sunnudagur, desember 28, 2003

Var að koma úr Reykjavíkinni þar sem ég fór í Þjóðleikhúsið með mömmu og Herði Gunnari og fleirum til að sjá Dýrin í Hálsaskógi. Þetta var bara mjög skemmtilegt, þó kanski aðallega að fylgjast með krökkunum öskra og kalla á leikarana og hjálpa til. Mjög fyndið. Hörður Gunnar æpti einmitt mjög mikið og var ekkert feiminn við það...hehe.
Á morgun ætla ég suður aftur með familíunni, verðum held ég 15 í allt og förum að sjá LOTR í bíó. Ég er hinsvegar að spá í að vera eftir og dvejla um stund í höfuðborg lýðveldisins. Ég hef til dæmis EKKERT hitt af vinum mínum. Reyndar Teit og Gvend bekkjarbræður og Huldu og Snorra, en svo er það bara fjölskyldan. Hitti náttla Villa fyrir jól þar sem hann klippti mig, en ég hef ekki hitt neina aðra, ekki strákana í bandinu, margar vinkonur mínar og rugl!!!
Verð að bæta úr þessu!
Er mikið að spá í að vera í Reykjavík um áramótin. Var að vinna síðustu áramót með Sonju á Búðarkletti. How boring is that! Sonja fékk meirað segja ælupest, þannig að þetta voru mjög leiðinleg áramót hjá okkur. Auk þess nenni ég ekki að vera eins og alltaf heima hjá ömmu (þó amma sé auðvitað indæl) og umvafin sérvisku bræðrunum hennar mömmu. Auk þess sem ekkert verður að gerast nema eitthvað lítið tjútt í Búðarkletti, sem mér langar ekki á, og ekkert annað stuðparty, því það býr ekkert skemmtilegt stuð fólk í Booooringnes! Ef það býr hérna, þá fer það eitthvað annað eða heldur ekki partý hjá sér...eða eitthvað. Það er allavega ekkert voða spennandi að vera hérna um áramótin!
Verð að pæla í þessu. Hvar á ég að vera í fallega áramóta kjólnum mínum? Er reyndar með tvo fallega kjóla, get ekki valið í hvorum ég ætti að vera. Hvort ætti ég að vera í síða bláa kjólnum með hvítu doppunum í marlin monroe stílnum, eða dökkbláa sexy satin, glimmer kjólnum mínum???
Margar pælingar í gangi fyrir áramótin.....

föstudagur, desember 26, 2003

Jájá gleðilega hátíð öllsömul og hallelúja!
Ég er ánægð með það að vera í fríi, enda er ég ekkert búin að plana dagana framundan, bara ligg í leti og spila spil eða horfi á sjónvarp. Er einmitt að glápa á LOTR myndirnar tvær til að hita upp fyrir þá þriðju sem ég er að farað sjá eftir helgi. Svo er ég að fara í leikhús á Dýrin í Hálsaskógi með möm og litla strák og fleirum frænkum og frændum. Þannig að, ég þarf að fara suður fljótlega, líka til að taka upp nýtt efni með Worm Is Green. Var að spá i að fara suður í kvöld, en veit ekki. Langar soldið að djamma, hef ekki djammað óGEðsLEGa lengi!
En allir vinir mínir eru einhvernvegin þvers og krus hér og þar. Sumir í Rvík, sumir útá Skaga, sumir í Boringnes og aðrir náttla á Akureyri. Hmmm...ég ætti kanski bara að liggja uppí sófa og horfa á meira sjónvarp og éta fleiri smákökur í kvöld. Veit ekki. Veit heldur ekki hvað ég geri eða hvar ég verð um áramótin. Margar pælingar, en ég nenni bara ekki að pæla í þeim. Það er svooooo gott að liggja í leti þessa dagana. Sérstaklega er ég fegin að þurfa ekki að verað lesa undir endurtekningarprófin í janúar!!!
Ójá...hvað á ég að gera? Á ég að fara suður núna í kvöld eða bara á morgun eða eitthvað???
Þarf að pæla meira í þessu uppí sófa undir teppi....

Fékk annars fínar jólagjafir, meira en ég bjóst við. Sonja fær allavega hrós fyrir flottustu gjöfina. Hún gaf mér sexy nærföt sem að geta vonandi glatt fleiri en mig...allavega einn mann! :o)
Skrítið samt, þetta eru fyrstu jólin sem ég fæ engan geisladisk í jólagjöf! Ég fæ ALLTAF geisladiska í jólagjöf, það er líka yfirleitt það eina sem mér langar í....

mánudagur, desember 22, 2003

Guðríður Ringsted er hjúkrunarfræðinemi.
Já, ég komst áfram, náði öllu, tvær áttur, tvær sexur og ein fimma.
Það var mikið fall þannig að það eru endurtökupróf í janúar til að fylla í öll 36 sætin í claususnum.
En Dúdda massaði þetta!
Með hjálp frá MÖRGUM og með MIKLUM stuðningi, tókst mér þetta.
Ég er svo glöð og þakklát.
Besta jólagjöf í heimi.
Ahh...

sunnudagur, desember 21, 2003

Jæja, ég ákvað að gera eitthvað í þessu eirðarleysi mínu og fór til mömmu og heimtaði að hún gerði mig fallega! Ég var nefnilega GRÁ í framan eftir próflesturinn! Hún litaði mig og eftir það var ég, Dúdda, mætt aftur til meðvitundar. Ég fór í búðir og heimsóknir og spjallaði til dæmis heilmikið við hana ömmu um Færeyjar í denn.....
Síðan tók ég mig til og bakaði smákökur í kvöld. Mamma er alveg á fullu þannig að hún hafði ekki tíma til að baka uppáhalds kökurnar mínar, lakkrískurlmarens, þannig að ég skellti í hrærivélina og bakaði helling. Rooooosalega góðar hjá mér!
Svo skellti ég mér LOKSINS í baðkarið! Lá þar heillengi i arómaþerapíu og hlustaði á góða músík. Þoli ekki þennan bévítans sturtuklefa fyrir norðan sem er eins og pínulítill kústaskápur, maður rekur sig alltaf í og opnar hurðirnar með því þannig að það frussast vatn á gólfið og svo er maður allur í marblettum á olnbogunum!
Á morgun ætla ég að fara í búðarráp í Reykjavík og einnig í smá klippingu, það er að segja ef Villi hefur tíma.
Glöð og rjóð í kinnum, segi ég, sæl að sinni!

laugardagur, desember 20, 2003

Hæ.
Ég er búin að vera hálf andvana eftir síðasta próf. Get ekki talað eða sagt mikið af viti. Er með hálfgert gullfiskaminni þar sem ég er búin með minniskvótan minn þennan mánuð eftir allan próflesturinn. Ég gleymi alltaf í miðri setningu hvað ég ætlaði að segja, þannig að það er gott ef ég get klárað að skrifa þetta blogg....
Er komin uppí Borgarnes. Ekki mikið breyst, kanski bætt við tveim jólaseríum síðan síðustu jól, annars "missti" ég af jólunum í fyrra og hlakkar því rosalega til jólanna núna þar sem ég hef ekki upplifað þau í tvö ár!
Hef ekki haft samband við neina vini mína, get ekki lyft upp símanum. Það er hinsvegar lítil áreynsla að sitja hér fyrir framan tölvuna og slefa á barminn sinn. Er með verki dauðans í fótunum og var að gleypa tvær verkjatöflur útaf því.
Vissi ekki að það var föstudagur í dag... allir dagar runnu saman í einn graut þegar ég var í prófum.
Ég fæ mikið störur útí loftið.
Það er bara gott að geta lagst uppí SÓFA, en ekki sitja í helv.. útileigu-klapp-stólunum sem ég hef setið á allan mánuðinn og er komin með rimlafar á rasskinnarnar eftir!
Það er gott að hafa kisu kúrandi í fanginu og horfa á sjónvarp, sem ég var búin að gleyma hvað var....
Það er gott, að vera komin í jólafrí!
:o)

fimmtudagur, desember 18, 2003

Ég NÁÐI vefja- og frumulíffræðinni!!!
Guði sé lof! Ég náði líka heimspekinni, fékk 8!
Ég er svo upptjúnuð að ég veit ekki hvernig ég á að snúa mér!
Ég á svo eftir að fá að vita, líklegast eftir helgi, út úr sálfræðinni, hjúkrunarfræðinni og svo þessu síðasta sem ég var í í dag, líffærafræðinni.
Núna, er ég að reynað farað þrífa eða pakka niður eða eitthvað, veit samt ekki alveg hvað ég á að gera af mér, er hálf ringluð eftir þetta próflestrarmaraþon.
Mér er boðið í mat í bæjarstjórahúsið í kvöld og svo er gathering hjá hjúkkunemum seinna í kvöld. Reyna að vera með, vantar samt pössun...
Æj...best að slaka á, leggjast bara í gólfið á meðan Hörður Gunnar horfir á Stundin Okkar.
Ég var ekki einu sinni nörd, heldur breyttist ég í nörd í próflestri!
Góðanótt.

miðvikudagur, desember 17, 2003

Er búin að vera mjög þreytt í morgun. Reyna að hætta að geyspa og halda augum opnum. Síðasta prófið á morgun. Búin að sulla í mig kaffi síðan ég vaknaði, en það virkar ekki.
Ég ákvað þá að setja Taraf de Haïdouks á fóninn og dansa eins og brjálæðingur við þessa rúmensku sígaunasveiflu. Og viti menn, ég er sprell vakandi eftir það!!!
Húrra fyrir musique des tziganes de roumanie!

þriðjudagur, desember 16, 2003

Ahaha..búin að vera að lesa anatomíuglósurnar hans Sigga Bjarklind og búin að vera að leiðrétta helling! T.d. sagði hann að ölnarhöfði eða olecranon og sambryskjan eða pupis symphisis, mörkuðu línuna á mili stóra og litla grindarhols eða pelvis major og minor. Við vitum náttúrulega að ölnarhöfðinn er á ölninni eða ulna og það er spjaldhöfði eða sacral pomontory sem markar línuna með sambryskjunni...ahahaha...ehemm..

mánudagur, desember 15, 2003

Langt síðan maður gerði eitthvað svona....

you are lavender
#E6E6FA

Your dominant hue is blue, making you a good friend who people love and trust. You're good in social situations and want to fit in. Just be careful not to compromise who you are to make them happy.

Your saturation level is very low - you have better things to do than jump headfirst into every little project. You make sure your actions are going to really accomplish something before you start because you hate wasting energy making everyone else think you're working.

Your outlook on life is bright. You see good things in situations where others may not be able to, and it frustrates you to see them get down on everything.
the spacefem.com html color quiz


Horrorr! Var að koma úr erfiðasta prófinu, vefja- og frumulíffræði. Vil ekki tala um það. Hlusta bara á Johnny Cash syngja jólalög núna. Ætla elda mér góðan kjúklingarétt í kvöld. Svo er bara EITT PRÓF EFTIR!!! Líffærarfræðin, ekki svo mikill horror...
En, smá slökun núna.
Var orðin mjög rugluð í gær. Sendi Siggu sms og óskaði henni nú aldeilis til hamingju með afmælið! Nema hún á ekki afmæli fyrr en 17. des.
Svo var ég að rífast í HG um að drífa sig í stuttbuxurnar. Hann vældi bara og skildi mig ekki... þangað til ég fattaði að ég var að rugla. Ég meinti stígvélin, ekki stuttbuxur.
Held ég sé á góðri leið með að lesa yfir mig og rugla mig í ríminu......

sunnudagur, desember 14, 2003

Úff!!
Vefja- og frumulíffræði er erfið og flókin.

föstudagur, desember 12, 2003

Ég skransaði í snjósköflum áðan og áttaði mig á því að það er föstudagur. Helgin er gengin í garð. Ekki mikil helgi hjá mér þar sem ég mun sitja sveitt yfir flóknum líffræðibókum. Ákvað því að skransa í snjóskafl hjá gellunesti og pantaði mér ostborgara og franskar og kók og keypti pulsu og kókómjólk handa litla manninum. Þetta vakti mikla lukku, sitjum bæði södd og sæl og ég er að setja mig í startgíra fyrir næsta próf. Gott að taka smá leti kast milli prófa. Nauðsynlegt.
Annars var Jóhann bróðir að tuða eitthvað að hann vildi fara upp í Borgó þann 20. des. Ég er ekki sátt við það. Langar suður sem fyrst og það þann 19. des. Hann er víst búin að panta sér miða á forsýningu á LOTR og getur ekki hætt við. Seisei, veit ei hvað skal gera...humm..gæti svosem beðið í einn dag, en samt ekki. Það bíður mín andlitsbað og litun hjá mömmsu þegar ég kem heim. Ég get ekki beðið eftir slökuninni...aarrrrhhhh...
Jæja. Var að koma úr þriðja prófinu, sálfræði. Gekk bara svona ágætlega, held þetta hafi verið léttasta prófið. Sem er gott, því erfiðasta prófið er næst. Á mánudaginn, klukkan níu um morgunin, mun reyna á getu mína í sambandi við vefja- og frumulíffræði. Verst að þetta er um helgina sem ég les fyrir prófið, því þá er Hörður Gunnar ekki á leikskólanum. En Lilla frænka ætlar að vera svo elskulega og taka hann í smá tíma bæði laugardag og sunnudag. Svo verður maður bara að læra á kvöldin eftir að hann er sofnaður. Vona bara að ég nái þessum áfanga, hræddust við hann....
Held ég verði að vaska aðeins upp, það er ÓGEÐSLEGT eldhúsið!

miðvikudagur, desember 10, 2003

Jahh! Búin með tvö próf af fimm. Tók hjúkrunarfræðiprófið í dag og það gekk bara ágætlega. Held ég sé allavega búin að ná þessum tveim prófum, spurning hvort að einkunin verði nógu há fyrir góða meðaleinkunn...en það er seinni tíma vandamálahugsun.
Í kvöld er svo bara kínarúllur og karrýsósa og svo horfa á Bráðavaktina. Síðan er barasta að byrja að lesa fyrir næsta próf sem er á föstudaginn. Það er sálfræði og mér kvíður alls ekki svo mikið fyrir það, ekki eins mikið og fyrir prófið sem er næsta mánudag....brrrr!
En taka eitt í einu! Smá slökun núna og svo lesning aftur seinna í kvöld þegar HG er sofnaður.

þriðjudagur, desember 09, 2003

Góð leið til þess að halda sér vakandi yfir próflestrinum er að drekka nógu mikið kaffi, blaðra við sjálfan sig um námsefnið og lesa upphátt eins og leikari.
Þakka annars góðan stuðning frá fjölskyldu og vinum. Það er eins gott að standa sig, síst vil ég valda öllum vonbrigðum ef ég myndi svo falla og þurfa að snúa mér að öðru í lífinu...
Enn og aftur, ég reyni að gera mitt besta, meira get ég ekki!

mánudagur, desember 08, 2003

Jæja. Þá er fyrsta prófið búið, heimspekin - siðfræðin. Ég er fegin, enda er þetta frekt fag og tók mikið af mínum próflestrarfrístíma. Það komu semsagt upp 4 ritgerðarspurningar af 15 sem við fengum í lok nóvember. Ég var búin að reyna mitt besta og átti mínar uppáhalds spurningar og vonaðist til að þær komu og aðrar alls ekki! Það kom ein spurning sem ég var pottþétt á, um staðgöngumeðgöngu og fleira. Svo komu þrjár aðrar sem ég var ekki voða viss á, en ótrúlegt en satt þá gat ég krafsað mig í gegnum þær tvær sem ég valdi líka (áttum bara að skrifa um 3 af 4 ritgerðarspurningum). Þetta var allt einhverstaðar í kollinum og spratt út í lokin. Var næstum allan próftíman, enda skrifaði ég 10 blaðsíður samtals af rökræðubulli. Er að spá í að sækja um örorkubætur fyrir skrifhendina mína....
Næst er það hjúkrunarfræðin þann 10. des. Það þýðir ekki að hangsa meir, heldur halda áfram að lesa!

laugardagur, desember 06, 2003

Útaf áhyggjum ættingja yfir því að ég væri að lesa mig í hel, þá ákvað ég að skella mér til frænku minnar með Herði Gunnari og fara í piparkökuskreytingar. Ég er enn hjá frænku minni, því hún bauð mér í hvítlauks-rósmarín-lambalæri. Ég þigg það, enda er ég með bók með mér og hef verið að glugga í hana í rólegheitum.
Ég geri mitt besta í þessu námi, ef það dugar ekki, þá á ég einfaldlega ekki heima á þessari hillu. En allavega, það er gott að eiga einn svona relaxing dag nú þegar ég var farin að gróa föst við glósurnar mínar.
Vakti alltof lengi í gær við lærdóm, enda að deyja úr þreytu núna. Búin að snúa sólarhringnum við, úpps! En það gerist eiginlega alltaf þegar maður er að lesa fyrir próf.
Verst að maður er að missa af þessu frábærlega dömustaðaballi, en það koma fleiri dömustundir og því kvíði ég ekki, heldur hlakka til næsta skiptis...

fimmtudagur, desember 04, 2003

Er að læra undir próf, með úfið hár, á túr, með ljótuna, í adidas buxum og lopapeysu, gat á sokkunum, drasl útum alla íbúð, blönk, stressuð, þreytt....
...er hægt að ímynda sér eitthvað verra?
Jah..ég gæti verið græjulaus og þá án tónlistar sem væri hræðilegt!
Gvöði sé löf fyrir græjurnar mínar, amen.

miðvikudagur, desember 03, 2003

Ég er farin að hvæsa hérna....
GARG! Loksins þegar ég náði að fatta einhvernvegin betur fjölmenningarstefnuna, þá skrifaði ég alveg heilan helling um það, en ýtti á einhvern fokkings takka þannig að það hvarf allt og ég finn það ekki aftur! Glatað! Gone! Þess vegna finnst mér alltaf best að vera vinur pennans og blaðsins, en ég var bara orðin svo handlama að ég varð að svissa yfir í tölvupikk.
Djöfs!!!
Jæja, ég held nú að þetta sé í kollinum ennþá, bara verður að hanga þar til 8. desember þegar ég fer í heimspeki prófið!
Getur einhver útskýrt fjölmenningarstefnuna betur fyrir mér!?!? Þá sérstaklega fjölmenningarstefnuna sem er byggð á eðlishyggju!
Hvernig myndu annars frjálslyndir fjölmenningarsinnar og hinsvegar fjölmenningarsinnar sem byggja á eðlishyggju reyna að svara póstmódernistum???
Er í tómu rugli hérna....
Smá strumpavísindi í lærdómshléi... Ég er kanski á rangri hillu í lífinu. Ég átti kanski alltaf að fara útí myndlistarnám? Oh well....
Nei, nei, ég er sátt við það sem ég er að gera í dag.


Find your inner Smurf!

þriðjudagur, desember 02, 2003

Nýtt útlit.... Hafið ekki áhyggjur, ég er bara að dútla mér á netinu í pásum, sem eru fáar...
Ég er þreytt. Ég nenni ekki að læra. Mig langar að skríða uppí rúm og bíða þar fram að jólum. Vildi að ég gæti klónað mig og þá gæti hinn helmingurinn minn verið í prófunum. En það er ekki hægt. Best að anda að mér fersku lofti.

mánudagur, desember 01, 2003

Jahérna. Ég drullaðist í vefja- og frumulíffræði tíma í morgun, komin með kryppu af vöðvabólgu og áhyggjum. Fyrstu tveir tímarnir voru á full speed með Sigga Bjarklind þar sem hann rumpaði af "synapse" eða taugamótakaflanum. Ég sat sveitt í þessum tíma og nagaði af mér neglurnar og reyndi að glósa eins og ég gat en missti alltaf minnið á fimm sek. fresti.
Næstu tveir tímar á eftir var hann Þórir að kenna. JEss... hann er frábær. Hann var hinsvegar að tala um DNA og allt það, erfðir og krabbameinsfrumur. Miklu meira interessant og auðveldara að hlusta á og skilja....allavega fyrir mig. Svo er hann líka svo mikill leikari að hann gerir námið svo ótrúlega skemmtilegt miðað við hvernig það lítur út í námsbókunum.
Á morgun verður aukatími í líffærafræði, sem er þá jafnframt síðasti tíminn á þessari önn. Við hjúkkunemar ætlum að mæta með bros á vör, smákökur í boxi og kaffi á brúsa. Svo verður líklegast slegið á létta strengi áður en við förum heim og setjum okkur í prófbúninginn; lopapeysu, lopasokka, teygju í hárið og snýtipappír í vasa.
Jamm...gangi mér vel segi ég bara...er aðeins búin að jafna mig eftir taugaáfallið í gær...kanski af því ég var að læra um taugaboð og streitu í síðasta VFR tímanum???

sunnudagur, nóvember 30, 2003

Jesús minn almáttugur! Ég er ekki frá því að ég hafi fengið netta hjartabilun í gærkvöldi. Ég fékk allt í einu svooo mikið kvíðakast yfir öllu! Prófin og annað vesen. Draugar fortíðar fóru meira að segja að ásækja mig og ég fann til í öllum líkamanum. Ég skreið uppí rúm, hálf flökurt og reyndi að róa mig niður. Einhver var með Mariu Carey óþarflega hátt stillt hjá sér þannig að ég náði ekki að róa mig niður. Ég fór framúr og fékk mér te og sat í sófanum og kveikti á einu kerti og setti gamla plötu á fónin með kyrjandi munkum. Eftir þessa hugleiðslu varð ég aðeins rórri og skreið aftur uppí rúm og reyndi að sofna. Það gekk erfiðlega, en ég sofnaði einhverntíman seint í nótt.
Ég hef verið með öran hjartslátt síðan ég vaknaði í morgun. Þorði fyrst ekki framúr að takast á við verkefni dagsins. Núna sit ég með sveitta lófa yfir vefja- og frumulíffræði og með símann mér við hlið, tilbúin að hringja í 112 ef ég fer að finna fyrir hjartabiluninni aftur.
Ég er ekki að djóka.
Mér líður hræðilega!!!
Best að leita sér hjálpar....

laugardagur, nóvember 29, 2003

Djöf.. er annars The Great Gig In The Sky með Pink Floyd magnað lag!
Hehe...búið að vera mjög gaman hjá mér og Herði Gunnari. Hann er búinn að borða of mikinn sykur í dag og þess vegna ákvað ég að láta hann losa sig við sykurinn á sérstakan hátt. Ég ákvað að láta hann dansa og leyfði honum að velja músík til að dansa við. Hann valdi meðal annars Roni Size & Reprazent, Depeche Mode, Foo Fighters, Anitu Lane, Radiohead, Violent Femmes, Stewie Wonder og margt fleira! Hann hlustar alltaf á smá bút og vill svo næsta lag. En hann segir þvert nei ef það kemur eitthvað lag sem honum finnst leiðinlegt. Það er gaman af því að hann kann að meta góða músík. Hann ætti að vera orðinn uppgefin eftir smá þannig að ég get komið honum í rúmið. Þá tekur við vefja-og frumulíffræðilestur hjá mér.
:(
Ég er að gera uppáhalds kjúklingaréttinn minn....mmmm....ferskt kóriander...mmmmm
Vá hvað ég svaf vel í nótt! Alveg endurnærð. Átti líka mjög rólegt og notalegt kvöld með seríur í gluggum og logandi kertaljós hér og þar. Svo horfði ég á Amistad, sem er kanski ekki beint kósý mynd, en góð mynd. Svo lagðist ég uppí rúm og lá þar heillengi bara að hlusta á músík og pæla í hinu og þessu. Sms-aðist pínu og sofnaði svo með bros á vör.....
Núna er snjórin að falla hérna fyrir utan, enda ástæða til, það á að kveikja á jólatréinu niðri í bæ í dag. Maður verður náttla að setja sig í móðurstellingar og fara með pjakkinn og kíkja á liðið og jólasveinana og allt það. Kanski sníkja nokkur epli á heimilið.

föstudagur, nóvember 28, 2003

Nú er ég búin að setja upp tvær "fleygjur". Eina í stóra stofugluggan, bara ljósa og svo aðra í svefnherbergið sem er blá. Nú er voða kósý stemming...vantar bara einn :)
Langar að benda ykkur á....

Helgartilboð 27. - 30. nóvember 2003

Helgartilboð til ..........

Akureyrar ..............
NY 112 til Akureyrar kl. 07:45 fim
NY 122 til Akureyrar kl. 11:00 sun
NY 132 til Akureyrar kl. 14:00 lua
NY 143 frá Akureyri kl. 17:10 fös
NY 163 frá Akureyri kl. 20:10 sun
Heildarverð m. sköttum og tryggingargj. kr. 5,200

svo er alltaf hægt að hoppa ódýrt eða eitthvað...

www.flugfelag.is
Ég var að redda Jóhanni áðan. Hann er að fara á árshátíð MA í kvöld og vantaði að láta pressa buxurnar sínar. Mamma ekki nálægt, þannig að auðvitað er þá bara mamma 2 notuð. Hvað gerir maður ekki fyrir hann Jóhann bróðir?!
Ég hinsvegar, á eftir að sitja ein og bora í nefið í kvöld :(
Skóli á morgun, föstudegi! Hvað á það að þýða? Jæja, en þetta verður þá næst síðasti kennsludagur. Á mánudaginn mætum við svo allar með eitthvað gotterí svona síðasta kennsludaginn fyrir próflestrarfrí. Júbbiddíjú!!!

fimmtudagur, nóvember 27, 2003

Íbúðin mín lítur út eins og Ajax auglýsing! Ég tók bara svona jólahreingerningu í dag og það er allt sjæní og ilmandi hjá mér núna. Einnig breytti ég pínulítið til, en það er reyndar ekki mikið hægt að breyta til hérna þar sem íbúðin er frekar lítil og lítið um breytingarmöguleika. En núna þarf ég ekki að þrífa big time fyrr en eftir prófin..held ég.
Svo fórum við Hörður Gunnar niðrá Glerártorg og keyptum tvær ódýrar jólaseríur, pizzu og jólakókómjólk. Ótrúlegt en satt, þá fann ég nýjasta Undirtónablaðið þar! En í því blaði er fjallað um Iceland Airwaves og þar stendur meðal annars:
"Það var mikið að gerast á Nasa um kvöldið. Gekk inn í þægilega stemmingu Worm Is Green og virtust áhorfendur vera vel með á nótunum. Yndisleg ró var yfir hljómsveitinni, Guðríður söng af miklu öryggi og lét ekki slá sig út af laginu þrátt fyrir andartaksandlát tölvuheilans í "Love Will Tear Us Apart", gamla Joy Division smellinum. Þegar hann lifnaði við aftur ætlaði allt um koll að keyra. Ótrúlega flott hjá þeim Akurnesingum."
Skemmtilegt þetta....
...og alltaf jafn fyndið hvað við erum stimplaðir Akurnesingar!
:o)
Ég var að tala við hana Sisse áðan. Sisse er dönsk stelpa sem ég hitti á hróarskeldu 2001. Við vorum nágrannar á tjaldstæðinu og blöðruðum heilmikið saman þar sem ég fæ málæði ef ég fæ að tala dönsku. Síðan hittumst við aftur á hróarskeldur árið eftir 2002. Alltaf jafn hressar og skemmtilegar. Við höfum verið í svona smá sambandi eins og góðar pennavinkonur síðan við hittumst fyrst. Svo hittumst við einstaka sinnum á msn-inu.
Hún var einmitt að spyrja mig útí hljómsveitina okkar, hvort við værum ekki að fara að spila á hróarskeldu. Jafnvel, jafnvel, aldrei að vita.... En ég lofaði henni því að hún myndi fá að koma backstage með mér ef ég myndi einhverntíman spila í Danmörku. Hún var hæstánægð með það auðvitað. Gaman að láta sig dreyma um frægð og frama...
Annars, þá er ég að spá í að setja mig í húsmæðrastellingar í dag. Ég ætlað að þrífa þessa stíu hérna. Það eru komin mount-ló bak við hurðir og gamalt brauð skríður á bak við ísskápinn. Kanski ekki alveg, soldið ýkt.. en ég ætla að gera hreint og fínt hjá mér í dag.
Þá er bara að velja sér einhverja góða taka-til-tónlist (ttt) og setja sig í fyrsta gír. Khaled er alltaf góður þegar maður er að skúra. Svo er líka skemmtilegt að hlusta á gott d&b þegar maður er að skrúbba eða þurrka af...margvísleg músík kemur til greina!

miðvikudagur, nóvember 26, 2003

The Nearness Of You

Its not the pale moon that excites me
That thrills and delights me, oh no
Its just the nearness of you

It isnt your sweet conversation
That brings this sensation, oh no
Its just the nearness of you

When
youre in my arms and I feel you so close to me
All my wildest dreams come true

I need no soft lights
to enchant me
If youll only grant me the right
To hold you ever so tight
And to feel in the night the nearness of you


...ég held ég verði að opna rauðvínsflöskuna sem bíður uppí hillu.
Ef það er einhver diskur sem ég held mikið uppá (held reyndar mikið uppá flest alla diskana mína) en þá er það diskurinn "Ella & Louis". Fann hann einhverntíman á einhverjum ódýrum geisladiskamarkaði í kaupfélaginu í Borgarnesi. Ég elska KB!
mmm..það er gott að fá sér te og tekex...eins og amma...

Annars, þá dreymdi mig að ég væri í fjallagarði eins og ölpunum með Sonju frænku. Við vorum að skoða litla kofa sem voru útum allt í fjallinu, inni í fjallinu. Það var smá snjór í fjallinu og fullt af stóru greni út um allt. Rosalega fallegt. Þarna vorum við í einhverjum ævintýraheimi að klífa fjöllin.
Ég las svo einhversstaðar að það að ferðast yfir fjöll og hæðir sé merki um stöðuhækkun eftir mikla fyrirhöfn. Sé maður að vísa einhverjum veginn í fjöllum, þá á maður eftir að vísa vinum sínum veginn í vöku...og ég var að sýna Sonju allt þarna í draumnum. Þannig að, Sonja, leitaðu til mín ef þér vantar leiðarvísir í lífinu.
Dreymi menn fjallakofa munu þeir finna hamingjuna með því móti að gera aðra hamingjusama.
Interesting...
Var að koma úr síðasta sálfræðitímanum á þessari önn! Við erum mikið búin að ræða um stress og aftur stress síðustu tímana. Við vorum einmitt að ræða ýmsa sjúkdóma núna eins og krabbamein, sykursýki, eyðni, hár blóðþrýstingur og margt fleira og STRESS er stór partur af sjúkdómsferli. Það að vera stressaður er vont. Það brýtur niður ónæmiskerfið, og þegar maður er lasinn, þá þarf maður á góðu ónæmiskerfi að halda.
Held hún sé bara að tala svona mikið um stress af því að við erum allar að hyperstressast útaf prófunum og þá sérstaklega útaf þessum fáránlega klásus...en ég er yfirveguð...magnaður fjandi!
Hún fór svo eitthvað að tala um að baka 15 sortir fyrir jólin, náði þessu ekki alveg. Ég sem hélt að 10 sortir væru nóg. Við Sonja erum greinilega ekki að standa okkur í húsmæðrastykkinu!
Hey...annars er skemmtileg grein um hann Villa "cut" og bassadude á slátrinu.

þriðjudagur, nóvember 25, 2003

Ég hef eignast vin. Lítinn vin. Það er lítil húsfluga hérna sem sveimar í kringum mig. Hún situr hjá mér þegar ég er að læra, þegar ég er að borða, var hjá mér áðan þegar ég vaskaði upp og fékk sér vatnssopa af dropunum sem lágu á borðinu. Hún er ekkert að áreita mig, fljúga í andlitið eða suða í eyrað á mér. Hún er bara þarna, hljóðlát og sest einstaka sinnum á hendina mína og situr þar þá oft lengi, lengi. Ég á bara eftir að skíra fluguna. Einhverjar uppástungur?
Maður hefur líka oft heyrt það að svona fluga sem sveimar í kringum mann sé fyrirboði gestagangs....en það er nú barasta hið besta mál ef svo er!
Ég sat í rólegheitum og var að spjalla við ljósmyndirnar á veggnum í einmannaleik mínum þegar allt í einu dyrasíminn hringdi. "Ha, er einhver að heimsækja mig!?"
Ég stökk á fætur og ansa, þá er það hún Ragnheiður vinkona þarna niðri og spyr hvort hún megi koma upp. Ég hleypi henni inn og bíð spennt eftir vinkonu minni. Hún kemur rjúkandi inn með myndavél í hendinni og segist bara ætla að stoppa stutt. Ég fer í pínu fýlu, en hún er komin og best að gera gott úr því. Síðan spyr hún hvort hún megi taka myndir af fótunum mínum. Ég?? Ehh..jájá. Svo skipar hún mér að fara úr sokkunum og hún myndar mig villt og galið þarna niðri í gólfinu. Síðan tekur hún saman og segist vera gera eitthvað skólaverkefni og bla bla bla... Svo bara bless og hún er farin! Eftir stend ég á berum fótum og er eitt spurningarmerki í framan. (?)
Ég er viss um að hún sé að gera það sama og ég. Taka myndir af vinum sínum og hengja upp á vegg hjá sér svo hún geti talað við þegar henni leiðist...nema hvað...hún er með fótafetish.

mánudagur, nóvember 24, 2003

Ég er búin að vera svo foxy í dag. Kanski af því að ég var með ljótuna alla helgina útaf verkefnavinnu. Svo blés ég á mér hárið í gær og setti brúnkukrem á andlitið. Ég var eins og draugur í framan...ég er kanski ekkert svo foxy. Bara venjuleg, en var bara svo horrible um helgina!
Ekkert eins gaman og taka smá Ellu Fitzgerald swing til að hressa uppá skapið. Laaang skemmtilegast að syngja Ellu-lög.
Ég er búin að vera hálfgert letidýr í dag, en það er allt í lagi, má það, fæ ekkert samviskubit.
Ég er búin að hengja upp nokkrar ljósmyndir af hinum og þessum vinum mínum. Það kemur enginn í heimsókn þannig að maður reddar sér bara. Svo stend ég og spjalla við vegginn með myndunum á og hlæ og spekúlera. Held ég sé að missa vitið hérna uppí fjöllum....
Yesss, hress og ekkert stress!
Var að ljúka við sálfræðiverkefnið og á bara eftir að láta það í hólfið hjá kennaranum og síðasti skiladagur er meira að segja á morgun!!! Snemma í því, enda búin að læra eins og mófó alla helgina. Fengum frí í tveim síðustu tímunum í vefja-og frumulíffræði áðan, áttum að vera í fjórum, en Siggi Bjarklind rak okkur heim því hann sagði að við myndum bara missa vitið á að vera í fjórum svona tímum straight... sem er alveg satt hjá honum. Þannig að, núna er ég barasta á leiðinni heim og ætli ég fái mér ekki bara eitthvað gott að borða og svo bara legg ég mig í smá stund. Mér veitir ekki af, enda komin með bauga undir augun...
Újé..allt að gerast, stutt í prófin og ég er bara hress, svei mér þá!!!

sunnudagur, nóvember 23, 2003

Þoli ekki þegar maður glatar textanum sem maður var nýbúinn að skrifa! Reynað skrifa eitthvað smá aftur...
Var að tala um það hvað ég væri orðin mikill innipúki. Flestir eiga sér nú helgi en ég er farin að líta á alla daga vikunnar sem sama daginn. Ég sit og er að læra á föstudags og laugardagskvöldum. Fer jafnvel snemma að sofa. Viss sparnaður í því... drekk bara te í staðin fyrir að þamba endalausa kokteila fyrir þúsundir á barnum! Svo er líka gott að skella sér í heita sturtu og dekra við sig og sofna sátt í staðin fyrir að sofna full, vakna þunn og ógeðsleg með maskara niður á kinn og angandi af sígarettureyk.
Var einmitt að fá smá gjöf frá mömmu minni. Hún sendi mér litla bláa sæta öskju með litlu glasi af Angel ilmvatninu, lítillri dollu af Angel body lotioni og lítið spray með Angel hair mist...
Vá hvað ég á eftir að ilma vel...bara flýg til himna!

laugardagur, nóvember 22, 2003

Yess..búin með tvo hluta af þrem í þessu blessaða sálfræði verkefni. Þetta er samt alls ekki leiðinlegt verkefni. Ég er í fyrsta lagi að skrifa um lífeðlislega, sálfræðilega og félagslega þætti sem eru taldir áhrifavaldar í reykingum hjá unglingum/fullorðnum. Í öðru lagi er ég að skrifa um félagslegan stuðning og skilgreina og bera saman á gagnrýninn hátt mismunandi tegundir hans. Í þriðja og síðasta lagi þarf ég að bera saman á gagrnýnan hátt fyrsta- og annarsstigs mat og þátt þeirra í að upplifun streitu. Skemmtilegt efni...
En ég þarf á pásum að halda eins og allar eðlilegar manneskjur og í þessum pásum hlusta ég á góða músík. Ég fæ orku af músík. Sit og hlusta og horfi út í loftið.
Góður texti hérna í einu rosa góðu lagi hjá Annie Lennox (ég hlusta samt á margt annað líka, er bara á einhverju Annie Lennox tímabili núna). Þetta er lag sem heitir Stay By Me og er af disknum Diva...

Stay by me
And make the moment last
Please take these lips
Even if I have been kissed
A million times

And I don't care if there is no tomorrow
When I could die here in your arms
Even if the stars have made us blind
We're blind we're blind
So blind in love

Sweet darling
Don't you know that we're no different to anyone
We stumble
We falter
But we're no different that anyone

And all the winter snow has melted down
Into a pool of silver water
And we're standing in a thunder cloud
Dark as your hair
Dark as your hair


...falleg melodía.
Hehehe.. Hörður Gunnar kallaði á mig áðan og sagðist vera komin með skegg. Ég sagði bara já já. og hélt áfram að lesa... Svo kom hann hlaupandi skellihlæjandi og búin að krota með svörtum tússi alveg þvílíkt skegg á allt andlitið! Get ekki annað en hlegið að þessu...
Það er ekkert eins gott og að taka jóga sólarhyllingu snemma morguns til að starta manni :)
Mér líður vel þessa daga þó ég sé að gera sálfræðiverkefni sem er næstum komið á deadline.

föstudagur, nóvember 21, 2003

Það væri örugglega mjög fyndið að geta verið með kameru eða kíkir og fylgjast með mér núna. Ég sagði fyrr að mér finnst svo erfitt að ná einbeitingu þegar ég er að byrja á verkefnum. Þannig að... ég bara rúttaði til og frá skrifborðum og lömpum og dóti og er núna búin að búa til fullkomið skrifstofuhorn þar sem að allt sem mér vantar er aðgengilegt. En það er eflaust mjög skrítið að sjá þetta þar sem íbúðin er í tómu tjóni uppröðunarlega-á-húsgögnum séð. En maður verður víst að fórna fyrir náminu. Aðalmálið er að mér líði vel og geti plummað mig áfram í námsefninu. Það besta er að ég er byrjuð...er bara að hita mér kaffi..þessvegna er ég að blogga :p

fimmtudagur, nóvember 20, 2003

Ég er búin að vera svo dugleg að hreyfa mig undanfarna daga að ég er með strengi dauðans í rassi, lærum, kálfum og svo framvegis... En það er bara gott mál :o)
En vó hvað Sex In the... var fyndinn í kvöld. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar hún fór að lita á sér píkuhárin! Ég er ennþá að fá hláturskrampa..ahh...skemmtilegir þættir...
Talandi um lélega einangrun í húsinu hérna fyrr, þá er annað sem fer í mínar fínustu taugar! Það er einhver sem reykir inni hjá sér og ég finn megna reykingastybbu hérna inni af og til. Sem betur fer mjög sjaldan, því allir sem ég veit að reykja hérna fara alltaf út og reykja við stubbahúsið, fínt skjól þar og ekkert mál. En einstaka sinnum er einhver að laumast til að reykja inni hjá sér og þá finn ég stybbuna læðast inní íbúðina mína....ojj!
Annars var ég aðeins að öppdeita myndasprellið af gömlum djamm myndum frá airwaves...
Mig langar að læra ítölsku! Kann einhver ítölsku? Fann þetta, sýnist þetta allavega vera góður dómur (4 af 5)... eins er hægt að skrapa sig í gegnum þetta með smá kunnáttu í frönsku, þýsku, spænsku og ensku...

Fann líka þetta....
Eins og ég sagði fyrr, þá var ég mjög svekkt að komast ekki á Todmobile - Sinfoníu tónleikana um síðustu helgi. En undanfarna daga hef ég verið að hlusta mikið á Todmobile til að drekkja sorgum mínum í músík þeirra... Ég elska Todmobile. Hefur lengi verið uppáhald hjá mér. Andrea Gylfa hefur alltaf verið uppáhalds íslenska söngkonan mín. Enda stendur hún sig líka vel þegar hún tekur nokkra blúsara með Blúsbandinu sínu. Það var ekki af ástæðulausu sem ég valdi að syngja brúðkaupslagið þarna í Frostrokk kepnninni... eitt af uppáhaldslögunum mínum með Todmobile + það var kallarödd fyrir Óla Atla. En ég á erfitt með að velja besta lagið... Mér finnst erfitt líka að velja bestu plötuna... Betra en nokkuð annað er náttla sjúkt lag! En þau eru svooo mörg góð!
Mér finnst bara rosalega gaman að setja Todmobile-Best diskinn í botn núna og syngja í sleif á meðan ég elda hádegismatinn minn...vúúúúhúúúú...

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Bibbi...

Það er gott að borga lága húsaleigu. En það er ekki gott að verað drepast úr kulda! Þessi stúdentagarður, nánar tiltekið Útsteinn, hérna á Akureyri, var byggður á notime! Þess vegna lítur þessi íbúð svona lala út ... ekkert spes og einangrun er ekki mikil... sem er hræðilegt! Eins og það er fokkings kalt hérna á Akureyri, þá bý ég í endaíbúð, þar sem mikið er um útveggi. Ég sit tildæmis núna við endaútvegginn og er að frjósa á puttunum, þó að allir gluggar séu lokaðir, kveikt á kertum og ofninn í botni.
Ekki skrítið að ég sé alltaf með einhvern kvef-skít í hálsinum. Ég er ekki frá því að ég sé farin að anda svona kulda-gufu! Eins gott að hér eru núna til tvær gestasængur þannig að ég get pakkað mér vel inn. Nú svo er ég næstum alltaf í lopapeysunni minni og með heitt te/kaffi í bolla. Annars...þá krókna ég hérna.
Væri gaman að hafa einhvern til að hita upp rúmið með sér :o) habba habba!
Það er ekkert eins vont og að gleyma kaffinu sínu og taka svo stóran sopa af ísköldu kaffii... hhhhhhhrollur!
Ég var að lesa merkilegan bút um stress í sálfræðibókinni minni sem á bara vel við mig...
"...Consequently, you may give up trying in the expectation that future realtionships will be as dissapointing as those in the past. Jaded lovers who flee from all but the most casual romantic encounter fit this pattern well.
Or, consider trying to do well in a new course area (such as chemistry), where a good grade is continually elusive. After a few efforts to write different kinds of papers or study the material in a different way, you may decide to write the course off altogether. You may study little for the final and swear off chemistry courses for the future in the belief that your talents clearly lie elsewhere."

En ég veit að maður getur hrist svona hugsunum burt. Alveg eins og raunveruleika-kvíða-kastið sem ég fékk. Það er eðlilegt að maður hugsar svona, en maður verður að hrista þessari hugsun af sér. Sérstaklega þegar maður fær svona gott feed-back frá kunningjum, vinum og fjölskyldu! :o)
Tónleikar með Páli Óskari og Monicu í kvöld...kemst ekki.
Jazz-tónleikar í Deiglunni annaðkvöld...kemst ekki.
Ég verð líka að vera heima og læra. Bööööö...
Er soldið fúl því ég svaf yfir mig í morgun. Ég svaf svo rosalega vel nótt, enda líkaminn svo dúnmjúkur eftir johnsons baby olíuna, ég svaf á skýji...
Svo varð ég soldið ánægð þegar ég opnaði póstinn í dag. Ég var búin að steingleyma því að við myndum fá borgað fyrir að koma fram í At. Semsagt, fékk feita innborgun í dag frá RÚV. Kemur sér vel fyrir fátæka-námsmanns-syndromið.

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

Ég hlusta á Annie Lennox með smá snökti... Annie Lennox er best!
soft as cotton.

Ég er svoleiðis búin að dekra við mig síðan í gær af því að ég fékk nett raunveruleika-kvíða-kast og nagaði af mér allar fingurneglurnar.
Ég var að koma úr sturtu núna og er svo mjúk að ég sekk inn í sjálfa mig. Ég bar á mig Johnsons baby olíu eftir sturtuna því að ég er búin að þorna hrikalega í þessu frosti og hef horft á húðina mína verða líkari og líkari harðfiski. Síðan var ég náttla að glápa á hommana fimm á skjá einum með öðru auganu þegar ég fékk mér að borða í kvöld, þannig að ég ákvað að setja á mig andlitsmaska til að hreinsa burt frostþornaða útpústskítinnafbílum úr andlitinu á mér. Ég segi það enn og aftur, ég er að sökkva inní sjálfa mig því ég er svo mjúk!
Með te í bolla og sálfræðibókina við hendina, reyni ég að slaka á og hugsa bjartsýnt frammávið.

Þetta raunveruleika-kvíða-kast í gærkvöldi var hrikalegt! Ég sá allt í einu fyrir mér síðasta vetur. Þar var ég í þessum fáranlega clausus í hjúkruninni í fyrsta sinn og man hvernig mér leið eftir prófin...hræðilega! Ég átti ekki gott jólafrí í þokkabót þar sem ég fór að asnast til útlanda í ferð sem mig langar helst að gleyma. Ég var allt jólafríið mitt að velta því fyrir mér hvort ég hefði náð prófunum og hvort að ég hefði komist áfram í claususnum. Sífelldar vangaveltur og ég fékk ekki að vita neitt um neitt fyrr en um kringum 6 janúar, rétt áður en vorönnin í skólanum hófst! Það er ekki skrítið að þeir sem ganga í gengum svona eru bara í óvissu lofti og vita ekkert hvernig þeir eiga að hegða sér.
Ég gat ekki beint sótt um vinnu, nema hálfvegis, þar sem ég myndi kanski mæti í vinnuna eða þá fara í skólan næstu önn... Gaman að sækja um vinnu svoleiðis...not!
Ef ég kemst ekki áfram hérna....þá...verð ég að hugsa útí eitthvað og ég veit ekki hvað!!!
Ég legg ekki í heilbrigðisgeiran aftur! Veit það samt ekki. Ég veit ekki hvað ég myndi gera!!!
Ég vil ekki hugsa útí þetta en get ekki annað. Það er nú frekar súrt að vera ekki með neitt plan (back-up plan). Standa bara einsog ílla gerður hlutur og bíta í það súra epli að ég komst ekki áfram... í annað sinn!!! Ég vil ekki hugsa út í þetta...
...en kemst ekki hjá því.
ó guð hjálp!

mánudagur, nóvember 17, 2003

Hver ætlar annars að koma og heimsækja mig síðustu helgina fyrir próf?

Ohh...ég get ekki einbeitt mér að neinum lærdómi núna. Mér finnst ég vera sljó og ekki geta haldið augunum opnum. Þess vegna ætla ég að elda mér góðan mat í kvöld, ef ég hef orku í það... mmm, kjúkling í hoi-sin sósu perhaps? Svo ætla ég að hressa uppá mig með því að njóta þess að horfa á Scrubs í sjónvarpinu í kvöld. Jafnvel að maður búi til góðan eftirrétt...æj ég var búin að gleyma! Ég á ís inni í frysti, þá er því reddað. Kanski ég seti upp jólaseríu til að lýsa upp skammdegið, á tvær jólaseríur hérna einhversstaðar. Og taka svo kanski nettar jógaæfingar seint í kvöld og svo heita góða dekursturtu á eftir. Þá ætti ég nú að vera aldeilis endurnærð og tilbúin til þess að takast á við langan skóladag á morgun. Og kanski líka reyna að byrja á þessu sálfræðiverkefni! Ég stirðna öll upp þegar ég fer að hugsa út í það. Ekki það að það sé leiðinlegt, þvert á móti, sálfræðin er mjög skemtileg. Ég á bara alltaf svo hriiiiikalega erfitt með að byrja á verkefnum. Reyndar get ég glatt mig á því að ég fékk átta í einkunn fyrir síðasta sálfræðiverkefni sem ég gerði á no-time á síðustu stundu. Og það gildir 10%! En þetta sem ég þarf að gera núna er aðeins erfiðara og stærra og gildir líka meira....ohh...verð að byrja á því á morgun ef ég ætla að leyfa mér að vera loose í kvöld!
Hey! Svo er einhver mynd um reykingar á eftir Scrubs í kvöld. Það er nú viss lærdómur þar sem ég er að lesa mikið um reykingar og afleiðingar þess í sálfræði, þannig að þetta verður bæði skemmtun og lærdómur. Gott mál.
Talandi um hljómsveitina Lamb þarna um daginn... Hvað haldiði nú að það myndu margir mæta ef þau myndu koma til Íslands og spila?

sunnudagur, nóvember 16, 2003

Skemmtileg tilviljun... Ég ætlaði að farað horfa á video áðan útaf leiðindunum mínum og var að reyna að velja mynd. Síðan ákvað ég að velja 101 Reykjavík, en þá var verið að sýna hana í sjónvarpinu! Þannig að ég er aðeins hressari núna. Hlakkar til að komast í skólan á morgun. Glíma við efnafræði líkamans og byggingu hans. Ég ætla að fara uppí rúm fljótlega og lesa einhverja góða bók.
Bless í bili!
Mér leiðist núna...

laugardagur, nóvember 15, 2003

Ég var að horfa á Laugardagskvöld með Gísla Marteini þar sem hann var að ræða við Birgittu Haukdal. Ég er orðlaus... þá meina ég helst yfir Gísla Marteini.
Kusse kom í heimsókn norður í dag, sá fyrsti af öllum mínum vinum þannig að hann fær verðlaun...hver sem þau nú verða.
En hann var maður með mönnum og tók mynd af mér og Herði Gunnari í okkar skemmtilegu Glerártorgs-ferð.
Mamma var að spyrja mig rétt áðan hvort ég hafi ekki hitt neina sæta stráka hérna... Ég brosti bara til hennar og sagði NEI... þá sagðist hún ekkert vera svo hissa, eftir að hafa farið niður á Glerártorg í dag og svo hlógum við eins og vitleysingar!
Mamma kom líka í heimsókn til mín í dag. Við gerðum okkur miðbæjarferð og fórum niður á Glerártorg. Á leiðinni vorum við að spjalla heilmikið um mig og hvernig mér liði á Akureyri og svoleiðis. Þá sagði ég henni frá kenningunni um Akureyringa, að þeir væru skrítnir, lokaðir og bara ekki eins og sunnlendingar. Þessa kenningu fékk ég oft að heyra áður en ég flutti norður og fólk undraðist á mér að mér langaði að flytja norður. Ég sló alltaf hendinni á móti þessari kenningu því ég þekki marga Akureyringa og sjálf er ég hálfur Akureyringur þar sem pabbi er uppalinn hér. En eftir að hafa verið hér síðan í byrjun september...fer ég að hallast meir og meir að þessari kenningu. Akureyringar ERU skrýtnir. Ekki in a bad way, heldur eru þeir bara allt, allt öðruvísi en sunnlendingar. Menningin og bara hegðun er allt öðruvísi og niðurstaða mín er sú, að ég kann betur við suðurlandið og menningu þess, þ.e.a.s. Reykjavík og nágrenni.
Mamma bara fussaði þegar ég sagði henni þessa sögu mína, EN, þegar við fórum niðrá Glerártorg, gapti hún og hló á milli, því aldrei á ævinni hafði hún séð eins mikið samansafn af furðulegu fólki! Reyndar, á laugardögum er eins og allir sveitungar norðurlands safnist saman á Glerártorgi og versli í bóndabæinn. Þannig það var kanski soldið mikið af skrýtnu fólki þarna í dag....
Ég endurtek að ég sé ekki Akureyringa sem bad-people, heldur á allt öðru leveli en ég. Ég er samt farin að kunna á þetta, hvernig ég á að hegða mér í búðinni og skólanum og svona... En ég myndi velja Reykjavík frekar en Akureyri sem stað til að búa á til frambúðar.

föstudagur, nóvember 14, 2003

Ég er svekkt yfir að hafa ekki komist suður um helgina, sérstaklega útaf Todmobile-sinfoníu tónleikunum. Mig langaði líka að hitta suma... En ég reyni að horfa á jákvæðu hliðarnar. Tónleikarnir eru í beinni á rás 2. Ég set græjurnar í botn, sit í sófanum með mjúkt teppi, nammi og gos og get sungið hástöfum með...
Pabbi minn var að koma í heimsókn. Hann kom með svefnpokann minn og gestasæng sem hann ætlar að skilja eftir. Svo á ég fullt af sængurverum og lökum, þannig að nú getur gestagangurinn til mín aldeilis hafist! Drífa sig svo norður í heimsókn fyrir prófin!
Staðreyndir skólalífs míns:
Ég á níu kennsludaga eftir!
Ég á eftir að skila sálfræði verkefni fyrir 25. nóv. sem gildir 15%.
Fyrsta prófið er 8. des.
Síðasta prófið er 18. des.
Ég fer í fimm próf.
Og það undarlegasta er... að ég er svooo yfirveguð og róleg og bjartsýn á þetta :o)
Mér finnst alveg óhugnalega gaman að tala við sjálfa mig!?! Ég er stundum í hörku samræðum við sjálfa mig. Kanski ég sé of mikið ein...
Ég var stoppuð af löggunni áðan!
Málið er að ég var með þokuljósin að framan logandi. Maður má víst ekki vera með þessi neðri, töffara ljós, nema í hrikalegri veðráttu. Ég spurði nú lögreglukonuna afhverju stæði þá á því að annarhver rúntari hérna á Akureyri væri með þessi ljós logandi? Hún sagði bara að þetta væri bara stranglega bannað! Ég ætlaði að spyrja hana afhverju, hver sé ástæðan, því að ljósin eru ekki það blindandi eða hvað? Hún vildi eiginlega ekki gefa mér neina útskýringu á neinu, heldur rak hún mig heim eins og óþekkan ungling og sagði mér að slökkva á þessum ljósum hið fyrsta. Og by the way, hún greip mig fyrir utan leikskólann.
Skrýtnar þessar löggur stundum. Ef maður ætlar að reynað ræða eitthvað við þær þá er einsog maður sé að tala við grýlukerti. Ætli hjarta og hugur séu slitin úr þeim þegar þau fara í lögguskólann? Lögguskólinn hérna á Íslandi er greinilega ekki svona eins og "Police Academy" myndirnar, eintómt stuð!

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Mikið rosalega er gott að hlusta á Björk, Vespertine. "Hidden place", "Pagan poetry", "Aurora" og "Unison" standa uppúr.... sweet

Ég er á rósrauðu skýi :o)
Mig dreymdi draum í nótt, sem er nú ekki frágsögu færandi, nema ég var mjög hissa að mér skyldi hafa dreymt þetta. Þetta er örugglega ekkert skemmtilegt að lesa þar sem þetta er eins og að hugsa upphátt drauminn aftur fyrir sjálfa mig..æj.. verð að skrifa þetta niður eins og margir gera; skrifa niður drauma sína. Mér dreymir stundum svo roooosalega mikið að mér finnst eins og hausinn sé að springa! Svo vakna ég alltof seint í skólann og stundum held ég að ég sé berdreymin. Þeir sem að pæla mikið í draumum mega alveg reynað ráða úr þessu, það er bara gaman...

Ég var í matarboði hjá A og B, með C. Það var voða gaman og mikið hlegið og mikið rætt um barneignir þar sem B átti von á sér. Allt í einu í miðju matarboðinu hrekkur B við og missir vatnið. Við förum öll uppá spítala og svo allt í einu er ég komin heim til C. Ég ligg uppí rúmi C og er með fullt af taubleijum í kringum mig. Ég er mjög þreytt og svo kemur C inn til mín, með nýfætt barn í fanginu og segist vera búin að þvo barninu. Síðan leggst C við hliðin á mér og barnið liggur á milli okkar. Svo segi ég..."Hvað var pabbi þinn að gera?" (með svona gigglí-tala-við-barn-tónn)...
Síðan er ég allt í einu að horfa á sjónvarpið og sé að allt er í kaos á Íslandi samkvæmt fréttunum. Halldór Ásgrímsson var myrtur! Hann var stunginn með hníf í brjóstkassan þegar hann var að ganga út úr Alþingi. Allir landsmenn voru í tárum og skelkaðir. Ég hringdi í mömmu (framsóknarkonuna) og hún hágrét í símann og sagðist ekki skilja svona lagað!


Svo vaknaði ég... Skilur einhver eitthvað í þessu?
Ég ákvað að bæta við hugvekjum Sigurðar inn á link-listann minn, þar sem að hann er bloggari líka, sem ég var búin að gleyma... Þeir eru sko ekki leiðinlegir pistlarnir hans, o nei....
Fylgist með spennandi sögum frá Barþelona!
Mig langar í nýjasta Lamb diskinn. Ég þoli ekki hvað geisladiskar eru dýrir hérna á Íslandi!

Annars er búin að vera rífandi heilsustemming hérna. Ég fór í jóga-tíma og slökun. Bara búin að drekka heilsute og japla á gulrótum. Anda að mér fersku lofti sem kemur inn um galopna gluggana. En svo varð ég að fá mér sago-grjónagraut í hádeginu með fullt af kanelsykri...mmmm...bara gott!

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Mjaaáá... Mig langar soldið mikið suður um helgina. Það er búið að bjóða mér í fönký afmæli og svo langar mig að sjá Todmobile og Sinfoníuna á tónleikum. Mér langar líka að taka létt sprell áður en alvara prófanna tekur við. Þessi næsta helgi verður líklegast eina helgin sem ég mun geta sprellað eitthvað fyrir próf. Næstu dagar verða svo bara lestrardagar. En það kostar og kostar að fara suður...
Jesss! Var að koma úr sjóðandi heitum heimspeki/siðfræði tíma þar sem að var rifist og rökrætt í þrjá tíma. Rosalega hressandi og skemmtilegt. Mér hefur alltaf lúmskt langað til að fara í heimspeki í HÍ... Kanksi það verði bara svo EF ég kemst ekki áfram í hjúkkunni, EN ég ætla að komast áfram í hjúkkunni!!!

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Í lok dagsins, eftir mikinn heimspeki og siðfræði lestur fyrir morguntímann, þá vil ég óska pabba mínum, Gunnari Ringsted, til hamingju með afmælið í dag! Á vel við þar sem pabbi minn er mikill spekúlant og hefur lesið margar jóga heimspeki bækur og Gunnar Dal. Hann er 51 árs kallinn og er alltaf hress, enda á leiðinni norður nú næstu helgi til að spila með eilífðar-unglinga-vinum sínum í bítla-hljómsveitinni Ljósbrá, á Græna Hattinum. Vantar reyndar einn meðliminn, Billa töffara, en hann er upptekin um helgina... En ef ég þekki pabba rétt, þá spjara þeir sig alveg þrír, eins og fjórir... Stuð!
Úff! Ég eldaði 4 kínarúllur, fullt af hrísgrjónum og karrýsósu og át það allt alein! Hörður Gunnar át bara skyr þannig að ég torgaði þetta alein... enda lít ég út eins og soðin svínahnakki í framan og eins og ég sé komin 5-6 mánuði á leið!
Ég ætla að fara og ýkja útlitið á mér soldið með því að lita á mér augnbrúnirnar.... eða eins og við Sonja köllum það, fara í Sollu leik eða heita Olga í 10 mínutur.
Ohh... sá eitt enn svona prófið, hjá Heiðu núna og varð að prófa...

Jane Austen
Jane Austen wrote you. You are extremely aware of
the power of a single word.


Which Author's Fiction are You?
brought to you by Quizilla
Ég kom, sá og sigraði í dag!
Ég mætti saklaus og hress í skólann í morgun þar sem ég var að fara í 3 sálfræðitíma og 3 hjúkrunarfræðitíma. Þegar leið á tímana, fattaði ég að það var umræðutími í hjúkrun og maður átti að vera tilbúinn með ca. fimm mínutna fyrirlestur. Fimm mínutur eru nú ekki mikið, en ég var gjörsamlega búin að gleyma þessu og var því ekki með neitt í höndunum og engan vegin undirbúin! Sem betur fer er ég ekki það framarlega í stafrófinu þannig minn fyrirlestur var ekki fyrr en í þriðja og síðasta tímanum. Ég fór því í mínu litla hádegishléi og rissaði upp þennan fína fyrirlestur. Ég las og sagði bara frá reynslusögu úr minni umönnunarvinnu og allskonar pælingum sem hafa brotist um í hausnum í sambandi við starfið. Viti menn, hún Elísabet kennari var svoooo ánægð og allir bara vá!
Yesss! Núna sit ég ánægð fyrir framan tölvuna og ætlað farað lesa blogg og auðvitað hita mér gott kaffi í tilefni dagsins :o)

mánudagur, nóvember 10, 2003

Vó! Geðveikar særingar á Stöð 2!
Rafmagnið fór af hér á Akureyri þarna um miðjan Sunnudaginn, sem gerði það að verkum að internet-tengingin hérna lamaðist eitthvað, en nú er hún loksins komin í lag á þessum góða degi. Veit ekki afhverju ég er í svona góðu skapi núna. Kanski það sé af því að það hringdi ákveðin manneskja í mig seinni part sunnudags :o) hver veit. En allavega mætti ég HRESS í skólann og tilbúin til þess að takast á við missirinn frá síðustu viku. En viti menn, ég var greinilega ekki sú eina sem hafði verið lasin eða fjarri í síðustu viku. Margir ef ekki allir voru frekar áttaviltir í námsefninu og ég kom meirað segja sjálfri mér á óvart þegar Siggi fór að spyrja ýmsar spurningar í sambandi við fögin að ég vissi flest öll svörin! Yyyyyeeessssss! ...eins og Sonja segir það.
Ég var dugleg að læra síðustu viku miðað við veikindin. Hélt samt einhvernvegin að þetta færi inn um eitt og út um hitt því ég las í hálfgerðu kvef-móki.... greinilega ekki. Þetta er þarna einhversstaðar fast í kollinum mínum.
Það styttist og styttist í prófin og það leggst bara vel í mig....þessa stundina. Ég verð fegin að komast í jólafrí og éta smákökur og hlusta á jólalög. Liggja uppí sófa og ekki hugsa um skóla eða próf...ahhh.
Verst að ég hef ekki tíma til að gera mín frægu, skemmtilegu jólakort. Þau slógu víst í gegn í hittífyrra... (ég var líka í prófum fyrir síðustu jól og gerði því engin jólakort sem þýðir það að ég sendi jólakort síðast jólin 2001). Mér langar að föndra aftur svona jólakort, ég skemmti mér svo konunglega yfir þessu þarna 2001, hló mig máttlausa í hvert skipti sem mér datt nýtt jólakort í hug.... Kanski ég geri bara síðbúin jólakort, hver veit.

sunnudagur, nóvember 09, 2003

Búhú...mér leiðast sunnudagar!
Ég var bara heima í gærkvöldi þó að Jóhann bróðir hafi verið hérna. Ég hefði semsé getað farið út á djammið eða kaffihús eða í heimsókn eða whatever... En nei, ég skemmti mér svona vel yfir öðru þannig að mig langaði ekkert út. Fór líka frekar snemma að sofa með bros á vör eftir skemmtilegt sms-daður :o)
En núna er sunnudagur og sunnudagar eru leiðinlegir.... allavega mjög oft... það er ekkert að gerast og ég nenni ekki að læra..(ekkert frekar en fyrri daginn)

laugardagur, nóvember 08, 2003

Þetta er eitt flottasta lag sem ég hef heyrt....

The Magnetic Fields' "All My Words"

You are a splendid butterfly
it is your wings that make you beautiful
And I could make you fly away
But I could never make you stay

You said you were in love with me
Both of us know that's impossible
And I could make you rue the day
But i could never make you stay

Not for all the tea in China
Not if I could if i could sing like a bird
Not for all North Carolina
Not for all my little words
not if I could write for you the sweetest song you ever heard
Doesn't matter what I do
Not for all my little words

Now that you've made me want to die
You tell me you're un-boyfriend-able
And I could make you pay and pay
But i could never make you stay

Not for all the tea in China
Not if I could sing like a bird
Not for all North Carolina
Not for all my little words
not if I could write for you the sweetest song you ever heard
Doesn't matter what I do
Not for all my little words
Doesn't matter what I do
Not for all my little words
Hann Bibbi er alltaf fyndinn!
Mér finnst lagið I Feel Love með Donnu Summer æði!

Var að velta því fyrir mér afhverju kemur enginn að heimsækja mig hérna norður!? Ég er með þennan "fína" fangelsis-gesta-bedda bak við hurð. Hinsvegar þurfa gestir að taka með sér svefnpoka eða sæng því ég er ekki ennþá komin með gestasængina sem mamma lofaði mér.
Fáir útvaldir fá að kúra við hliðin á mér :o)
Ég bý til gott kaffi! Ahh.... í þau fáu skipti sem ég drekk kaffi, þá vil ég hafa það mjög gott kaffi. Þessvegna kaupi ég dýrt kaffi og geymi það inní frysti og set svo smá í pressukönnu þegar ég er kaffistemmd... Núna er ég kaffi stemmd.

Ég fór á tónleika í gærkvöldi með Heru, Santiago og Geir Harðar! Það voru bara ágætis tónleikar. Kósy stemming þar sem mjög fáir voru á staðnum. Ég sá Heru til dæmis í allt öðru ljósi en venjulega. Hún tók engin Bubba lög, kanski þess vegna sem ég var að fíla hana. Æj, svo er hún bara svo einlæg og syngur eins og saklaust fiðrildi og var barasta soldið fyndin inná milli laga.

Var einmitt að ræða við fólk þarna um hvað frægðin getur farið hrottalega með fólk hérna á Íslandi. Þetta er ekki svona í öðrum löndum, allavega þá ekki svona ýkt. Eins og aumingja Jónsi eða Birgitta, hvernig skítkast þau hafa þurft að þola. Allskonar sögur og leiðindi spinnast um þau. Það eru fleiri listamenn hérna á Íslandi sem hafa lent í svona dæmum...æ bara jú neim it! Það hafa allir lent á milli tannanna á íslenskum tónlistaráheyrendum. Það er eins og um leið og þú ert orðin þekkt andlit eða númer, þá má sko aldeilis farað hrækja í þig ljótum orðum og sögum.
Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég hef aldrei viljað vera fræg! En núna þegar ég er í hljómsveit þá kítlar það rosalega hégómann að verða þekkt, en, mér langar ekki til þess að vera þekkt. Ég vil geta labbað um götur án þess að glápt sé á mig eða byrjað að pískra útí horni að ég sniffa í nefið fyrir hverja tónleika eða Guð má vita hvað!

....æj, ég er farin að setja í þvottavél!

föstudagur, nóvember 07, 2003

...ok, mér leiðist að læra núna...

Hmmm...ætli ég sé að breytast úr gyðjunni í vampíru... Samt ekkert slæmt það sem stendur um vampíruna.

vamp
You are Form 9, Vampire: The Undying.

"And The Vampire was all that remained on
the blood drowned creation. She attempted to
regrow life from the dead. But as she was
about to give the breath of life, she was
consumed in the flame of The Phoenix and the
cycle began again."


Some examples of the Vampire Form are Hades (Greek)
and Isis (Egyptian).
The Vampire is associated with the concept of
death, the number 9, and the element of fire.
Her sign is the eclipsed moon.

As a member of Form 9, you are a very realistic
individual. You may be a little idealistic,
but you are very grounded and down to earth.
You realize that not everything lasts, but you
savor every minute of the good times. While
you may sometimes find yourself lonely, you
have strong ties with people that will never be
broken. Vampires are the best friends to have
because they are sensible.


Which Mythological Form Are You?
brought to you by Quizilla
Eftir síðustu andvökunótt ákvað ég að gera plön fyrir þessa. Ég skellti mér í heita langa sturtu, þar sem ég dekraði við mig með allskyns sápum og bar á mig ilmandi olíur. Síðan setti ég hreint sængurver, hvíta, fallega, uppáhalds sængurverið og kveikti á smá reykelsi. Nú er bara að koma sér vel fyrir undir mjúkri sænginni og láta sér dreyma eitthvað fallegt.... láta sér dreyma um Hann jafnvel :o)
............góðanótt

fimmtudagur, nóvember 06, 2003

Mér langar að kasta mér í gólfið og grenja! GARG! Ég get þetta ekki.... hugur minn er óstýrlátur, eins og þúsundir mólekúla í brjáluðum hita, þá fleygjast mólekúlin til og frá eins og rakettur og rekast á hvora aðra....
Humm... ég er þó búin að læra eitthvað.
Þegar lærdómurinn verður leiðinlegur, þá fer ég og sörfa netið eins og sannur Titty Twisters aðdándi. Nema hvað, svona quizzezz eru alltaf mjög áhugaverð. Fann þetta, ég var nú einu sinni píanóleikari og er mikið í músíkinni og fannst þetta við hæfi þar sem ég var að hugsa um hljómsveitarstöff og framtíð þess. Ágætis útkoma :)

eflatmajor
Eb major - you are warm and kind, always there for
your friends, who are in turn there for you.
You are content with your confortable life and
what you are currently achieving; if you keep
in this state you will go far.


what key signature are you?
brought to you by Quizilla
Eftir svefnlitla nótt og eftir að hafa legið andvaka hugsandi um hitt og þetta (og vera með Ajax Universal aulýsingarlagið á heilanum!?), þá vaknaði ég við brakandi kulda! Ég hef alltaf litla rifu á glugganum mínum til að fá frískt loft inn í svefnherbergið, nauðsynlegt. En í þetta skipti var "stinningskuldi"! Svo ég dreif mig því í ullina og ég og HG fórum út af stað í leikskólann. Þar var nístíngskuldi og greinilega hafði fryst mjög mikið í nótt. Þegar ég byrjaði að skafa af bílnum, vildi frostið alls ekkert fara af! Þetta var því mikil áreynsla að jukka þessu af. Íris í næstu íbúð var einnig að skafa af bílnum sínum og var orðin of sein. Síðan lagði hún af stað á þessu snjóaða bílaplani og festi sig! Ég reyndi að hjálpa henni og brátt komu tveir til leiksins í viðbót. Eftir þónokkra stund og stress, þá losnaði hún og sagðist svo ætla að leggja útá götu þegar hún kæmi heim aftur! Ég hinsvegar komst áfallalaust sjálf í gegnum bílaplanið og aftur heim. Held ég sé búin að fatta þetta, hvernig er best að koma og fara og í hvaða stæði er best að leggja...
Ég er semsagt ekki sú eina sem er í kvíðakast útaf þessari ófærð á bílaplaninu. EN, ég sá auglýsingu niðri áðan þar sem stendur að bílaplanið verður mokað klukkan átta í kvöld. HALLELúJA!
Hehe...ég var að koma mér upp smá myndahorni. Kanski ég díla meira við það í jólafríinu mínu þar sem er skanni heima hjá mömmu og pabba :o) Þetta er bara byrjunin.....tadadada (hættustef)
Ég get ekki sofnað! Ég er búin að snúa sólarhringnum við í þessum veikindum. Ég er búin að vera eins og jójó hérna síðustu tvo klukkutíma; lesa bók, slökkva ljósið, bylta mér, snýta mér, kveikja ljósið, fará netið, slökkva aftur, velta mér um, snúa sænginni við, kveikja ljósið, lesa meira...etc!

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

What!! Af öllum kvikmyndunum sem voru í boði, þá er ég þessi!?!?

CWINDOWSDesktopPowerRangeres.jpg
Power Rangers Movie!


What movie Do you Belong in?(many different outcomes!)
brought to you by Quizilla
Ég elska Bráðavaktina! Góður þátturinn í kvöld! Sátt... Kanski bara af því að ég er hjúkkunemi? Þær horfðu allar á þetta á deildinni á Borgarspítalanum... Það er líka gaman þegar maður skilur "hraða-atburðarrásina". Ég skil lækna- og hjúkkutalið. Það er gaman að skilja og gaman að fatta það að maður skilur þetta... skiljiði mig?
Hey, Ólafur Þór öldrunarlæknir er í Kastljósinu í kvöld. Ég vann einmitt á öldrunarlækningadeild Borgarspítalans þar sem hann leit oft inn. Hann er að fara að ræða um ofbeldi gagnvart öldruðu fólki á heimilum og stofnunum, bæði af fjölskyldu og fólkinu sem er í umönnunninni (erfitt orð).
Leiðinlegt að segja það, þá varð maður vitni að slíku ofbeldi. Þetta er bæði andlegt og líkamlegt og manni hryllir við því þegar maður verður vitni af því. Sérstaklega þegar maður er að læra að verða hjúkrunarfræðingur og fær þetta sem kennsludæmi í vinnunni.....
Æðisleg mynd...hehehe, þarna erum við í gamla menntaskólabekknum mínum, veturinn 1995-1996. Hún Særún geymir marga gullmola hjá sér....
Alltaf er nú hægt að redda mat. Ég fann inní frysti box með indverska kartöfluréttinum mínum, sem ég eldaði fyrir nokkru síðan. Ég var einmitt að troða inn nýjum vörum af verslunarleiðangri mínum ógurlega. Ég ákvað að hita þetta upp á pönnu, bætti smá vatni við og þá var þetta orðin svona indverskur kartöflumúsréttur. Ég skellti síðan smá ABmjólk í skál, skar gúrku í smáa kubba og setti smá turmerick og koriander með, og þar var komin þessi fína sósa með.
Ég er að springa núna, át yfir mig... Maaan hvað þetta var gott!!!
Jahérna. Ég stökk á fætur á morgun og dreif mig og HG út til að fara í skólan. Festi mig næstum því á bílaplaninu þar sem að snjónum hefur kyngt niður síðustu daga og ekkert hefur verið skafað af bílaplaninu okkar. Ég komst uppí leikskóla og fór þá að finna fyrir nettum svima...sem síðan jókst og ég fékk dúndrandi hausverk í þokkabót. Ég skottaðist heim í rúmið aftur, með regnbogan út um nefið.
Um hádegi gerði ég heiðarlega tilraun til þess að fara út í búð þar sem það var EKKERT til. Ég hossaðist yfir bílaplanið, ennþá nojuð yfir því að ég skyldi festa mig, en komst niður á Glerártorg. Verslaði þar alveg heilan helling og hitti frænku mína sem vottaði það að ég liti hræðilega út og ætti að drífa mig heim. Þegar ég er komin að bílaplaninu ógurlega aftur tek ég nett kvíðakast yfir að þurfað kljást við snjóinn á ný, en það ætlaði að takast aftur, nema, þegar ég var þrem metrum frá bílastæðinu mínu, þá festi ég mig! Ég hjakkaðist þarna fram og tilbaka í dágóða stund, þar til tvær elskulegar stúlkur komu og hjálpuðu mér að ýta bílnum í stæðið. Klukkan var rúmlega tvö og ég sá bara í kvíðakasti fyrir mér ferðina klukkan fimm í leikskólann.
En það tókst, ég komst í leikskólan og aftur heim, áfallalaust.
Ég hata svona færð, hún er engin! Maður vaggar og veltur þarna og fer bara í áttir sem maður ætlar sér ekki að fara í....fojj.. Ég hitti svo prófastinn í Útsteini og spurði hann hvort það ætti ekki að moka af planinu. Einhverntíman í vikunni sagði hann. Ég er enn í kvíðakasti yfir því að þurfa að fara út í bílinn og keyra yfir planið...

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Það er greinilegt að Herði Gunnari er farið að batna. Vaxandi frekja fylgir batnandi börnum. Ég hleyp hingað á eftir honum, hann öskrandi eftir djúsglösum og það hlaut að koma að því að djúsinn kláraðist og þá snappaði hann. Maður dekrar alltaf börnin sín þegar þau eru veik. En þau reyna að halda þessu ferli gangandi þó þau séu orðin frísk. Nú er ég búin að skamma hann pínu og hann er í fýlu útí horni og neitar að borða kvöldmat. Ég sem var eimitt búin að finna handa honum eitt af hans uppáhaldi, kjötfarsbollur með kartöflum og brúnni sósu. Svo fojjar hann við þessu og vill bara djús, djús, djús! Ójá, það er kominn tími á leikskóla á morgun, ekki spurning, og rétta frekjuna af.
Ég hinsvegar er ekkert að skána í kvefinu mínu. Snýti regnbogalitunum í eldhúspappírinn og hnerra á fimm sekúndna fresti. Ég fæ alltaf svona "ofnæmiskvef". Klæjar í augun og tárast, nefrennsli á 100km hraða og miklir hnerrar. Þetta getur tekið tvær til þrjár vikur ef ég þekki mig rétt, þannig að það er eins gott að drífa sig bara í skólan á morgun.
Var að spá í að skella mér út á eftir og skafa af bílnum mínum fyrir morgundaginn. Gæti verið hressandi útivera og líka kanski von um að ég þurfi ekki að skafa í fyrramálið. Við erum að tala um tonn af snjó á bílnum, kanski þakið farið að síga niður eða eitthvað....
Mér finnst muuu auglýsingin skemmtileg, kemur manni alltaf til að brosa, hlæja eða muuuaa með. Ég hinsvegar þoli ekki dömubindis/innleggs auglýsingar. Ég þoli heldur ekki klósetthreinsi eða klósettilm auglýsingar. Þar er einmitt sýnd alltaf einhver kona, helst mjög falleg eða kynþokkafull, sem dansar í kringum klósettið eins og ekkert sé betra. Það er ekkert eins skemmtilegt og að þrífa klósett...aaahhhhh!

mánudagur, nóvember 03, 2003

Ég og Hörður Gunnar snýtum okkur á 5 mín fresti og nefin okkar því orðin rauð og ljót. Svo erum við bæði rosalega þurr, Hörður er t.d. með þurrustu varir sem ég hef nokkurn tíman séð og hendurnar mínar eru eins og sandpappír viðkomu. Við reynum að drekka og bera á okkur feit krem, en horið lekur og við erum frekar máttlaus. Veit ekki alveg hvort við meikum skóla á morgun, ég ætla samt að láta reyna á það. Ef það er eitthvað leiðinlegt, þá er það að vera veikur heima. Ég á er líka í svo rosalega fáum tímum í skólanum þannig að mér er illa við það að þurfa að missa af kennslu. Ég er aðeins í skólanum mánud, þriðjud og miðvikud. Ég hef því miður misst af allt of miklum mánudögum sem eru mikilvægastir að mínu mati. Þar er kennd líffærafræðin og vefja- og frumulíffræði. Vont að missa af glósunum hans Sigga Bjarklind. En það má kanski reyna að fá glósur hjá bekkjarsystrum mínum þar sem ég er farin að spjalla nett við þær....
Svo er maður líka hálf tómur í hausnum þegar maður er lasinn, dettur ekkert sniðugt í hug til að blogga um, bara lesa önnur blogg og öfundast af færni annarra bloggara...
Ég fer ekki í skólan á morgun. Hörður Gunnar er með hita og bara mikið sloj... Þess vegna sit ég hér og er að horfa á sjónvarpið, heimildamynd um Odell Barnes og dauðarefsingu Texas. Djííí... ég er á móti dauðarefsingu. Sama hvað glæpamenn geta orðið ógulegir, þá finnst mér við ekki hafa rétt til að taka líf.
Svo er þarna einhver ömurlegur lögreglumaður eða saksóknarinn, (er búin að horfa á þetta með öðru auganu), hann svarar svo bjánalega spurningum! Hann var eitthvað að tala um að fórnarlambið, konan, sem var fín kona, vann sem sjúkraþjálfari á ríkisspítalanum, dugleg og eitthvað...og hann hélt því fram að svona kona myndi svo sannarlega ekki skilja eftir viku-skítugan-þvottapoka á gólfinu á herberginu sínu.... Hvað veit hann um fólk hvort það eru snyrtipinnar eða ekki?!
Svo kemur Bush þarna í lokin, alveg SANNFÆRÐUR um að allir sem hafa verið líflátnir VORU SEKIR! Ekkert annað...hann var æstur þegar hann sagði þetta... og bjánalegur. Bush er bjáni... þykist vita það fyrir víst, að allir voru sekir, allir, enginn hafi verið dæmdur í fangelsi fyrir glæp sem hann hefði ekki framið... dauðarefsing... þvílíkt bull! Bush bullar. Bush sökkar!

sunnudagur, nóvember 02, 2003

Maaaan, ég er ekki að höndla þetta, það snjóar ennþá úti! Það er búið að snjóa stanslaust núna í tvo daga eða eitthvað, allavega þá held ég að ég sé að lokast inni. Held allavega að ég eigi örugglega ansi erfitt með að fara út í búð og kaupa mér fefsimax!
Ég var vakin upp með látum í morgun þar sem að Magnús vinur Harðar Gunnars kom og hamraði á dyrnar og öskraði fyrir utan....ég drattaðist á fætur og opnaði fyrir honum og svo voru þeir náttla að leika sér saman á fullu, öskrandi, hoppandi, vælandi, skellandi hurðum því þeir voru alltaf að hlaupa inn og út... Ég ætti semsagt kanski bara að leggja mig aðeins, því ekki fór ég snemma að sofa og ekki fékk ég að sofa út. Það vottar allavega fyrir smá þynnku-titringi í kroppnum...uhhhhhh
Æjæjæjjj...það er svo gaman!
Var að koma heim með leigubíl. Vorum sex í fimm manna bíl...það voru nebblilega gaurar á leiðinni til Dalvíkur og tóku bílinn með okkur uppí Útstein og ætluðu síðan áfram til Dallas og borguðu því farið. Það var leigubílaskortur downtown. En allavega, þá fór ég frammí, minnsta manneskjan í bílnum og þrír stórir menn og ein stór kona afturí! Ég var svooo hress og reytti af mér brandarana og allskyns fræði að leigubílastjórinn gaf mér sitt persónulega nafnspjald þegar ég ætlaði að stíga út úr bílnum, með von um að ég myndi hringja í hann næst þegar mér vantaði leigubíl því ég var víst svona rosalega fyndin...heheheheee...ohh..það er svo gaman að blogga svona létt..híhí...
Ég fór útá djammið með Austin Powers gleraugun og tennurnar því ég missti af halloween. Fékk mikla athygli og fannst það gaman!
Nú er ég nýbúin að éta hamborgara frá Nætursölunni og franskar og kók og er tilbúin að kasta mér í mjúka rúmið mitt og skríða undir mjúku dúnsængina mína...grrrrr.....
mmmm...ég fékk annars skilaboð frá Honum í kvöld...það gladdi mitt litla hjarta :o)

laugardagur, nóvember 01, 2003

Núna ætti Berglind að vera glöð... :o)
Var að horfa á Ingvar E Sigurðsson leika í myndinni í ríkissjónvarpinu; Second Nature. Hann stóð sig vel þrátt fyrir lítið hlutverk. Samt mátti heyra aðeins í þessum sérstaka íslenska-ensku-hreimi. Lokasetningin hans var líka töff þar sem það var keyrt yfir hann og hann sagði í loka-andardráttunum "German cars!", en hann átti víst að vera þjóðverji í myndinni...
Fyndið að sjá hann í svona Hollywood mynd með Alec Baldwin, töfffff. Og nota bene, það var hún móðir mín sem ýtti honum útí leiklistina. Hann byrjaði fyrst að stíga sín leikspor í Samkomuhúsinu í Borgarnesi og þar lék hann einmitt oft á móti mömmu. Hún sagði honum að drífa sig í leiklistarskólann því hann var ekkert voða áhugasamur að verða leikari. Enn þann dag í dag minnist hann á það að það værr nú henni Jenný Lind í Borgarnesi að þakka hvað hann væri nú búinn að ná langt. Ef hún hefði ekki rekið á eftir honum hefði hann örugglega verið viðskiptafræðingur eða eitthvað annað óspennandi í dag. Ójá, stundum sér maður ekki hæfileikana sína og það þarf einhver annar að koma og slá mann í andlitið eða rassinn og reka á eftir manni....

föstudagur, október 31, 2003

Ég og Hörður Gunnar eigum gott föstudagskvöld saman. Við vorum að horfa á Family Guy og erum að sleikja Royal súkkulaðibúðing uppúr skál. Stundum er bara voða gaman þegar við erum svona tvö saman að mjóna okkur...
vúhúhú.... Hérna er smá lesning um Worm Is Green tónleikana á Grand Rokk um daginn, þegar við vorum að spila með Einari Erni.
Ég er með ljótuna í dag, ekki skrítið þar sem að ég er búin að verað læra vefja- og frumulíffræði í allann fokkings dag í lopapeysu og með úfið hár! Þess vegna finnst mér ástæða til þess að sýna minn hégóma og birta þessa mynd til þess að minna mig á að ég get verið falleg....

Úhhh...eitt hressandi símtal sem ég fékk frá honum Steina, Hanson brother og trommudude í Worm Is Green! Get ekki sagt mikið, bara að ég er eitt bros og vona að það haldist áfram, allavega fram í Janúar-Febrúar! :o)
Ég var að skoða myndir hjá Heiðu frá síðustu halloween-sprellunum hennar og þá fór ég að rifja upp mitt í fyrra. Ég var falleg stúlka frá Pakistan. Efast samt soldið um að margar stúlkur/konur frá Pakistan eigi svona bók...
En ég er annars mjööööög svekkt að komast ekki í Halloween partýið :(
Það kokar snjó niður! Það kyngir niður snjó! Við eigum eftir að kafna í snjó hérna! Það er búið að snjóa stanslaust síðan í morgun og ég sé ekkert út um gluggann!!! Hjálp! Ég veit ekki hvort ég eigi eftir að rata út og finna bílinn minn seinna í dag þegar ég þarf að sækja strákinn í leikskólann....
"Krebs hringur. Lýsir því hvernig afurðum glýkólýsu er dælt inn í hvatbera via Acetyl-CoA og brotna þar áfram niður í oxunarefnahvörfum sem fela í sér vetnissviptingu (dehydrogenation). Vetnið sem losnar (2H) er flutt með kóensímunum NAD+ og FAD inn í öndunarkeðju sem er ensímkerfi í innri himnu hvatbera. Fullkomin oxun á glúkósa gefur 36 ATP."
Er skrítið að ég skuli GARGA yfir þessu!? Ég er orðin stressuð og það eru komin drög að próftöflu. Samkvæmt því er ég í prófum frá 8.-17. desember.
Þráðlausa netið er í fokki og ég er svooo fegin að geta slæpst hingað inn þegar mér langar að taka pásu....loksins kom pásan...

fimmtudagur, október 30, 2003

Ég fékk næstum tár í augun í morgun þegar ég var að fara með Hörð Gunnar í leikskólan. Ég vakti hann náttla fyrst með því að æpa til hamingju með afmælið og það virkaði því hann fór á fætur eins og elding. Þegar við vorum semsé komin uppí leikskóla þá bað hann mig svo innilega og fallega um að baka gulrótarköku með hvítu kremi...ég fékk kúlu í hálsinn því það var svooo sætt þegar hann sagði þetta! Svo sagði hann líka þegar ég var að kyssa hann bless, "mamma, fæ ég líka kanski pakka frá þér?" og enn og aftur fékk ég lítið tár í augað yfir þessum fallega góða dreng. Það var ekkert nema hógværðin og stilling, en ekki frekja og öskur sem kom frá honum.
Auðvitað fór ég heim og bakaði eina Betty Crocker gulrótarköku með hvítu kremi handa honum. Keypti líka smarties og skreytti kökuna á minn listræna hátt. Síðan fór ég út í dótabúð og keypti nýja spiderman kall handa honum og líka eina DVD-mynd með gömlum Superheroes þætti þar sem að Superman, Batman, Robin, Daredevil og fleiri góðar hetjur eru að berjast á móti vondu köllunum. Skemmtileg mynd, ég horfði á hana líka.
Þegar hann var svo komin heim fór hann og bauð Magnúsi vini sínum á neðstu hæð, að koma upp og fá sér gulrótarköku, því hann ætti afmæli í dag. Ég hló inní mér og fannst drengurinn minn hafa fullorðnast allt í einu svo mikið. Hann er farin að tala svo skýrt og farin að vera meiri og meiri "buddíinn minn".
Síðan hlóu þeir og skemmtu sér vel saman, tveir með gulrótarkökuna, allar hetjunar og tvær blöðrur. Það þurfti ekki mikið til að gleðja litla drenginn minn, enda var hann líka búin að fá stórt fjölskylduafmæli þegar við vorum í Borgó síðustu helgi.
Ég gleymdi bara einu. Ég keypti spes gleraugu og tennur (svona Austin Powers) og ætlaði að setja þetta á mig þegar ég bæri fram kökuna handa strákunum. En ég gleymdi þessu inná baði. Kanski ég vekji Hörð Gunnar bara í fyrramálið með þessu. Hann hlýtur að fara á fætur þá eins og elding aftur..hehehe!
En aðalmál dagsins í dag er...TIL HAMINGJU MEÐ 4 ÁRA AFMÆLIÐ, ELSKU HÖRÐUR GUNNAR MINN :o)

miðvikudagur, október 29, 2003

Ég skil ekki alveg hvað er að gerast með tölvuna mína. Ég er komin í stresshnút útaf öllu! Ég get ekki mikið meir, verð að farað komast í jólafrí, get ekki beðið í mánuð. Hvað er að gerast!

mánudagur, október 27, 2003

Ég var að horfa á þátt í ríkissjónvarpinu um unga franska stúlku, Chloe, sem þjáist af anorexiu og bulimiu. Þetta er hrikalegur sjúkdómur í einu orði sagt. Hann reynir mikið á, bæði andlega og líkamlega. Þetta er vítahringur sem mjög erfitt er að losna úr, ef ekki ómögulegt að losna úr. Læknar, geðlæknar, sálfræðingar og margir aðrir vísinda og fræðimenn eru ráðþrota í sambandi við þennan sjúkdóm. Lítil sem engin lækning er til við þessum sjúkdómi, bara ef þú ert komin undir vissa kílóaþyngd, eins og í Chloe tilfelli var 35 kíló, þá þyrftir þú að leggjast inná sjúkrahús. Uss...ég óska að enginn þurfi að ganga í gegnum þessi böl! Af mörgum slæmum sjúkdómum sem eru til, þá standa þessir uppúr sem einir af hræðilegustu sjúkdómunum, að mínu mati....
GARG! Ég þoli ekki hvað ég get verið twisted í hausnum í sambandi við áhugamál og áhugaleysi og alls kyns hugmyndir...
Núna er ég alveg á fullu að spekúlera í þessari hjúkrun....langar mig virkilega að vera hjúkrunarfræðingur, nenni ég 4 ára bóknámi? Ég er að deyja mér langar allt í einu svo mikið í eitthvað listnám! Mér langar að læra myndlist, grafíska hönnun, matarlist, kökugerðarlist, tónlist, sönglist....LIST. En það er auðvitað list að vera hjúkrunarfræðingur, það sagði hún Kristín í tíma áðan...hmmm...veit ekki.
Ég get verið hrikaleg. Það er dýrt að fara í þetta nám, kostar að flytja og kostar að raska greyið Herði Gunnari hingað og þangað með mér. Ég veit ekki hvort ég er svona twisted í hausnum bara núna af því að það var svo rooosalega gaman hjá mér á Airwaves í Reykjavík.
Vonandi hristi ég þessari hugsun í burtu, en heilinn á mér er á spani hingað og þangað þessa dagana!
Ég get ekki sofnað. Ég er búin að veltast um og snúa mér í þvers og kross og fram og tilbaka, hálfskrúfu og snúning og alles í rúminu. Og í öllum þessum byltum hafa brjálaðar hugsanir verið að fljóta... Þá fór ég að hugsa um "Hann" og mér datt í hug bréf til Hans:
Kæri ------
Ég man þegar ég sá þig fyrst. Það var æðisleg tilfinning sem hljóp í gegnum líkamann. Ég sá það líka á þér að þú varst að hugsa svipað um mig. Til að gera langa sögu stutta, þá enduðum við saman í faðmlögum um nóttina.
Eftir fleiri stefnumót og símtöl og þvíumlíkt, var komin ákveðin spenna. Vitandi að ég var að farað flytja norður fljótlega og þú myndir verða eftir í Reykjavík. Hvað ætti að gera, við vorum eitthvað svo fullkomin saman og eigum við þá ekki að halda áfram þó ég sé líklegast að fara að búa á Akureyri næstu fjögur árin...ehehe..
Eftir langan og stressandi umhugusunarfrest þinn sem var að gera mig gráhærða úr kvíðaköstum, ákvaðst þú að létta af hjarta þínu. Þú sagðir mér að þú værir tilbúin til að vera í long-distans-relationship með mér. Ég væri alltof áhugaverð og þú svona hrifin af mér að þú gætir ekki hugsað þér að sleppa mér. Þú sagðist hlakka til að hitta strákinn minn, kynnast honum og spila með honum fótbolta. Þú sagðist vera í þannig vinnu að þú gætir jafnvel tekið löng frí og komið í heimsókn í nokkra daga í senn.
Þetta hljómaði allt svo æðislegt þegar þú sagðir mér þetta og ég var full af gleði :)
En allt í einu, einn "góðan" veðurdag, þá breyttist þú. Þú varst fjarlægur og sýndir ekki mikinn áhuga. Þú "hvarfst" hreinlega og ég botnaði ekki neitt í neinu, sérstaklega eftir að hafa heyrt þínar æðislegu yfirlýsingar um mig....
Í dag sit ég enn með hrærigraut í hausnum því ég er ekkert að botna í þessu. Einstaka sinnum fæ ég skilaboð sem sýnir það að þú hugsar ennþá til mín. Ég hugsa oft til þín og það særir mig. Ég man hvað þú hélst þétt utan um mig eins og ég væri sykurpúði eða eitthvað... þér þótti allavega mjööög vænt um mig, og ég veit að þú gerir það enn.
En hvað kom fyrir? Fréttiru eitthvað ógeð um mig? Kynntist þú annarri? Ertu bara svona óákveðin týpa, soldið lík mér? Ertu hræddur við barnið eða fjarlægðina? Hvað, please segðu mér, hvað var/er að!?
Ég heimta skýringu, sérstaklega þegar þú sendir mér enn þann dag í dag sniðug og sæt skilaboð sem kítlar mínar hjartarætur um leið og þú særir nokkrar....
Kær kveðja,
Dúdda púdda ringlaða


Ég veit, ég veit...þetta hljómar hrikalega korní og asnalegt og svefngalsalegt...ég er barasta að springa í kollinum og ég varð að hrækja þessu útúr mér!
Vonandi get ég sofnað núna....

sunnudagur, október 26, 2003

Rapport!
Ég sat heima hjá möm og pab og lét mér leiðast í gærkvöldi. Var eiginlega að bíða eftir því að sunnudagurinn kæmi svo ég gæti keyrt norður. Ég treysti mér ekki til að keyra fram og tilbaka suður í partý hjá Unni. En, það var hið viðfræga Geirmundarball á hótelinu. Ég skellti mér í leðurbuxurnar og svartan bol og setti á mig rauðan varalit. Ég fór svo heim til Gvends með von um að hann væri að farað gera eitthvað skemmtilegt. Síðan var mér boðið heim til Auðar í smá partý. Þar voru allir á leiðinni á hótelið á ballið. Ég ákvað að skella mér með!
Ég varð næstum undir í troðningi, það var fullt af fólki þarna!
Það kom mér á óvart hvað það var mikið af myndarlegum mönnum þarna. En það er náttla ekki að marka mig, þegar ég bý á Akureyri, þar sem ekki eru til fallegir karlmenn. Ég spjallaði líka við fullt af gömlum góðum vinum og ég sá sko ekkert eftir því að hafa farið á þetta ball. Barasta bara gaman! En þegar ballið var að enda þá brutustu út slagsmál. Þau slagsmál héldu áfram víst langt fram eftir nóttu, fram á morgun, niðrí bæ og í heimahúsum. Nóg að gera hjá löggunni, enda heyrði ég í morgunfréttunum að maður hefði verið kjálkabrotinn í Borgarnesi í nótt.
Hazar á heimavelli!

laugardagur, október 25, 2003

Ég var rosalega dugleg í gær og bakaði heilar sex kökur. Einnig bakaði mamma hennar frægu skínkuhorn og ég gerði einn massívan heitan ofnrétt með aspass og öllu því. Það var semsé fjölskylduafmæliskaffi hérna áðan og allir stóru frændurnir og frænkurnar komu og hömsuðu í sig allar kræsingarnar.
Ég sjálf stóð alltaf yfir öllum og sá til þess að allt væri í toppstandi. Nóg kaffi, bæta á skinkuhornin og vaska upp diska ef það vantaði og svo framvegis...
Núna er ég að deyja úr þreytu og ætla að leggja mig pínulítið. Ég ætlaði að keyra norður eftir afmælið en ég var ansi bjartsýn. Ég hef ekki mikla orku í það núna. En ég er hinsvegar boðin í smá partý í Reykjavíkinni í kvöld en ég hugsa að ég komist ekki þangað. Keyrsla og barnapössun og ferð til Akureyrar eru atriðið sem stöðva mína ferð til Reykjavíkur í kvöld.
Það er Reyndar! fyrsti vetrardagur í dag, sem þýðir það að það er Geirmundarball á hótelinu! Mér dauðlangar að kíkja, sérstaklega þegar ég veit að það verða nokkrir kunningjar mínir þarna, plús allt sveitaliðið náttla. Þetta voru mjög fyndin böll á sínum tíma og maður fór oft á þau í gríni. Núna eru hinsvegar liðin einhver ár síðan ég fór síðast á Geirmundarsveiflu og ég hugsa að mér langi dáltið að Kíkja á þetta. Held að Gvendurinn sé til í að vera með í för... kanski maður bara endi á Hótel Borgarnesi í kvöld?

Annars, þá fékk ég skilaboð frá Honum áðan.... sætt :o) En það er naumast hvað karlmenn geta ruglað mann í ríminu!

föstudagur, október 24, 2003

Ég mundi allt í einu eftir því að ég hitti Lalla Johns á fimmtudagskvöldinu 16. október á Kaffibarnum. Hann var helv.. hress og ég spjallaði mikið við hann. Hann var í gallajakka, ber innanundir og sagði hátt á 5 mín. fresti að gallajakkar væru alltaf í tísku! Ég trúi honum, og það fékk mig líka til þess að fresta kaupum á nýjum jakka. Ég var að bölva því um daginn að ég væri búin að vera í sama gallajakkanum núna í næstum 6-7 ár! Það væri alveg kominn tími á nýjan skjótast-út-jakka. En ég get svo sannarlega verið áfram í gallajakkanum mínum. Lalli Johns sagði það og kyssti mig síðan á handarbakið eins og sannur herramaður. Ég spurði hann síðan hvað hefði orðið af flotta leðurjakkanum með ása tíglunum og spöðunum og því skrauti á. Mundi vel eftir þessum leddara í heimildarmyndinni um hann. Hann sagðist hafa sett leddarann í geymslu einhversstaðar og svo týnt honum, gleymdi hvar hann lét hann eða eitthvað....en gallajakkar eru í tísku! Og svo greiddi hann í gegnum þunna hárið sitt með fingrunum, alveg eins og í myndinni.
Selebs can be anywhere and anyways...

fimmtudagur, október 23, 2003

Ójá...ég gerði mig líka að fífli á laugardagskvöldið á Nasa...seint...þá var ég líka pínu drukkin. En allavega þá var Sonja að tala við einhvern mann. Ég stóð þarna við hliðiná og Sonja kynnti mig síðan og hann kynnti sig, Friðrik.
Ég fór síðan að spjalla við hann og hann talaði mikið. Nema hvað hann sagði einhverntíman að hann væri læknir og ég skaut því að honum að ég væri hjúkkunemi og þá sagði hann að allir, sama hvort þeir eru með demanta á fingrum eða skít undir nöglunum, þyrftu einhverntíman að láta skeina af sér skítinn.... Hann var mjög fyndin og ég furðaði mig einmitt á því hvað þetta væri libo læknir!
Þegar við erum komin út seinna um kvöldið þá spyr ég Sonju hvar hún hefði kynnst þessum furðulega lækni. Sonja leit á mig og varð eitt spurningarmerki í framan. "Hvaða læknir!?" Þá lýsti ég manninum og þá fékk hún hláturkast.
Þetta var víst Friðrik Erlingsson rithöfundur. Ég skammaðist mín, sérstaklega þar sem ég hef unnið á bókasafni og ætti jafnvel að vita hver hann væri. En halló, maður sér ekki rithöfunda alltaf á bókum eins og maður sér leikara í myndum...
Þetta var samt mjög fyndið eftirá þó ég hafi ekki hlegið af þessu fyrst.
Afi minn á Akureyri hefði átt afmæli í dag. Blessuð sé minning hans. Mér þótti svoooo vænt um hann og ég græt hann ennþá í dag...
Djöf... karlmenn! Ég er alltaf að reynað komast yfir þetta, en þeir brjóta/mylja á mér hjartað, alltaf! Það hlýtur að ganga einhver bölvun yfir mér. Ég lendi alltaf í því að verða hrifin af röngum strákum...eða eitthvað. Þeir bestu og flottustu eru annaðhvort skrýtnir/crazy eða fráteknir/giftir. Djöfulsins bögg!
Ég lenti nú á góðum séns um helgina, það var daðrað og horfst í augu öll kvöldin, en ekkert gerðist. Við vorum bæði feimin, ég get verið HRIKALEGA feimin, enda er búið að brjóta niður mitt litla sjálfstraust í gegnum tíðina.
Hann, köllum hann bara Hr.Sætur, var að taka myndir fyrir ákv. sjónvarpsstöð. Ég þekkti þessa náunga ágætlega, spjallaði heilmikið við þá og ég og Hr. Sætur vorum alltaf að horfa á hvort annað og ég hélt loksins að þarna væri loksins kominn nýr maður í mitt líf, ný von, enginn aumingi....Nema hvað þegar ég hitti hann síðar um kvöldið, þá stendur hann vandræðalegur milli tveggja kvenna. Ég fer til þeirra og spjalla við þau og hann horfir ekki eins mikið í augun á mér og áður. Síðan spyr ég hvað stelpurnar heita og þá kynnir hann þær og segir vandræðalega að önnur þeirra sé kærastan hans!
Okey bleeeeessss!
Svona er ég fjandi heppinn. Ég var loksins farin að geta séð birtuna á ný en þá er hjartað mitt kramið enn og aftur. Öll von var úti aftur. Ég sem var á góðri leið með því að komast yfir HANN, sem ég var með síðast..
En nei....það er vont karma sem fylgir mér:
"Kremjið hjartað hennar Dúddu, svo það blæðir!"

miðvikudagur, október 22, 2003

Mmmm.... Það er gott að vera í heimsókn hjá mömmu og pabba. Mamma er með hummus æði núna og var að búa til rooooosalega gott hummus. Hún var svo ánægð að hún sagði að ég mætti ráða hvað væri í matinn, hvað sem er! Ég náttla æpti upp að mig langaði í kjötsúpu og hún eldaði hana! Núna sit ég sátt með fullan maga af fitu og grænmeti og ætla svo að fara og fylla meira í hann á eftir og fá mér gott te og kex með hummus....nammm.

Mjög fyndið viðtalið við okkur Sonju í röðinni fyrir utan Nasa (í AT). Við vorum með svo mikinn valkvíða, vissum ekki hvar við ættum að vera, hvert við ættum að fara eða á hvern við ættum að hlusta.... En í næstu viku kemur svo Worm Is Green með lagið Love Will Tear Us Apart í þættinum.
Ég fékk nú dáltið sjokk þegar ég horfði á upptökuna eftirá. Ég sá bara hvað ég er ógeðslega horuð og ég var svo dramatísk á svipin þegar ég var að syngja að það var eins og ég væri að farað gráta. Ekki horfa á þetta...afhverju er ég að tala um þetta... Nene, það er víst ekkert að marka þegar maður horfir og hlustar á sjálfan sig. En mér fannst ég líta út eins og drykkjusjúklingur!
Jæja krakkar!
Sjáiði dívuna syngja á Nasa, laugardagskvöldið 18. október með Worm is Green....yessss!

þriðjudagur, október 21, 2003

Einhvernvegin þá blogga ég miklu meira fyrir norðan. Kanski af því að mér leiðist svo mikið stundum að eini vinur minn er tölvan og þráðlausa tengið. En ég er semsé ennþá í Borgarnesi í hvíld, á samt að vera að læra, en ég allavega ætla ekki norður fyrr en næsta sunnudag.
Ég fór suður í gær og við tókum upp lagið í dag fyrir At-þáttin. Þetta verður sko sýnt á miðvikudaginn eftir viku en hinsvegar gæti viðtalið við mig, Sonju og Jóhönnu verið sýnt í þættinum á morgun. Ég fer svo aftur suður einhverntíman í vikunni og þá ætlum við Árni að taka upp eitthvað af nýjum lögum. Ójá, það er komið fullt af efni í næstu plötu en hún kemur líklegast út í febrúar ef allt gengur vel.
Svo er búið að bjóða mér í partý á laugardagskvöldið í bænum þannig að ég verð með annann fótinn í Reykjavík þessa vikuna. Ég er ansi hrædd um að póstkassinn minn fyrir norðan sé að springa...ehemm.
Svo ætla ég að reynað hafa smá fjölskyldu-afmæliskaffi á föstudag eða laugardag, þar sem ég er nýbúin að eiga afmæli og Hörður Gunnar á afmæli eftir nokkra daga.
Allt að gerast, eiginlega of mikið að ég veit ekki hvernig ég á að snúa mér. Ég veit bara að ég er dauðþreytt núna og mig langar að leggja mig....zzzzzz

mánudagur, október 20, 2003

Vá...ég veit ekki hvar ég á að byrja, kanski á þessu, allavega þá var helgin brilliant!
Okkur var þvílíkt fagnað á tónleikunum á Nasa og ég hef aldrei lent í eins mörgum blaða- og sjónvarpsviðtölum um ævina! Ég er núna í smá hvíld uppí Borgarnesi með Hörð Gunnar, en er svo að fara aftur suður í dag og verð líka á morgun. Við erum að fara í þáttinn At að spila og svo eru fleiri viðtöl. Maður er barasta algjör seleb! Hehehe, en þetta er gaman.
Ég get ekki sagt frá öllu núna, kanksi seinna, það gerðist svo mikið og það var svooooo gaman og ég held ég hafi ekki átt skemmtilegri afmælishelgi :o)

miðvikudagur, október 15, 2003

Jæja gott fólk. Ég er búin að pakka niður fullt af drasli, ég má vera með yfirvigt í mínum bíl. Ég var að enda við að fá mér beyglur (hvað annað) og heitan tebolla. Nú er ég til í keyrslu og á bara eftir að fara með töskuna útí bíl og taka smá bensín og blikka sæta bensíntittinn í leiðinni. (Ég fer alltaf á sömu bensínstöðina af einni ástæðu..hehe). Svo er bara að sækja guttann og ég held ég geri það bara soldið fyrir 12, þá erum við á helv.. góðum tíma.
En jámm...ég hugsa að ég bloggi nú eitthvað næstu daga þar sem ég verð í internet-húsi í gistingu, ég má til með að segja frá gangi mála eins og viðtölum og allskyns látum. Nú, svo kanski verður þetta bara róleg helgi og ömurlega leiðinleg. Ég ætla allavega ekki að gera mér miklar vonir því skýjaborgir hrynja...ójá..
Ég er svo aldeilis hissa. Maður er bara ekkert í skólanum! Ég mætti í skólan áðan og sá að við vorum bara tvær mættar, mjög skrýtið þar sem ég mæti yfirleitt síðust. Þá komst ég að því þegar ég fór að spyrjast fyrir á skrifstofunni að KK væri veikur og heimspekin fellur því niður í dag. Maann...allir lasnir, það er eins gott að láta sprauta sig fyrir flensunni, því hún er víst komin og er frekar skæð, týpa A.
En, þá hef ég tíma til að lesa pínu því ég sæki ekki Hörð Gunnar fyrr en í hádeginu og svo legg ég af stað. Þá sé ég líka fram á að geta sett í eina þvottavél, gott mál. Ég get því brunað strax suður klukkan 12, gott mál...
Ég þarf víst að vera mætt suður fyrir klukkan sjö, hálf átta í kvöld, ég er að fara í sjónvarpsviðtal. Hehe, það er sko einhver útlensk, ég held, Kanadísk sjónvarpsstöð. Hún ætlar að taka viðtal við Biogen líka og einhverja fleiri. En þetta er semsé eins og MTV Kanada segir Árni. Það verður bara gaman, best að gera mig sæta í dag :o)
Ég varð reyndar að stríða Árna aðeins í gær. Ég sagði honum að ég væri búin að snoða mig aftur og ætlaði að fá mér lokk í nefið þegar ég kæmi til Reykjavíkur. Rebelinn í mér er að vakna aftur..moooohahahaha!!!!

þriðjudagur, október 14, 2003

Vóhóhó...ég var að lesa ársspá vogarinnar 2003 að gamni mínu og það fór um mig hrollur því að allar tölur, dagsetningar og merki passar 100%! Hvernig getur staðið á því? Er þetta bara einskær tilviljun?!
Ég man ekki hvort ég var búin að segja frá einni rosalega skemmtilegri bók. En þegar ég tek mér hlé frá heimlærdómnum fer ég yfirleitt að vafra netið, en oft tek ég í aðra bók. Ég er með eina bók á borðinu núna sem heitir "Kajak drekkhlaðin af draugum: Ínúítasögur". Þetta eru ótrúlegar smásögur sem eru ekki bara skemmtilegar heldur líka vekja þær mikla undrun og stundum óhugnað. En ég mæli virkilega með þessari bók ef einhver vil gott lesefni. Þetta er flokkað undir þjóðsögur í Dewey kerfinu á bókasöfnum svo það ætti ekki að vera erfitt að finna þetta. Lawrence Millman tók saman.
Ég ætla að segja frá einni mjög bizarre sögu:

Um þursa og mennska menn.
Til var þurs einn svo stór að hann gat tekið rostunga með berum höndum. Eins þurfti kona hans ekki nema hendurnar til að ná sér í sel. Þurs þessi varð eitt sinn hrifinn af mennskri konu og bað mann hennar um að hafa við sig konubyti. Það gerðu þeir. En þá for svo að þegar maðurinn ætlaði að sænga hjá skessunni sogaðist hann inn og sást aldrei aftur. En þursinn ýtti reði sínum upp í gegnum konuna og dó hún af því. Þótti þeim tröllum báðum þessi málalok þvílík hneisa að þau hirtu saman sitt hafurtask og héldu í norður og hefur ekki sést til þeirra síðan.

Þetta er svona saga sem Sonja myndi lesa...hehehe!
Ojammojæja!
Ég mætti töluvert snemma í sálfræði tíman í morgun til þess að ná sæti. Ég var einhverntíman búin að segja frá því að ég þoldi ekki að mæta seint í tíma og þá sérstaklega sálfræðitíman, því það endar með því að ég stend eins og auli fyrir framan alla að reyna rýna eftir sæti.
En núna er ein yndisleg bekkjarsystir mín (gaman að kalla hana það) farin að taka sæti frá fyrir mig alltaf. Þetta er ung kona frá Dalvík og hún er farin að taka mig inn í hennar vinahóp og þær eru allar næs, ekkert fals, enda orðnar fullorðnar konur.
Við erum að tala um konur á öllum aldri þarna. Var einmitt að djamma með einni á sprellmótinu sem er 54 ára að byrja í hjúkrun með okkur! Dugnaðarforkur! Ég held að það ætti að heiðra svona konur með djarfan huga. Það eru nefnilega margar sem segja að ekki sé möguleiki á að mennta sig á eftir 50 ára aldurinn eða svo....
En...svo ég fari nú aftur að tala um sálfræði tíman, þá var stofan orðin full hvort sem er en ég reyndi að koma eins snemma og ég gat. En hún Eva, bekkjarsystir mín, tók sæti frá og ég var ánægð í mínu litla hjarta :o)
Nema hvað, kennslan féll niður og þá er ég bara á leið í Útstein núna og lesa pínu og fá mér alminnilegt að borða. Næsti tími er ekki fyrr en 10:55!
Víííhhhaaa!
....ég gæti lagt mig pínu stund, ég dáldið þreytt....

mánudagur, október 13, 2003

And also, tékk ðis át...
Það er nú aldeilis sem það er dagamunur á manni! Ég var svoleiðis að grotna úr leiðindum og fýlu á laugardag og sunnudag... Ég tók mig því til og þreif allt hátt og lágt á sunnudaginn og bakaði köku og eldaði góðan mat. Þegar ég fór að sofa í gærkvöldi leið mér vel, náði meira að segja að læra fyrir morgundaginn og sofnaði með bros á vör. Ég vaknaði líka hress í morgun, tilbúin til þess að takast á við daginn og dreif mig á fætur. Það var líka gaman í skólanum í tímum hjá Sigga Bjarklind, hann er ótrúlega fyndinn stundum. Við vorum t.d. í líffærafræði að læra um vöðvana og við vorum eitthvað að spyrjast fyrir um nöfnin á vöðvunum og líka íslensku heitin. Hann gretti sig eitthvað og var að reynað rifja upp íslensku heitin og sagði eitthvað, en málið er að við erum náttla bara að læra latínu heitin á öllu. Þá spyr ein hvort að einhver viti íslensku nöfnin. Siggi rýkur upp og segir hátt "það veit enginn lifandi hvítur maður!" og svo "það eru bara latínunöfnin sem gilda!"... Lifandi hvítur maður...
En hann er alltaf hress og hann sagði að Rod Stewart væri ljótur.
Ég þaut heim og skellti í mér hádegismat og rauk svo aftur út að þvo bílinn minn. Við erum að tala um gífurlega orku miðað við undanfarna daga! Bíllinn var komin með nokkurra sentimetra þykkt lag af drullu utan á sig þannig að það tók verulega á að þrífa bílinn. Ég svitnaði og brunaði heim í sturtu.
Núna er ég komin með Gingko te í bolla og ég ætla að farað lesa sálfræði fyrir morguntíman. Kanksi líka eitt sem gaf mér orku og styrk. Við vorum að ræða námsefnið í morgun í frímínutum og það voru þvílíkar játningar um það að allir væru eftirá í náminu, í öllum fögunum, ok, ég er ekki sú eina og mér líður betur núna :)