sunnudagur, apríl 27, 2003

Einhver grettir sem ég veit ekki hver er skrifaði í gestabókina mína og sagði að síðan mín væri "very interesting you know"..... Skil það ekki alveg þar sem ég tala mikið um sjálfa mig og það er ekkert merkilegt að gerast í kringum mig þessa dagana nema vinna og magapína. Ekki skrifa ég mikla speki þar sem tómur heili minn hefur ekki mikið spekingslegt að segja þessa dagana.

En allavega, þá er ég enn og aftur í Borgarnesi og í þetta skipti er Hörður Gunnar með hlaupabólu og er eins og hann hafi verið stungin af fullt af flugum! En hann er hættur að fá fleiri bólur, hann er svona að jafna sig og þess vegna er svona pæling hvort að ég eigi að vera heima með hann á morgun. Magapínan mín er að jafna sig...allavega gat ég borðað alveg ágætlega núna í fyrsta skipti í tvo daga. Ég er búin að missa tvö kíló og er eins og lík í framan.
Haldiði að það hafi ekki verið að hringja í mig úr vinnunni því það vantar svo mikið í kvöld og á morgun! Man...kanski get ég ekki fengið frí á morgun :(

Tónleikarnir hjá okkur á Grand Rokk tókust bara ágætlega. Nema, helv... norski guttinn byrjaði svo seint að spila og var svo lengi að ég var alveg að gefast upp og rjúka heim. Við byrjuðum ekki að spila fyrr en rúmlega 2!! Var orðin soldið mikið þreytt og pirruð og með þessa leiðinlegu magapínu líka. En þetta tókst bara ágætlega hjá okkur, bara aðeins smá textarugl á mér, en það tók líklegast enginn eftir því. ójá....Allir mínir elskulegu vinir sem mættu á tónleikana, takk fyrir komuna, það var rosalega gaman að sjá ykkur öll!!!

Morgan fer alveg að koma heim :) eftir 10 daga...

föstudagur, apríl 25, 2003

100 súrir kolkrabbar og ýsur í tunnu!!! Ég blóta nú bara eins og Kolbeinn kafteinn því ég er búin að vera eins og hræ í allan dag. Ég var eins og vofa í vinnunni, með magapínu sem ég átta mig ekki á. Ég er ennþá með þessa magapínu. Það er eins og maginn minn viti ekki hvort hann eigi að skila út uppi eða niðri....það kemur bara loft báðum megin! Ég hef ekki haft neina matarlyst í allan dag og varla hef ég lyst á þessu eina kókglasi sem er fyrir framan mig núna. Ég er að reyna að taka það rólega því við erum nú að fara að spila í kvöld.
Fyndið, það var auglýst í mogganum eða dv að við myndum spila á grandrokk í kvöld. En svo stóð líka að Worm Is Green myndu spila á Barnum á Sauðárkróki!? Eitthvað er tæknin að stríða okkur þarna í prentinu... Norski guttinn Spztx, eins og hann kallar sig, hitar upp fyrir okkur.
Árni var að segja mér ansi skemmtilega sögu. Það er einhver útvarpsþáttur úti í Frakklandi með svona topp 20 lista yfir vinsælustu bönd þáttarins. Nema hvað, Worm Is Green, Automagic platan, er í 17. sæti! Og vitiði hvaða hljómsveit er í sætinu fyrir neðan okkur, í 18. sæti, er Sigurrós með ( )! Magnað! Og við erum að tala um að við erum á lista með Aphex Twin og Autechre svo eitthvað sé nefnt! :o)
Svei mér þá, ég held að magapínan sé að ganga yfir....

mánudagur, apríl 21, 2003

Vó...ótrúlega veird í gestabókinni minn. Einhver dularfull Stephanie sem er að bjóða mér að skoða nakta líkamann sinn...hehehe!

Ég fór í frábæra fermingarveislu í dag hjá Hilla og Cindu. Decebert var að fermast (kaþólsk ferming) en það var matur eins og í öllum fermingarveislum. Og það var meira en venjulegur matur, það var filipino hlaðborð! Namm...vá hvað ég át yfir mig. Geðveikt góður matur. Það er alltaf gaman að fá að fara í matarboð til Cindu. Hún er meistarakokkur.

Ennn...það var gott að fá frídag í dag, en það er vinna á morgun og alveg fram á næstu helgi. Helgarfrí...mmm... Og já.. ég ætlaði að minna ykkur á tónleikana með okkur, Worm Is Green, á Grand Rokk, föstudagskvöldið 25. apríl. Be there or be square!

sunnudagur, apríl 20, 2003

Gleðilega páska

Já...ég sit ein heima, með gott kaffi, gleymdi að kaupa mér lítið páskaegg með málshætti, ég geri það kanski bara á morgun. En það er mjög skrítið að vera svona ein á páskadag þar sem ég hef alist upp við að vera heima hjá fjölskyldunni á páskunum alla mína tíð þangað til núna. En ég hlýt að fá lambalæri í vinnunni í kvöld. Ég fer að vinna klukkan hálf fjögur og ég ætla að mæta soldið fín...reyndar verð ég í hvíta vinnugallanum, en það er hægt að setja á sig varalit og gera fínt hárið.

Ég fór í afmæli til Unnar í gær og það var bara fínt. Hitti gott og skemmtilegt fólk og spjallaði um heima og geima. Ég var að vísu ekki með rauðvín og lenti ekki á trúnó við neinn, en það er allt í lagi... ég geri það einhverntíman seinna þegar ég hef efni á að kaupa mér rauðvínið. Ég svaf svo vel í nótt þannig að ég vaknaði ofboðslega vel sofin og tilbúin til að takast á við daginn. Ekki svona þreyta..."ohh mig langar að sofa lengur!"

Núna ætla ég að skella mér í sturtu og halda áfram að hlusta á góða músík þangað til ég fer í vinnuna. Megi Guð gefa ykkur góðan dag.

laugardagur, apríl 19, 2003

Jæja. Nú er Kristín frænka komin með bloggsíðu...hún vill líka blogga...allir að blogga...afhverju ekki!?
En ég ætla semsé að bæta linknum hennar á listann minn. Gætu verið mjög skemmtilegar sögur þarna. Hún er að læra læknisfræði í Ungverjalandi og oft heyrir maður ansi spæsí svæsnar sögur um líkkrufningu og fleira. Skemmtilegt....fyrir þá sem hafa áhuga á því!

miðvikudagur, apríl 16, 2003

vinna vinna vinna.... og svo frí

Ég er stödd í Borgarnesinu gamla góða og er nýbúin að gefa litla guttanum og stóra guttanum pylsur (Hörður Gunnar og Jóhann bróðir). Ég var að vinna til fjögur í dag og fór svo í nesið til að hitta barnið mitt. Hann HG er búin að vera hjá möm & pab síðan síðustu helgi, ég er að vinna svo mikið þessa vikuna og svo um páskana. Ég fer aftur suður annað kvöld og mun svo sitja ein og mylja lítið páskaegg númer eitt með sjálfri mér á páskadag.... :(
En það verður nú samt líklega hlýtt andrúmsloft í vinnunni. Nokkrir sjúklingar fara heim um páskana og svo er aðeins værð yfir öllum, hlýja og gleði...væmið, en gott! Annars er ég boðin í sæta afmælisveislu á laugardagskvöldið og viti menn...ég er á kvöldvakt á sunnudaginn, páskadag, þannig að ég get fengið mér eilítið rauðvín og slappað af á laugardagskvöldið í faðmi góðra vina...og farið á trúnó...mig hlakkar til! :o)

Ég var að taka þátt í könnunn á afstöðu.net um hvaða flokk ég ætti að kjósa. Ég er mjög óákveðin og finn mig hvergi í neinum flokki. Niðurstaðan var hinsvegar sú að ég er með mest prósentur hjá framsóknarflokknum, en ég tel það bara vera smit frá minni fjölskyldu. Ég veit barasta það að ég vil herinn burt af landinu okkar. Við þurfum ekkert á þessum blessaða kana her að halda! Þess vegna geng ég um í dag í létta gallajakkanum mínum (það er orðið svo hlýtt) með ísland úr nato, herinn burt, næluna mína og svörtu alpahúfuna mína á ská á höfði til að þykjast vera soldið andspyrnuleg.... svo er það líka kül.

Var að fá skilaboð áðan um smá kjallaraglaðning heima hjá Gumma í kvöld....ætli maður kíki ekki á það....

miðvikudagur, apríl 09, 2003

Ég er búin að finna mína uppáhalds vefsíðu á netinu! Það er heimasíða svikaraflokksins þar sem bróðir minn almáttugi, Jóhann Lind, er formaður flokksins! Auðvitað ætla ég að bæta link á síðuna mína....svikari!!!
Mig minnir að slagorðið þeirra sé, "betra er að svíkja en íkja!" (þeir skrifa íkja en ekki ýkja)! Svo er víst mikið lagt uppúr kókdrykkju og einnig eru þeir með skemmtilega stefnuskrá....tékkið á þessu, sprellifjör!

fimmtudagur, apríl 03, 2003

Vá maður ég er búin að vera á fullu í allan dag og á heilmikið eftir....
Ég kláraði LOKSINS að gera þessa skattaskýrslu og það tók svoooo stuttan tíma að ég bölva sjálfri mér fyrir að hafa ekki gert þetta fyrr...búin að vera með áhyggjur á öxlum mínum allan þennan tíma...ussss...Og ég borgaði TONN af reikningum og ég á 92 krónur eftir til að lifa af mánuðinn. Púff! Þá er það bara kreditkort lifnaður.

Morgan hringdi í mig í dag og sagðist ætla í skíðaferð til Svíþjóðar eftir Sviss, semsagt í byrjun maí. Svo ætlar hann að fara til Miami og svo til Bahamas...hann sagðist hafa hringt í Róbert á Sommelier og sagt honum að hann væri hættur við að koma. Hann ætlar ekkert að koma til Íslands, ætlar bara að ferðast um í sumar og finna nýja vinnu fyrir næsta vetur..... Ég fékk stóra kúlu í hálsinn og bara..."haaa?" Fann hvernig tár var alveg að fara að streyma niður. Auðvitað var hann að stríða mér og hló að mér! Hann getur strítt mér svo mikið og ég gleymi alltaf að passa mig á því. Hann ætlar samt til Sweden eftir Sviss, en kemur aftur til Íslands í byrjun maí :)
Svo ætlum við til Svíþjóðar í sumar í eina viku allavega. Bróðir hans er að fara að gifta sig þann 7. júní og við erum boðin. Morgan ætlar reyndar að bjóðast til að sjá um matinn, auðvitað, þessi lista-kokkur!

Ég kíkti aðeins á heimasíðuna hjá Særúnu í dag. Hún er búin að setja inn fullt af myndum og þar á meðal eru myndir síðan í MA. Ég er með ógeðslega ljótt, stutt, rautt hár og með bólur! Ojjj! En svo var líka sæt mynd af mér síðan þegar við Særún fórum á Nick Cave tónleikan...mmmm...sweet!

miðvikudagur, apríl 02, 2003

Já takk Bjargey! Það er víst búið að spila remixið okkar í útvarpinu....sprell!

Ég er með stíflaðasta nef í heimi! Ég held að ég sé með frjókornaofnæmi. Síðan að ein gamla konan á deildinni fékk túlípana frá ættingjum er ég búin að vera hnerrandi og með stöðugt nefrennsli og stíflu. Ég held að málið sé að fara í ofnæmispróf og láta athuga þetta. Ég fór eitt sinn til háls-, nef- og eyrnalæknis og hann sagði mér að ég væri með týpiskt ofnæmisnef. Enda fæ ég ekki beint kvef, ég er ekki hóstandi með særindi í hálsinum. Þetta er bara í nefinu og svo fæ ég líka í augun, sviða og kláða og rennsli... mynduð þið ekki segja að það sé soldið ofnæmislegt?

Nú er Bibbi komin til landsins!!! Og það var ekkert aprílgabb. Hann kom í gær. Djöf... hefði það nú verið brútal aprílgabb að láta pabba sinn sækja sig út á keflavíkurvöll og svo kæmi maður ekkert...myndi bara hringja "HEHEHE....ég kem á morgun!!!" :o) Ég var einusinni göbbuð agalega...hlæ reyndar að því, en er alltaf í vörn þennan dag! Ein hjúkkan á deildinni breyttist í fimm ára prakkara og var að reyna að gabba allt og alla í gær....ég sá vígtennur vaxa út úr henni og hala...mooohahhahaha!

Frídagur á morgun...sem er í raun ekki frídagur. Ég þarf að læra mikið og svo borga reikninga og eitthvað bull. Ætla að skella mér í kraftjóga í hádeginu...ummjáá