki saman.
Ég er farin að þrífa!
Jæja. Þá er ég búin að laga soldið til hjá mér og komin með nýja myndasíðu. Ekkert kjaftæði lengur.
Ég er semsé búin að vera að dunda mér við það á þessum vaktafrísdegi að setja inn eitthvað af myndum. Ég tók að sjálfsögðu fyrst myndirnar frá US ferðalögunum okkar.
Þetta tekur náttla langan súran tíma, en það jákvæða við þetta er að ég skoða allar myndirnar aftur og rifja upp í leiðinni, hvað það var nú helv.. skemmtilegt í þessum ferðalögum okkar! :)
Erum við Bibbi ekki sæt hérna. Ég átti einmitt afmæli þennan dag í Seattle.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Hahahaha!!
Ja hérna. Ég get ekki sagt að ég sitji aðgerðarlaus núna eða hringsnúist um á gólfinu með þráhyggju. Ó nei. Það er nóg að gera. Þó að ég hafi tekið mér pásu frá jólakortunum, þá er ég á fleygiferð.
Ég er nefnilega að byrja á því að hlaða öllum myndunum mínum (sem ég blessunarlega geymdi á öðru skjali hérna í tölvunni) sem eru dottnar út því xphotoalbum síðan er dottin út. Jebb... allt horfið. Glatað!
En ég fann nýja myndaalbúmsíðu, sem er flottari og fljótari og er því að dúttla mér við þetta á næstunni.
Stöndum saman Ragnheiður!!

mánudagur, desember 06, 2004

Ég þoli ekki þegar eitthvað er á fleygi ferð í hausnum á manni. Semsé, maður er stanslaust að hugsa um einhvern eða eitthvað og getur ekki annað. Ég er búin að væbblast um í hálfgerðu eirðarleysi og hugsa og hugsa. Svo reyni ég að setjast niður og föndra jólakortin áfram. En þá er ég að hugsa svo mikið að það kemur enginn andi yfir mig til að föndra þessi kort og ég stend því aftur upp og fer að hringsnúast um á gólfinu.
Iss...ljótt að vera svona. Heitir þetta ekki þráhyggja???
Ég held ég fá mér toblerone og ískalda mjólk í glas og reyni að setjast niður og horfa á CSI á eftir!
Ungverjaland 2005!!!
"Ég heiti Sherlock Holmes. Kalliði mig bara Sherlock..."

Já, það er búið að vera mikið að gera og nú er ég komin í þriggja daga frí. Næs.
Ég fékk semsé breytt vaktinni minni þarna á laugardaginn sem gerði það að verkum að ég komst suður í afmælið hennar Sessu. Hinsvegar þurfti ég allt í einu að bæta inn í reikninginn nokkrum ferðum uppí Borgarnes með strákinn í pössunn þar sem Geir gat ekki verið með hann. Þannig það var ekki mikið um það að "leggja sig aðeins" fyrir helgina. Ég vann kvöldvakt á föstudeginum og svo morgunvakt á laugardeginum. Brunaði svo hratt uppí Borgarnes eftir það með strákinn í pössunn og fór svo aftur heim á skagann og fór í fljótasta bað í heimi. Mér tókst þó að gera mig sæta á mettíma og fór svo til Reykjavíkur og beint til Sonju.
Afmælið var síðan æði. Það var haldið á Kambsveginum, heima hjá foreldrum Sessu og mikið af skemmtilegu fólki. Eftir mikið pinnamatarát og bolludrykkju, þá ákváðum við Sonja, Særún og Jóhanna að skella okkur DOWNTOWN (en þó ekki með Mrs. Miller).
Þar fórum við á Kaffibarinn og fórum svo bara ekkert annað, heldur héldum okkur þar þangað til lokun! Það var mergjað stuð og dansað og sungið og baðað sig í nokkrum lítrum af bjór og öðru áfengi sem skvettist yfir mann á þröngu dansgólfinu með reglulegu millibili.
Kvöldið endaði svo óvænt þar sem Otto góðkunningi og tveir aðrir mættu heim til Sonju í smá spjall, gítarglamur og söng. Klukkan var síðan orðin ALLTOF margt þegar við fórum að sofa! Þannig að það var lítill svefn fyrir næstu vakt sem var klukkan fjögur í gær. En svo þurfti ég nefnilega að keyra uppí Borgarnes eftir kvöldvaktina (kl tólf!) og gista þar, því ég þurfti svo að vakna klukkan sjö í morgun og keyra með Hörð Gunnar í leikskólann...ehh... *geisp*
En ég gat svo skriðið uppí rúm og steinsofnaði aftur og svaf alveg til tólf. Nú er ég síðan að endurnæra mig með rúgbrauði og síld og góðum tesopa. Síðan er mál að halda áfram með jólakortin, en þau þurfa bráðum að fara í póstinn!

Í öllum þessum hamagangi, þá náttla gleymdi ég myndavélinni minni. En hún Særún snillingur er náttla líka með myndavél og gleymdi henni ekki á laugardagskvöldið!
Myndir eru því hér.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Ég gat skipt kvöldvaktinni minni á laugardaginn næstkomandi yfir í morgunvakt!
Sem þýðir það, að ég mun líklegast geta glatt hana Sessu með nærveru minni í afmælinu hennar á laugardagskvöldið. Ég býst við því að Geir hafi drenginn hjá sér. Hann er jú heima hjá sér um helgina. Tilvalið!

Víííí...Scrubs í kvöld!
:o)

miðvikudagur, desember 01, 2004

Gvöð minn almáttugur. Ég tók fyrir andlitið, hló inní mér og skammaðist mín líka fyrir hann Kristján Jóhannsson í Kastljósinu áðan!
Það er oft stuð að horfa á Kastljósið :)

Ég er að spá í að klippa mig stutt fyrir jólin...hvað segiði um það?
Mohahaha..það er svo gaman að búa til jólakort!
Ég er búin að vera á fullu í föndrinu í dag. Ég er nú samt ekki að föndra nein hefðbundin jólakort. Þau eru alveg eftir mínu eigin höfði og stundum ekkert jólaleg...bara fyndin. Hlakkar til að senda þau. En þetta er samt þvílík vinna! Kannski næ ég ekki að klára þetta fyrir jól!!
Það er annars búið að bjóða mér í þrítugsafmæli til Reykjavíkur næsta laugardag. Mig dauðlangar að mæta, en það er ekki víst að ég geti það. Fyrst og fremst er ég að vinna kvöldvakt á laugardaginn og þekki fáa sem geta skipt við mig. Svo vantar mig náttla alltaf pössun...
Annars verð ég bara að senda henni Sessu frænku afmæliskveðju ef ég kemst ekki :(
Hér erum við Sessa verðandi afmælisbarn í velkomupartýinu mínu heima hjá Sonju.
Sætar, ekki satt??

þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Ohh..hvað mér líður vel. Og ef þið þekkið mig vel þá hljótið þið að vita afhverju.
Jú, mikið rétt. Ég fékk mér rosalega gott að borða í kvöld, það er allt hreint og fínt hjá mér, hreint á rúminu, jólaseríur í öllum gluggum, kertaljós líka, ég nýkomin úr ilmandi góðu baði og ég veit að ég á gullost og hindberjasósu og ritzkex...
...þannig líður mér best :)
Í kvöld er það kjúklingur með kóríander, lime og avocado...nammmmm!
Húrra fyrir borvélinni hans pabba, því loksins, loksins er sófaborðið mitt komið á sinn stað! Og ég skal segja ykkur, það var bara heilmikið basl að koma þessu saman! Ég er vön og góð í því að setja saman ýmislega hluti frá IKEA og fleirum og alltaf gengið vel og ég hef gert það ein og óstudd. En aldrei, aldrei hef ég orðið eins reið út í einn hlut! Ég bölvaði svoleiðis borðinu í sand og ösku og breyttist í hina verstu norn eða grýlu á meðan ég var að setja þetta saman. Eins gott að Hörður Gunnar var ekki heima... eða bara að nokkur skuli hafa heyrt í mér.
En þetta tókst og borðið lítur svo vel út í stofunni minni. It really ties the room together, with the rug of course...
Ég er svo búin að fara í gegnum allskyns drasl hérna heima og henda og henda. Svo henti ég upp nýjum seríum, 3 í viðbót, svo nú er ég með 6 seríur tótal heima hjá mér. Jólastemming. En mér finnst þetta allt í lagi þar sem ég verð ekki með neitt jólatré eða jólagardínur heima hjá mér. Ég á ekkert annað jólaskraut. Ég sæki það bara heim til mömmu og pabba, en ég mun jú eyða jólunum mínum þar með Herði Gunnari.
Ég komst yfir fullt af gömlum blöðum og tímaritum í gegnum þessa drasl hreinsun. Margar myndir af hinum og þessu. Nokkur blöð af Orðlaus þar sem er mikið af myndum af myndarlegum strákum...
Ég er alltaf jafn skotin í Frosta í Mínus.

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Þynnka!
Já, ég var að vinna kvöldvakt í gær og bjóst ekki við neinu sprelli eftir það. En vaktin var róleg og góð og ég komst í kaffihúsaskap. Þess vegna hringdi ég í Árna Teit og hann kom uppá skaga til að fara á kaffi Mörk með mér eftir vaktina.
Árni, ég elska þig!
Á kaffi mörk hitti ég skemmtilegt fólk og þar má nefna helst hann Óla minn sem ég hafði ekki hitt í langan tíma. Það var svoooo gaman að sjá hann og tala við hann og syngja með honum og öskra með honum og hlæja með honum og og...allt!
Óli, ég elska þig!
Síðan bauð ég Árna og einhverjum guttum heim eftir lokun (þar sem ég bý rétthjá) og þar blöðruðum við lengi lengi um allt milli himins og jarðar, en þó mest um hitamál eins og forsetakosningar Bandaríkjanna, barnaníðinga og nútíma fréttir. Jamm...rjúkandi umræður! En skemmtilegt kvöld.
Vaknaði svo alveg hrikalega þunn (hef ekki upplifað svona þynnku í langan tíma) og skellti mér því í gott bað til að fríska upp á mig og fór svo uppí Borgarnes. Ég er svo búin að verað hjálpa mömmu að hengja upp jólaseríur í allan dag.
Trallalalalaaa..
Ég er komin í gott jólaskap :)

föstudagur, nóvember 26, 2004

Tónleikarnir í gær voru algjör snilld! Fólk fjölmennti og klappaði okkur upp með hrópum og látum. Við fórum síðan ánægð í kaffi til Brimrúnar ofurmömmu (mömmu hans Villa) þar sem hún beið með rjómatertur og heitt súkkulaði handa okkur. Svo fórum við seint að sofa og ég vaknaði svo frekar þreytt kl 7 í morgun og fór að vinna og það var nóg að gera í vinnunni.
Núna er ég þreytt og pirruð og er að láta nokkrar manneskjur á þessu landi fara mikið í mínar fínustu taugar þessa dagana! Þoli það ekki.
Mig langar út að skemmta mér...

En ég vil þakka öllum sem komu á tónleikana fyrir góðar undirtektir.
Vonandi getum við endurtekið þennan leik fljótt aftur :)

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Haldiði að ég hafi ekki látið plata mig í það að vinna á laugardagskvöldið? Iss..
Ég bara get ekki sagt nei.
En ætlar annars ekki fólk að mæta í kvöld?

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Ég minni fólk á það að ég er alltaf að setja fleiri og fleiri myndir inn á nýja myndalinkinn, gamlar myndir. Ég er búin að skemmta mér konunglega yfir þessu.
Ahh...það er alltaf svo gaman hjá mér!
Annars er ég búin að bæta fleiru en borvélinni á óskalistann fyrir jólin.
Nýji diskurinn með Nancy Sinatra þar sem hún kemur fram með hinum bestu tónlistarmönnum. Langar svooo mikið í...
Finnst engum þessi tvö plötucover vera soldið lík?


þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Ohh...mig vantar borvél!!
Hvað á maður að gera við alla þessa frídaga milli vakta víst maður er ekki í neinum prófum núna? Ekkert að gera? Jú, nóg að gera, en samt tími til að gera það sem ég hef ekki gert í langan tíma. Það er; baka jólakökur og búa til jólakort.
Jebb...ég er komin í jólaskap, enda styttist í fyrsta sunnudag í aðventu. Ég er búin að setja upp tvær seríur, eina í herberginu mínu og eina hjá Herði Gunnari. Svo er ég búin að finna uppskriftina að uppáhalds jólasmákökunum og líka einu jólasmákakan sem ég borða. Lakkrískurlmaregnstoppar! Nammi namm. Svo ætla ég jafnvel að hjálpa mömmu og búa til Tobleroneísinn þessi jól þar sem ég mun eiga slatta af eggjarauðum eftir þessa maregnstoppa. Síðan fór ég uppá Bókasafn til Evu og fékk að gramsa í gömlum tímaritum og fann nokkur tímarit frá '80 tímabilinu sem ég mátti hirða. Ég held ég hafi aldrei skemmt mér eins vel og þegar ég föndraði jólakortin ein jólin með þessi tímarit. Þannig að vinir mínir góðir, þig megið búast við skemmtilegum jólakortum í ár :)
Svo er ég looooksins komin með sófaborðið mitt! Fór óvænt til Reykjavíkur í dag og hitti Árna Teit. Við ræddum málin og ætlum líka að hittast á morgun og taka eitthvað upp. Ég skellti mér líka í Skífuna og gat ekki staðist tveir fyrir tvöþúsund diskana og keypti mér fjóra diska! Enda hef ég ekki keypt geisladisk í háa herrans tíð sem er náttla bara hneyksli. Ég keypti mér bara gamla diska. Nirvana, tvo R.E.M. diska og svo einn gamlan jóladisk með þeim Guðrúnu Á. Símonar og Guðmundi Jónssyni. Gæti ekki verið betri jólastemming í því, hehehehe!
Svo skellti ég mér uppí Borgarnes í kvöld, enn eina ferðina og skellti upp nokkrum auglýsingum um tónleikana okkar á fimmtudaginn. Ég vona að það mæti eitthvað af fólki því að það er alveg heilmikið annað um að vera á þessu sama kvöldi. En hjá honum pabba mínum komst ég yfir 5 gamla diska með Niel Young og einn með Joni Mitchell sem ég er nú búin að verað hlusta á í allt kvöld og er í góðum fílíng vegna þess.
Þau Young og Mitchell klikka ekki...

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Má ég kynna; roskilde festival 2001. Besta hróarskeldan sem ég hef farið á!
Jæja. Haldiði að ég hafi ekki skellt einum enn kaflanum í gamla myndalbúmið. Kannski ekki svo gamalt, en þó einhver ár.
Það eru myndir frá Kántrýhátíð 2001 sem var alveg mjög hressandi verslunarmannahelgi. En maður var hinsvegar komin með alveg nóg og næstum ógeð af kántrý á mánudeginum þegar maður var að fara heim...

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Er stödd hérna heima hjá mömmu og pabba og er að fara að borða slátur!! Jibbííí...
Hvítur jafningur og rófur með. Nammi namm..
En á meðan ég hef verið að bíða hérna, tók ég mig til og fór að skanna gamlar myndir inn. Ég er nú búin að búa til myndaalbúm fyrir gamlar myndir. Fyrsti kaflinn í því albúmi eru myndir frá skemmtilegustu útileigu sem ég hef nokkurn tíman farið í. Þar voru með mér Sonja (Best í heimi!), Drífa, Árni og Pétur.
Svo á eftir að koma fleira gamalt og gott. Þarf bara að velja nokkrar myndir úr þessum albúmum því þetta er náttla alveg heill hellingur af myndum.
Athugið!
Ahh...
Það er ekkert eins gott og að fá sér gott te og svo hrökkbrauð með osti og tómutum og gúrku, eftir erilsama kvöldvakt á dvalarheimilinu.
Vantar bara einhvern til að nudda fæturnar mínar núna.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Já, svo á hún Marta smarta afmæli í dag og ég óska henni til hamingju með það.
Hún er líka dugleg stelpa að læra hjúkrunarfræði.
Ég vona að hún komist áfram í gegnum clausus, því ef ég skipti yfir í HÍ næsta vetur, þá verðum við í sama bekk :)
Ég er búin að vera skrifstofukona dauðans í dag með hárið sett upp í hnút og gleraugun framarlega á nefinu og pikka í tölvu og skrifa niður punkta og ýmislegt fleira í blokkina við hliðin á mér. Já, ég er að redda svo mörgum málum sem ég er búin að vera að reyna að redda síðan ég kom heim frá Bandaríkjunum og núna einhvernvegin tókst það allt. T.d. með bankavesenið mitt. Mikið óskaplega er ég fegin að vera í sparisjóð mýrasýslu þar sem allir þekkja alla og vilja allt fyrir mann gera og redda hlutunum fyrir mann á auðveldan hátt. Svo á ég líka frænku hjá LÍN sem auðvelt er að hringja í og láta redda málunum fyrir mann. Jebb. Allt lítur vel út núna, eins og ég segi alltaf (að hætti ömmu minnar frá Færeyjum sem er alltaf jákvæð og bjartsýn):
"Þetta reddast allt saman! Engar áhyggjur."
Svo er ég núna að fara á fyrstu kvöldvaktina mína í kvöld. Líst bara vel á þessa vinnu uppá Höfða. Það er nú samt greinilegt að því meiri reynslu sem maður hefur í svona störfum, því auðveldara er að koma ný inn í störfin. ÉG meina, maður þekkir þetta og veit hvað maður á að gera. Þetta er í raun eins og að ganga alltaf inn í gömlu góðu vinnunna sína sem maður var einu sinni í.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag (sem gekk mjög vel í...) þá beið mín skemmtilegt e-mail. Það var áframsent frá honum Árna Teit. En það var upphaflega frá honum Ponchi stóraðdáenda okkar sem við hittum í Austin. Margir hneyksluðust á því hvað hann skrifaði á message borðið okkar á WIG síðunni. En hann er bara hress pési sem hefur gaman af lífinu! Þetta er myndin

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Mikið á ég yndislega vini :)
Ég fór suður í gær til að hitta Sonju, Særúnu og Jóhönnu. Þær Sonja og Særún voru búnar að undirbúa einhverja voða Welcome heimkomu og ætluðu að elda fyrir mig góðan mat. Ég fór fyrst og sótti Jóhönnu á meðan Sonja og Særún voru að brasa eitthvað í búðarrápi. Síðan fórum við heim til Sonju, já, heim til hennar í nýju íbúðina hennar á Laugaveginum. Þar var tekið á móti manni með freyðivíni og húrra hrópum.
Eftir langt spjall þar og ameríska takta, þá skelltum við okkur yfir götuna og fórum heim til Særúnar til að elda matinn þar sem hún er með svo gott eldhús með gaseldavél og læti. Og hún Sonja töfrakokkur, töfraði fram:
Nautacarpaccio með piparrótarsósu í forrétt.
Tunfisk-steik með koríander í aðalrétt.
Ananasbitar í myntumarineringu í eftirrétt.
NAMM!!
Plús það að hún dró fram kattar-eyru og kattar-ólar handa okkur öllum þar sem þema kvöldsins var kisulóra eða eitthvað svoleiðis.
Ég elska þig Sonja!
Svo var náttla hvítt og rautt með matnum líka. Svo eftir að hafa snætt þar þennan dýrindismat og dansað pínu við Hemma Gunn, þá fórum við yfir til Sonju aftur og tókum blenderinn með okkur til að gera einhverjar voða jarðaberja margarítur.
Síðan kom fleira fólk til að gleðja okkur þegar leið á kvöldið og við gleymdum okkur þarna lengi í góðum félagsskap. Síðan kíktum við aðeins út á smá pöbbarölt og enduðum þetta fína djamm sirka sjö um morguninn eins og gott Reykjavíkurdjamm gerist best!
Í morgun var ég svo vakin með ilmandi kaffi og bakkelsi. Svo var haldinn smá fundur og atkvæðagreiðsla hvað yrði gert í dag. Það endaði með því að við fórum og lékum keilu í Öskjuhlíðinni. Tveir leikir og ég og Sonja stóðum uppi sem sigurvegarar. Særún þarf aðeins að æfa sig betur fyrir næsta leik...
Síðan var tekin nett ferð í IKEA og svo ákvað ég að fara aftur uppá skaga um sex leytið þar sem þessi dagur flaug áfram því það var svo gaman. Ég lenti svo í heilmiklum hveitipoka á leiðinni heim þar sem það var farið að snjóa alveg heilan helling. Hér er svo allt hvítt og fallegt fyrir utan og þá er mál að taka notalegt heitt bað í kvöld. Síðan er bara vinna á morgun...
Jebb...þetta var semsé algjör snilld í gær og í dag.
Stelpur, ég er ykkur innilega þakklát! Takk fyrir mig!!
Og hérna eru myndir frá kvöldinu.

...og svo eru líka myndir frá Særúnu!

föstudagur, nóvember 12, 2004

Ó nei...
Allt er komið á fullt. Ég byrjaði að vinna í dag og það var æði. Ég meina, það er gott að geta komist aftur í það sem maður var að vinna að og líka hressileg áminning á það sem ég er að læra. Allt fólkið þarna er líka rosalega vingjarnlegt og tekur vel á móti mér. Mig langaði þó mest að fara aftur í skólan og hitta bekkinn minn og fara að glíma við prófin með Oddnýju og Jóhönnu fyrir norðan. En það gerist ekki núna. Ég verð bara að bíða og sjá hvort ég fái að taka þessa þrjá kúrsa í fjarnáminu næstu önn. Svo er bara að velja á milli HA og HÍ...
Ég fékk að fara upp á sjúkrahús í dag. Það var gaman að því leytinu að ég fór aðeins inná slysastofu og inná röntgen og skoðaði mig um. Þá langði mig rosaleg mikið að fara að prófa allt og langaði þá helst norður í verknámsstofuna í Háskólanum á Akureyri og fara að æfa mig að sprauta og ýmislegt fleira á dúkkunum með dótinu þar og þá með stelpunum í bekknum. I miss them so much...
Kvöldið í kvöld verður tekið rólega með góðum, léttum mat (þar sem ég fékk þennan fína mat í hádeginu uppá Höfða), góðri músík, kannski gott video, kertaljós og heitt bað.
Svo er ég búin að ákveða að skella mér suður til Reykjavíkur á morgun og hitta elskurnar mínar þar sem ég sakna svooooo mikið! Hlakkar til, hlakkar til! Ég veit að það bíður mín góður matur og gott vín, og síðast en ekki síst, góður félagsskapur!! :o)

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Ég gæti gefið út heila bók um það hversu oft hefur verið skorið úr mér hjartað með skeið, svo það blæðir! En því oftar sem það gerist, því minna blæðir. Ég verð þurrari og kaldari, sterkari og tortryggnari með árunum. Ég treysti engum sem ætlar að farað byggja upp einhverja rósrauða höll í huga mínum, með riddaranum á hvíta hestinum. Ég trúi ekki á neitt slíkt. Ég trúi heldur ekki á það að hinn eini sanni rétti sé til. Allt vegna þess að hjarta mitt hefur verið skemmt og kramið svo oft á minni stuttri lífsleið. Ég er orðin svo vön þessu og þvi verða viðbrögð mín verri með árunum. Ekki meiri sorg, heldur meiri reiði. Það er ekki gott að fylla manneksjur upp af reiði. Það endar bara með ósköpum...
Enginn skal komast upp með það aftur að fylla mig af lygum og fölskum vonum.
Enginn skal fá að kreista tár úr augum mínum aftur.
Enginn skal aftur fá að skera úr mér hjartað með skeið, þangað til það blæðir...
Allir karlmenn sem við mig tala eða daðra, skulu virkilega passa sig!

Takk fyrir.
Ég er að farað vinna á Dvalarheimilinu Höfða á morgun. Ég hringdi í morgun og talaði við hjúkrunarforstjóra og spurðist fyrir um eitthvað starf þar sem ég er í erfiðum aðstæðum þessa dagana þangað til eftir áramót. Hún sagði mér þá frá því að það var akkúrat að losna eitt 70% starf í dag vegna veikinda. Það myndi líklegast vera í svona sex vikur. Akkúrat það sem ég þarf!! Amazing. En núna þarf ég að skipuleggja þessar sex vikur vel því ég er bæði að vinna morgun og kvöldvaktir og svo líka aðra hvora helgi... Geir VERÐUR að hjálpa mér hérna! Ég verð í fríi um jólin sem betur fer, en verð reyndar að vinna á gamlársdag, en bara kvöldvakt þannig að ég næ að fagna áramótunum sjálfum í faðmi fjölskyldunnar. Annars hef ég unnið næstum öll síðastliðin áramót þannig að það skiptir mig svosem ekki miklu máli.
Jebb..lúsaralaun sem ég mun fá, en ég fékk þó vinnu fram að áramótum og það er hið besta mál :)
Vanilluskyr, bananar og jarðaber í blender er samasem nammigott.
Lenti þó í sömu vandræðum með jarðaberin og Særún. Særún, við skiljum hvora aðra núna.
Jæja, ég er farin að gera soldið. Meira um það seinna...
Pabbi minn, Gunnar Ringsted, tónlistarkennari eða jazzari með meiru, á afmæli í dag!
Til hamingju með það pabbi minn :)

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Rosalega er eitthvað mikið að gera hjá mér þó ég sé ekkert að gera. Í fyrsta lagi þá beið náttla eftir mér búnkinn af pósti þegar ég kom heim og ég var í allt gærkvöld að taka það upp og á eftir að fara betur í gegnum það. Síðan var náttla ekkert til að éta hérna og ég þurfti að fara í rosa NETTO-leiðangur og kaupa inn næstum allt. En vitiði, ég keypti EKKERT óhollt. Ég keypti mikið af grænmeti og ávöxtum, skyr og mjólk, síld og rúgbrauð...svo eitthvað sé nefnt. Ekki eina gosflösku eða einn nammipoka. Enda er ég líka að spara og reyna að færa mig líka yfir í hollustuna eftir allar þessar skyndibitastöðvar í Bandaríkjunum. Síðan beið mín líka hellingsþvottur hérna heima sem ég var búin að gleyma. Ekkert úldið þó, sem betur fer...
Ég keypti nýjasta tímarit Vikunnar, sem ég geri ekki oft, en bara vegna þess að hún Sigga frænka, ofurhetja, kemur þar fram. Ég er stolt af henni og fleira fólk ætti að taka hana sér til fyrirmyndar. Tékkið bara á því...
Nú verða sko eldaðar kínarúllur með vel sterkri karrysósu og hrísgrjónum, því ég er komin með ansi hressilegt kvef. Það má ekki gerst. Sérstaklega af því að ég held að við ætlum að spila jafnvel þarnæstu helgi og þá verð ég að hafa röddina!
Það hlaut þó að koma að því. Evan var einmitt að tala um það síðasta daginn úti hvað það var merkilegt að enginn skuli hafa orðið veikur í þessu ferðalagi. Ætli við séum ekki öll frekar slöpp núna eftirá.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Ég fékk nett áfall áðan þar sem ég komst ekki inná þráðlausa netið mitt hérna heima. Eftir miklar spekúleringar og læti, eftir að hafa rifið upp kassann með öllum þráðlausa-nets-uppsetningar-upplýsingunum og reynt að gera þetta allt uppá nýtt, reynt að rifja upp einhver password sem ég hafði ekki hugmynd um og miklar hárreitingar, þá tókst þetta nú í lokin.
Það er gott að vera komin heim í þráðlausu höllina mína :)
Eftirréttur kvöldsins; Royal súkkulaðibúðingur!
Gæti ekki verið betra :)
Svo ætla ég bara að skella mér út á Akranesið í kvöld. Mamma og pabbi stungu af áðan, þannig það er ekkert gaman að hanga hér. Nenni hvort sem er ekki að keyra í fyrramálið...
Ég þoli það ekki þegar það er ekki hægt að spila geisladiska í tölvum. Núna er ég búin að sitja í allan dag í tölvunni heima hjá mömmu og pabba og vinna við ýmis mál, og bölva því í leiðinni allan tíman að ég geti ekki hlustað á nýja Nick Cave diskinn minn sem ég keypti í fríhöfninni.
Ég er líka súr yfir því að hafa ekki getað farið í neinar búðir í þessu ferðalagi, þó sérstaklega músíkbúðir, þar sem ég var búin að búa mig undir það að kaupa heilan langan lista af geisladiskum sem mig langar í...
Well, next time perhaps!
Á morgun fer ég svo með Hörð Gunnar í leikskólann og kemst þá loksins HEIM TIL MÍN og knúsa þá rúmið mitt fyrst og fremst. Svo verður tekið gott flipp á græjunum með nýja Nick Cave...hlakkar til!
Matseðill kvöldsins; Soðin ýsa með nýjum kartöflum. Namm!

Hvað á maður að gera fram að jólum? Ætti ég að reynað sækja um vinnu einhverstaðar. Þá gæti reyndar skapast sú hætta að ég þyrfti að vinna á hátíðsdögunum, sérstaklega ef ég reyni að sækja vinnu á dvalarheimili eða sjúkrahúsi. En það er nú eins gott að þurfa að venjast því að vinna á helgidögum, víst ég er að skella mér í þessa stétt.
Ég er búin að sækja um þrjá kúrsa fyrir næstu önn í hjúkrunarfræðinni sem ég ætti að geta tekið í fjarnáminu útá skaga. Hinsvegar næsta vetur er ég svo búin að missa af mínum bekk fyrir norðan og verð því annaðhvort að flytja norður og fara í næsta bekk fyrir neðan, eða flytja suður og færa mig yfir í HÍ. Ég er ekki komin að endanlegri niðurstöðu, enda heilmikið basl að flytja og ég vil ekki gera það nema ég sé viss um að ég muni búa þar í einhvern tíma, ekki bara eitt ár. En svo er önnur löngun að kítla mig, og það er að flytja út til Bandaríkjanna í nám þar....Ohh...það er svo margt að spekúlerast í kollinum á mér. Sérstaklega núna þegar ég stend á miklum kúvendingarpúnkti í lífi mínu. Plús það að ég veit ekki hvenær næstu tónleikaferðalög verða...það þýðir að ég þurfi þá kannski aftur að taka mér hlé frá skóla. Skóli getur reyndar alltaf beðið, en það er frekar leiðinlegt að þurfa að teygja námið og lengi. Það er líka frekar óhentugt í hjúkrunarfræðinni að taka bara einn og einn kúrs á hverri önn. Það er kannski spurning um að farað velja sér eitthvað annað nám?!
Ohh..rugl í haus!

mánudagur, nóvember 08, 2004

Haha! Þarna gabbaði ég ykkur aldeilis. Nei annars, þetta var bara enn eitt ruglið í mér. Ég sagði að við myndum koma heim þriðjudagsmorgun en við komum heim í dag, mánudagsmorgun. Greyið aðstandendur okkar heima sem lesa bloggið mitt urðu frekar stressuð og hringdu nánast allir í gær til að athuga hvort við værum ekki örugglega að koma heim í dag, en ekki á morgun, því við lásum á blogginu hennar dúddu.... Ég skal segja ykkur. Dagar, staður og stund, er allt í rugli hjá mér og því ekki að treysta dagsetningum mínum þessa dagana.
Annars er gott að vera komin heim. Flugið gekk vel og það var gott að koma heim í gamla góða Borgarnesið og hitta mömmu og pabba og Jóa bro, og síðast en ekki síst, litla snjúbbinn minn hann Hörð Gunnar! Kom mér á óvart hvað hann er rosalega breyttur, það er reyndar líka búið að klippa hann alveg stutthærðan og ég er ekki alveg sátt við það. En það var gott að fá hann aftur og knúsa hann og kúra hjá honum í morgun. Við horfðum á nokkrar teiknimyndir þangað til að ég gat bara alls ekki meir og dó af þreytu hérna uppí rúmi. Ég vaknaði svo áðan og skellti mér í sturtu og öllum fötunum í þvott. Var alveg komin á síðustu nærklæðin og allt það, þannig að ég sit núna í jogging buxum frá mömmu og í stórum bol. Sæt stelpa...með bauga undir augum og þrútin rauð augu. Arhhh...það tekur tíma að venjast tímamismuninum. En mamma er búin að lofa góðri Clarins stund á snyrtistofunni þegar ég verð komin aftur á rétt tímaról og búin að jafna mig aðeins. Mmmm..það er ekkert eins gott og andlitsbað á Snyrtistofu Jennýar Lind ;)
Matur í kvöld verður lasagna frá í gær, sem er ekki slæmt því mamma býr til besta lasagna í heimi. Hún var nú reyndar búin að lofa því að sjóða slátur og rófur og gera hvítan jafning fyrir mig. En það má alveg bíða einn dag. Annars hlakkar mig rosalega til að fá þennan gamla góða íslenska mat í mallan. Það verður sko tekið á því í fæðuvalinu núna framvegis. NO EGG N BACON N HASHBROWNS!!!

sunnudagur, nóvember 07, 2004

Var að koma af sviðinu hérna í Philadelphiu. Við erum búin með þennan ARRCO tour, bara Solex á eftir að spila. Það verður gott að komast heim á morgun, eða reyndar þriðjudagsmorgun, því við fljúgum annað kvöld og verðum komin heim snemma á þriðjudagsmorgun. Jább...svo er bara næsti túr líklegast næsta sumar. Árni lofar...og þegar Árni lofar einhverju, þá stendur hann við það!
Næsta blogg verður bara líklegast tekið á Íslandi. Sjáumst þá ;)

p.s. síðustu myndirnar eru hér...og þær eru frá philadelphiu!
Hehehehe!!! Við förum heim á morgun!!!

Er stödd í Philadelphiu (nei ég var ekki þar í gær, heldur Baltimore!) og sit hér við elsku fartölvuna mína á staðnum North Star, þar sem við munum spila okkar síðasta gigg, þessa ARRCO-tour's með Solex og Ovian. Allir æstir og glaðir. Við áttum góðan dag í dag í afslöppun og leik. Við vorum ekki nema rúman klukkutíma að keyra frá Baltimore til Philadelphiu þannig að við gátum farið að leika okkur. Við eyddum eiginlega öllum deginum í keilu og vá hvað ég varð góð með hverjum leik, en vann þó ekki, en var alls ekki síðust! Ég veit hvað verður gert þegar við komum aftur heim til Íslands, það verður spilað pool og keila. Við erum orðin svo vön því að við verðum að halda því við í Öskjuhlíðinni heima. Við ætlum bara að halda alla fundi, æfingar og fleiri mætingar í keiluhöllinni heima!
Ætlað panta mér mat.
Later beibs...

laugardagur, nóvember 06, 2004

Ég sit hérna við hliðin á sviðinu og Solex eru að spila. Það er fín stemming í salnum og fólkið er ánægt. Við erum ánægðust með það þegar fólkið sem kemur hingað til að sjá Solex uppgötvar okkur og er alveg yfir sig hrifið og kaupir af okkur diska og biður um eiginhandaráritanir! Jebb...erum búin að rita á marga diska og eigum aðeins einn bol eftir til sölu. Kannski seljum við hann í kvöld eða á morgun, who knows. Það var nú planið að selja alla bolina á þessum túr.
En ég, Dúdda þreytta, fór AFTUR með vitlaus orð uppá sviði og mér leið hræðilega! Ég sagði að það væri gott að vera í Philadelfíu, nema við erum í Baltimore! Ég gerði þetta aftur og mig langaði helst til að sökkva ofaní gólfið. En fólkið hló bara og fannst þetta fyndið og það kom líka og talaði við mig eftir giggið og fannst þetta bara skemmtilegt. Veit ekki...mér leið hræðilega, en þetta greip víst áhorfendur, og ekki á neikvæðan hátt. Hehehe...ég er algjör klaufi. Nú veit ég hvernig rokkstjörnum líður sem túra frá borg til borg í langan tíma. Það er séns að gleyma því hvar maður er, really!! Þetta er allt eins! Keyrsla, spila, sofa, dag eftir dag! Bar eftir bar.
Jæja, þýðir ekki að velta sig meira uppúr þessu. Þetta er búið og gert og var víst ekki svo hræðilegt.
Á morgun er það svo Philadelfía (ekki Baltimore!, muna það!) og þá síðasta giggið okkar. Vá...bara eitt gigg eftir...
I Feel Loooooovvee... með Donnu Summer, á leiðinni til Baltimore. Við erum búin að keyra framhjá Washington og sáum hvítahúsið og delan sem stendur út í loftið rétt hjá. Tókum myndir að sjálfsögðu.
Giggið í gær var skrýtið, en fín stemming. Góðvinur okkar Ryan kom og sá okkur spila. En hann er Bandarískur trúbador sem hefur komið til Íslands og spilað á Grand Rokk eins og við og Titty Twisters. Við meira að segja vorum í partýi með honum einhverntíman heima en höfðum ekki hugmynd um að hann byggi þarna í North Carolina. Skemmtileg tilviljun, en hann ætlar svo að reyna að koma til Íslands og vera þar um áramótin með vini sínum. Þá verður bara haldið annað partý og hvernig væri að halda Titty Twisters ball!? Kominn tími til...
Baltimore giggið í kvöld, eða réttara sagt á eftir, byrjar mjög snemma. Ovian byrjar að spila klukkan korter í sjö og svo við á eftir og Solex. Málið er að það var víst búið að tvíbóka þetta kvöld og því eru aðrar hljómsveitir að spila líka. En tónleikahaldarinn vildi ekki sleppa neinu bandinu þannig að hann tróð þessu öllu saman í eina langa þétta dagskrá í kvöld. Fínt mar, þá hættum við snemma og getum tekið gott chill. Jafnvel skellt okkur í bíó og sjá einhverja ameríska kvikmynd. Hver veit?!
Það er spenningur í loftinu. Við erum að nálgast heimalandið með hverjum degi. Ekki nema tveir dagar eftir hérna í USA. Amm...

föstudagur, nóvember 05, 2004

Þetta hérna er frá gigginu okkar á Rothko's í New York. Hef ekki skoðað þetta vel...kannski þið gerið það bara fyrir mig.
Og svo eru auðvitað fleiri myndir frá Denton-Dallas-Austin og Orlando-Atlanta-Knoxville...
Við vorum að koma af indverskum matstað hérna við hliðiná klúbbnum. Ég held að það hafi ekki verið hlegið jafn mikið í langan tíma. Fyrst af öllu má nefna það að Villi og Steini hittu einhvern blindfullan indverskan gaur hérna baksviðs eftir að við vorum búin að hlaða græjunum inn. Hann bablaði eitthvað óskiljanlegt við þá og klöngraðist síðan eitthvað áfram. Þeir sögðu bara já já og löbbuðu áfram.
Síðan fórum við á þennan indverska stað og var ekki fulli indverjinn þjónn þarna. Plús annar, sem virtist gera allt þarna inni því hinn var bara á einhverju einka fylleríi.
Edrú þjónninn var mjög snöggur í snúningum og talaði snögglega. Það var líka blússandi sterk svitafýla af honum og svo sagði hann excuse me í hvert skipti sem hann teygði sig inn á borðið til okkar. Nema hann sagði það mjög snögglega og óskýrt, plús með indverskum hreim (skúz!), því oftar sem hann sagði þetta, því erfiðara var að hemja hláturinn. Allavega, síðan kom fulli þjóninn og sagði eitthvað við okkur og benti á matseðilinn og við bara brostum og skildum ekki neitt. Allt í lagi, hann ropaði yfir mig, sem enginn heyrði nema ég og Árni og skildi eftir sig megna áfengisfýlu eftir það. En hann rambaði í burtu og lét svo edrú þjónin sjá um restina af þjónustunni það sem eftir var. Fulli þjónninn settist síðan fyrir aftan okkur og Bjarni sem sá beint framan í hann, sagði að hann hefði bara verið að stara á okkur allan tíma. Síðan færði hann sig allt í einu út í hornið á veitingastaðnum, raðaði upp fjórum stólum og lagði sig í horninum! Mjög fyndið. Líka í miðjum matnum, sáum við Árni hann rísa upp allt í einu og leggjast svo aftur niður. Nema þegar hann lagðist niður aftur þá bompaði hann hausnum í vegginn. Mjög fyndið. Bjarni náði síðan að taka góða mynd af honum á leiðinni út með símanum sínum. Ég reyndi það líka en veit ekki alveg hvernig hún kemur út...
Fínn matur, samt ekki besti indverski matur sem ég hef fengið, en góð skemmtun með matnum af hálfu þjónustufólksins!
Hvar var ég síðast? Í Atlanta, Georgia já, á kosninganótt þar sem herra Bubu eða mr. Poo eða bara apabjáninn, vann kosningarnar í USA. Við skiljum ekkert í þessu. Allt fólkið sem við höfum talað við eða verið nálægt þennan mánuð, það var allt saman Kerry-fólk. Hvað getur maður gert svosem? Tja, t.d. verið bjartsýnn yfir því að hann getur ekki boðið sig fram í þriðja skiptið. En Guð má vita hvað gerist á þessum næstu fjórum árum hans. Aumingja liberal fólkið, það á örugglega eftir að þurfa að þola boð og bönn öfgamannsins Bush! Nóg um það...
Ég er stödd on the road in North Carolina og við erum að fara að spila í Carborro í kvöld á stað sem heitir Local 506. Í gær spiluðum við í Knoxville, Tennessee. Það var frekar fámennt og skrítið fólk þarna, en þó, það komu einhverjir miklir aðdáendur okkar (WIG) spes til að sjá okkur (og hreinlega fóru þegar við vorum búin að spila sem er frekar leiðinlegt fyrir Solex). En já, ágætiskvöld þar.
Svo eru bara tvö gigg eftir. Baltimore og Philadelphia....og svo heim :)
Það er skrítið, við erum búin að ferðast heilan hring um Bandaríkin í heilan mánuð. Búin að keyra rúmlega 16000 km allan þennan mánuð þegar þetta er búið. Auðvitað langar okkur öllum heim, en það verður skrítið að kveðja þetta ferðalag. Við eigum öll eftir að sakna þess, þó þetta sé hryllilega erfitt á tímum. Við sjáum bara svo margt og heyrum margt, skrítið, hallærislegt, skemmtilegt og merkilegt. Það er allt til í USA. Við til dæmis hittum mjög skemmtilega konu í dag. Við stoppuðum og fengum okkur morgunmat í einhverju Pankake house einhverstaðar á þjóðveginum, rétt hjá Dollywood (sem er einka skemmtigarður Dolly Parton). Fengum þar góðan mat og fórum södd og sæl til að borga dömunni á kassanum. Ég og Bjarni vorum síðast þarna til að borga og stúlkan á kassanum fór að hnýsast um það hvaðan við værum. Við sögðumst vera frá Íslandi. Hún spyr hvort við værum bara að heimsækja þetta svæði eða hvort við værum búin að fara útum allt landið. Við sögðumst vera búin að ferðast næstum hringinn því við værum á tónleikaferðalagi. Þá kom allt í einu voða óttasvipur á hana og hún sagði okkur að við ættum sko sannarlega að passa okkur á New York og Californiu! Ég spyr nú rólega afhverju við ættum að gera það. Þá sagði hún okkur frá því með æsingi að eitt sinn hafi rússneskur ballethópur farið til New York og verið einhverstaðar rétt hjá þar sem heimilislausafólkið býr(?!). Og það var ein rússnesk ballerína sem fór að vandra um göturnar þar og heimilslaus maður hreinlega át hana!! Ég og Bjarni vissum ekki alveg hvernig við ættum að bregðast við þessu og ég sagði því rólega að við værum nú í níu manna hóp og því myndum við passa okkur vel. En við værum nú líka búin að fara til N.Y. og það var nú bara allt í lagi. Þá sagði hún okkur það að við ættum svo sannarlega að passa okkur að vera svona í hóp, halda hópinn, eins og fuglarnir gera, svo þeir verða ekki étnir!!!
Galin gella, en þetta er fólkið sem kýs Bush í suðurríkjunum og veit lítið í sinn haus, nema rétt það sem hann Bush er búin að heilaþvo fólkið með, rétt eins og Gunnar í krossinum eða eitthvað!
Jæja...best að hætta þessu. Fólk er bara virkilega sárt yfir þessum kosningum og ekki skrítið að sumir verða reiðir. Meira að segja Guð er reiður og lætur eldfjöll gjósa og læti.
En þetta var allavega skemmtileg og fyndin saga af afgreiðslustúlkunni í pönnukökuhúsinu sem er lífshrædd í New York.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Ho! Er stodd a internet-cafe i Atlanta, Georgia a sjalfan kosninga daginn og thad var verid ad lysa yfir thvi rett i thessu a Bush vaeri buinn ad vinna Georgiu fylki! Vid reynum bara ad halda kjafti herna...enda buin ad keyra i gegnum morg thessi Bush fylki thar sem mesta obesity og redneck folkid byr. Tha er madur ekki ad tala mikid upphatt...
Anyways, klubburinn sem vid erum ad farad spila a er herna vid hlidina. Hann heitir The Drunken Unicorn og er, tja, svosem alltilae. Vid erum bara threytt og nennum varla ad spila. Thad er lika hlussu mikil rigning uti. Dropar a staerd vid fotbolta, en hitinn a regndropunum a vid gott bad. Frekar thaegilegt. Ekki thessi rigning sem kemur ur ollum attum heima a Islandi! Og ja, thad er bara eldgos og laeti heima. Madur ma ekki skreppa fra adeins!

Okkur hlakkar mjog mikid til ad koma heim. Bara fimm dagar.
Og Sonja min, vid afthokkum thad ad thu pantir bord fyrir okkur a Ruby eda American Style. Eg held ad vid forum ekki ut ad borda meira a thessu ari allavega!

Ble i bili...gotta go play and sing!

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Giggið hérna gekk mjög vel. Staðareigendur eru að fíla okkur í tætlur! Við fengum æðislega meðhöndlun hérna baksviðs og erum voða ánægð.
Á morgun förum við til Atlanta, Georgia.
Until next time....ta ta.
Dúdda.
Ójá, fleiri myndir :)
Hey'all!
Ég er stödd núna í Orlando á klúbbnum Back Booth, í hægindastól baksviðs, með nachos og salsa á borði við hliðiná mér og stíflaðasta klósett sem ég hef nokkurn tíman séð í næsta herbergi! En við fílum þennan stað og höldum að það verði gott gigg í kvöld.
Við áttum semsé góða stund heima hjá Troy og Travis í Austin, borðuðum yfir okkur og fórum snemma, mjög þreytt að sofa. Síðan vöknuðum við snemma daginn eftir, öll bitin eftir moskító flugur og kóngulær, og keyrðum allan daginn. Gistum einhverstaðar in the deep south á leiðinni til Florida. En það var fínt, keyrðum smá í viðbót í dag og vorum komin hingað um 7 leytið. Það er rosalegur hiti hérna sunnan megin í USA og það verður líklegast skrítið að fara aftur til Íslands, í kuldann. Ég hef ekki tekið mikið af myndum undanfarið, enda verið batteríslaus, keypt gölluð batterí eða bara gleymt myndavélinni minni. Enda eru menn líka orðnir þreyttir á þessum flössum allsstaðar. En ég er samt með einhverjar myndir hérna til viðbótar sem ég ætla að setja inn.
Jæja...læt þessi örfáu orð duga í bili og fara núna og panta mér pítu.

laugardagur, október 30, 2004

1Heyja!
Eg er heima hja Troy og brodur hans, Travis og their eru ad undirbua BBQ veislu handa okkur og avocado margaritur. Thad er mikil sol, um 30 stiga hiti og sma gola, sem betur fer, thvi eg helt eg myndi fa hitaslag i dag thegar eg labbadi nidur i bae fra hotelinu. Eg hringdi i Hord Gunnar i dag thar sem hann a fimm ara afmaeli og spjalladi adeins vid hann. Thad var naes og mig langadi mest ad fara heim strax um leid og eg heyrdi i ollum tharna heima...buhu....en thad er nu ekki mikid eftir, bara sma.
Giggid i gaer var alveg mjog fint. Frekar stor stadur, Emo's, thannig ad folkid fyllti stadinn agaetlega. Thad var hropad og hurrad fyrir okkur og thad filadi thad thegar eg taladi islensku. Vinsaelt svidsatridi... Einn gaur kom upp ad mer i gaer og sagdist hafa ekid i 3 tima til ad koma og sja okkur. Hann er Solex fan og var buin ad fylgjast med dagbokinni hennar a netinu. Hann sagdist hafa lesid thad ad eg hefdi att afmaeli um daginn og verid voda full og fyndin,...hmmm...tharf ad raeda adeins vid hana Elizabeth undir fjogur augu!
En ja, thad gekk vel i gaer og vid eigum nuna aedislegt fri i solinni og faum godan mat hja Nelson braedrum. Aedi...
Eins og thid sjaid tha er eg i tolvunni hans Travis og thad er thvi midur ekki mikid um islenska stafi her. En eg veit ad thid getid klorad ykkur i gegnum thennan lestur.
Thvi kved eg i bili.

Og til hammo med ammo elsku Hordur Gunnar minn!!!

föstudagur, október 29, 2004

Ég er stödd á hóteli í Denton, Texas, með lélegustu nettenginu ever. En hey, þó kemst ég til að kasta inn nokkrum orðum!
Við tókum tvo daga í að keyra hingað, bara næs chill en með óvæntri uppákomu. Það sprakk dekkið á miðjum þjóðveginum með látum í dag. En við erum öll á lífi, þetta var bara skerí sérstaklega þar sem ég hef reynslu í rútuslysi. En það kom "highway-maður" og lagaði þetta fyrir okkur og við komumst heil á húfi á staðinn til að spila, sem heitir Hailey's, í Denton. Og ég sem er farin að rugla öllu saman sagði við áhorfendur (sem voru hinir fínustu) it is nice to be here in Austin. En við förum þangað á morgun... Þau hlógu nú bara að mér og ég gerði bara meira grín. Það var bara gaman í kvöld.
Á morgun keyrum við semsé til Austin, 3-4 tíma keyrsla og svo bíður okkur BBQ-veisla og gisting, heima hjá honum Troy (gleðigjafi) sem á einmitt heima þar með bróður sínum. Skemmtilegt það. En núna er ég voða þreytt enda klukkan orðin hálf fjögur að nóttu hér hjá okkur á meðan hún er að verða hálf níu heima á klakanum góða.
Og já vá, það er svo heitt og rakt hérna.
Welcome to Texas!!!

þriðjudagur, október 26, 2004

Jæja...hér sit ég með kaffi og ristaða kanilbeyglu og hef það gott. Sólin skín yfir fjöllinn og allir á góðu róli, chilla í sínu horni eða sofa út.
Ég var að dúlla mér við að setja inn fleiri myndir...enjoy!
Og hérna getiði séð hvað ég hef það gott í dag :)
Jæja, nú er ég stödd einhverstaðar um miðja nótt hátt uppá fjalli heima hjá pabba hans Troy (kærasta Merit), nálægt Denver eða um 40 mílur þaðan. Við notuðum allan þennan ferðadag í að ferðast frá Tucson til Denver í staðin fyrir að gera það á tveim dögum. Þannig getum við sofið út á morgun og slappað af. En hér var tekið á móti okkur eins og höfðingjum. Við erum að tala um mjög stórt bandarískt hús sem hefur það allt. Við fáum rúm, mat og drykki og það er arineldur, heitipottur og tveir stórir hundar svo eitthvað sé nefnt. Það var opnuð rauðvínsflaska um leið og við komum inn og sagt við okkur að við ættum að hegða okkur eins og við værum heima hjá okkur, megum vaða í allt sem okkur langar til...sweet!
En giggið í Tucson í gær var mjööög fámennt, þó það hafi verið mjög gott spilerí hjá okkur. En þetta er víst háskólabær og allt liðið var líklegast heima hjá sér að reyna að ná upp helgarlærdómnum sínum. En þeir fáu sem mættu fíluðu okkur og létu okkur vita af því. Þessi klúbbur var annars mjög flottur og við þurftum meira að segja ekki að leita að hóteli eftir giggið. Staðurinn átti nefnilega íbúð sem við höfðum til afnota, með nokkrum rúmum og sturtu og handklæði,...það nauðsynlegasta! Þar gistum við í gær og vöknuðum svo eldsnemma til að keyra hingað.
En núna er klukkan orðin alltof margt og ég ætla að skríða uppí rúm. Reyni kannski að setja inn fleiri myndir á morgun, ef ég nenni. En ég ætla fyrst og fremst að sofa út, í risastóru amerísku mjúku rúmi...aaahhhh!
Sunnudagur 24. október 2004

Giggið í gær í LA var skrítið, allavega miðað við San Fransisco sem var svo brilliant gigg í alla staði. Það var þó fleira fólk mætt í gær heldur en þegar við spiluðum þarna síðast, en skrítið fólk sem sat og sýndi lítil viðbrögð, en þó einhver samt. Við seldum allavega eitthvað af merchinu. En já, við vorum öll frekar þreytt og allir eitthvað skrýtnir. Held það hafi samt aðallega verið skrýtna hljóðmanninum að kenna hvað öllum böndunum gekk eitthvað asnalega. Það tók FOREVER að sándtékka og við sem héldum að það myndi vera fínt því við mættum svo snemma. Æj, hann var bara skrítinn þessi gaur, enda fengum við líka að heyra það af aðdáenda að það hljómuðu öll bönd frekar ílla sem spiluðu þarna. En það væri alltaf sándgæjunum að kenna því þeir fá alltaf svo lítið borgað.
Við gistum síðan á einhverju fönkí spacehóteli (spiluðum í spaceland!?). Troy, sem er kærasti Merit, sem er flottasta trommaragella sem ég hef kynnst og spilar í Solex, hefur verið með okkur núna síðan í Portland. Hann á víst heima í Texas og ferðast því með okkur þangað. Vegna þessa þá þurfa þau tvö náttla sitt rúm, sem þýðir það að það er laust pláss við hliðin á Elizabeth (Solex). Ég hef semsé gist hjá henni síðustu nætur í staðinn fyrir að liggja eins og sardína í dós með Hannesbræðrum. Allt í lagi með það, en maður sefur allavega betur. Ekki veitir af því, því að við erum ekki að fá mikinn svefn og ég verð úrillari með hverjum morgni sökum svefnleysis. Ég meina, við förum oft að sofa um 3-4 leytið og vöknum svo 8 eða 9 á morgnana, 5 tíma svefn eða svo. Ekki mikill svefn þar, nema bara að reyna að sofa í vaninum. En ég á mjög erfitt með að festa svefn í bíl, flugvél eða öðrum farartækjum og því er ég farin að þrá það að fara heim í rúmið mitt og sofa út! En þetta er rokk og ról og ævintýri.
Við erum búin að keyra í dag niður Californiu og komin til Arizona þar sem við blasir fullt af kaktusum og meiri hiti. Allir komnir á hlírabolina og drekka vatn eða borða ís. Við erum líka komin yfir enn eitt tímabeltið þannig að tímanum hraðar um einn klukkutíma, sem þýðir það, að við erum orðin pínu sein á staðinn í Tucson, en hann heitir Plush, minnir mig. En hey, við erum alltaf að seinasta snúning, enda heilmikil vinna að ferðast svona. Það er eiginlega alltaf þannig að við fáum okkur góðan og mikinn morgunmat snemma, keyrum síðan til endastöðvar og borðum þar kvöldmat. Á leiðinni er varla stoppað til að pissa og því getur maður farið að grenja og hárreita sig og svoleiðis á leiðinni...
En já, nú sýnist mér það fara styttast í það að við nálgumst Tucson, bara nokkrar mílur eftir. Orðið dimmt og tími til að gigga. Vona að við munum eiga gott kvöld í kvöld. Það var frekar súrt í gær og sérstaklega miðað við laugardagskvöld. En whattahell. Svona er lífið...you win some, you loose some.

sunnudagur, október 24, 2004

Jæja. Þá er ég komin til Los Angeles eftir sex tíma akstur frá San Fransisco.
Við spiluðum semsé í gærkvöldi í S.F. fyrir villtan og trylltan lýð og ég hélt virkilega að þakið ætlaði af! Nei, nei, en þetta var örugglega besta giggið okkar hingað til, troðið af fólki og við vorum meira að segja klöppuð upp en gátum ekki spilað aukalag því við vorum hljómsveit númer tvö af fjórum. Við seldum helling af diskum og nokkra boli og árituðum villt og galið. Reyndar voru öll böndin rosa góð og rosa góð stemming á öllu þessum fjölda sem mætti þarna um kvöldið. Staðurinn heitir Bottom of The Hill og er mjög flottur staður, eða við allavega fíluðum hann í tætlur. Fengum líka rosa góðan heimalagðan mexíkómat þarna og átum á okkur gat! Og já, svo kom hann Christian frá KORK-agency til okkar og spjallaði við okkur og hlustaði á tónleikana. Hann var að fíla þetta og hann ætlar að hjálpa okkur með að skipuleggja túra í sumar á festivöl hér og þar í Evrópu. Spennó...
Núna erum við semsé mætt í Spaceland, þar sem er þráðlaust net og gott andrúmsloft. Enda höfum við líka spilað hérna áður og því notalegt að koma hingað aftur. Við eigum jafnvel von á góðum fjölda í kvöld, en samt er aldrei að vita hvað gerist í þessum bissness. Það eina sem við treystum á er að það er laugardagskvöld.
Jebb... Im feeling good, það er líka góður dagur í dag, eða 23. október, sem er afmælisdagur afa á Akureyri, en hann hefði orðið 90 ára í dag ef hann hefði verið á lífi. Svo á líka annar góður strákur afmæli í dag, en það er hann Breder sem er 25 ára í dag, norðmaðurinn góði í hljómsveitinni Ovian. Spurning um að bjóða honum í glas í kvöld og syngja fyrir hann afmælissönginn.
Jæja, ætla að reyna að setja inn einhverjar myndir.

föstudagur, október 22, 2004

Vá, var að koma frá Portland gigginu okkar sem var æði. Ég var heit uppá sviðinu, tilfinngarnar mínar blússandi og ég náði crowdinu. Sérstaklega þegar við spiluðum Love Will Tear Us Apart, en þá sagði ég einmitt að það væri "the story of my fucking life!"
Seldum plenty af diskum og læti. Og núna verð ég að farað sofa, þurfum að vakna snemma á morgun eða um 6-7 leytið og keyra til San Fransisco!
Hlakkar til, en kvíður fyrir líka. Þetta er erfitt jobb.
Góðanótt elskurnar mínar!

fimmtudagur, október 21, 2004

Týpískt, ég bloggað í morgun og það datt út og ég varð reið og gat ekki byrjað uppá nýtt aftur. Nú er ég búin að róa mig niður aftur, búin að taka nett beauty session, lita augnbrúnir og setja maska á andlitið svo eitthvað sé nefnt.
En í gær var voða gaman hjá okkur. Við áttum semsagt frídag og gerðum ekkert nema að chilla á þessu frábæra hóteli sem tekur alltaf svo vel á móti okkur (erum á góðum díl hérna).
Síðan seinna um daginn kom Greg og hitti okkur. Við fórum yfir á barinn, eða Doug Fir sem er flottasti veitingastaður/bar/tónleikastaður sem ég hef komið á! Konan sem t.d. er að ráða hljómsveitir þarna vill endilega fá okkur til að spila þarna. Þannig að það má búast við því að við förum aftur til Portland á næsta ári :)
Allavega, það var gaman að hitta Greg og spjalla við hann um hlutina. Við eyddum góðri stund þarna í notalegheitum og hittum líka skemmtilegt fólk, eins og Ben sem reddaði mér hótelherberginu. En hann er einn af eigendum hótelsins. Svo var bara farið að sofa með gin og tónik anda og vaknað úldinn í morgun. Það var þá góð þörf á þessu beauty sessioni!
Í dag var Greg að spá í að láta Villa klippa sig, þannig að hann kemur líklegast einhverntíman á eftir. Hann er að sjálfsögðu eins og við hin í WIG orðinn húkkt á Villa og þarf því líklegast að fara alltaf til Íslands í klippingu, dýrt en töff!
Ég er hinsvegar að gæla við þá hugmynd í dag að fá mér tattú. Ég hitti stelpu í gær sem vinnur hérna í lobbyinu og hún kynnti mér fyrir vini sínum sem er tattúverari. Hann ætlaði að reynað að koma við hérna í dag ef hann hefur tíma, með möppuna sína og græjurnar og gefa mér tattú á góðu verði. Það var líka alltaf áætlunin að fá sér tattú á afmælisdaginn minn í Portland!
Jæja, kominn tími til að tékka á strákunum hvort þeir séu vaknaðir. Ég er allavega búin að vera vakandi heillengi en fór seint að sofa. Maður er bara orðinn svo vanur því að þurfað vakna snemma til að keyra eitthvað langt og svo fara seint að sofa því maður er að spila seint og svo leitað hóteli.
En í kvöld verður spilað á Dantes og ég held að við séum ekki annað bandið heldur þriðja bandið sem spilar, sem er kúl. Við sándtékkum klukkan sex, sem þýðir, chill þangað til ;)
Greg, Árni og Ben (JupiterMotel) eru bestir! Ég er komin inn í mitt eigið herbergi þar sem ég get striplað um á brókunum, ekki þarf ég að bíða eftir sturtunni eða klósettinu og ekki þarf ég að þola stífluð klósett eftir stóra...
Núna er ég hamingjusöm, hrein og falleg í Portland :)

miðvikudagur, október 20, 2004

Fallegasta email sem ég hef nokkurntíman fengið er þetta. En mamma skrifaði upp nákvæmlega það sem Hörður Gunnar hafði að segja.

hörður gunnar geirsson segir,
"knús mamma elsku besta mamma haaanna elsku frú og svoooo hannna besta mamma í öllu heimi besta mamma sem leyfir mig að koma heimog svoooo og svooo elsku mamma mín mamma mín er bestur bestur og bestur og ég er að ríma stóll póll, póstur ostur sko hnna ég þarf ekki aað fara heim, ekki meir. ok
Hörður Gunnar.


Sætt...get lesið þetta aftur og aftur!
Ég er loksins komin aftur til Portland. Við erum reyndar öll í sama herbergi, sem þýðir það að ég þarf líklegast að deila rúmi með hannesbræðrum aftur í nótt. En það er í lagi, þröngt mega sáttir vinir liggja.
Við erum bara í góðu chilli. Ekkert nema að hanga og þvo smá þvott hérna, spila fótbolta úti í portinu og svo kíkja á flottasta klúbb sem ég hef nokkurn tíman séð á ævi minni, í kvöld. En hann er bara hérna í portinu og tilheyrir Jupiter Motel. Það væri gaman að fá að spila þar einhverntíman í framtíðinni. Enda finnst okkur eins og við séum komin heim þegar við erum komin til Portlands.
Hér er sól og blíða, enginn vetrarkápa lengur. Þá á líka eftir að hlýna meira og meira eftir því sem við förum sunnar. Við fórum áðan og fengum okkur snarl á uppáhalds kaffihúsinu okkar hérna, beint á móti hótelinu.
Við röltuðum líka niður á ARRCO skrifstofuna en það var enginn þar, þannig Villi skildi bara eftir fyndin orð á símsvaranum. Við hittum örugglega Greg síðar í dag.
Jább...bara chill. I like it.
Jæja, búin að spila á Crocodile þar sem var gott crowd sem meira að segja söng fyrir mig afmælissönginn! Svo var farið uppá hótel og þá komu Solex-systur með kampavínsflösku handa mér og við fengum okkur öll eitt staup fyrir svefninn.
Á morgun verður farið til Portland, þriggja tíma akstur max sem er ekkert, og frí um kvöldið! Svo verður spilað á fimmtudagskvöldið á Dantes í góðu stuði. Við munum sennilega gista aftur á Jupiter hotel í Portland, þannig að ég býst við góðu netsambandi þar líka.
Until next time, I love ja!
Fleiri myndir!
Jæja, þá er ég búin að bæta við fleiri myndum. Hér og hér, en þetta eru reyndar eiginlega allt eins myndir, af okkur í vaninum. En við gerum lítið annað...
Enjoy anyways!
Og takk fyrir allar afmæliskveðjurnar elskunar mínar!
Sad but true, 26 ára gömul piparjúnka!
Vildi óska að ég fengi ástarbréf eins og strákarnir... *snökt*
Jæja! Loksins gat ég skellt inn nokkurra daga bloggi frá netlausum stöðum. Ég meina, við vorum að keyra in the middle of nowhere síðustu daga. En núna er ég semsé stödd á Ace Hotel í Seattle þar sem er plenty of þráðlausu neti. Við erum að fara að spila á Crocodile Cafe á eftir og erum meira að segja aðalbandið og spilum því síðust, því get ég chillað hér aðeins í einkaherberginu mínu á afmælisdaginn minn! Ahh..sweet!
Blogga meira síðar, því nú þarf ég aðeins að net-vinna og setja inn fleiri myndir.
Núna erum við að keyra til Minneapolis í góðum gír. Erum búin að slaka soldið vel á í gær og í dag.
Eftir Chicago dæmið fórum við á flott hótel þar sem að einn gaurinn í OnAirLibrary vinnur hjá Marriot hótelkeðjunni og fær alltaf afslátt á þeim hótelum. Þar gátum við sofið út og tekið það rólega. Það var ekki nema smá akstur til Milwaukee og því ekkert stress. Við komum semsagt frekar snemma þangað og gátum leitað að góðu hóteli í rólegheitum. Síðan tékkuðum við okkur inn á Days Inn hótel og ég fékk loksins að sofa ein í heilu queen size rúmi!
Allavega, við hengum, slökuðum á, gerðum ekkert að viti nema hlusta á góða músík, í um það bil 2-3 tíma á hótelherberginu. Það var næs og örugglega eitthvað sem við þurftum því kvöldið var svo alveg brilliant hjá okkur.
Við mættum á staðinn, Cactus Bar og rótuðum. Fengum pizzur og drykki og allir glaðir. Síðan var bara chillað og ekkert að drífa sig að byrjað spila. Það var líka föstudagskvöld og því von á aðeins fleiri fólki en á síðustu giggum. Þegar við byrjuðum að spila fengum við þvílíkt gott vibe frá crowdinu og við féllum öll í einhvern zone og spiluðum okkar besta gigg held ég hingað til! Allar mínar tilfinningar fóru í sönginn og þvílík viðbrögð sem ég fékk. Ég var meirað segja spurð að því hvort ég væri nokkuð búin að syngja inná aðra diska eða hvort ég væri búin að gefa út einhvern sóló-disk. Ég fékk semsé mikið hrós útaf röddinni minni og ég var alveg í skýjunum eftir þessa tónleika :)
Síðan var farið á hótelið og sofið nokkuð vel út í morgun. Við fórum í góðar sturtur og fengum okkur góðan morgunverð og byrjuðum svo að leggja af stað til Minneapolis.
Okkur hlakkar til að spila í kvöld. Okkur hlakkar líka rosalega til að spila svo í Seattle og Portland, þar eigum við nefnilega okkar áðdáendur og svona vísan stað. Ég held meiraðsegjað við fáum aftur frítt inná Jupiterhotel í Portland aftur, sem er æði! Já...við erum í góðum gír núna. Búin að fá smá hvíld og hlaða batteríin. Við erum líka búin að verað skoða myndir af fólkinu okkar heima og huxa mikið til þeirra. Já auðvitað er mikill söknuður í gangi...en tíminn líður fljótt þegar það er nóg að gera.
We will be home soon :)

Framhald...
Já, spiluðum í gær á 7th street Entry. Það var hellingur af liði og heilmikil sala. En crappy monitorar! Allir óánægðir með hljóðið uppá sviði, sama hvað var reynt. Meira að segja Solex, sem var eina bandið sem fékk sándtékk, var alltaf í einhverju fokki með hljóðið. Why sándtékk then?!
Aníveis, það var mikið af fólki og mikið fjör, enda laugardagskvöld í Minneapolis. Það var því tekið nett djamm þegar við komum hérna uppá hótel. Við fengum gefins vodka flösku og drukkum eitthvað af henni ásamt appelsínu og trönuberja safa, skoðuðum myndir, hlógum að Bjarna, svo eitthvað sé nefnt. Mjög gaman allt saman. Sérstaklega þar sem við höfum ekki haft mikinn tíma í eitthvað svona. Það er alltaf bara farið beint að sofa þegar maður loksins kemst á hótelið eftir giggin. Ekki einu sinni orka til að fara í sturtu! Jújú, við reynum að gera allt til að líta fersk út :)
Næst tekur við tveggja daga akstur til Seattle og þá verður spilað á Crocodile Cafe, aftur, þann 18. október. En þá eiga einmitt Ali og Claudia, tvíburarnir í OnAirLibrary afmæli og verða 26 ára. Daginn eftir, 19. október, þá verð ég 26 ára líka :) og þá eigum við líka frídag í Portland, uppáhalds borginni minni í Bandaríkjunum so far... (Það var nefnilega hætt við Vancouver giggið þann 19.)
Jább. Líst vel á þetta allt saman.
Ójá, staðurinn sem við spiluðum á í Minneapolis er víst soldið frægur. Allavega hefur Prins spilað þarna, en öll tónlistaratriðin í Purple Rain voru tekin upp á þessum stað, 7th Street! How kúl is that? Svo hefur hún Björk okkar spilað þarna víst. En eigandi staðarins sagði að hún væri frekar skrítin kona...

Ég annars sit hér, nýsturtuð, með fléttur í hári og bíð eftir að strákarnir drulli sér á fætur og drífi sig í sturtu eða eitthvað. Við leggjum nefnilega af stað eftir 10 mínutur!!!

Meira...
Við keyrðum mikið í gær, eða um 12 tíma. Við keyrðum til North-Dakota þar sem er ekki mikið að sjá nema flatlendi og örfá hús. Það er varla að það sé pissustopp eða bensínstöðvar. Þess vegna var keyrt eins og ég veit ekki hvað allan daginn og ég var að drepast úr leiðindum á vissum tíma. En allt í lagi. Ég sá nokkuð sem var merkilegt. Fullt af skrítnu og hallærislegu fólki sem veit lítið um heiminn og já, ég sá buffalóa! Það var kúl. Við stoppuðum um kvöldmatarleytið í borg sem heitir Bismark, já, eins og brjóstsykurinn. Það var svokallaður truck-stop-restaurant. Þarna gengum við inn eins og skrattin úr sauðalæknum því ekki var hægt að segja að það kæmi mikið af fólki eins og við þarna inn. Konan sem vísaði okkur til borðs og þjónaði okkur var líka mjög forvitin og spurði mikið. Hún var mjög hissa þegar við sögðum henni hvaðan við öll værum og hvað við værum að gera. Hún sagði eitthvað; “Hvað eruð þið að gera í North-Dakota!? Það gerist ekkert í North-Dakota, þið viljið ekki vera hér, ekki festast hér..” En hún var hress og fyndin, en mjööög hallærisleg. Örugglega hallærislegasta konan sem ég hef séð hérna í Ameríkunni. Átti mjög erfitt þegar hún tók á móti okkur. Við pöntuðum mat hjá henni og fengum öll eitthvað mjög soðið og loðið. Fólk virðist ekki vita t.d. hvað ferskt og hrátt grænmeti er. Maður fær alltaf frosið soðið grænmeti. Svo spurði ég hvort ég gæti fengið guacamole með kjúklinga-taco-salatinu mínu, en hún sagðist ekki halda það, vissi ekki einu sinni hvað það var!
En jæja, við borðuðum þennan skrítna mat og fórum svo í búðina við hliðiná og hlógum mikið þar. Þar var hægt að kaupa ljót föt og asnalega tónlist og ljóta minjagripi. En við drifum okkur svo að keyra nokkra tíma í viðbót og fundum svo mótel og sváfum þar í nótt.
Núna er kominn nýr dagur, 18. október, afmælisdagur tvíburanna, en þau í OnAirLibrary eru einhverstaðar á undan okkur á leiðinni. Við munum keyra eitthvað svipað lengi í dag eins og í gær. En við erum ready. Nýbúin að borða fínan morgunmat á hillbillímatstaðnum við mótelið. Þar var mikið af white trash liði sem mig langaði svo að taka myndir af, en þorði ekki. Svo fórum við og tókum bensín rétt hjá. Þar hlógum við líka mikið þar sem þrír mjööög miklir hillbillígaurar komu labbandi útur bensínstöðinni og hoppuðu uppí pallbílinn sinn, allir með ís í hendinni!!! Hahaha...maybe you just had to be there...aníveis.
We are on the road again og erum núna komin til Montana, sem er þriðja stærsta fylkið. Það er mjög breitt og við erum akkúrat að fara að keyra beint í gegnum það, sem mun þá líklegast taka mjööög drjúgan tíma. Við spilum svo í Seattle á morgun, afmælisdaginn minn, en ég er með einhverja ruglaða dagskrá sem segir að við áttum að spila í dag. Dagskráin er eitthvað breytt framundan, einhver gigg sem er búið að hætta við, en það er í lagi, þá fáum við okkar frí inn á milli. Ekki veitir af...


Keyrsla, keyrsla, keyrsla og ég er að verða geðveik á að ná ekki sambandi við umheiminn!
Í gær keyrðum við, í orðsins fyllstu merkingu, allan daginn. En það var fallegt umhverfið, snjór og miklir skógar og stór fjöll. Ójá, það er skít kalt þessa dagana! Í gegnum Montana og svo Idaho. Við borðuðum kvöldmat á einhverjum Thai stað einhversstaðar í Idaho og fögnuðum um leið afmæli tvíburanna. Síðan keyrðum við meira og meira og gistum einhverstaðar, að ég held í bæ sem heitir Spokane í Washington fylki, á köldu móteli. Vá, þrjú fylki á einum degi! En það var gott að komast í rúm, enda rotaðist ég um leið, DAUÐþreytt!
Í morgun, þann 19. október, fór ég svo í heita sturtu, fór í pils og púðraði andlitið og setti á mig gloss og maskara. Við fórum síðan á Dennys og fengum okkur þennan venjulega morgunmat; egg, bacon, hasbrowns, pönnukökur og síróp, kaffi og orange juice, svo eitthvað sé nefnt. Á leiðinni þangað var sunginn nettur afmælissöngur til mín í vaninum, fallegt! Bjarni beibí borgaði síðan fyrir mig morgunmatinn og gaf mér eina af pönnukökunum sínum. Gaman af því.
Við hringdum öll heim líka í smá stund og heyrðum snöggvast í fólkinu okkar heima. En ég þrái svo að komast í netsamband svo ég geti sett inn ferðasöguna mína og eitthvað af myndum. Ég veit að sumir eru alveg að snappa af því þeir heyra ekkert frá okkur.
En, 4 tímar í Seattle. Mig hlakkar til :)

föstudagur, október 15, 2004

Jæja. Búin að spila og það gekk mjög vel. Frekar fátt samt, en ég held að það sé vegna þess að við byrjuðum alltof snemma að spila. Chicago er víst svona frekar late night town og því ekki vitlaust að byrja seint að spila. Núna er Solex að farað byrja og það er komið gott crowd í salinn.
En allavega, ég er ánægðust með það að ég hitti Jóa, Daníel og kærustu hans. Ég hef ekki hitt þau síðan ég bjó úti í Danmörku, eða fyrir um 15 árum síðan! Strange... en þetta var rosa gaman, mikið spjallað og rifjað upp.
Núna er ég nýbúin að éta hryllilega stóran Burrito rétt og er að veltast um hérna í sófa baksviðs. Vona bara að við fáum alminnilegt hótel í nótt svo ég geti tekið gott bað fyrir svefninn.
Ble í bili...
Fleiri myndir...

fimmtudagur, október 14, 2004

Erum komin til Chicago og Solex er núna að sándtékka á Empty Bottle. Gaman að það skuli vera þráðlaust net hérna...fleiri orð, fleiri myndir :)
Þessi staður lítur vel út og mér líst bara vel á þetta kvöld. Það er líka fimmtudagskvöld og góð stemming á liðinu hérna. Sjáum til...
Við fórum til Detroit eftir Toronto giggið. Við keyrðum aftur í gegnum landamærin og þá tók á móti okkur ein mesta bitch-landamæragella sem ég hef kynnst. Hún var með hvöss augu, virtist vera soldið vitlaus, en hún var með vald þannig að við vorum ekkert að böggast og gerðum allt sem hún sagði. En það tók samt ekki langan tíma að komast aftur inn í Bandaríkin, kannski 15 minutur á meðan það tók allavega klukkutíma að komast inní Kanada. Þar voru hinsvegar hressir Kanadiskir landamæraverðir, ekki bitchi gellur með fyrirtíðaspennu.
Eníveis, við keyrðum inní Detroit sem er heimabær Eminem og er líka alveg hryllilega ljót borg og ílla farin eitthvað. Göturnar eru allar sprungur, húsin hreysi og enginn maður á götunni. Engir veitingastaðir og okkur leist ekkert á þetta. Við mættum tímanlega, vorum komin fyrir átta, en þá átti að opna húsið og hlaða inn græjunum. Það var enginn kominn og ekkert að gerast, þannig að við röltuðum inná einhvern írskan pöbb rétt hjá. Þar var sveitt og ljótt lið, en þó skemmtilegt. Þar hittum við meðal annars John Bush eða Johnny B Good eins og hann kallaði sig. Hann sagðist ekkert vera skyldur Bush forseta og sagðist meirað segja hata hann og Vietnam stríðið. Þetta var gamall karl sem var búin að lifa á áfengi og sígarettum allt sitt líf og leit út eins og jólasveinninn...og að sjálfsögðu tók ég mynd af honum.
Eftir létt spjall við Johnny B þá fórum við aftur að tékka hvort það væri búið að opna staðinn, The Lager House. Ekki ennþá, en það var kominn einhver gaur sem var dyravörður, en var að bíða eftir eigandanum og lyklunum að hurðinni. Við stóðum úti og náðum að kíkja í kringum okkur, ekki mikið að sjá, en ég spottaði byssukúluför á húsinu eftir drive by shooting.
Loksins kom eigandinn og hleypti okkur inn. Húsið átti að opna klukkan níu þannig að það náði enginn að sándtékka. En fólkið sem var að vinna á staðnum var hresst og það hressti okkur við. Það var pantaður mexíkóskur matur handa okkur sem var klikkað góður og svo var pool-borð sem gladdi okkur líka. Það kom ekki mikið af fólki. Þegar Ovian byrjuðu að spila, þá voru aðeins tvær stúlkur komnar á staðinn, og þær voru ekki einu sinni að horfa á tónleikana heldur spiluðu bara pool í chilli. Þannig við í hljómsveitunum vorum bara inní sal og skemmtum okkur og klöppuðum og hrópuðum. Þetta var bara góð hljómsveitaræfing fyrir okkur. Þeir tóku bara tvö lög strákarnir í Ovian og svo fórum við að setja upp. Og loksins fór að koma eitthvað af fólki, þannig að þegar við byrjuðum að spila þá voru fleiri en hljómsveitarmeðlimir og starfsfólk á staðnum. Við spiluðum öll frekar stutt, það kom heldur ekki mikið af fólki, en samt tókst okkur að selja tvo WIG diska?! Við vorum ekki einu sinni búin að setja upp vörurnar til sýnis. Eftir giggið og nokkra gin í tónik, var farið og leitað að hóteli og fengum ódýrasta hótel hingað til. Gott mál, ódýrt hótel frá peningalitlu giggi. En lokaniðurstaðan af Detroit, ekki svo slæm borg :)
Núna erum við on the road til Chicago og þar munum við spila stað sem heitir Empty Bottle. Ég á jafnvel von á því að nokkrir íslendingar muni mæta þar. Árni Teitur segist þekkja einhverja þar. Ég á hinsvegar vinafólk þar sem ég hef ekki hitt í mörg ár og væri svo sannarlega gaman að hitta núna. Fólk sem bjó úti í Danmörku á sama stað og sama tíma og þegar ég bjó þar. Daniel, einu ári yngri en ég, var mikil leikfélaginn minn þar. Við söfnuðum froskum og brenndum okkur á brenninetlum saman, það var gaman... Ég vona að þau komist til að sjá okkur spila.
Jæja....180 mílur í Chicago. Þá er mál að horfa á eitt stykki góða grínmynd.
Au revoir!

Hey...ég á afmæli eftir 5 daga...