fimmtudagur, febrúar 27, 2003

Mér hefur bara sjaldan liðið svona vel miðað við aðstæður...þvílíkar efnabreytingar í gangi í líkamanum!
Ég er rosalega dugleg. Vinn eins og mofo. Byrjuð í hreyfingu. Farin að svitna á bakinu og verða rjóð í kinnum. Og nú er að koma fríhelgi, en ég ætla uppí Borgó og vinna á Klettinum alla helgina. Hörkuduglegkvennsa!
Segi meira síðar. Annars...muniðið ekki eftir laginu?
"Upprisin er hún, húrra, húrra! Hún lifir, hún lifir, hún lifir enn!"

laugardagur, febrúar 22, 2003

Haldiði að Árni Teitur hafi ekki verið að hringja í mig og biðja mig um að koma upp í Thule núna! Jæja...eins gott að ég var ekki kominn í náttfötin. Við erum að brallast eitthvað með breskum blaðamönnum og svo eru Trabant gaurarnir að taka upp eitthvað lag sem við verðum líklegast viðriðin. Ég sagðist ætla að kíkja og sjá hvað er að gerast, en ekki lengur en til eitt!! Ég er að fara á tvöfalda vakt á morgun, common! Reyndar er sunnudagur á morgun, ekkert bað, ekkert dulcolax, ekkert vesen, bara gestir, ættingjar og kunningjar....
Küül.
vó...það er geðveikt einhver draugur að sveima í kringum mig...ég er alltaf að sjá einhverja hreyfingu útundan mér...vonandi er þetta bara afi minn eða einhver annar voða góður...
Ég er nýkomin heim af kvöldvakt. Ég er með beinverki síðan í gær og við erum að tala um beinverki dauðans! Ég var sko miklu verri í gær heldur en núna sem betur fer. Ég fór í matarboð með Sonju frænku og svo var náttúrulega farið niður í bæ eftir það. Ég entist ekki lengi, ég var líka edrú og ekki alveg að fitta inní þennann fulla hóp. Lappirnar mínar ætluðu líka að deyja. Það var eins og það væri verið að rífa þær af mér eða henda gám ofan á þær.
Þegar ég flúði heim frá stelpunum skreið ég inná baðherbergi í leit að verkjatöflum. Ég fann bara verkjastíla en skellti honum í mig strax og skreið svo upp í rúm og rotaðist. Daginn eftir vaknaði ég eins og ég hefði misst meðvitund og svo var ég enn með svona "seiðing" í löppunum og er búin að vera með í allan dag. Ég er ekki frá því að það eykst með hverjum klukkutímanum því núna er ég aðeins verri heldur en þegar ég fór á vaktina í dag.
Ég var rekin heim aðeins fyrr þar sem ég var plötuð til þess að taka tvöfalda vakt á morgun. Allt í lagi með það á meðan ég er ein heima og get unnið (svona fyrir utan lappirnar), þá fær maður aðeins aukapening. Ég þarf semsé að fara í vinnuna klukkan átta í fyrramálið og svo vinna til hálf tólf um kvöldið. Fæ nú vonandi að fara aðeins fyrr heim þar sem ég er á tvöfaldri vakt...
Núna sit ég bara í rólegheitum uppí sófa með rómantíska ljósastemmingu en vantar Morgan minn til að nudda lappirnar mínar...og bara vera hérna hjá mér :( Ég sakna hans SVO mikið! Ég er að hlusta á Nick Cave, Nocturama, sem er by the way Brilliant diskur! Svo átti ég smá bland í poka og pepsi, þannig að allt er í ágætu gúddí...
Ég ætla að skríða uppí rúm á eftir og örugglega fá mér verkjalyf til að ég geti sofnað vært...

fimmtudagur, febrúar 20, 2003

Jæja...ótrúlegir hlutir gerast. Það getur rignt froskum og dottið píanó ofaná mann og maður getur orðið fyrir eldingu sjö sinnum og...
Dúdda ætlar í líkamsrækt!!!
Já, Ragnheiður vinkona ætlar að draga mig í world class eða hreyfingu eða einhvern andskotan. Ég er alveg meira en til í það en ég er ógeðslega kvíðin! Í fyrsta lagi hef ég ekki hreyft mig í hundrað ár. Ég á ENGIN íþróttaföt og það er nú helvíti dýr pakki. Og ég er með hvítan lítinn aumingjalegan líkama og mér finnst erfitt að byrja....búhúúú!
Vonandi gengur þetta allt vel, annars get ég alltaf stokkið í sund, það hefur aldrei verið neitt vandamál og ég á sundbol og bíkíní og allt það... Mér líkar ágætlega vel í sundi. Þó svo að ég sé enginn sundkappi dauðans, þá syndi ég mínar ferðir í rólegheitum og ekkert stress.
En já...ég ætla að kíkja með Röggu Popp eitthvað á eftir...wish me luck!

Ef ég blogga ekki aftur fljótlega, þá dó ég líklegast út af kvíðakasti.

miðvikudagur, febrúar 19, 2003

Ég er enn heima með heitan dreng. Hann var með 38,2 stiga hita í hádeginu þegar ég mældi hann. Við erum bara í rólegheitum að hlusta á hana Olgu Guðrúnu syngja Eniga Meniga. Þessi plata er frábær, ég sá diskinn í Hagkaup um daginn og keypti hann á 1000 kall. Ég er miklu hrifnari af þessum gömlu barnaplötum, líka Út um græna grundu, það var plata sem ég hlustaði mikið á. Glætan að ég myndi fara að kaupa krakkasprell með Siggu Beinteins!!!

Svo er ég að rápa á netinu. Ýmsir bloggarar eru vaknaðir, eins og Sonja! Skemmtileg rolludýrkun þar í gangi...

Já...ég er búin að þvo þvott og vaska upp. Ætli við horfum ekki bara á eina skemmtilega bíómynd og poppum popp!
Jó!
Ákvað að láta aðeins í mér heyra þar sem ég var að logga mig á netið til að skila verkefnum í fjarnáminu. Djöfull var ég tæp á því núna! Það var skilafrestur til klukkan tólf í kvöld og ég sendi bréfið klukkan akkúrat 00:00!
Ég hef heldur ekki getað einbeitt mér mikið yfir lærdómnum þar sem drengurinn er lasinn og ég þarf að sýna honum mikla athygli. Ég fór sko úr vinnunni á mánudaginn og náði í hann í leikskólann. Hann var kominn með hita og var með 37,8 síðast þegar ég mældi hann í dag. Ég þarf að mæla hann aftur núna og kanski skella einum hitalækkandi stíl í littla rass. Ég er orðin svo klár í þessu öllu saman...eheee..

Já. Ég var laus við magapínuna rétt fyrir afmælið, gvuðisélof! Enda át ég yfir mig af þessu ljúfa mat hjá indverjunum. Ahh...svo var bara setið og drukkið rauðvín allt kvöldið og ég fór ekkert niður í bæ að slæpast, heldur bara heim þegar klukkan var orðin rúmlega fjögur! Fínt kvöld og fínn mannskapur þarna.
Til lukku enn og aftur Gunnhildur!

Ég fór aðeins að leika mér í dag. Ég var nefnilega búin að setja tvo avocado steina í glas með vatni og beið eftir smá rót. Síðan keypti ég mér tvo potta og smá mold í blómaval um daginn. Heyrðu, ég skellti steinunum í pottana í dag og ég var svo spennt og óð að mér datt annað fáránlegt í hug. Veit ekkert hvort það kemur eitthvað út úr þessu, en það er samt gaman að þessari tilraunastarfsemi. Ég var að éta gula vatnsmelónu og ætlaði að henda steinagumsinu í ruslið, en ákvað frekar að skella þeim í mold. Ég átti heldur ekki blómapott með gati að neðan, þannig að ég klippti bara í sundur tveggja lítra gosflösku og gerði smá gat í botninn og skellti þessu í rauðan íkeablómapott. Ég bíð spennt! Það kemur samt örugglega ekkert, og þó.... ég setti eitt sinn vínberjasteina í mold og það kom svaka flott tré út frá því!
Hefur einhver prófað svona? Er einhver sérstök aðferð sem ég ætti að vita um?
Ég ætla að kaupa mér fleiri ávexti og grænmeti með fræjum í og setja í potta út um alla íbúð....múhahahahaa!!!

föstudagur, febrúar 14, 2003

Kvöl og pína, appelsína...

Ég sit í gamla drottningarstólnum mínum fyrir framan tölvuna hjá mömmu og pabba uppí Borgarnesi. Ég ætlaði mér að vera í partýi í höfuðborg lýðveldisins í kvöld, en er með vonda magapínu og set í "keng" í stólnum. Ég ætla að vona að ég verði orðin góð á morgun þar sem ég er að fara í afmælisveislu og út að borða á uppáhalds veitingastaðnum mínum, þ.e. Austur Indía-félaginu. Nammiiii.....
Hver veit, kanski smitaðist ég af einhverjum óþverra uppá spítala, en tel það samt mjög ólíklegt þar sem maður sprittar sig á mínutu fresti þar!

Hvað get ég gert? Jú, ég get farið að leika mér í íslendingabók þar sem ég er komin með password þangað eins og flest allir íslendingar. Sett upp Esso-gleraugun og safnað kryppu. Mamma og pabbi eru með ADSL þannig að ég get syndgað á netinu í alla nótt.
Get ekki bloggað neitt skemmtilegt. Ég hef nebblilega ekki mikið merkilegt að segja núna, er andlaus með magapínu.
Búin að vinna eins og mófó alla vikuna. Mjög þreytt. Geispa mikið. Kanski ég ætti bara að fá mér verkjatöflu og hætta þessu væli og fara upp í rúm og sofa?!
Úff..nennissukkiii

sunnudagur, febrúar 09, 2003

Jæja, nú er maður bara á fleygiferð og ekki alveg eins mikill bloggtími eins og þegar ég var atvinnulaus í janúar.
Ég er semsagt byrjuð að vinna á borgarspítalanum á öldrunardeild við aðhlynningu á fullu. Þetta er ljúft og gefandi starf og ég er alveg sátt við þetta. Að geta hjálpað þessu bjargarlausu gamla fólki er eitthvað sem allir þurfa að prófa að vinna við. Það hafa allir gott af því!

En ég semsagt átti dramatískt föstudagskvöld. Fór með Berglindi heim til Bjargeyjar af því að ég var bara ein að væbblast, pabbahelgi og ég var ekkert búin að ákveða nema að vera bara heima og horfa á sjónvarpið. En ég semsagt fékk mér eitthvað um þrjú rauðvínsglös og var orðin jolly-létt af því strax, því ég var mjög þreytt líka eftir vinnuna. Síðan helli ég í mér litlu bjórglasi áður en við förum niðrí bæ og beint á Keltabar. Þar varð mér síðan hrikalega óglatt og höfuðið snérist í hringi. Ég fór inná klósett og ældi eins og mófó þangað til það kom froða. Helv...bjórinn, ég þoli hann ekki, verð alltaf veik. Þannig að ég drakk bara vatn það sem eftir var.
Ég fékk síðan eitthvað kast og tárin byrjuðu að streyma niður kinnarnar á mér á fullu og ég gat ekki stöðvað það. Ég hafið talað við Morgan kvöldið áður og ég fékk þvílíkt söknunarkast og grét og grét. Ég gat ekki hugsað mér að bíða þangað til í maí að hitta hann. Ég vildi bara fara heim og panta mér ferð til Sviss einn, tveir og þrír! Þannig að ég sagði við fólkið, "ég get ekki meir" og fór bara heim í næsta leigubíl. Ég rotaðist þegar ég kom heim og rumskaði klukkan eitt daginn eftir með þennan þvílíka hausverk og ennþá drulluflökurt. Ohhhh...hugsaði ég með mér þar sem að ég ætlaði ekki að verða svona full í gær og ég væri að fara í deildarpartý með læknum, hjúkkum og sjúkraliðum í kvöld. Djöf... að missa af því, væri einmitt frábært tækifæri til að kynnast fólkinu.
En ég lá í fósturstellingunni þangað til klukkan sex og reif mig þá á fætur. Fékk mér eitthvað að éta og hringdi í Sigrúnu frænku og spurði hana hvort hún ætlaði í deildarpartýið. Ég klæddi mig upp, málaði mig og ákvað að skella mér með henni. Eins gott ég gerði það því að þetta var rosalega gaman í gær.
Ég fékk mér rauðvín aftur, drakk það í rólegheitum með matnum og naut félagskapsins. Það var mikið rætt um heilbrigðismál og allskonar öldrunardeildarstöff. Ekki rætt svona nema í partýi með hjúkrunarfræðingum..hehe..
Endaði á djammi á Thorvaldsen?!?! sem var allt í lagi. Dönsuðum þar til lokun og ég fylgdist með liðinu þarna inni sem var í skrautlegri kantinum. Það stóð bara ekki annað til boða þar sem partý-haldarinn vildi bara fara á Thorvaldsen eða Nasa!
Þegar ég vaknaði í morgun leið mér vel og reis upp án þess að vera með magapínu eða hausverk. Enginn helvítis bjór!!!

Núna er ég bara búin að verað hlusta á Lamb og undirbúa mig fyrir næstu tvö verkefni í fjarnáminu. Best að halda sig við tíurnar...
Chao!!!

þriðjudagur, febrúar 04, 2003

Magnað himnaríki!

Ég er að fara í vinnuna klukkan níu á morgun! :)
Ég byrja í svona aðlögun fyrst þannig að síðar mæti ég klukkan átta á morgnana. Eins gott að ég er búin að halda mér við morgunvöku. Ég er búin að vera að læra eftir að ég fer með Hörð Gunnar á leikskólann. Enda er ég bara búin að fá tíur fyrir öll verkefnin sem ég er búin að skila! Ííííhhaaaaa!!!

Hvernnig var þetta annars með dagana? Ég var að tala um að það væri gott að byrja ekki á mánudegi því hann er til mæðu. Þriðjudagur er síðan til þrautar, fimmtudagur er til frama, föstudagur til frægðar, laugardagur til lukku og sunnudagur til sigurz! Hvað var á miðvikudeginum?? Ég hef yfirleitt alltaf byrjað á föstudegi eða laugardegi, mjög sniðugt.

Annars dreymdi mig soldið skemmtilegan draum í síðustu nótt: Mig dreymdi að ég væri tannlæknir og að ég væri að vinna hjá afa mínum á Akureyri (Föðurafi minn, hann var sko tannlæknir. Mér þótti rosalega vænt um hann en hann lést úr hvítblæði þegar ég bjó úti í Danmörku og ég varð mjög sorgmædd og sakna hans enn sárt í dag.)
Nema hvað, ég var í tannlæknabúning en afi var bara í sínum vanalegu gráu jakkafötum eins og ég man eftir honum best þegar ég var yngri. Hörður Gunnar sat við borð og var að borða hafragraut og afi var að setja í þvottavélina fyrir mig (?). Síðan segi ég "Ég þarf aðeins að skreppa út, eða á ég að bíða aðeins með það eða hvað?" Þá segir afi, "Nei, nei, ég skal passa hann á meðan."
Mér fannst þetta rosalega skrítinn draumur. Mig hefur dreymt afa minn einu sinni eða tvisvar síðan hann dó (þegar ég var 9 eða 10 ára.) Og hann var mjög hógvær en þótti alltaf mjög vænt um mig. Ég var ein af þeim fáu sem fékk að sitja inni í skrifstofunni hans og skoða allar bækurnar hans og fá súkkulaði úr skúffunni og gapa yfir hringjunum sem hann púaði út með pípureyknum sínum.
Mér finnst þetta soldið táknrænt. Á ég ekki bara að skella mér í tannlæknirinn? Afhverju ekki prófa? Mig dauðlangar það og þá erlendis, það er miklu auðveldara að komast inn þar. Hann afi passar Hörð Gunnar, ég veit það...Og ég veit að hann er hjá mér og hjálpar mér...
Ég veit ekki með ykkur, en ég trúi oft á svona táknræna drauma. Mig dreymir mikið núna þessa dagana og það er engin vitleysa sem mig er að dreyma.

mánudagur, febrúar 03, 2003

Mér er KALT þó svo að ég sé í lopapeysu og undir teppi og í hlýjustu sokkum í heimi. Það hangir sultardropi úr nefinu mínu og ég er með tvær stórar bólur í andlitinu og nýbyrjuð á túr. Ömurlegt!!!

Annars er ég í ágætu skapi. Búin að fá tvær tíur í verkefnum í fjarnáminu...ekki slæm byrjun þar. En það er að vísu í líffærafræðinni þar sem að allt er frekar ferskt í minni ennþá. Ég er að fara'ð leggjast til atlögu og reyna að borga eitthvað af þessum fimmþúsund reikningum sem ég er búin að fá í gegnum bréfalúguna, en þetta reddast allt saman. Ótrúlegt hvað ég er bjartsýn...það er nú eitthvað skrítið!

Fór í mat til Sonju á laugardaginn. Hún eldaði ljúffengt lasagna og síðar drukkum við rauðvín og bjuggum okkur undir það að fara á Kjell Elvis! Það var nú súper fyndið. Við mættum á Broadway með ókeypis miðana sem við fengum í 10-11 soldið seint því það var TROÐIÐ. Skrítnasta var að það kostaði 1800 kr. inn ef þú varst ekki með svona ókeypis 10-11 miða?!?!?! Allavega það var fullt að skrítnu fólki þarna og við gátum hvergi verið því allstaðar vorum við fyrir og það öskruðu á okkur brjálaðar kellingar með fyrirtíðarspennu; "Fariði frá!!!!" ...og svo urruðu þær á eftir og gláptu með stórum augum á Elvis.
Já hann "Elvis" var kúl, en samt soldið gervi. Hann var í búining og alles og með alveg eins hár og svona. En mest var ég svekkt eftir hlé þegar hann kom í nýjum búning sem var leðurjakki og leðurbuxur, en var svo obviously PLAST! Þá fór tempóið að falla niður og hann líka var með þessa takta...fór til áhorfenda og kyssti konunar og þær öskruðu eins og þær ættu lífið að leysa!
Við flúðum en okkur var ekki hent út eins og konunni sem var alltaf að fara uppá svið og dansa( síðan hvenær var það glæpur að dansa!?) og fórum á Wall Street við hliðiná...vorum búin að heyra að það væri geðveikt karokí í gangi þar...en nei...Djöfull leið okkur ílla þarna inni. Rónar og dópistar...þannig að við bökkuðum út og fórum bara í miðbæinn á rölt og enduðum auðvitað á 22. Stuð þar, en ég fór samt snemma heim...var ekki mikið í stuði þarna...var komin heim rúmlega þrjú..var búin að vera geispandi síðan eitt...

Núna er ég að læra líffræði og er að bíða eftir að Sigrún frænka hringi í mig. Vonandi fæ ég að byrja að vinna í þesari viku. Gott að það sé samt ekki mánudagur til mæðu...