mánudagur, ágúst 25, 2003

Ég er þreyttari en letidýr í afríku!
Vá hvað ég er búin að vera á miklu spani síðustu viku! Ég kláraði mína vinnu á B-4 á miðvikudeginum. Ég bakaði norska gersnúða og fór með handa staffinu. Vinnudagurinn var hinsvegar brjálæðislega buissy þannig að ég gat ekkert sest niður og smjattað á snúðunum með þeim. Maður varð að grípa sér einn og svo hlaupa með hann framm í munninum og halda áfram að vinna. Síðan var það bara beint heim og pakka niður öllu draslinu, rífa niður hillur og fleira. Það kom svo flutningabíll til mín á fimmtudagsmorgunin og tók allt stóra dótið og fór með það norður. Síðan TRÓÐ ég í bílinn minn eins og ég gat, auk þess sem pabbi kom og sótti þó nokkuð af kössum á miðvikudagskvöldinu. Síðan var brunað norður og þar var ég komin um 4-5 leytið og byrjaði að henda öllum kössunum og draslinu sem var í bílnum mínum og pabba uppí íbúðina mína. Hún er lítil og sæt fyrir mig og Hörð Gunnar, en með hrikalega ljóti gólfi. En það er hægt að redda því með fínum gólfmottum :)
Þegar ég var búin að þessu öllu þá fór ég á smá djass-æfingu því ég var svo að syngja á djasstónleikum síðar um kvöldið í Deiglunni. Þar átti ég góða innkomu til Akureyrar því ég sló víst í gegn þarna um kvöldið. Þetta var líka rosalega skemmtilegt. Ég skemmti mér aldrei eins vel og að syngja djass!
Daginn eftir var vaknað snemma til að taka á móti flutningabílnum með rúmið mitt og allt það. Þegar það var allt saman komið uppí íbúð, þá var brunað aftur suður því ég þurfti að halda áfram í flutningadæminu og auk þess átti eftir að þrífa íbúðina. En þegar ég var komin uppí Borgarnesið þá var ég nær dauða en lífi af þreytu og þess vegna tók ég smá kríu í gróðurhúsinu hennar ömmu. En svo mátti ekki dóla meir og því brunaði ég til Reykjavíkur og fór beint til Árna Teits því það voru svo tónleikar með Worm Is Green á Grand Rokk seinna um kvöldið. Þar át ég mat og reyndi að rífa mig upp og gera mig sæta því ég var eins og Zombie.
Þegar við komum á Grand Rokk þá var partý dauðans í gangi! Fyrsti maðurinn sem ég mætti var Siggi Punk og hann var á leiðinni á næturvakt þannig að ég gat rétt sagt hæ og bæ. En það var semsagt Maddi, meðleigjandi Sigga sem var að halda uppá afmælið sitt og þá erum við að tala um rokkara djöfulsins sem voru þarna samankomnir! Við áttum eftir að sándtékka og ALLT og við þurftum að bíða eftir að dyravörðurinn gat rekið alla úr afmælinu niður svo við gætum gert eitthvað þarna! MAN, hvað þetta lagðist ílla í okkur öll! En eftir laaaanga bið og klukkan að verða tvö (og við fundum engan jarðskjálfta), þá spiluðum við og við sánduðum hræðilega og þetta var allt mjög súrt þannig að við fórum á súrt djamm eftirá.
Ég hitti sem betur fer Sonju frænku þannig að ég fékk að gista hjá henni þar sem að rúmið mitt og allt var komið til Akureyrar. Daginn eftir var ég þreytt og þunn og reyndi að rífa mig upp til að fara að þrífa. Þegar ég loksins dreif mig í það, þá þreif ég til að verða ellefu um kvöldið og dreif mig síðan út til að hitta Sonju með húslyklana. Ég náttla endaði á því að hitta Árna, Bjarna og Lísu í bænum og fór svo ekki fyrr en um 2 leytið að sofa heima hjá Sonju.
Daginn eftir.....byrjaði ég aftur að henda drasli í bílinn minn og TRÓÐ í hann og fyllti hann aftur!? Vá, draslið í kringum mann. Síðan þurfti ég að bruna strax norður þar sem að amma mín á Akureyri varð mjög skyndilega veik og hún gæti farið bara á næstu klukkutímum.

Núna er ég komin á skólakynningu í Háskólanum á Akureyri og þetta leggst allt mjög vel í mig, nema ég er soldið rugluð og þreytt í hausnum.
Auk þess er Amma mín mer ofarlega í huga þar sem hún gæti farið hvenær sem er til himna.

Ég býst við því að ég þurfi að fara til Reykjavíkur aftur næstu helgi og klára þrif á íbúðinni...annars... þá er ég orðinn Akureyringur!

föstudagur, ágúst 15, 2003

Ég er töffari!...og móðir...
Ég er svo mikill töffari á nýja bílnum mínum. Ég var að kaupa mér Peugeot 306, 4 dyra, 99 árg., svartur og töffaralegur með spoiler og álfelgum og flottum geislaspilara. Ég er allavega mjög ánægð með gripinn, hann er þægilegur, rúmgóður og bla bla bla eins og í auglýsingunum. Fékk hann líka á mjög góðum prís þar sem pólóinn minn fór uppí og hann var metinn meira en ég bjóst við.
Já, ég held að það sé gott Feng Shui í gangi núna eins og mamma sagði. Nýr bíll, flutningur, nám, og ég er að verða aldarfjórðungsgömul eftir ca. tvo mánuði. It´s a new era I think.

Menningarnóttin framundan. Ég er núna í Borgarnesi (auðvitað, ég blogga alltaf þegar ég er komin í ADSL-ið hjá mömmu og pabba) og ætla að gista hér í nótt. Á morgun bruna ég suður og skil Hörð Gunnar eftir því pabbans ætlar að vera með hann um helgina. Síðan er ég að spekúlera í því að elda eitthvað gott handa strákunum í græna orminum því við verðum að spila í Tjarnarbíó á morgun. Worm Is Green á menningarnótt, sprell! Svo ætlar Særún pæja og ég töffarinn að skemmta okkur, líklegast með grænu ormunum en reyndar eru the Hannesson brothers að farað vinna 04:30 á sunnudaginn þannig að þeir bruna beint útá Skaga eftir tónleikana, ohh! Ég sem var að vonast til þess að þeir myndu skralla með mér alla nóttina þar sem að þetta er líklegast síðasta djammið mitt í bænum áður en ég fer norður :(

En það er gott að vera í fríi um helgina. Ég á svo bara eftir að vinna mánud, þriðjud. og miðvikud. og svo er ég hætt. Það er spurning með að fara norður fimmtud. 21. ágúst með pabba og koma aftur daginn eftir suður. Hann er að farað spila á einhverjum djass-tónleikum og var að biðja mig um að vera gestasöngkona aftur eins og ég gerði einhverntíman með þeim áður. Þá gæti ég líka notað tækifærið og skoðað íbúðina og ýmislegt vesen þennan dag. Síðan flyt ég líklegast á laugardaginn 23. eða sunnudaginn 24. ágúst. Ble, ble Reykjavík...snökt og sniff!
En HALLÓ. Reykjavík er EKKI nafli alheimsins og síðan er ekkert mál að ferðast þarna á milli. Tíminn líður líka hratt á gervihnattaöld. Hraðar sérhvern dag, hraðar sérhvert kvöld...o.s.fr.v. Áður en ég veit af þá eru komin áramót og síðan sumar aftur! Ef maður hefur nóg að gera, þá Flýgur! tíminn framhjá manni.

Og að lokum, þá erum við líka að spila á Grand Rokk þann 22. ágúst. En ég var víst búin að blaðra eitthvað um það...

fimmtudagur, ágúst 14, 2003

framundan...

selja bílinn minn, kaupa nýjan, vinna 5 daga í viðbót, frí um helgina, menningarnótt, spila í tjarnarbíói á laugardagskvöld með Worm Is Green, pakka og margt margt fleira..

föstudagur, ágúst 08, 2003

Þegar Hörður Gunnar og Jóhann bróðir eru saman, þá er eins og einhver skæruliðasamtök séu inní húsinu! Þvílík og önnur eins öskur og læti! Þeir espa hvorn annan upp í einhverjum bardagaleik og síðan endar það á því að Hörður Gunnar kemur grenjandi til mín og segir "Jóhann er alltaf að stríða mér" og svo heyri ég Jóhann skella hurðum og lætur sig hverfa út... soldið fyndið samt.
Þeir eiga líka góðar stundir saman, enda eru þeir eins og bræður. Stundum eru þeir að dunda sér eitthvað í rólegheitum og þá heyrist ekki orð né hljóð frá þeim. Það er gott að Jóhann bróðir sé að fara norður í MA. Þá verður Hörður Gunnar ekki aleinn með mömmu sinni sem er að læra brjálað fyrir claususinn í hjúkrun. Sem betur fer á ég líka hálfa fjölskyldu mína þarna fyrir norðan. Systkini pabba og þeirra börn. Litlir frændur sem geta leikið saman og stórar frænkur sem geta boðið okkur í mat...
Ég var að sækja bókalistann og komst að því að ég þarf að kaupa lítið. Ég gat fundið tvær bækur á bókasafninu í Borgarnesi, ég er með 2 í láni hjá Berglindi og svo eru bara einhver fjölrit sem þarf að kaupa frá háskólaútgáfunni. Mér hlakkar bara soldið mikið til að byrja, en samt er alltaf svolítill kvíði....samt ekki eins mikill og síðasta haust...

Ég er að fara til Reykjavíkur á eftir. Mamma og Hörður Gunnar ætla að koma með og vera hjá mér um helgina. Ég verð að vísu að vinna alla helgina...eins og alltaf..en mamma ætlar að dúlla sér eitthvað með pjakkinn í heimsóknir og fleira. Held hún ætli líka Millaballið... Hörður Gunnar er farin að sakna mín líka svo mikið að hann hefur gott af því að vera hjá mér um helgina. Svo fer han aftur uppí Borgarnes með mömmu. Leikskólinn hans byrjar ekki fyrr en 12. ágúst aftur. Svo flytjum við norður helgina 22.-24. ágúst. Djöf.. fljótt að gerast.
Svo verður Worm Is Green með tónleika á Grand Rokk 22. ágúst...setja það inní dagbækur ykkar!

sunnudagur, ágúst 03, 2003

Eftir að hafa unnið sveitt um helgina, en þó átt góða helgi, þá er ég nú að undirbúa mig fyrir tvöfalda vakt á morgun. Ég er búin að liggja eins og úldið hræ uppí rúmi síðan ég kom heim eftir morgunvaktina um fimm- sex leytið. Ég gat ekki einu sinni drattast á lappir til að fara inn í stofu og kveikja á sjónvarpinu og leggjast uppí sófann. Ég var líka í æðislegu matarboði í gær og fór pínu seint að sofa...
Ég er nú nýkomin á fætur, búin að vaska upp ógeðið í sem lá í eldhúsvaskinum, skipta á rúminu mínu og kveikja á reykelsi og.... Arethu Franklin!
Það er orðið allt of langt síðan ég hef hlustað á hana Arethu mína. Ég hlustaði á hana á hverjum degi í mörg ár áður en ég flutti suður. Einhvern vegin hefur þetta dottið niður. En ég heyrði eitt lag með henni í gær og þá kviknaði bálið aftur inní mér. Ég er líka búin að vera að syngja hástöfum síðan ég fór á fætur áðan. Ég á svo líka mín uppáhalds Arethu lög, t.d. "Angel", "Dr. Feelgood", "Do Right Woman, Do Right Man" og "Aint No Way"...svo eitthvað sé nefnt. En auðvitað eru öll lögin sem hún hefur sungið alveg mergjuð! Ég breytist í blökkukonu og tek fram ímyndaðan míkrófón (sleif eða hárbursta) og syng hástöfum fyrir framan spegilinn. Ógesslega gaman, þetta getur maður gert þegar maður er einn heima :o)

Var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að horfa á "Thirteen Ghosts" sem er á stöð tvö. Hef séð hana tvisvar, soldið skemmtileg, en ég nenni ekki að fá martröð í nótt. Ég þarf góðan svefn. Ég er svo ýmindunarveik að ég fer alltaf að sjá verur og allskonar andlit í herberginu þegar ég fer að sofa þegar ég er nýbúin að horfa á einhvern hrylling. Ég tala nú ekki um þegar ég horfi á "Twin Peaks".... uhh...ég sá Bob í hverju horni!!!
Nei. Ég læt mér nægja Arethu og syng sjálfa mig uppí rúm....újé...queen of soul!

föstudagur, ágúst 01, 2003

ÉG ELSKA SKATTINN!!
Ójá, ég var að enda við að borga reikningana mína og ég á fullt af pening eftir! Víííhaa! Ég fór og labbaði laugarveginn áðan með Særúnu og ætlaði að reynað eyða smá pening. En ég er búin að stimpla fátæktina svo mikið inní hausinn á mér að ég gékk framhjá fullt af ódýrum fötum og dóti á mjög fínu verði! Ég reyndar keypti mér einn bol í DOGMA, bol með andlitinu hans Jesú... hann er vinur minn...
Það var líf og fjör í bænum og náttla brennandi hiti. Ég gat líka voða lítið verið að hangsa inní búðunum þar sem að buxurnar byrjuðu að klístrast við rass og læri því maður byrjaði strax að svitna einsog mófó þegar maður labbaði einhversstaðar inn!
Við röltum framhjá 12 tónum þar sem að útitónleikar með Rúnk voru í fullum gangi. Bara of mikið fólk, þrengsli og hiti gerði það að verkum að við drifum okkur heim. Líka þegar ég byrjaði að keyra heim fóru regndroparnir að falla, einn og tveir og þrír og fleir...
Ég reif mig úr fötunum um leið og ég steig innum dyrnar því að ég svitnaði svo mikið niðrí bæ.
Árni og Bjarni ætla að koma suður í kvöld og djamma með einhverjum Skota-vini hans Bjarna sem er nýkomin til landsins. Ég er búin að bjóða þeim húsaskjól. Þá er nú best að farað tína upp nærbuxurnar hérna á gólfinu og kanski vaska aðeins upp. Ég er alltaf vinnandi, hef engan tíma til að vera húsmóðir þessa dagana...
Jamm...best að farað leggja sig smávegis, verð að vinna alla helgina og verð að hafa mikla orku í að gera hitt og þetta! Ég meina, kanski þarf ég að kíkja aðeins út á kvöldin! Það er nú einu sinni Verslunarmannahelgi og þá fer allt skrítna fólkið í Reykjavík að skemmta sér niðrí bæ :o)